Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattalegt heimilisfesti
  • Tekjur erlendis
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 99/2023

Gjaldár 2017 og 2018

Lög nr. 90/2003, 1. gr., 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr.   Lög nr. 21/1990, 1. gr., 4. gr.   Lög nr. 37/1993, 7. gr., 10. gr.  

Í máli þessu sætti kæru úrskurður ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti og skattskyldu kæranda þar sem ríkisskattstjóri taldi kæranda hafa borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi árin 2016 og 2017 þrátt fyrir að hafa verið skráður í þjóðskrá með lögheimili erlendis umrædd ár. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna 9.952.485 kr. fyrra árið og 24.632.662 kr. það síðara vegna meintra vantalinna launatekna frá X Ltd. vegna vinnu erlendis á greindum árum. Í úrskurði yfirskattanefndar var m.a. bent á að við ákvörðun á heimilisfesti manns samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 bæri að miða við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við ætti. Þá bæri dómaframkvæmd með sér að það ætti undir aðila sem borið hefði fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi að færa fram gögn til stuðnings því að hann hefði brugðið heimilisfesti sínu. Yfirskattanefnd taldi kæranda ekki hafa lagt fram fullnægjandi skýringar og gögn um bækistöð sína utan Íslands á því tímabili sem um ræðir. Var kærandi ekki talinn hafa leitt í ljós að hann hefði tekið upp fasta búsetu utan Íslands á þeim tíma sem málið tók til og var ákvörðun ríkisskattstjóra látin standa óhögguð.

Ár 2023, þriðjudaginn 13. júní, er tekið fyrir mál nr. 160/2022; kæra A, dags. 6. desember 2022, vegna ákvörðunar um skattalega heimilisfesti og skattskyldu og endurákvörðunar opinberra gjalda gjaldárin 2017 og 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 6. desember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra um heimilisfesti kæranda og skattskyldu svo og um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017 og 2018, dags. 6. september 2022. Samkvæmt úrskurðinum taldi ríkisskattstjóri kæranda hafa borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna tekna sinna og eigna á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2017. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna 9.952.485 kr. gjaldárið 2017 og 24.632.662 kr. gjaldárið 2018 vegna meintra vantalinna launatekna erlendis frá.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi en til vara að úrskurðurinn verði ómerktur vegna meintra ágalla á meðferð málsins af hálfu ríkisskattstjóra. Þá er gerð krafa um að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skráningu í þjóðskrá flutti kærandi lögheimili sitt frá F til K-lands 1. mars 2011. Lögheimili kæranda var að nýju skráð á Íslandi 6. september 2013 en þann 31. október 2013 flutti kærandi lögheimili sitt aftur til K-lands. Kærandi skráði svo lögheimili sitt að nýju á Íslandi frá og með 2. janúar 2015 og svo aftur í K-landi frá og með 1. nóvember 2016. Loks flutti kærandi lögheimili sitt aftur til Íslands 13. júlí 2017. Í skattframtali sínu árið 2017 tilgreindi kærandi að hann hefði flutt til K-lands 1. nóvember 2016. Gerði kærandi ekki grein fyrir neinum erlendum tekjum eða erlendum eignum eða skuldum í skattframtalinu. Í skattframtali árið 2018 tilgreindi kærandi að hann hefði flutt til landsins 13. júlí 2017 en eins og árið áður gerði kærandi ekki grein fyrir neinum erlendum tekjum í skattframtalinu. Hins vegar gerði kærandi grein fyrir innstæðu í Citibank í Bandaríkjunum að fjárhæð 13.933.463 kr.

Í kjölfar bréfaskipta, sbr. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 14. apríl 2021, 2. júní 2021 og 2. nóvember 2021, og svarbréf kæranda, dags. 23. apríl 2021, 30. júní 2021 og 26. nóvember 2021, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2022, að fyrirhugað væri að úrskurða um skattalegt heimilisfesti kæranda á þann veg að hann teldist ekki hafa fellt niður skattalegt heimilisfesti á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2017 þrátt fyrir skráningu um flutning lögheimilis til K-lands í þjóðskrá. Þá væri ennfremur fyrirhugað að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárin 2017 og 2018 vegna meintra vantalinna launatekna kæranda greind ár. Hefðu heildarlaun kæranda í K-landi samkvæmt gögnum málsins numið 9.952.485 kr. tekjuárið 2016 og 24.632.662 kr. tekjuárið 2017, en kærandi hefði ekki gert grein fyrir tekjum þessum í skattframtölum sínum. Kærandi mótmælti fyrirhugaðri endurákvörðun opinberra gjalda hans með bréfi, dags. 10. júní 2022.

Með úrskurði, dags. 6. september 2022, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárin 2017 og 2018 til samræmis, sbr. 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. september 2022, eru málavextir raktir. Þá gerir ríkisskattstjóri grein fyrir helstu réttarheimildum málsins og rekur í því sambandi ákvæði 1. og 2. mgr. 1. gr., 7. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, og dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3616/2015.

Að því er varðar skattalegt heimilisfesti kæranda er rakið í úrskurðinum að fyrirliggjandi skýringar og gögn bendi ekki til annars en að kærandi hafi verið með skattalegt heimilisfesti á Íslandi á árunum 2016 og 2017, en athugun ríkisskattstjóra hafi leitt í ljós veruleg tengsl kæranda við Ísland á umræddum árum. Kærandi sé skráður 100% eigandi fasteignar að F og 50% eigandi fasteignar að M samkvæmt afsali frá 17. mars 2017. Þá hafi kærandi átt bifreið með skráningarnúmerið … frá 9. febrúar 2016. Er tekið fram í úrskurðinum að miðað við svör kæranda og skattskil megi ætla að fasteignin að F hafi ekki verið í útleigu. Eiginkona kæranda hafi verið með lögheimili sitt skráð þar og kærandi sömuleiðis þegar hann hefði dvalið hér á landi.

Er nánar tiltekið rakið í úrskurðinum að komið hafi fram að kærandi hafi starfað fyrir X Ltd. Hafi kærandi verið staðsettur í norðurhéruðum K-lands frá mars 2012 til september 2013 en félagið hætt starfsemi þar og kærandi flutt lögheimili sitt til Íslands 6. september 2013. Mánuði síðar hafi kærandi flutt lögheimili sitt aftur til K-lands. Samningur kæranda við X Ltd. hafi runnið sitt skeið á enda 1. febrúar 2016 og hafi kærandi þá flutt lögheimili til Íslands. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi hann verið samtals 106 daga erlendis á árinu 2016 við vinnu og 237 daga á Íslandi. Þá hafi kærandi verið atvinnulaus stóran hluta ársins 2016. Í byrjun október sama ár hafi kærandi hins vegar verið beðinn um að halda áfram störfum sínum fyrir fyrirtækið og samningur við hann verið endurnýjaður. Kærandi hafi unnið erlendis næsta árið og flutt endanlega til Íslands 1. desember 2017. Hafi kærandi verið samtals 231 dag erlendis við vinnu á árinu 2017. Veruleg óvissa hafi verið um störf kæranda í K-landi. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair um ferðir kæranda til og frá Íslandi hafi kærandi dvalið mestan hluta ársins 2016 á Íslandi og 101 dag á árinu 2017. Styðji gögn frá fjármálastofnunum þetta.

Ríkisskattstjóri tekur fram að í málum sem þessum sé litið til ýmissa þátta til að átta sig á raunverulegum aðstæðum aðila og ákvarða hvar föst búseta hafi verið, óháð lögheimilisskráningu í þjóðskrá. Skipti miklu máli hvar miðstöð persónulegra hagsmuna fólks hafi verið, en í því sambandi sé litið til ýmissa þátta, svo sem húsnæðis, hjúskaparstöðu, búsetu maka og barna, fjölda dvalardaga, staðsetningu viðskiptabanka, tómstunda og félagsstarfa og jafnframt tengsla aðila við hitt landið. Í tilviki kæranda verði ekki annað séð en að hann hafi eytt mestum þeim fjármunum sem hann hefði aflað í K-landi í vörur og þjónustu hér á landi. Hafi kærandi t.d. gerst áskrifandi að líkamsrækt á Íslandi á árinu 2016. Þá sýni gögn málsins að fjármunum kæranda hafi einkum verið varið í almennt heimilishald, rekstur bifreiða og kostnað við rekstur og öflun íbúðarhúsnæðis, en þeim fjármunum sem hafi verið ráðstafað erlendis hafi aðallega verið ráðstafað á flugvöllum, t.d. í fríhöfnum erlendis, í betri stofur á flugvöllum og í hótelgistingu vegna millilendinga. Þannig sé ljóst að fjárhagslegir hagsmunir kæranda, þ.e. miðstöð persónulegra hagsmuna hans, hafi verið á Íslandi greind ár. Meðal annars hafi eiginkona kæranda búið í fasteign kæranda. Hvað varði árið 2017 þegar kærandi hafi varið töluverðum tíma erlendis vegna vinnu liggi fyrir að kærandi hafi varið frítíma sínum hér á landi, m.a. jólum og páskum, utan þess að kærandi hafi farið í fjölskyldufrí erlendis. Á þeim tíma sem kærandi var með skráð lögheimili í K-landi hafi hann ekki haft þar fasta búsetu en kærandi hafi dvalið í leiguhúsnæði á vegum vinnuveitanda síns. Hafi K-land verið stríðshrjáð um árabil og því vaninn að stórfyrirtæki eins og X Ltd. útvegi starfsmönnum húsnæði á vernduðum svæðum. Að sögn umboðsmanns kæranda hafi ekki verið neinir leigusamningar um húsnæði starfsmanna X Ltd. og hafi atvinnurekandinn séð starfsmönnum fyrir flutningi frá verndaða svæðinu sem þeir hafi dvalið á og yfir á starfsstöðina. Bendir ríkisskattstjóri á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, komi fram að dvöl í gistihúsi, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna megi til þess, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að kærandi hafi tekið upp fasta búsetu í K-landi á þeim árum sem um ræðir. Sé það því niðurstaða ríkisskattstjóra að telja kæranda hafa verið skattalega heimilisfastan á Íslandi á tímabilinu 1. janúar 2016 til og með 31. desember 2017, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003.

Hvað snertir endurákvörðun opinberra gjalda kæranda er tekið fram í úrskurðinum að greiðslur af erlendum bankareikningi kæranda inn á bankareikning kæranda á Íslandi hafi numið 16.968.333 kr. á árinu 2016, 31.537.340 kr. á árinu 2017 og 7.909.300 kr. á árinu 2018. Hafi kærandi ekki gert grein fyrir greiðslunum í skattframtölum sínum árin 2017 og 2018. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi launatekjur kæranda numið 70.309 USD eða 9.952.485 kr. árið 2016 og 194.708 USD árið 2017 eða 24.632.662 kr. Í ljósi ákvörðunar ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti kæranda á Íslandi greind ár beri að hækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 9.952.485 kr. gjaldárið 2017 og um 24.632.662 kr. gjaldárið 2018 þar sem ekki verði annað séð en að um vantaldar tekjur kæranda sé að ræða, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. desember 2022. Í kærunni eru málavextir raktir. Er tekið fram að samkvæmt ráðningarsamningi hafi fylgt starfi kæranda hjá X Ltd. húsnæðishlunnindi sem hafi verið þannig að félagið útvegaði starfsmönnum sínum íbúðir sem þeir hafi haft fullan og ótakmarkaðan aðgang að, hvort sem um hafi verið ræða vinnutörn, vaktafrí eða annars konar orlof. Íbúðirnar hafi verið staðsettar í vernduðu hverfi þar sem starfsmenn hafi ennfremur haft aðgang að sérstökum starfsmannaklúbbi sem hafi eingöngu verið aðgengilegur starfsmönnum X Ltd. Hafi starfsmönnum verið frjálst að afþakka þessi hlunnindi og útvega sér íbúð sjálfir. Er tekið fram í kærunni að kæranda hafi á árum áður verið úthlutað íbúð í K-landi en þegar hann hafi flutt frá K-landi heim til Íslands um stundarsakir árið 2013 hafi hann tekið búslóðina með sér. Ekki hafi verið gerðir leigusamningar þar sem íbúðirnar hafi verið í eigu þriðja aðila en starfsmenn hafi borið ábyrgð á öllu tjóni á hinu leigða og hafi þeim verið frjálst að innrétta íbúðirnar eftir smekk og framkvæma minniháttar breytingar. Í kærunni er íbúð kæranda því næst lýst þannig að um sé að ræða 16 m2 stúdíóíbúð með salernisaðstöðu, ísskáp og möguleika á eldhúsaðstöðu, svefnplássi, gluggum, geymslurými o.fl. Hver íbúð sé með sérinngangi, bréfalúgu og íbúðarnúmeri. Séu íbúðirnar því ekkert frábrugðnar stúdíóíbúðum í Reykjavík, t.d. stúdentaíbúðum á háskólagörðum eða íbúðum erlendra starfsmanna sem teljist vera með skattalegt heimilisfesti á Íslandi þrátt fyrir að fjölskylda þeirra búi erlendis. Sé afstaða ríkisskattstjóra um að jafna megi íbúð kæranda til verbúða/vinnubúða því fráleit og á engum rökum reist. Telur kærandi að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í þessu sambandi. Þá hafi athugasemd kæranda um að ekki þætti ljóst hvaða gögn það væru sem vantaði til að meta raunverulega búsetu kæranda átt að ýta við ríkisskattstjóra þannig að leiðbeiningarskyldu yrði sinnt. Sá ráðahagur að vinnuveitandi útvegi starfsmanni húsnæði eigi ekki að koma að sök við mat á raunverulegri búsetu.

Hvað varði tilhögun frítíma hafi kærandi dvalið á Íslandi um páska árið 2017 á leið sinni til Bandaríkjanna. Hafi kærandi flutt til Íslands 1. desember það ár og því ekki marktækt fyrir ríkisskattstjóra að vísa til þess að kærandi hafi varið jólunum á Íslandi. Er tekið fram að Ísland hafi ekki verið bækistöð kæranda meðan hann starfaði í K-landi. Oft hafi liðið margir mánuðir milli ferða til Íslands og hafi kærandi varið orlofi ýmist á Íslandi eða í þriðju ríkjum án viðkomu á Íslandi. Hafi kærandi t.a.m. farið í frí til Spánar og Frakklands árið 2016 og til Bandaríkjanna, Ítalíu og Grikklands árið 2017. Þá hafi dvalardagar í K-landi ekki allt verið vinnudagar heldur einnig orlof milli vaktatímabila. Ennfremur hafi kærandi ekki einvörðungu flogið með Icelandair heldur einnig með öðrum flugfélögum.

Þá er því mótmælt í kærunni að miðstöð persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna hafi verið á Íslandi en ekki í K-landi. Er í kærunni vísað til framfærsluskyldu hjóna, sbr. 7. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en eiginkona kæranda hafi ekki verið á atvinnumarkaði á þeim tíma sem um ræði. Hafi kærandi því verið í mun betri stöðu fjárhagslega heldur en eiginkona hans og því bæði rétt og sjálfsagt að hann verði hluta af fjármunum sínum til að tryggja húsnæði fyrir eiginkonu sína á Íslandi. Þá hefðu kærandi og eiginkona hans hafið töku lífeyris nokkrum árum áður og hafi þær greiðslur dugað vel fyrir heimilishaldi. Tekjuskattslögin geri ráð fyrir að hjón geti búið í sitt hvoru landinu og annað þeirra borið ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003. Kærandi hafi verið búsettur í K-landi frá árinu 2011 til ársins 2017 og haldið þar heimili. Verði því að teljast ljóst að miðstöð persónulegra hagsmuna kæranda hafi verið í K-landi á umræddum tíma. Vegna tilvísana ríkisskattstjóra til þess að kærandi hefði verið áskrifandi að líkamsræktarkorti hér á landi er tekið fram að kærandi hafi sagt upp áskriftinni 16. ágúst 2016 þegar ljóst hafi verið að hann myndi flytja aftur út til K-lands. Þá sé staðhæfing ríkisskattstjóra um að kærandi hafi einkum eytt fjármunum á flugvöllum og í hótelgistingu erlendis röng. Samkvæmt launaseðlum hafi hluti launa kæranda verið greiddur í reiðufé, eða 1000 bandaríkjadalir á mánuði. Hafi kærandi varið þessum fjármunum í almennt heimilishald, þjónustu og vörukaup í K-landi en verslanir og veitingastaðir þar hafi ekki tekið við greiðslukortum.

Í niðurlagi kærunnar er gerð grein fyrir sjónarmiðum kæranda þess efnis að málsmeðferð ríkisskattstjóra hafi verið í andstöðu við 7., 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því velt upp hvort nokkur einstaklingur sem alinn sé upp á Íslandi geti flutt úr landi og á sama tíma slitið öll tengsl við landið. Slíka kröfu sé ekki hægt að gera til einstaklinga við brottflutning til annars lands.

V.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Í umsögninni er tekið fram, vegna lýsingar á híbýlum kæranda í K-landi í kæru hans til yfirskattanefndar, að ekki verði séð að þörf sé á því að vísa málinu aftur til ríkisskattstjóra þó að lýsingar þessar hafi ekki legið fyrir við meðferð málsins hjá embættinu, enda verði ekki séð að upplýsingarnar breyti neinu um afstöðu ríkisskattstjóra. Hið sama eigi við um framlagða mynd af götu þeirri sem kærandi hafi búið við í K-landi. Þá er tekið fram vegna viðbáru kæranda um brot á rannsóknarskyldu að ríkisskattstjóri hafi lagt fyrir kæranda að gera ítarlega grein fyrir því hvernig raunverulegri búsetu hans hafi verið háttað með fyrirspurnarbréfi til kæranda, dags. 2. júní 2021. Hafi kæranda ítrekað verið gefið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi það húsnæði sem hann hafði yfir að ráða í K-landi. Þá hafi kæranda gefist kostur á að koma á framfæri hverjum þeim gögnum sem hann teldi skipta máli varðandi skattalegt heimilisfesti hans. Telur ríkisskattstjóri ekkert hafa komið fram sem breyti því mati embættisins að um hafi verið að ræða íbúð sem kærandi bjó aðeins í vegna starfa sinna í K-landi. Tengsl kæranda við K-land hafi því aðeins verið vegna vinnu kæranda ólíkt því sem eigi við um Ísland. Beita skuli heildarmati til að komast að niðurstöðu og sé húsnæðiskostur kæranda erlendis eitt þeirra atriða sem litið sé til. Samkvæmt kæranda beri húsnæðið þess ekki merki að vera verbúð eða vinnubúðir en ríkisskattstjóri bendi á að í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 sé einnig vísað til annars húsnæðis.

Þá verði ekki séð af launaseðlum að kæranda hafi verið reiknuð og talin til tekna sérstök húsnæðishlunnindi vegna húsnæðis í K-landi, en fram komi varðandi gistingu að það sé vinnuveitandi kæranda sem útvegi hana. Til hliðsjónar í þessu sambandi sé talað um „Air Fare Benefit“ með tilgreindri fjárhæð 13,125 og fært til tekna sem „Air Fare Monthly“. Sé það almennt svo að samkvæmt íslenskum skattmatsreglum skuli meta til tekna afnot af húsnæði í verbúðum eða vinnubúðum eða öðru húsnæði þar sem launamaður dvelji í takmarkaðan tíma vegna vinnu sinnar á vegum launagreiðanda. Sé því hafnað að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í tengslum við húsnæði kæranda í K-landi. Þá sé því líka hafnað að ríkisskattstjóri hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, enda beri fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra með sér hvaða upplýsingum og gögnum embættið falaðist eftir við ákvörðun á heimilisfesti kæranda. Verði ennfremur ekki betur séð en að kærandi hafi notið aðstoðar sérfróðra manna við meðferð málsins á flestum stigum, sbr. svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 30. júní 2021 og 26. nóvember 2021, auk þess sem kæranda hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í kjölfar boðunarbréfs embættisins áður en fyrirhuguðum breytingum var hrundið í framkvæmd. Þá hafi ríkisskattstjóri vísað til þeirra lagareglna sem ættu við og eldri réttarframkvæmdar og að mati ríkisskattstjóra felist ákveðnar leiðbeiningar í því.

Vegna þeirrar skýringar kæranda að hluti launa hafi verið greiddur með reiðufé er tekið fram í umsögninni að þó svo að hér sé um að ræða nýjar upplýsingar verði ekki séð að þörf sé á að vísa málinu aftur til ríkisskattstjóra þar sem ekki verði séð að þetta breyti neinu um niðurstöðu málsins. Eðlilegt verði að teljast að kærandi hafi varið einhverjum fjármunum í K-landi þegar hann dvaldi þar við vinnu en ríkisskattstjóri telji að kærandi hafi flutt mest af sínum fjármunum til Íslands og varið í almennt heimilishald þar. Í samræmi við þetta sé því hafnað að brotið hafi verið gegn ákvæðum 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 svo sem kærandi telji.

Með bréfi, dags. 1. mars 2023, hefur kærandi ítrekað gerðar kröfur. Vegna tilvísunar ríkisskattstjóra til „annars húsnæðis“ í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 er vísað til fyrri rökstuðnings um að vinnuveitandi kæranda hafi útvegað starfsmönnum húsnæði í vernduðu hverfi, enda hafi starfsemin átt sér stað í landi þar sem ákveðið stjórnleysi hafi ríkt. Þá mótmæli kærandi þeim athugasemdum ríkisskattstjóra að telja það rök fyrir heimilisfesti á Íslandi að kærandi hafi aðeins búið í umræddu húsnæði vegna vinnu, enda sé það fullkomlega eðlileg ráðstöfun að flytja til annars lands vegna vinnu. Sé ítrekað að kærandi hafi borið ábyrgð á húsnæðinu. Einnig verði að telja óeðlilegt að fólk rjúfi öll tengsl við Ísland til að teljast ekki skattalega heimilisfast hér á landi. Ekkert sé því til fyrirstöðu að fólk haldi heimili í sitt hvoru landinu og engar forsendur til þess að kærandi seldi húsnæði sitt hér á landi og krefðist þess að maki hans, sem komin væri á lífeyri, flytti með honum. Loks er tekið fram að bandaríski dollarinn sé gjaldgengur í K-landi og hafi verið um árabil og sé almennt venja í því landi að notast við reiðufé. Þau laun sem kærandi hafi fengið greidd í reiðufé hafi dugað til að framfleyta kæranda í K-landi en þeir fjármunir sem greiddir voru inn á reikning hafi verið nýttir í samræmi við framfærsluskyldu hjóna. Sé ríkisskattstjóri að gera kröfu um að einstaklingar eyði meira en þeir þurfi á þeim stað sem þeir búi, en fólk hafi almennt frjálst val um með hvaða hætti það eyði fjármunum sínum. Með bréfinu fylgja afrit af flugmiðum kæranda með SAS, British Airways og WOW Air.

Með bréfi, ódags. en mótt. 25. maí 2023, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram gögn til stuðnings kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

VI.

Ágreiningur máls þessa stendur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 6. september 2022, að telja kæranda hafa verið með skattalegt heimilisfesti og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2017. Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp á grundvelli 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 sem felur ríkisskattstjóra úrskurðarvald um hverjir skuli teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt lagagreininni. Með úrskurði sínum endurákvarðaði ríkisskattstjóri jafnframt opinber gjöld kæranda gjaldárin 2017 og 2018 og hækkaði skattskyldar launatekjur kæranda um 9.952.485 kr. fyrra árið og 24.632.662 kr. seinna árið. Af hálfu kæranda er í kæru til yfirskattanefndar sett fram aðalkrafa um að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og varakrafa um að úrskurðurinn verði ómerktur með því að málsmeðferð ríkisskattstjóra hafi verið ábótavant. Ekki er ágreiningur um að kærandi hafi þegið laun frá X Ltd. fyrir störf sín í K-landi með þeim fjárhæðum sem ríkisskattstjóri ákvarðaði. Er því enginn tölulegur ágreiningur í málinu.

Skattskylda samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 felur í sér skyldu til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, sbr. upphafsákvæði greinarinnar. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. lagagreinarinnar hvílir skylda þessi á þeim mönnum „sem heimilisfastir eru hér á landi“. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. hvílir sú skylda einnig á þeim sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Tekið er fram að skattskylda þessi gildi þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. hvílir skattskyldan jafnframt á þeim „sem dvelja hér á landi lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera héðan af landi vegna orlofs og þess háttar“. Loks er í 4. tölul. 1. mgr. kveðið á um skattskyldu þeirra sem eigi falla undir ákvæði 1.-3. tölul. en starfa samtals lengur en 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili, þar með talin eðlileg fjarvera frá starfi vegna orlofs og þess háttar, um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 skal við ákvörðun ríkisskattstjóra á heimilisfesti miðað við reglur laga um lögheimili, eftir því sem við á. Telja verður að hér sé einkum skírskotað til ákvörðunar sem byggð er á 1. tölul. 1. mgr. lagagreinarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, sem í gildi voru á þeim tíma sem málið varðar, sbr. nú 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, telst lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að dvöl í gistihúsi, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna megi til þess, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að lögum um lögheimili nr. 21/1990 segir til skýringar á 2. mgr. ákvæðisins að gert sé ráð fyrir að upp verði tekin svonefnd svefnstaðarregla og að í því felist að maður teljist hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans sé þegar hann sé ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Séu þessi ákvæði m.a. sniðin eftir sambærilegum ákvæðum í löggjöf annarra Norðurlandaþjóða.

Nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands hafa gengið þar sem reynt hefur á ákvarðanir ríkisskattstjóra um heimilisfesti og skattskyldu manna samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, sbr. dóma í málum nr. 97/2000, 250/2012, 319/2016 og 418/2017. Samkvæmt þeirri dómaframkvæmd er ljóst að ríkisskattstjóri er við þessar ákvarðanir sínar ekki bundinn af skráningu lögheimilis í þjóðskrá sé talið að aðili hafi haft fasta búsetu á öðrum stað en þar er skráð. Að öðru leyti verður ráðið af dómum þessum að við mat á því hvort um fasta búsetu manns sé að ræða hér á landi eða í erlendu ríki hafi m.a. þýðingu að hvaða leyti hann hafi yfirráð eða eftir atvikum aðgang að húsnæði sem sé til þess fallið að nýtast til þeirra þarfa hans sem greinir í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990, í hvaða mæli hann nýtir það húsnæði í umræddu skyni, en í því sambandi skiptir einkum máli hver sé dvalartími hér á landi í samanburði við dvalartíma í öðru ríki, hvernig atvinnuþátttöku hefur verið háttað, hvert sé aðsetur fjölskyldu og með hvaða hætti aðili hefur staðið að skattskilum sínum. Greind dómaframkvæmd þykir og bera með sér að það eigi undir aðila sem borið hefur fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi að færa fram gögn til stuðnings því að hann hafi brugðið heimilisfesti sínu.

Í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, þar sem reynt hefur á ákvarðanir ríkisskattstjóra um heimilisfesti og skattskyldu samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, hefur í samræmi við sjónarmið í nefndum dómum verið tekið til athugunar hvort málsaðili verði talinn hafa haldið heimili erlendis samhliða búsetu hér á landi. Teljist sú raunin hefur verið lagt mat á það hvar telja beri fasta búsetu hans vera með hliðsjón af reglum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990, sbr. nú 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2018, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 36/2019. Um úrskurðaframkvæmd að öðru leyti, þar sem telja má að atvikum svipi til tilviks kæranda, má vísa til úrskurða nr. 53/2020 og 61/2020. Niðurstaða í þeim úrskurðum byggði á því að málsaðilar þóttu ekki hafa sýnt fram á að þeir hefðu tekið upp búsetu utan Íslands. Meðal annars hefðu þeir engin gögn lagt fram um skráningu lögheimilis eða hliðstæða skráningu í erlendu ríki og ekki gert fullnægjandi grein fyrir tilhögun skattskila erlendis vegna starfa sinna þar.

Samkvæmt tilkynningu kæranda til þjóðskrár flutti hann lögheimili sitt frá Íslandi, þ.e. frá F, til K-land þann 1. mars 2011 og aftur til Íslands 2. janúar 2015. Þá var kærandi aftur skráður til heimilis í K-landi 1. nóvember 2016 og á Íslandi frá 13. júlí 2017. Voru kærandi og eiginkona hans skráð sem „hjón ekki samvistum“ í þjóðskrá þann tíma sem kærandi var með skráð lögheimili í K-landi. Ályktun ríkisskattstjóra um heimilisfesti kæranda á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2017 var byggð á því að þrátt fyrir tilgreindan flutning lögheimilis kæranda til K-lands bentu fram komin gögn ekki til þess að kærandi hefði flutt heimili sitt úr landi og tekið upp fasta búsetu í K-landi. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að kærandi væri skráður 100% eigandi fasteignar að F, þar sem eiginkona kæranda hefði búið, og 50% eigandi fasteignar að M, auk þess sem kærandi hefði verið skráður eigandi bifreiðar á Íslandi á tímabilinu. Þá yrði ekki annað séð en að kærandi hefði eytt mestum þeim fjármunum sem hann hefði aflað í K-landi í vörur og þjónustu hér á landi, svo sem í áskrift að líkamsrækt, en þeim fjármunum sem kærandi hefði ráðstafað erlendis hafi aðallega verið ráðstafað á flugvöllum, t.d. í fríhöfnum erlendis, í betri stofur á flugvöllum og í hótelgistingu vegna millilendinga. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að kærandi væri nánar tengdur Íslandi persónulega og fjárhagslega en K-landi, og yrði talið að „miðstöð persónulegra hagsmuna“ kæranda hefði verið á Íslandi á tímabilinu.

Krafa kæranda um að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt er bæði byggð á því að formlegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra og að efnisleg rök hafi ekki staðið til ákvörðunarinnar. Þykir rétt að víkja fyrst að þeim atriðum er snúa að formhlið málsins en athugasemdir í kæru varðandi málsmeðferð ríkisskattstjóra lúta einkum að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar. Er því haldið fram að ríkisskattstjóri hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að kalla ekki eftir gögnum varðandi heimilisfesti kæranda og „beita þess í stað matskenndum sönnunarreglum“, svo sem segir í kæru. Þá hafi ríkisskattstjóri brotið gegn ákvæði 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda með því að leiðbeina kæranda ekki um hvaða gögnum embættið óskaði eftir til að meta raunverulega búsetu kæranda, en í bréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 10. júní 2022, hafi komið skýrlega fram að ekki þætti ljóst hvaða gagna væri óskað.

Af þessu tilefni skal bent á að ríkisskattstjóra bar að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hann tók ákvörðun í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til að skorið yrði úr um heimilisfesti kæranda á fyrrnefndum lagagrundvelli var nauðsynlegt að ríkisskattstjóri aflaði ýmissa upplýsinga og gagna varðandi aðstæður kæranda, bæði í því ríki þar sem hann taldi sig til heimilis og hér á landi, áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Varð að huga að þeim þáttum öllum og öðrum þeim atriðum sem kunna að horfa til upplýsingar um aðstæður viðkomandi aðila, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 116/2018 þar sem talið var að á þetta hefði skort. Þess ber að geta að í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um upplýsingaskyldu gagnvart skattyfirvöldum og hvílir skylda þessi á öllum aðilum bæði framtalsskyldum og öðrum og skiptir ekki máli hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða þau skipti annarra aðila við hann, sem hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Á þessum ákvæðum byggðist krafa ríkisskattstjóra um framlagningu gagna og skýringa af hendi kæranda, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 12. apríl 2021, 2. júní 2021 og 2. nóvember 2021. Á þessum grundvelli og að öðru leyti í samræmi við sjónarmið að baki rannsóknarreglu bar kæranda að leggja sitt af mörkum til að upplýsa málið. Þá ber að hafa í huga það sem fyrr segir að leiða má af dómaframkvæmd að það eigi undir kæranda að færa fram gögn til stuðnings því að hann hafi brugðið heimilisfesti sínu.

Í fyrirspurnarbréfum ríkisskattstjóra til kæranda kom fram að athugunarefni embættisins lyti að heimilisfesti kæranda á tilteknu tímabili. Með bréfunum beindi ríkisskattstjóri því til kæranda að leggja fram öll gögn sem hann teldi skipta máli við ákvörðun á skattalegri heimilisfesti sínu. Ríkisskattstjóri óskaði sérstaklega eftir því að kærandi legði fram gögn sem sýndu hvernig búsetu kæranda í K-landi hefði verið háttað og legði t.d. í því skyni fram húsaleigusamning sem hefði verið í gildi á árunum 2016, 2017 og 2018. Þá skyldi kærandi leggja fram skattskylduvottorð frá skattyfirvöldum í K-landi, þar sem fram kæmi hvernig skattskyldu kæranda hefði verið háttað þar í landi. Ennfremur lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir öllum eignum sínum í K-landi og leggja fram gögn til staðfestingar, auk þess sem kærandi skyldi gera grein fyrir því hvar hann hefði varið frítíma sínum á nefndum árum. Tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt gögnum sem ríkisskattstjóri hefði aflað frá innlendum fjármálastofnunum virtist sem kærandi hefði mestu leyti varið fjármunum sínum hér á landi.

Samkvæmt því sem fram er komið lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda í aðdraganda hins kærða úrskurðar að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og leggja fram öll þau gögn sem kærandi teldi skipta máli við ákvörðun á heimilisfesti sínu og tilgreindi ríkisskattstjóri nánar hvaða atriði hefðu vægi í þessu sambandi. Verður samkvæmt þessu og að virtum málsatvikum að öðru leyti ekki fallist á það með kæranda að leiðbeiningar ríkisskattstjóra eða rannsókn málsins af hálfu embættisins hafi verið svo áfátt að ómerkingu varði eða að aðrir formannmarkar hafi verið á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Víkur þá að efnisatriðum málsins.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann uppfylli skilyrði um fasta búsetu í K-landi í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, á því tímabili sem mál þetta varðar, þ.e. tímabilið 1. janúar 2016 til 31. desember 2017. Kærandi hafi starfað þar í landi á vegum X Ltd. sem hafi útvegað honum íbúð til afnota. Þannig hafi kærandi haft heimili sitt í K-landi, þar sem svefnstaður hans hafi verið að jafnaði, en skýra megi umsvif kæranda á Íslandi að einhverju leyti með því að hann hafi verið framfærsluskyldur með eiginkonu sinni samkvæmt 7. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Fram er komið af hálfu kæranda að hann hafi verið 106 daga í K-landi á árinu 2016 og 237 á Íslandi. Þá hafi hann verið 231 dag í K-landi á árinu 2017 og 101 dag á Íslandi. Liggur fyrir að kærandi starfaði í K-landi á vegum X Ltd. og hafði þar afnot af húsnæði á vegum eða fyrir tilstilli vinnuveitanda síns. Ríkisskattstjóri hefur ekki heldur dregið þetta í efa. Allt að einu taldi ríkisskattstjóri fram komin gögn ekki styðja það að kærandi hefði fellt niður heimilisfesti sitt hér á landi þrátt fyrir tilkynningu til þjóðskrár um lögheimili erlendis. Í boðunarbréfi sínu skírskotaði ríkisskattstjóri í því sambandi einkum til þess að kærandi virtist áfram hafa haldið heimili á Íslandi með eiginkonu sinni og dvalið reglulega á landinu þegar hann var ekki við störf erlendis. Þá virtist sem kærandi hefði varið fjármunum sínum að verulegu leyti hér á landi í almennt heimilishald, rekstur bifreiða og vörur og þjónustu.

Almennt verður að telja þýðingarmikið að upplýst sé um skattskyldu og skattskil erlendis við þær aðstæður sem hér um ræðir, m.a. í ljósi fyrrnefndrar dómaframkvæmdar og sérstaklega að gættri grunnreglu að baki 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 sem vikið er að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 319/2016. Á launaseðlum kæranda er getið um afdreginn skatt af launum til K-lands og tók ríkisskattstjóri tillit til skattgreiðslna erlendis, sbr. 5. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003, en ekki er tvísköttunarsamningur milli Íslands og K-lands. Nam frádráttur 1.131.422 kr. gjaldárið 2017 og 2.779.604 kr. gjaldárið 2018. Upplýsingar um skattgreiðslur kæranda erlendis eru lóð á vogarskál kæranda en geta þó einar og sér ekki haft þau áhrif að telja kæranda hafa brugðið heimilisfesti sínu hér á landi.

Af hálfu kæranda hafa engin gögn komið fram sem styðja það að stjórnvöld í K-landi hafi litið á hann sem heimilisfastan mann í ríkinu og skráð hann sem slíkan á þeim árum sem málið varðar. Hefur kærandi lagt fram afrit af vegabréfsáritunum vegna komu hans til K-lands sem bera með sér að gilda aðeins um takmarkaðan tíma hverju sinni. Án frekari skýringa verða þær ekki taldar vera til stuðnings fastri búsetu kæranda í landinu. Hið sama verður að segja um staðsetningu viðskiptabanka kæranda en upplýst er af hans hálfu að hann hafi fengið laun sín greidd inn á bankareikning hjá Citibank í Bandaríkjunum. Þá liggur fyrir að kærandi millifærði háar fjárhæðir af bankareikningi sínum í Bandaríkjunum inn á bankareikning sinn á Íslandi á umræddum árum, eða 16.968.333 kr. á árinu 2016 og 31.537.340 kr. á árinu 2017. Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðlum námu launatekjur kæranda 70.309 USD eða 9.952.485 kr. árið 2016 og 194.708 USD árið 2017 eða 24.632.662 kr. sem voru þær fjárhæðir sem ríkisskattstjóri miðaði tekjufærslu við í úrskurði sínum. Samkvæmt þessu námu millifærslur kæranda erlendis frá inn á bankareikning hans hér á landi hærri fjárhæð en sem nam launum hans frá X Ltd. sem félagið greiddi honum inn á bankareikning hans. Verður því að ætla að kærandi hafi flutt nær öll þau laun sem hann fékk frá félaginu fyrir störf sín til Íslands. Þykir þetta mæla gegn því að um fasta búsetu kæranda erlendis hafi verið að ræða.

Hvað snertir umrædd híbýli kæranda í K-landi er húsnæðinu lýst þannig í kæru til yfirskattanefndar að um sé að ræða 16 m2 stúdíóíbúð með salernisaðstöðu, ísskáp og möguleika á eldhúsaðstöðu, svefnplássi, gluggum, geymslurými o.fl. Er tekið fram að hver íbúð sé með sérinngangi, bréfalúgu og íbúðarnúmeri en húsnæðið sé staðsett í vernduðu hverfi þar sem starfsmenn hafi aðgang að starfsmannaklúbbi sem sé eingöngu aðgengilegur starfsmönnum X Ltd. Þá hefur kærandi lagt fram mynd af húsnæðinu utanverðu. Tekið skal fram í þessu sambandi að ekki verður talið að umrædd lýsing og framlögð ljósmynd styðji þann málatilbúnað kæranda að hann hafi brugðið heimilisfesti á Íslandi og tekið upp varanlega búsetu í K-landi. Þó ríkisskattstjóri byggi ekki á því að kærandi hafi haft dvöl í vinnubúðum þykir framlögð ljósmynd bera með sér að húsnæðiskostur sá sem kærandi hafði yfir að ráða beri fremur svipmót vinnubúða eða annars húsnæðis, sem jafna megi til slíks húsakosts, fremur en hefðbundins íbúðarhúsnæðis. Hvað sem þessu líður er upplýst að vinnuveitandi kæranda útvegaði honum umrætt húsnæði til dvalar í tengslum við vinnu hans í K-landi. Þykir því mega ganga út frá því að réttur kæranda til húsnæðisins hafi verið bundinn því skilyrði að hann starfaði á vegum vinnuveitenda sinna. Þessar upplýsingar kæranda þykja frekast ganga gegn skýringum hans um fasta búsetu í landinu.

Aðstaða í máli þessu er samkvæmt framansögðu sú að þótt fyrir liggi að kærandi hafi haldið til starfa erlendis um langt skeið hefur ekkert haldbært komið fram af hans hálfu um skráningu lögheimilis eða hliðstæða skráningu í erlendu ríki á því tímabili sem málið tekur til, enda hefur kærandi engin gögn lagt fram frá yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki þar um. Það sem fram er komið um afnot kæranda af húsnæði í K-landi og skattgreiðslur hans í K-landi þykir ekki skera úr um fasta búsetu kæranda þar í landi. Kærandi þykir því ekki hafa lagt fram fullnægjandi skýringar og gögn um bækistöð sína utan Íslands á því tímabili sem hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra tekur til.

Kærandi var eigandi að íbúðarhúsnæði að F á umræddu tímabili og var eiginkona kæranda með lögheimili þar, auk þess sem kærandi var skráður þar til heimilis þegar hann var með skráð lögheimili á Íslandi á tímabilinu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um flugferðir kæranda til og frá Íslandi á árunum 2016 og 2017 svo og að því virtu sem ríkisskattstjóri hefur dregið fram um kaup kæranda á neysluvöru og þjónustu hér á landi má einnig telja liggja fyrir að kærandi hafi dvalið reglulega hér á landi þegar hann var ekki við vinnu erlendis. Verður að álykta samkvæmt þessu að kærandi hafi varið frítíma sínum að verulegu leyti á Íslandi en ekki í K-landi. Samkvæmt framansögðu þykir ekki fara á milli mála að kærandi hafi haft bækistöð í skilningi laga nr. 21/1990 á Íslandi á umræddum árum. Verður þá gengið út frá því að kærandi hafi haldið heimili að F með eiginkonu sinni, svo sem var niðurstaða ríkisskattstjóra, en kærandi hefur enga grein gert fyrir öðrum dvalarstað hér á landi.

Samkvæmt framansögðu þykir kærandi ekki hafa leitt í ljós að hann hafi tekið upp fasta búsetu utan Íslands á þeim tíma sem mál þetta varðar. Kærandi telst á hinn bóginn hafa haldið heimili hér á landi. Við þessar aðstæður er ekki þörf á því að skera úr um heimilisfesti kæranda á hliðstæðum grundvelli og greinir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990, sbr. nú 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2018. Upplýsingar í málinu um dvalartíma kæranda annars vegar hér á landi og hins vegar í öðrum löndum hafa því ekki sérstaka þýðingu. Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra um skattalegt heimilisfesti og skattskyldu kæranda verður því látin standa óhögguð.

Með úrskurði sínum, dags. 6. september 2022, ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda tekjuviðbót vegna vantalinna launa frá X Ltd. að fjárhæð 9.952.485 kr. tekjuárið 2016 og 24.632.662 kr. tekjuárið 2017 sem skattskyld væru hjá kæranda á grundvelli 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Um fjárhæðir byggði ríkisskattstjóri á fyrirliggjandi launaseðlum félagsins þar sem getið var um laun til kæranda að fjárhæð 70.309 USD fyrra árið og 194.708 USD seinna árið. Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við fjárhæðir í málinu eða vefengt að hann hafi þegið laun með greindum fjárhæðum fyrir störf sín í K-landi frá X Ltd., en viðhorf kæranda hefur verið það að hann hafi fellt niður heimilisfesti hér á landi þannig að ekki beri að skattleggja launatekjur hans hérlendis. Með vísan til niðurstöðu hér að framan um skattalegt heimilisfesti og skattskyldu kæranda á Íslandi verður ekki hnikað við tekjufærslu ríkisskattstjóra. Er kröfu þess efnis því hafnað.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja