Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur við innflutning
  • Rafmagnsbifreið, undanþága

Úrskurður nr. 78/2023

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXIV (brl. nr. 69/2012, 10. gr.).  

Rafmagnsbifreið, sem kærandi flutti inn notaða til landsins á árinu 2022, var ekki talin uppfylla skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti þar sem bifreiðin var eldri en þriggja ára á innflutningsdegi. Vegna athugasemda kæranda um að tollyfirvöld hefðu veitt honum rangar upplýsingar um lagaskilyrði undanþágunnar í aðdraganda innflutnings bifreiðarinnar var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar að lagaheimild skorti til þess að unnt væri að fella niður virðisaukaskatt vegna innflutningsins á slíkum forsendum.

Ár 2023, miðvikudaginn 24. maí, er tekið fyrir mál nr. 14/2023; kæra A, dags. 26. janúar 2023, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 26. janúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði tollgæslustjóra, dags. 5. sama mánaðar, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda af rafmagnsbifreið sem kærandi flutti til landsins í nóvember 2022. Með úrskurðinum hafnaði tollgæslustjóri kröfu kæranda um að virðisaukaskattur yrði felldur niður vegna innflutnings bifreiðarinnar. Var sú krafa kæranda byggð á því, sbr. kæru til tollgæslustjóra, dags. 2. desember 2022, að kæranda hefðu verið veittar rangar upplýsingar símleiðis af starfsmanni Skattsins um skilyrði niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsbifreiðum, þ.e. nánar tiltekið í þá veru að bifreið af árgerð 2019 uppfyllti aldursviðmið laga þannig að ekki yrði lagður á virðisaukaskattur vegna innflutningsins, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Kærandi væri ólöglærður og hefði flutt bifreiðina til landsins í trausti þess að upplýsingar starfsmannsins væru réttar. Af þessu tilefni vísaði tollgæslustjóri til þess í úrskurði sínum að samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXVI í lögum nr. 50/1988 væri skilyrði fyrir niðurfellingu virðisaukaskatts af innfluttri rafmagnsbifreið að ökutækið væri þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi miðað við fyrstu skráningu. Fram kæmi í kaupsamningi um bifreið kæranda að fyrsti skráningardagur væri 12. ágúst 2019, en bifreið hefði verið flutt til landsins 7. nóvember 2022. Því væri ljóst að lagaskilyrði um að ökutæki væri yngra en þriggja ára á innflutningsdegi væri ekki uppfyllt. Af gögnum málsins yrði ráðið að upplýsingagjöf til kæranda hefði verið óvarleg og/eða ábótavant, en það gæti ekki að mati tollgæslustjóra leitt til þess að kærandi öðlaðist meiri rétt en leiddi af lögum. Enga heimild væri að finna í lögum eða reglugerðum til að fella niður virðisaukaskatt á grundvelli óvarlegrar upplýsingagjafar tollyfirvalda. Yrði því að hafna kröfu kæranda.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er ítrekað að kærandi hafi verið veittar rangar upplýsingar um aldursskilyrði fyrir niðurfellingu virðisaukaskatts af innflutningi rafbíla. Rangar upplýsingar séu ekki „óvarlegar“ eins og komist sé að orði í úrskurði tollgæslustjóra. Þar sem tollyfirvöld hafi þannig brugðist lögbundnu hlutverki sínu og leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, krefjist kærandi þess að embættið axli hlutlæga ábyrgð á fjárhagstjóni sem hinar röngu upplýsingar hafi haft í för með sér fyrir kæranda. Beri því að fella niður virðisaukaskattinn og endurgreiða kæranda. Að öðru leyti sé vísað til sjónarmiða í kæru til tollgæslustjóra, dags. 2. desember 2022. Þar er m.a. bent á að þar sem kærandi sé ekki löglærður hafi hann lagt traust sitt á upplýsingar tollyfirvalda, en auk þess hafi reynst torvelt að finna upplýsingar um aldursskilyrði á vef tollyfirvalda. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um hvernig aldur ökutækis sé metinn, t.d. hvort miðað sé við þann dag sem ökutæki komi af framleiðslulínu, þann dag sem það sé skráð, selt eða komið á götu eða hreinlega hvort miðað sé við árgerð og þá hvernig aldursár séu talin. Sá starfsmaður sem í hlut eigi hafi fullyrt við kæranda að bifreiðar af árgerðinni 2018 fullnægðu skilyrðum niðurfellingar virðisaukaskatts.

II.

Með bréfi, dags. 3. mars 2023, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður tollgæslustjóra verði staðfestur. Í umsögninni eru áréttuð þau sjónarmið sem fram koma í úrskurði tollgæslustjóra og tekið fram að tollyfirvöldum sé ekki kunnugt um heimild í lögum eða reglugerðum fyrir niðurfellingu virðisaukaskatts vegna óvarlegrar upplýsingagjafar af hálfu embættisins. Vegna meints tjóns kæranda sem hann telji sig hafa orðið fyrir sé rétt að benda á að ríkislögmaður fari með uppgjör bótakrafna sem beint sé að ríkinu og stofnunum þess.

Með tölvupósti 21. mars 2023 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar tollgæslustjóra. Eru fram komin rök kæranda ítrekuð og tekið fram að hljóðupptaka af samtali kæranda við starfsmann tollgæslustjóra sé lykilgagn í málinu. Kærandi hafi ekki fengið upptöku af símtalinu afhenta og telji rétt að yfirskattanefnd afli afrits af upptökunni vegna málsins. Bréfinu fylgja gögn, þ.e. afrit af kaupsamningi og kvittun vegna bifreiðaviðskipta og afrit tölvupóstsamskipta við tollmiðlara vegna málsins.

III.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að innheimta skuli virðisaukaskatt af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning hennar að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988, sbr. 10. gr. laga nr. 69/2012, um breyting á þeim lögum, er heimilt við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu. Skal ákvæðið jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar, enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Er tollyfirvöldum heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.560.000 kr., sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Í 6. mgr. ákvæðisins er kveðið á um nánari skilyrði fyrir greindri undanþágu.

Óumdeilt er í málinu að bifreið kæranda af tegundinni Volkswagen Golf, sem kærandi flutti inn notaða frá Þýskalandi á árinu 2022, uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988 fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti þar sem bifreiðin var eldri en þriggja ára á innflutningsdegi. Bar því að innheimta virðisaukaskatt af tollverði bifreiðarinnar við innflutning hennar, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988. Lagaheimild skortir til þess að unnt sé að taka til greina kröfu kæranda um niðurfellingu virðisaukaskatts vegna innflutnings bifreiðarinnar og getur upplýsingagjöf tollyfirvalda til kæranda í aðdraganda innflutnings bifreiðarinnar því ekki leitt til þess að krafa kæranda í málinu nái fram að ganga. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja