Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts af gjöf

Úrskurður nr. 101/2023

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 7. mgr.   Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 8. tölul.   Reglugerð nr. 630/2008, 33. gr.  

Með úrskurði yfirskattanefndar var beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf til Grensásdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem fólst í því að standa straum af kostnaði við endurbætur á garði deildarinnar, að mestu leyti hafnað þar sem talið var að endurgreiðsluheimild virðisaukaskattslaga vegna gjafa til mannúðar- og líknarstofnana tæki ekki til virðisaukaskatts af vinnu eða þjónustu. Þó var fallist á að keypt grúsarfylling gæti fallið undir endurgreiðsluheimildina með vísan til sjónarmiða í úrskurði yfirskattanefndar nr. 130/2022.

Ár 2023, þriðjudaginn 13. júní, er tekið fyrir mál nr. 64/2023; kæra A, dags. 10. mars 2023, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. mars 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun tollgæslustjóra 15. desember 2022 um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf, sbr. 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun tollgæslustjóra verði felld niður og að fallist verði á rétt kæranda til endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við upphaflega umsókn kæranda. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Í kæru kæranda er rakið að kærandi styðji við, efli og styrki endurhæfingarstarf Grensásdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss með öflun fjár til tækjakaupa og annarra brýnna verka, svo sem með því að taka þátt í undirbúningi að endurbótum á húsnæði deildarinnar. Kærandi hafi óskað eftir endurgreiðslu aðflutningsgjalda (virðisaukaskatts) vegna verklegra framkvæmda í garði Grensásdeildar á árunum 2021 og 2022, en verið synjað á þeim forsendum að ekki væri endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnuliðum, t.d. vegna verkfræðiþjónustu, heldur eingöngu af tækjum og búnaði. Kærandi telji hins vegar að sá kostnaður sem um ræðir teljist „fjárfestingarvara“ í skilningi 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 130/2022 þar sem byggingarefni hafi verið talið til fjárfestingarvöru í þessum skilningi. Í tilviki kæranda sé um að ræða kostnað við að endurgera garð sem sé mikilvægur hluti af meðferðarrými stofnunarinnar. Sé þannig um að ræða kostnað sem tengist beint varanlegri og áþreifanlegri eign sem sé andlag gjafar kæranda til Grensásdeildar. Þá megi einnig vísa til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6565/2011 og sjónarmiða sem þar komi fram. Með vísan til framanritaðs sé þess krafist að virðisaukaskattur verði endurgreiddur kæranda í samræmi við umsókn félagsins.

II.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2023, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Í umsögninni kemur fram að ágreiningur málsins snúist um það hvort endurgreiða beri virðisaukaskatt af verkfræðiþjónustu og vinnu vegna gjafar til mannúðar- og líknarstarfsemi, sbr. 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, en af hálfu tollgæslustjóra sé því hafnað að slíkir vinnuliðir geti talist til tækja, búnaðar eða annarrar fjárfestingarvöru líkt og áskilið sé í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þá sé því hafnað að úrskurður yfirskattanefndar nr. 130/2022 hafi fordæmisgildi í málinu, enda hafi í því máli verið deilt um vörur en ekki þjónustu eða vinnu sérfræðinga. Verði gagnályktað af ákvæðum virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 að ekki beri að endurgreiða virðisaukaskatt af gjöfum til mannúðar- og líknarstarfsemi sem feli í sér vinnu eða þjónustu, sbr. 3. mgr. 42. gr. laganna. Þá hafi sérstöku ákvæði verið bætt við 8. mgr. 42. gr. laganna með 1. gr. laga nr. 33/2022 til að unnt væri að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu við að breyta bifreiðum björgunarsveita.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 15. maí 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar tollgæslustjóra og ítrekað áður fram komnar kröfur og röksemdir. Bréfinu fylgja gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf, sbr. 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Samkvæmt ákvæði þessu skal endurgreiða virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Er tekið fram að endurgreiðsluheimild ákvæðisins sé bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og fram komi í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt greindu ákvæði tollalaga eru gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi tollfrjálsar, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi, svo og gjafir sem sendar eru hingað frá útlöndum og góðgerðarstofnanir eða aðrir slíkir aðilar eiga að annast dreifingu á til bágstaddra. Um tollfrelsi gjafa til mannúðar- og líknarstarfsemi er nánar fjallað í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Er reglugerðarákvæðið svohljóðandi:

„Tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til nota í starfssemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnarfélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Undanþágan er háð því skilyrði að ekki séu fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og gjafþega.

Við tollafgreiðslu gjafar sem grein þessi tekur til skal liggja fyrir skrifleg yfirlýsing gefanda um gjöfina og tilgang hennar, ásamt staðfestingu gjafþega um að hún verði nýtt í viðkomandi starfsemi.“

Í kæru til yfirskattanefndar og gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi lagt Grensásdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss lið vegna framkvæmda og endurbóta á garði deildarinnar á árunum 2021 og 2022. Fylgja kærunni gjafabréf, dags. 10. nóvember 2021 og 19. október 2022, þar sem fram kemur að kærandi hafi fært deildinni að gjöf vinnustóla, áklæði, rafdrifinn bekk og gólfvigt og „þær verklegu framkvæmdir og endurbætur sem unnar hafa verið á garði Grensásdeildar“, eins og segir í gjafabréfinu þar sem nánari grein er gerð fyrir framkvæmdunum. Kemur fram að kærandi hafi staðið undir þorra kostnaðar við þær og hafi á árinu greitt 8.736.544 kr. fyrir hönnunarvinnu verkfræðistofu og 5.254.300 kr. fyrir verktakavinnu K ehf. Í umsókn kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, sem barst Skattinum þann 25. október 2022, var m.a. tilgreindur virðisaukaskattur að fjárhæð 1.690.944 kr. vegna verkfræðiþjónustu og 1.016.961 kr. vegna efnis og vinnu við lóðagerð. Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að kærandi hafi sent nýja umsókn þann 3. janúar 2023 þar sem tilgreindur hafi verið virðisaukaskattur að fjárhæð 746.116 kr. vegna ýmiss konar búnaðar og hafi sá virðisaukaskattur verið endurgreiddur kæranda 2. febrúar 2023. Eftir standi virðisaukaskattur að fjárhæð 2.412.044 kr. sem sé til kominn vegna annars vegar hönnunar og eftirlits (verkfræðistofa) og hins vegar jarðvinnu (K ehf.). Lúti krafa kæranda í málinu að því að sá virðisaukaskattur verði endurgreiddur.

Samkvæmt orðalagi 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 tekur endurgreiðsluheimild ákvæðisins til virðisaukaskatts af „tækjum og búnaði“ til nota við starfsemi mannúðar- og líknarstofnana, eins og áður greinir. Er heimildin bundin sömu skilyrðum og fram koma í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem áskilur að um sé að ræða „vöru“ sem nýtt sé beint til mannúðar- og líknarstarfsemi, sbr. og fyrrgreint ákvæði 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, þar sem „tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur“ eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Að virtu afdráttarlausu orðalagi ákvæða þessara verður að fallast á með tollgæslustjóra að heimild 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 taki ekki til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu eða þjónustu. Fær sú niðurstaða auk þess ríka stoð með samanburði við önnur endurgreiðsluákvæði virðisaukaskattslaga, sbr. XIII. kafla laganna þar sem tekið er fram um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu og þjónustu í tilgreindum tilvikum. Þá getur úrskurður yfirskattanefndar nr. 130/2022, sem getið er í kæru, ekki skotið neinum stoðum undir túlkun kæranda í þessu sambandi þar sem í því máli var deilt um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vöru, þ.e. byggingarefni vegna byggingar mannvirkis, en ekki þjónustu af neinum toga.

Með vísan til framanritaðs verður krafa kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af verkfræðiþjónustu samkvæmt sölureikningum verkfræðistofu ekki tekin til greina. Þá er ljóst að umkrafinn virðisaukaskattur samkvæmt sölureikningum K ehf. er að hluta til kominn vegna vinnu við framkvæmdir á lóð Grensásdeildar, þ.e. jarðvegsskipti, gröft og hellulagningu, og telst því ekki endurgreiðsluhæfur. Kæru kæranda fylgir m.a. tölvupóstur umboðsmanns kæranda til tollgæslustjóra 24. janúar 2023 þar sem fram kemur að kostnaður við efnisþátt verksins sé vegna öryggisgirðinga, viðvörunarmerkis, undirstöðu fyrir skilti og grúsarfyllingar. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á að keypt grúsarfylling geti fallið undir endurgreiðsluheimild 7. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 130/2022 og sjónarmið sem þar eru rakin. Er því fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á slíkri fyllingu. Að öðru leyti þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að kostnaður sem um ræðir geti talist til tækja, búnaðar eða fjárfestingarvöru til nota við starfsemi Grensásdeildar.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er tollgæslustjóra því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.

Af hálfu kæranda er höfð uppi krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hafa kæranda í vil að nokkru leyti, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar nemur 211.212 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna tæplega sex klukkustunda vinnu við málið. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 100.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á grúsarfyllingu er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 100.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja