Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 104/2023

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður 1. mgr., 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 15. gr., 22. gr.  

Með úrskurði um endurákvörðun felldi ríkisskattstjóri niður áður ákvarðaðar barnabætur kæranda vegna framfærslu þriggja barna á þeim forsendum að móðir barnanna hefði verið framfærandi þeirra í árslok 2021 en ekki kærandi, enda hefði móðirin þá ein farið með forsjá barnanna og verið framfærsluskyld með þeim. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að ef raunverulegur framfærandi barns væri annar aðili en foreldri eða forsjáraðili samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 væri það framfærandinn sem ætti rétt til greiðslu barnabóta og skipti þá ekki máli þótt foreldri væri skylt að lögum að framfæra barn sitt. Þar sem talið var að ríkisskattstjóri hefði byggt ákvörðun sína á forsendum sem naumast fengju staðist auk þess sem frekari annmarkar voru taldir á meðferð málsins var hin umdeilda niðurfelling barnabóta kæranda felld úr gildi.

Ár 2023, þriðjudaginn 13. júní, er tekið fyrir mál nr. 31/2023; kæra A, dags. 12. febrúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 7. desember 2022, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2022. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður áður ákveðnar barnabætur kæranda 1.203.521 kr. og barnabótaauka 60.000 kr. vegna framfærslu barnanna B, C og D á árinu 2021. Voru forsendur þeirrar ákvörðunar þær að kærandi hefði ekki annast framfærslu barnanna í árslok 2021 og teldist því ekki framfærandi þeirra í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að ríkisskattstjóra verði gert að taka ákvörðun í málinu að nýju, svo sem nánar greinir í kæru. Til vara er þess krafist að fallið verði frá ákvörðun dráttarvaxta verði talið að kæranda beri að endurgreiða fjárhæð „sem einhverju nemur“, eins og segir í kæru. Þá er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 11. nóvember 2022, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2022 með því að fyrirhugað væri að fella niður áður ákvarðaðar barnabætur og barnabótaauka fyrir tekjuárið 2021. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2022 hefðu kæranda verið ákvarðaðar barnabætur og sérstakur barnabótaauki sem einstæðu foreldri þriggja barna. Þá kom fram að móðir barnanna hefði nú óskað eftir því að henni og dánarbúi föður barnanna yrðu ákveðnar barnabætur fyrir tekjuárið 2021. Samkvæmt upplýsingum móður barnanna hefði fjölskyldan komið til Íslands í nóvember 2021 og maki verið skráður með lögheimili hér á landi ásamt börnunum, en með aðsetur erlendis. Móðirin hefði hins vegar verið með skráð lögheimili erlendis og fyrst fengið skráð lögheimili hér á landi á árinu 2022. Börnin hefðu því verið skráð á framfæri föður á árinu 2021 allt til andláts hans á því ári. Þar sem móðir barnanna hefði ekki fengið dvalarleyfi hér á landi við andlát maka hefðu börnin verið skráð hjá kæranda til bráðabirgða á meðan beiðni móður barnanna um dvalarleyfi hefði verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Væri því litið svo á að hún hefði verið raunverulegur framfærandi barnanna í árslok 2021. Væri því fyrirhugað að fella niður barnabætur kæranda 1.203.521 kr. og barnabótaauka 60.000 kr.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2022, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að bróðir kæranda, M, sem hefði búið erlendis og starfað þar, hefði veikst af krabbameini haustið 2021 og þá viljað flytja til Íslands með fjölskyldu sína. Hefði kærandi boðið honum gistingu hjá sér með fjölskyldunni á meðan þau leituðu sér húsnæðis hér á landi. Fjölskyldan hefði flutt til landsins í nóvember 2021 og kærandi verið þeim innan handar eftir komuna og á meðan þau dvöldu á heimili kæranda, en hvorki eiginkona M, K, né börnin þrjú hefðu talað neina íslensku. Bróðir kæranda hefði andast í desember 2021 og hefði kærandi þá tekið sér mánaðar frí úr vinnu til að aðstoða K við atvinnuleit og samskipti við sýslumann, Útlendingastofnun og aðra opinbera aðila. Komið hefði í ljós við útgáfu dánarvottorðs hjá Þjóðskrá að börnin þrjú þyrftu að vera með skráð lögheimili hjá fullorðnum einstaklingi með lögheimili á Íslandi og hefði K þá fallist á að börnin yrðu skráð hjá kæranda, enda hefði hún þá ekki verið með dvalarleyfi hér á landi, sbr. m.a. bréf Þjóðskrár, dags. 20. desember 2021, um lögheimilisskráningu barnanna. Þá hefði kærandi einnig fengið umboð til að annast málefni dánarbús bróður síns og sinnt því til sumarsins 2022 er lögfræðingur hefði tekið við málinu.

Í bréfinu kom fram að móðir barnanna hefði verið peningalaus og allslaus við komu til landsins og ekki haft neinn aðgang að bankareikningum eiginmanns síns erlendis. Það hefði því komið í hlut kæranda að sjá fjölskyldunni fyrir húsnæði og fæði. Hjá opinberum aðilum, svo sem Skattinum, Reykjavíkurborg og félagsþjónustu, hefðu fengist þau svör að þar sem K væri erlendur ríkisborgari nyti hún engra réttinda hér á landi. Af þessum sökum hefði kærandi þurft að ganga á sparnað sinn, enda sé hún 75% öryrki og hefði því naumast haft burði til að framfleyta öðrum en sjálfum sér. Kærandi hefði keypt inn til heimilisins, keyrt börnin í skóla og tómstundir og í læknisheimsóknir, gefið þeim jólagjafir og auk þess farið fjölmargar ferðir til Útlendingastofnunar og sýslumanns til að fá skjöl stimpluð, fylla út umsóknir o.fl. Rangt væri að kærandi hefði sótt um barnabætur vegna barnanna, bæturnar hefðu einfaldlega verið greiddar henni í febrúar 2022 þar sem börnin hefðu verið skráð með lögheimili hjá henni. Um vorið 2022 hefði K loks treyst sér til þess að leita sér að leiguhúsnæði, enda hefði hún þá verið farin að afla launatekna og fá lífeyri eftir M. Um svipað leyti eða í maí hefði kærandi þurft að fara í sjúkrafrí erlendis og þegar hún hefði snúið til baka í júní hefðu K og börnin verið flutt af heimilinu.

Í bréfinu vísaði kærandi til yfirlits og meðfylgjandi gagna um útgjöld sem hún hefði haft á árinu 2022 vegna matarinnkaupa, eldsneytiskaupa, kaupa á námsgögnum o.fl. Þá væri um að ræða tjón á innanstokksmunum og fatnaði. Væri þá ekki allt upp talið. Var tekið fram að engir aðrir en kærandi hefðu verið til staðar til að aðstoða K og börnin eftir andlát bróður kæranda. Bréfinu fylgdu ýmis gögn.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 7. desember 2022, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu niðurfellingu barnabóta kæranda í framkvæmd. Í úrskurðinum voru skýringar kæranda í bréfi hennar, dags. 18. nóvember 2022, raktar. Þá kom fram að ríkisskattstjóri hefði hinn 19. október 2022 aflað upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um lögheimilisskráningu barnanna þriggja sem verið hefðu með skráð lögheimili hjá kæranda frá 20. desember 2021 til 27. maí 2022. Samkvæmt svari Þjóskrár Íslands hefði verið um bráðabirgðaráðstöfun að ræða á meðan móðir barnanna biði dvalarleyfis hér á landi. Móðirin hefði tilkynnt um flutning barnanna svo unnt væri að skrá andlát föður þeirra og enginn samningur hefði legið að baki um forsjá og lögheimili barnanna. Tók ríkisskattstjóri fram að með hliðsjón af þessu þætti ljóst að um tímabundna ráðstöfun hefði verið að ræða á meðan dvalarleyfisumsókn móður hefði verið í vinnslu, m.a. til þess gerða að hraða því ferli að afla móðurinni bóta. Móðirin hefði búið á heimili kæranda með börnum sínum og ein farið með forsjá þeirra eftir andlát föðurins, sbr. 30. gr. barnalaga nr. 76/2003, og verið skylt að annast framfærslu barnanna, sbr. 53. gr. sömu laga.

Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri fram, vegna skýringa kæranda um kostnað hennar af framfærslu barnanna, að þar sem móðir barnanna hefði ein farið með forsjá þeirra og verið framfærsluskyld með þeim að lögum yrði ekki fallist á með kæranda að hún hefði verið framfærandi barnanna í lok tekjuársins 2021 á grundvelli lögheimilisskráningar. Þótt kærandi hefði aðstoðað fjölskylduna á ýmsan hátt og farið með málefni hennar á grundvelli umboðs frá móðurinni hefðu í umboðinu ekki falist forsjár- eða framfærsluskyldur með börnunum heldur að aðstoða móðurina vegna þeirra mála sem stóðu fyrir dyrum í kjölfar andláts maka. Þá benti ríkisskattstjóri á að framlögð gögn kæranda um kostnað sýndu ekki fram á með óyggjandi hætti að kærandi hefði verið framfærandi barnanna í árslok 2021, enda hefðu flest útgjöldin fallið til á árinu 2022 að undanskildum útgjöldum samkvæmt reikningum frá Nova.

Í ljósi framanritaðs yrði ekki fallist á með kæranda að hún hefði verið raunverulegur framfærandi barnanna í árslok 2021. Framfærsluskylda hefði enn hvílt á móður barnanna þrátt fyrir það sem að framan væri rakið, enda hefði hún búið með börnum sínum á heimili kæranda og ein farið með forsjá þeirra.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar eru málsatvik reifuð. Kemur fram að fjölskylda bróður kæranda hafi verið búsett erlendis um árabil og ekki haft neinn samastað á Íslandi. Bróðir kæranda hafi lagst inn á sjúkrahús þegar við komu til landsins í nóvember 2021 og hafi kærandi þá boðið börnunum þremur að búa á heimili sínu. Hafi börnin verið búsett hjá kæranda frá 1. nóvember 2021 til 30. apríl 2022, en móðir þeirra haft skráð lögheimili að F hjá bróður kæranda. Kærandi hafi alfarið séð um móður og börn á þessum tíma, en móðir þeirra hafi engar tekjur haft við komuna til landsins og ekki haft aðgang að neinum fjármunum þar sem bankareikningi eiginmanns hennar og bróður kæranda erlendis hafi verið lokað. Eru áður fram komnar skýringar kæranda um framfærslu barnanna á árinu 2021 áréttaðar í kærunni og ítrekað að kærandi hafi m.a. gengið á sparifé sitt í því skyni. Kærandi hafi framfleytt og sinnt börnunum eins og þau væru hennar eigin börn fram á vor 2022 í samstarfi við móður þeirra. Mikið álag hafi verið á kæranda á greindum tíma, enda hafi hún verið fjölskyldunni innan handar með nánast allt sem gera þurfti. Vegna veikinda sinna hafi kærandi farið í veikindaleyfi til útlanda og á meðan hún hafi verið þar hafi móður barnanna tekist að finna leiguhúsnæði og börnin verið flutt af heimili kæranda þegar hún sneri til baka. Áður en kærandi hafi farið erlendis hafi hún millifært fjármuni á börnin til framfærslu eða 145.000 kr., sbr. meðfylgjandi gögn. Sé því á misskilningi byggt í hinum kærða úrskurði að kærandi hafi ekki annast framfærslu barnanna á því tímabili sem um ræðir.

Um efnisatriði málsins kemur fram í kærunni að í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu barnabóta að framfærandi barns sé jafnframt forsjáraðili þess. Því síður geti huglæg afstaða að baki skráningar lögheimilis barns skipt máli í því sambandi. Séu skilyrði barnabóta að þessu leyti að lögum frábrugðin skilyrðum fyrir greiðslu meðlags, sbr. 56. gr. barnalaga nr. 76/2003. Kærandi dragi ekki í efa að móðir barnanna hafi farið með forsjá þeirra og verið framfærsluskyld með þeim. Staðreynd máls sé hins vegar sú að hún hafi ekki haft nokkra möguleika til þess að framfleyta börnunum, enda verið bæði tekju- og eignalaus eftir komuna til landsins. Sé vísað til tveggja úrskurða yfirskattanefndar í þessu sambandi, þ.e. úrskurða nr. 605/2012 og 57/2017. Þá beri að hafa í huga að tekjur kæranda séu að mestu leyti örorkulífeyrir. Ályktun ríkisskattstjóra um að kærandi hafi nýtt sparnað sinn til almenns reksturs fasteignar sé því reist á óljósum grunni, enda hafi örorkulífeyrir kæranda dugað til þess. Vart geti þó skipt máli hvort kærandi hafi nýtt reglulegar tekjur sínar eða sparnað til framfærslu barnanna. Staðreynd málsins sé sú að sparnaður kæranda, sem hún hafi ætlað að nýta til viðhaldsframkvæmda, sé uppurinn vegna kostnaðar af framfærslu fjölskyldunnar á heimili kæranda. Til stuðnings því, að kærandi hafi verið raunverulegur framfærandi barnanna, er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar átta einstaklinga sem nákomnir séu kæranda og fjölskyldu bróður hennar auk gagna um fjárhag kæranda sem beri með sér sannanlegan kostnað hennar af framfærslu barnanna.

Í kærunni kemur fram að kærandi telji málsmeðferð ríkisskattstjóra hafa verið áfátt. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki notið andmælaréttar þar sem forsendur og röksemdir hins kærða úrskurðar komi þar fyrst fram. Þá sé sérstaklega vísað til þess að ríkisskattstjóri hafi aflað upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands án þess að bera þær undir kæranda og gefa henni kost á að tjá sig um þær, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eigi þetta að leiða til ógildingar hins kærða úrskurðar. Í öðru lagi hafi ríkisskattstjóri ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslualaga nr. 37/1993 með því að vekja ekki athygli kæranda á því að þörf væri á að leggja fram kostnaðargögn vegna ársins 2021. Í þriðja lagi verði ekki séð að ríkisskattstjóri hafi gætt rannsóknarskyldu sinnar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. margnefndra laga, enda hafi embættið ekki gert reka að því að afla fullnægjandi gagna frá kæranda, sbr. hér að framan. Þess í stað hafi embættið gripið til ágiskana um ráðstöfun fjármuna kæranda. Sé vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 77/2017 þessu til stuðnings. Þá verði trauðla séð að ríkisskattstjóri hafi gætt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar auk þess sem byggt sé á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Í niðurlagi kærunnar eru kröfur og sjónarmið kæranda áréttaðar. Kemur þar fram að hafið sé yfir vafa að kærandi teljist framfærandi barnanna þriggja frá 20. nóvember 2021 til 17. maí 2022 og beri því réttur til barnabóta vegna þess tímabils. Kærunni fylgja ýmis gögn, þar með talið fyrrgreind yfirlýsing ættingja, dags. 12. janúar 2023, samantekt yfir heimilisútgjöld, yfirlit yfir millifærslur og stöðu bankareikninga og gögn úr Meniga.

IV.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkiskattstjóra. Í bréfinu er ítrekað að í ýmsum kerfum hins opinbera hafi kærandi verið skráð forráðamaður barnanna þar sem móðir þeirra hafi ekki haft íslenska kennitölu, t.d. hjá Reykjavíkurborg og á Heilsuveru. Hafi kærandi sótt um frístundastyrk fyrir börnin, pantað viðtöl hjá læknum og bólusetningar fyrir þau og stofnað bankareikninga fyrir börnin. Kærandi eigi erfitt með að skilja hvers vegna móðir barnanna hafi nú snúist gegn kæranda, en hún hafi fengið dvalarleyfi hér á landi í febrúar 2022 en ekki fengið full réttindi í „kerfinu“ fyrr en í september sama ár. Kærandi hafi aldrei sótt um barnabætur heldur fengið þeim úthlutað á grundvelli lögheimilis.

V.

Um barnabætur er fjallað í A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, með síðari breytingum. Í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 segir að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teljist sá aðili sem hafi barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiði meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð séu samkvæmt 62. gr. laganna, teljist bæði framfærendur og skiptist barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.

Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. kafla II hér að framan, að við flutning bróður kæranda og fjölskyldu hans, þ.e eiginkonu og þriggja barna, hingað til lands í nóvember 2021 hafi kærandi boðið fjölskyldunni að búa á heimili sínu tímabundið á meðan leitað væri að öðru húsnæði fyrir þau á höfuðborgarsvæðinu. Bróðir kæranda hafi lagst inn á spítala vegna veikinda sinna þegar við komu til landsins og veikindin hafi síðan dregið hann til dauða … desember 2021. Móðir barnanna, K, hafi í kjölfarið veitt kæranda umboð til að annast málefni dánarbús bróður kæranda og samþykkt að lögheimili barnanna yrði skráð á heimili kæranda, sbr. tilkynningu Þjóðskrár, dags. 20. desember 2021. Í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2022, kemur fram að þessa hafi verið þörf þar sem móðir barnanna hafi þá ekki fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi. Börnin þrjú hafi búið hjá kæranda til vorsins 2022. Fyrir liggur að börnin voru með skráð lögheimili að [heimili kæranda] frá 20. desember 2021 til 27. maí 2022. K mun hafa verið með skráð lögheimili annars staðar á greindum tíma, en miðað við skýringar kæranda í fyrrgreindu bréfi bjó hún þó á heimili kæranda með börnum sínum, svo sem tekið er fram í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Þá kemur fram í bréfi kæranda að bróðir hennar og börnin hafi verið með skráð lögheimili hér á landi á meðan þau bjuggu erlendis sem samrýmist upplýsingum í þjóðskrá. Ekki verður annað séð en að málsatvik séu óumdeild að þessu leyti. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hún hafi verið raunverulegur framfærandi barnanna frá komu þeirra til landsins í nóvember 2021 og allt til þess er þau fluttu af heimili kæranda í maí 2022, enda hafi móðir þeirra ekki haft neinar tekjur eða aðgang að fjármunum til að framfleyta börnunum á eigin spýtur. Fyrrnefndu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2022, fylgdu gögn um millifærslur og ýmis innkaup sem kærandi teldi sýna fram á að hún hefði staðið straum af útgjöldum vegna framfærslu barnanna.

Í kafla II hér að framan eru forsendur ríkisskattstjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun raktar. Eins og þar greinir byggði ríkisskattstjóri á því að þar sem móðir barnanna hefði ein farið með forsjá þeirra á greindum tíma samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, þ.e. eftir lát föður barnanna, og þar með verið framfærsluskyld með þeim yrði ekki fallist á að kærandi hefði verið raunverulegur framfærandi barnanna í árslok 2021. Benti ríkisskattstjóri á í því sambandi að lögheimilisskráning barnanna hefði verið bráðabirgðaráðstöfun á meðan beðið hefði verið afgreiðslu dvalarleyfisumsóknar móðurinnar hjá Útlendingastofnun. Þá kom fram í úrskurðinum að kærandi þætti ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hún hafi verið framfærandi barnanna í árslok 2021 og tekið fram í því sambandi að framlögð gögn kæranda bæru að mestu leyti með sér útgjöld sem fallið hefðu til á árinu 2022.

