Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður, frestun skattlagningar
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 103/2023

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 14. gr., 15. gr. 4. mgr., 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að færa kæranda til skattskyldra tekna frestaðan söluhagnað fyrnanlegra og ófyrnanlegra eigna frá árinu 2019, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að gera grein fyrir viðhorfum sínum varðandi uppgjör söluhagnaðarins. Var bent á að í skattskilunum hefði kærandi gert grein fyrir kaupum á íbúðarhúsnæði til eigin nota auk þess sem svigrúm hefði verið til færslu fyrninga fyrnanlegra eigna á móti tekjufærðum söluhagnaði.

Ár 2023, þriðjudaginn 13. júní, er tekið fyrir mál nr. 44/2023; kæra A, dags. 17. febrúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 17. febrúar 2023, sbr. greinargerð fyrir kæruatriðum í bréfi, dags. 27. mars 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattsstjóra, dags. 17. nóvember 2022, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2022. Var úrskurðurinn kveðinn upp í tilefni af tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 11. júní 2022 þar sem farið var fram á að gerðar yrðu tilteknar leiðréttingar á skattframtali kæranda umrætt ár vegna tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar í framtalinu, m.a. að söluhagnaður ófyrnanlegra eigna að fjárhæð 9.999.999 kr. yrði færður til lækkunar stofnverði íbúðarhúsnæðis sem keypt hefði verið á árinu 2020 og að íbúðarhúsnæði sem keypt hefði verið á árinu 2021 yrði fært í eignaskrá með skattframtalinu sem atvinnurekstrareign og að færð yrði á fasteignina aukafyrning vegna söluhagnaðar að fjárhæð 35.975.713 kr. Er ljóst af gögnum málsins að tilefni þessa erindis kæranda var sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtalinu, sem kæranda var tilkynnt um með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 19. maí 2022, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að færa kæranda til tekna í framtalinu skattskyldan söluhagnað að fjárhæð 45.975.712 kr. að viðbættu 10% álagi að fjárhæð 4.597.571 kr. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær að um væri að ræða söluhagnað frá árinu 2019 sem frestað hefði verið skattlagningu á um tvenn áramót í skattframtali kæranda árið 2020, sbr. ákvæði 14. og 15. gr. laga nr. 90/2003. Kæranda hefði því borið að gera grein fyrir hinum frestaða söluhagnaði í skattframtali sínu árið 2022, en þess hefði ekki verið gætt. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á niðurfærslu á móti kaupverði íbúðarhúsnæðis vegna söluhagnaðar ófyrnanlegra eigna. Þá féllst ríkisskattstjóri á aukafyrningu fjórhjóls af gerðinni Yamaha Grizzly 700, sem keypt hefði verið á árinu 2021, vegna söluhagnaðar fyrnanlegra eigna að fjárhæð 1.269.726 kr. Tók ríkiskattstjóri fram að sú eign hefði með því verið aukafyrnd að niðurlagsverði eða miðað við 10% af kaupverði hennar. Hins vegar hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda að öðru leyti, þ.e. kröfum um eignfærslu og aukafyrningu fasteignar að M og kröfum er lutu að skattalegri meðferð leigutekna af eigninni og lána vegna kaupa á henni. Vísaði ríkisskattstjóri í því sambandi til þess að útleiga fasteignarinnar félli undir undantekningar sem tilgreindar væru í 58. gr. a. laga nr. 90/2003 og bæri því að færa á persónuframtal, en um væri að ræða útleigu fasteignarinnar til eins aðila á grundvelli þinglýsts húsaleigusamnings.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að tekjufærsla söluhagnaðar fyrnanlegra eigna að fjárhæð 35.975.713 kr. samkvæmt tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 19. maí 2022, verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að fallist verði á eignfærslu húseignar að M í eignaskrá með skattframtali kæranda árið 2022 og að frestaður söluhagnaður fyrnanlegra eigna 35.975.713 kr. verði færður til lækkunar stofnverði sömu fasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Í kærunni er greint frá málavöxtum. Kemur fram að aðalkrafa kæranda í málinu sé byggð á því að sú breyting, sem ríkisskattstjóri hafi gert á skattframtali kæranda árið 2022 með tilkynningu, dags. 19. maí 2022, á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. að færa kæranda til tekna í skattframtalinu frestaðan söluhagnað frá árinu 2020, verði ómerkt með því að skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi til að framkvæma breytinguna án fyrirspurnar til kæranda, enda hafi verið svigrúm til færslu fyrninga fyrnanlegra eigna á móti tekjufærslu söluhagnaðar í skattskilum kæranda umrætt ár. Þá er því mótmælt í kærunni að kæranda sé ekki heimilt að telja fasteignina að M sem atvinnurekstrareign í skattskilum. Fasteignin hafi ekki verið keypt til persónulegra nota heldur til þess að leigja eignina út í atvinnurekstrarskyni. Verði því ekki hafnað kröfu kæranda um að fasteignin verði færð sem atvinnurekstrareign og að frestaður söluhagnaður fyrnanlegra eigna 35.975.713 kr. verði færður á móti stofnverði eignarinnar, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003. Eru færð frekari rök fyrir kröfum kæranda í kæru til yfirskattanefndar.

II.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 5. maí 2023, hefur kærandi ítrekað áður fram komin sjónarmið. Þá fylgir bréfinu gagn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda, þ.e. afrit málskostnaðarreikninga.

III.

Samkvæmt ákvæði 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, getur ríkisskattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða í skattframtali ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skal skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga, um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og fram er komið byggði ríkisskattstjóri hina umdeildu breytingu sína á skattframtali kæranda árið 2022, sem laut að tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar fyrnanlegra og ófyrnanlegra eigna frá árinu 2019, á því að kæranda hefði borið að færa hinn frestaða söluhagnað til tekna á grundvelli 14. og 15. gr. laga nr. 90/2003. Af þessu tilefni skal tekið fram að skattframtali kæranda árið 2021 fylgdi greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) þar sem gerð var grein fyrir kaupum kæranda á íbúðarhúsnæði til eigin nota að H. Þá var svigrúm til færslu fyrninga fyrnanlegra eigna á móti tekjufærðum söluhagnaði í skattskilum kæranda árið 2022, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003, enda liggur fyrir að ríkisskattstjóri hefur fallist á slíka fyrningu með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 17. nóvember 2022. Áður en ríkisskattstjóri ákvað hina kærðu breytingu á skattframtalinu var því óhjákvæmilegt, sbr. m.a. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hann aflaði viðhorfa og skýringa kæranda varðandi meðferð hins frestaða söluhagnaðar, sbr. ákvæði 14. gr. og 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Verður ekki talið að skilyrði hafi verið til þess að fara með greinda breytingu eftir ákvæðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra, heldur bar ríkisskattstjóra að fara með breytinguna eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga.

Vegna framangreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra verður að ómerkja hina kærðu breytingu hans, svo sem krafist er af hálfu kæranda. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum gögnum sem fylgdu bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 5. maí 2023, nemur kostnaður kæranda af meðferð málsins 142.352 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Með vísan til þessa og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 140.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða tekjufærsla frestaðs söluhagnaðar að fjárhæð 35.975.713 kr. er felld úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 140.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja