Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 581/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.
Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Kærufrestur — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Rekstrarkostnaður — Fæðiskostnaður — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Bifreiðakostnaður — Veiðileyfakaup — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Fréttamennska — Blaðamaður — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Ófrádráttarbær kostnaður
Hin kærða ákvörðun skattstjóra er á því byggð að hann féllst ekki á að gjaldfærður kostnaður að fjárhæð 98.000 kr. vegna veiðileyfa og kostnaður vegna uppihalds og fæðis að fjárhæð 33.295 kr. teldust hafa verið rekstrarkostnaður kæranda í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá leit skattstjóri svo á að bensínkostnaður hafi verið offærður til gjalda sem rekstrarkostnaður um 14.768 kr. Eftir þessar breytingar á rekstraryfirliti kæranda um fréttamennsku á árinu 1988 nam rekstrarhagnaður hans 206.145 kr. en fyrir þær nam hann 60.082 kr. Kærandi undi eigi þessum ákvörðunum skattstjóra og kærði þær til hans. Með kæruúrskurði, dags. 5. júní 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að hún hafi borist honum eftir lok kærufrests.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 4. júlí 1990. Gerir hann grein fyrir ástæðum síðbúinnar kæru til skattstjóra og krefst þess að breytingar skattstjóra verði felldar úr gildi. Rökstyður hann kröfu sína í efnishlið málsins með þeim rökum, að umræddur kostnaður hafi gengið til öflunar tekna í sjálfstæðri starfsemi sinni, sem sé fólgin í greinarskrifum í dagblað og tímarit. Kostnaðurinn hafði verið óumflýjanlegur og eðlilegur og hann frádráttarbær skv. 1. tl. 31. gr. nefndra laga. Tekur kærandi fram að kostnaðinum hafi verið í hóf stillt.
Með bréfi, dags. 14. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur. Telji nefndin hins vegar að taka beri málið til efnislegrar meðferðar er þess krafist að endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum dags. 18. apríl 1990 standi óbreytt með vísan til þeirra forsendna er þar koma fram.“
Eftir atvikum er kæran tekin til efnislegrar umfjöllunar og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið.
Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að kostnaður hans vegna veiðileyfakaupa teldist hafa verið frádráttarbær rekstrarkostnaður hans. Er því þeim þætti í kæru hans vísað frá vegna vanreifunar. Að öðru leyti er fallist á kröfu hans.