Vegna forsendna hins kærða úrskurðar skal tekið fram að samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 telst framfærandi barns sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuárs. Sé raunverulegur framfærandi barns annar aðili en foreldri eða forsjáraðili þess samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 er það því framfærandinn sem á rétt til greiðslu barnabóta og skiptir þá ekki máli þótt foreldri sé skylt að lögum að framfæra barn sitt, sbr. nú 53. gr. laga nr. 76/2003. Hefur lengi verið byggt á þessum skilningi í skattframkvæmd, sbr. m.a. upplýsingar á vef ríkisskattstjóra. Af sömu ástæðum getur lögheimilisskráning barns ein og sér ekki ráðið neinum úrslitum um rétt til barnabóta, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 77/2017 sem vísað er til í kæru. Ljóst er því að nánari tildrög að skráningu lögheimilis barnanna þriggja hjá kæranda í desember 2021 hafa ekki þá þýðingu í málinu sem gengið er út frá í úrskurði ríkisskattstjóra, enda hefur ekki verið vefengt að börnin hafi í reynd búið á heimili kæranda á því tímabili sem um ræðir. Verður því ekki annað séð en að skráning lögheimilis barnanna á greindum tíma hafi verið í fullu samræmi við reglur laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur, sbr. 2. gr. þeirra laga. Rétt er að taka fram, vegna athugasemda ríkisskattstjóra um að lögheimilið hafi verið skráð „til bráðabirgða“ eða tímabundið, að lög nr. 80/2018 gera almennt og í ýmsum tilvikum ráð fyrir skráningu lögheimilis vegna búsetu um skemmri tíma, sbr. m.a. ákvæði 6. gr. um lögheimili barna og 1. mgr. 14. gr. sem taka til þeirra sem dveljast hér á landi vegna atvinnu eða náms.

Samkvæmt framansögðu byggði ríkisskattstjóri hina kærðu niðurfellingu barnabóta kæranda á forsendum sem naumast fá staðist. Þá voru frekari annmarkar á málsmeðferð ríkisskattstjóra, enda liggur fyrir að kærandi átti þess engan kost við meðferð málsins að kynna sér upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands sem ríkisskattstjóri aflaði að eigin frumkvæði fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Þar sem þær upplýsingar höfðu ljóslega áhrif á niðurstöðu ríkisskattstjóra í úrskurðinum, þó að ósekju miðað við það sem að framan greinir um lagagrundvöll málsins auk þess sem ekki verður annað séð en að upplýsingarnar hafi að mestu komið heim og saman við skýringar kæranda, verður að telja að ríkisskattstjóra hafi borið að gefa kæranda kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum og sjónarmiðum í tilefni af þeim áður en málinu var ráðið til lykta með hinum kærða úrskurði, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður að taka undir með kæranda að rétt hefði verið og í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. nefndra laga að ríkisskattstjóri skoraði á kæranda að leggja fram hliðstæð gögn um útgjöld vegna nóvember og desember 2021 og fylgdu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2022, sem vörðuðu einkum fyrri hluta ársins 2022, úr því að ríkisskattstjóri sá ástæðu til að draga þær skýringar kæranda í efa. Engin rökstudd vefenging kom fram á skýringum kæranda á framfærslu barnanna í úrskurðinum og raunar ekki neitt annað en athugasemd um skort á gögnum vegna tekjuársins 2021. Verður ekki talið að sá rökstuðningur hafi verið fullnægjandi eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði um efni rökstuðnings í 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins af hendi ríkisskattstjóra. Af þeim sökum þykir bera að ógilda með öllu hina kærðu niðurfellingu barnabóta kæranda. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins umfram það sem leiðir af framangreindri umfjöllun.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að henni verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum gögnum sem fylgdu kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. febrúar 2023, nemur kostnaður kæranda af meðferð málsins 447.702 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 14,5 klst. vinnu lögmanns við málið. Að þessu virtu og með vísan til starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákvarðaður 380.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Úrskurður ríkisskattstjóra er felldur úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 380.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja