Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 92/2023

Lög nr. 111/2016, 2. gr. 3. mgr.  

Í umsókn kæranda um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð á árinu 2021 tiltók kærandi ráðstöfun uppsafnaðs iðgjalds frá mars 2017. Bar því að miða upphaf hins samfellda tíu ára tímabils við mars 2017. Var krafa kæranda um að upphaf tímabilsins yrði miðað við síðara tímamark ekki talin geta náð fram að ganga án sérstakrar heimildar í lögum.

Ár 2023, fimmtudaginn 8. júní, er tekið fyrir mál nr. 33/2023; kæra A, dags. 13. febrúar 2023, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 13. febrúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra vegna umsóknar kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að „upphafsdagsetning umsóknar [kæranda] um fyrstu íbúð verði færð til 1. september 2021 en til vara að upphafsdagsetningin verði færð aftur til annarrar dagsetningar samkvæmt ákvörðun nefndarinnar“, eins og segir í kærunni. Er tekið fram að í báðum tilvikum muni kærandi endurgreiða úttekinn séreignarsparnað vegna áranna 2017 og 2018. Er rakið að kærandi hafi keypt sína fyrstu íbúð í september 2021. Í kjölfar þess hafi kærandi sótt um útgreiðslu séreignarsparnaðar til að lækka greiðslubyrði af íbúðarláni vegna kaupanna og tekið út allan uppsafnaðan séreignarsparnað og greitt inn á lánið. Vegna náms kæranda hafi uppsöfnuð séreign hans þó verið óveruleg eða 88.696 kr. frá árunum 2017 og 2018. Þegar kærandi hafi byrjað að greiða af láninu hafi komið í ljós að einungis helmingur af greiðslum séreignar hafi komið til lækkunar greiðslubyrði en helmingur hafi verið greiddur inn á höfuðstól lánsins. Þegar kærandi hafi spurst fyrir um ástæður þessa hafi komið í ljós að þar sem fyrsta greiðsla úr séreign hefði verið á árinu 2017 teldist upphafsdagsetning umsóknar kæranda vera 1. mars 2017. Afleiðing þessa sé sú að tæplega fimm ár af heildargildistíma úrræðisins sem séu tíu ár hafi verið liðinn við kaup kæranda á íbúðinni í september 2021 og falli því niður ónýtt heimild kæranda til ráðstöfunar séreignar inn á lán að fjárhæð 2.048.902 kr. sem sé yfir 40% af 5.000.000 kr. heildarheimild kæranda samkvæmt úrræðinu.

Í kærunni tekur kærandi fram að hefði hann vitað að úttekt smávægilegs sparnaðar frá árunum 2017 og 2018 myndi hafa þær afleiðingar að hann myndi glata tæplega fimm árum af nýtingartíma úrræðisins og aðeins helmingur greiðslna hans koma til lækkunar á greiðslubyrði hefði hann aldrei tekið ákvörðun um að nýta þá fjárhæð til greiðslu inn á lánið. Hafi kærandi ekki verið upplýstur um þessi áhrif ákvörðunarinnar sem séu íþyngjandi fyrir hann. Kærandi hafi því óskað eftir leiðréttingu hjá ríkisskattstjóra en verið hafnað. Sé farið fram á við yfirskattanefnd að sú ákvörðun verði endurskoðuð.

II.

Með bréfi, dags. 28. mars 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er bent á að úrræði laga nr. 111/2016 heimili rétthafa að taka út uppsafnaða séreign innan samfleytts tíu ára tímabils og ráðstafa til greiðslu inn á lán, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna þar sem fram komi að rétthafi velji sjálfur upphafsdag hins samfellda tíu ára tímabils. Kærandi hafi sótt um nýtingu séreignar sinnar þann 1. febrúar 2022 og farið fram á að taka út uppsöfnuð viðbótariðgjöld frá mars 2017. Hafi sú umsókn verið samþykkt. Ekki sé að finna í lögum nr. 111/2016 heimild til að breyta upphafsdagsetningu hins samfleytta tíu ára tímabils með því að endurgreiða séreignarsjóði fjárhæð sem tekin hafi verið út án skattskyldu á grundvelli laganna. Beiðni kæranda hafi því verið synjað.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu ítrekar kærandi áður fram komin sjónarmið þess efnis að hann hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum ákvörðunar sinnar um að nýta óverulega fjárhæð séreignarsparnaðar frá árinu 2017. Kærandi hafi verið að kaupa fyrstu íbúð sína og hafi kærandi hvorki reynslu af fasteignaviðskiptum né séreignarsparnaði. Hann hafi þó kynnt sér úrræðið á vef ríkisskattstjóra. Vegna afstöðu ríkisskattstjóra um skort á lagaheimild til leiðréttingar á upphafsdegi umsóknar tekur kærandi fram að ekki sé heldur lagt bann við slíkri breytingu í lögum nr. 111/2016. Megi jafnframt vísa til meðalhófs og þeirra íþyngjandi áhrifa sem ákvörðunin hafi haft í för með sér fyrir kæranda. Þá beri að hafa í huga markmið laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, þ.e. að aðstoða ungt fólk við íbúðarkaup, en húsnæðisverð hafi síðan hækkað enn og róðurinn þyngst. Sé krafa kæranda því áréttuð.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 kemur fram að rétthafi velur upphafsdag hins samfellda tíu ára tímabils með því að tiltaka í umsókn uppsafnað iðgjald sem hann hyggst verja til kaupa á fyrstu íbúð, sbr. a-lið 1. málsl. 1. mgr. sömu greinar, eða með því að hefja ráðstöfun iðgjalds inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, sbr. b-lið 1. málsl. 1. mgr. Sama gildir um ráðstöfun iðgjalds inn á óverðtryggt lán, sbr. 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar. Með hugtakinu tíu ára samfellt tímabil er átt við 120 mánaða samfellt tímabil frá upphafsdegi eins og hann er skilgreindur í 1. málsl., sbr. 3. málsl. 3. mgr. 2. gr. laganna.

Kærandi í máli þessu sótti um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúð við B á grundvelli laga nr. 111/2016 í febrúar 2022. Er ágreiningslaust að í umsókn sinni tiltók kærandi ráðstöfun uppsafnaðs iðgjalds frá mars árið 2017, svo sem lýst er í kæru til yfirskattanefndar. Bar því að miða upphaf hins samfellda tíu ára tímabils við mars 2017, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016, svo sem gert var, en eins og áður greinir var umsókn kæranda samþykkt og voru uppsöfnuð viðbótariðgjöld í framhaldi af því greidd honum. Krafa kæranda um að upphaf hins samfellda tíu ára tímabils samkvæmt lögunum verði miðað við síðara tímamark þykir ekki geta náð fram að ganga án sérstakrar heimildar í lögum, enda eru fyrrgreind ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 fyrirvaralaus að þessu leyti. Verður því að hafna kröfu kæranda í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja