Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjur erlendis
  • Starfssamband
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 109/2023

Gjaldár 2019 og 2020

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 108. gr. 2. mgr.   Lög nr. 45/1987, 1. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.  

Kærandi, sem var ráðstafað af erlendri áhafnaleigu til starfa í þjónustu flugfélags erlendis, mótmælti endurákvörðun opinberra gjalda vegna greiðslna frá áhafnaleigunni árin 2018 og 2019 á þeim forsendum að kærandi hefði í raun verið starfsmaður flugfélagsins en ekki áhafnaleigunnar. Af því tilefni var bent á í úrskurði yfirskattanefndar að þótt fallist yrði á sjónarmið kæranda um starfssambandið fengi það ekki haggað skattskyldu greiðslna til kæranda sem málið laut að. Þá kom fram, vegna athugasemda kæranda um að flugfélaginu hefði borið að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af greiðslum til hans, að ekki væri sjálfgefið að innheimta bæri staðgreiðslufé af launagreiðanda þótt skattyfirvöld teldu að um gerviverktöku væri að ræða og legðu þannig annað mat á starfssamband en málsaðilar hefðu gert. Fyrirkomulag starfs kæranda félli í megindráttum að starfsemi sem um væri fjallað í lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, og væri ekki óalgengt í tilviki flugliða og flugvirkja sem störfuðu í þágu flugrekenda á alþjóðaleiðum eða í erlendum flughöfnum. Skýringar kæranda m.a. um starfsaðstöðu hjá flugfélaginu, verkstjórn þess og atbeina varðandi flutning kæranda á starfsstöðvar erlendis þættu ekki leiða til þess að líta bæri framhjá samningum kæranda við áhafnaleiguna og virða kæranda sem launþega flugfélagsins. Kröfum kæranda í málinu var hafnað.

Ár 2023, föstudaginn 16. júní, er tekið fyrir mál nr. 169/2022; kæra A, dags. 20. desember 2022, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019 og 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. desember 2022, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019 og 2020. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 5.854.043 kr. gjaldárið 2019 og um 11.919.540 kr. gjaldárið 2020. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda umrædd gjaldár sem leiddi af breytingunni, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nam fjárhæð álags 1.463.511 kr. gjaldárið 2019 og 2.979.885 kr. gjaldárið 2020. Byggði ríkisskattstjóri á því að um væri að ræða vantaldar launatekjur kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna greiðslna að fjárhæð 5.854.043 kr. á árinu 2018 og 10.636.205 kr. á árinu 2019 frá X Ac. og greiðslu að fjárhæð 1.283.335 kr. frá X Ltd. á árinu 2019.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með fyrirspurnarbréfi, dags. 13. apríl 2021, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum og gögnum kæranda vegna greiðslna inna á bankareikning kæranda að fjárhæð 5.854.043 kr. á árinu 2018 og 10.636.205 kr. á árinu 2019 frá X Ac. og greiðslu að fjárhæð 1.283.335 kr. frá X Ltd. á árinu 2019. Yrði ekki séð að kærandi hefði gert grein fyrir umræddum greiðslum í skattskilum sínum gjaldárin 2019 og 2020. Fyrirspurn ríkisskattstjóra var ítrekuð með bréfi, dags. 5. júlí 2021. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. ágúst 2021, kom fram að kærandi hefði nýtt starfsstöð flugfélagsins Y sem flugvirki og þar hefðu öll verkfæri og varahlutir verið til staðar. Á meðan á vinnudvöl stæði hefði Y kostað uppihald kæranda og ferðir til og frá vinnu. Kærandi hefði einungis sinnt vinnu fyrir Y þrátt fyrir að hafa skrifað undir samning við X. Þá hefði ekki verið um sérstök verkefni að ræða heldur hefði hann sinnt því sem yfirmenn hans hefðu beðið hann um hverju sinni. Hann hefði ekki getað komið verkefnum yfir á aðra, enda hefði hann verið ráðinn til að sinna umræddum störfum. Kærandi hefði unnið eftir vinnuplani og því ekki getað ráðið vinnutíma sínum sjálfur eins og venjan væri hjá verktökum. Starfsmannaskírteini kæranda væri merkt Y og væri með netfang félagsins en hvergi kæmi nafnið eða merki X fram. Það eina sem tengdi kæranda við X væri samningur kæranda við félagið sem bæri heitið „Contractor‘s agreement“ og væri þar m.a. kveðið á um það að það væri á ábyrgð kæranda að standa skil á skattgreiðslum. Ljóst væri að um staðlaðan samning væri að ræða sem X samdi og væri félagið/fyrirtækið í yfirburðastöðu gagnvart kæranda. Yrði því að telja ósanngjarnt að bera hann fyrir sig þar sem hann raskaði réttindum kæranda í óhag, sbr. III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Ekki væri hægt að mati kæranda að byggja á starfssamningnum einum og sér. Væri nauðsynlegt að horfa til allra þátta málsins og þá sérstaklega hvernig vinnusambandi kæranda við X væri háttað. Í því sambandi var í svarbréfi kæranda m.a. vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/1997. Í forsendum Hæstaréttar segði m.a. að það væri heildarmat á efni samnings og raunverulegu starfssambandi aðila sem máli skipti.

Það sem gerðist næst í málinu var að ríkisskattstjóri boðaði kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2019 og 2020, með bréfi, dags. 15. september 2022, þar sem fyrirhugað væri að hækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 5.854.043 kr. fyrra árið og um 11.919.540 kr. það síðara. Var upplýsinga- og gagnaöflun embættisins rakin. Kom þar m.a. fram að ríkisskattstjóri hefði áður móttekið beiðni, dags. 7. janúar 2021, frá umboðsmanni kæranda um endurupptöku á úrskurði embættisins, dags. 10. desember 2020. Tilgreindur úrskurður laut að opinberum gjöldum sem stöfuðu frá fyrri gjaldárum vegna vantalinna greiðsla frá X til kæranda. Ríkisskattstjóri hefði hafnað endurupptökubeiðninni með úrskurði, dags. 26. júlí 2021. Kærandi hefði kært tilgreinda synjun á endurupptökubeiðninni til yfirskattanefndar, en nefndin hefði staðfest niðurstöðu ríkisskattstjóra um að hafna endurupptöku úrskurðarins, dags. 10. desember 2020. Í boðunarbréfinu voru raktar helstu réttarheimildir málsins. Leit ríkisskattstjóri svo á að það væri X sem væri vinnuveitandi kæranda. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að embættinu væri heimilt að ganga að gjaldanda vegna vangreiddra opinberra gjalda nema hann sannaði afdrátt launagreiðanda, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Byggði ríkisskattstjóri m.a. á því að kærandi hefði í máli þessu engin gögn lagt fram sem sönnuðu afdrátt opinberra gjalda af þeim greiðslum sem væru til skoðunar. Hefði því ríkisskattstjóri í hyggju að hækka launatekjur kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um fyrrgreindar fjárhæðir gjaldárin 2019 og 2020. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við hækkun skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Engin andmæli bárust frá kæranda vegna boðunarbréfs ríkisskattstjóra. Með úrskurði, dags. 11. október 2022, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd, sbr. 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2022, er gerð grein fyrir upplýsinga- og gagnaöflun embættisins og lagaákvæðum sem þyki eiga við í málinu. Í því sambandi víkur ríkisskattstjóri m.a. að ákvæðum 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ríkisskattstjóri getur þess að mál þetta snúist um réttmæti skattframtala kæranda árin 2019 og 2020 vegna greiðsla sem kærandi hafi fengið frá X Ac, að fjárhæð 5.854.043 kr. á árinu 2018 og 10.636.205 kr. á árinu 2019 svo og greiðslu að fjárhæð 1.283.335 kr. frá X Ltd. á árinu 2019. Af hálfu kæranda hafi m.a. komið fram, sbr. bréf til ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2021, að þær erlendu greiðslur sem kærandi hafi fengið árin 2018 og 2019 geti ekki talist verktakagreiðslur sem kærandi þurfi að borga tekjuskatt af, þar sem hann telji sig í reynd hafa verið launamann hjá Y, eins og gögn málsins beri með sér. Ættu skattyfirvöld því að leita til þessa vinnuveitanda kæranda hvað snerti skatta og launatengd gjöld. Til stuðnings sjónarmiðum sínum hafi kærandi lagt fram ýmis gögn, þar á meðal skjöl sem beri heitið „Contractor‘s agreement“, en þar ræði um samninga við X vegna tímabilsins 12. nóvember 2017 til 11. nóvember 2018 og 18. september 2018 til 17. september 2019. Einnig hafi kærandi lagt fram starfsmannaskírteini sem gefið hafi verið út árið 2014 af Y en gildi til ársins 2024. Haldi kærandi því þannig fram að Y hafi verið raunverulegur vinnuveitandi hans en ekki X. Þeir samningar sem kærandi hafi lagt fram og liggi til grundvallar fyrrnefndum greiðslum hafi þó verið gerðir við X og undirritaðir bæði af kæranda og tilgreindu félagi. Þá liggi fyrir að allar þær greiðslur sem málið taki til séu frá tilgreindu félagi. Samkvæmt þessu sé ljóst að mati ríkisskattstjóra X teljist vinnuveitandi kæranda. Kærandi haldi því einnig fram að tilgreindar greiðslur séu launatekjur fremur en verktakagreiðslur. Þyki ríkisskattstjóra ekki ástæða til að hafna því mati.

Vegna sjónarmiða kæranda um að ríkisskattstjóri ætti að snúa sér að launagreiðanda kæranda við innheimtu staðgreiðslu opinberra gjalda en ekki kæranda sé ástæða til að taka fram að ríkisskattstjóra sé heimilt að ganga að kæranda vegna vangreiddra opinberra gjalda nema hann sanni afdrátt launagreiðanda, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1987. Fjallað sé um hliðstætt tilvik t.d. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 29/2020, svo sem ríkisskattstjóri rekur nánar. Kærandi hafi engin gögn lagt fram sem sanni afdrátt opinberra gjalda af þeim greiðslum sem séu til skoðunar í málinu. Ítarlega hafi verið fjallað um fyrrnefnt lagaákvæði í samskiptum ríkisskattstjóra við kæranda vegna beiðni hans um endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. desember 2020, sem lotið hafi að opinberum gjöldum vegna fyrri gjaldára vegna vantalinna greiðsla frá X til kæranda. Þá sé reglan rakin með ítarlegum hætti í úrskurði embættisins, dags. 26. júlí 2021, um að hafna endurupptökubeiðni kæranda. Virðist þannig sem kærandi megi vera kunnugt um regluna. Auk þess liggi fyrir að greiðandi tekna kæranda sé erlendur aðili sem beri ekki afdráttarskyldu á Íslandi samkvæmt lögum nr. 45/1987.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. desember 2022. Í kærunni eru málsatvik rakin. Kemur fram að krafa kæranda sé byggð á því að efnisúrlausn málsins sé haldin svo verulegum annmörkum að beri að ógilda úrskurð ríkisskattstjóra. Telji kærandi að ríkisskattstjóri hafi án nánari umfjöllunar um mikilvæg skilyrði gerviverktöku slegið því föstu að kærandi starfi fyrir X þegar staðreyndin sé sú að hann starfi í reynd fyrir flugfélagið Y, enda beri öll gögn málsins það með sér. Kærandi sé með starfsstöð hjá Y, sem hann greiði ekkert fyrir, hann fái borgað mánaðarlega fyrir vinnuframlag sitt hjá Y, Y sjái um að fljúga kæranda út í verkefni og útvegi honum gistingu. Jafnframt notist kærandi við innstimplunarkerfi Y og sé með vinnupassa merktan félaginu.

Kærandi mótmæli harðlega þeirri niðurstöðu ríkisskattstjóra að embættinu sé heimilt við innheimtu að ganga að kæranda vegna vangreiddra opinberra gjalda. Samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/2003 sé ríkisskattstjóra heimilt að líta fram hjá því fyrirtæki sem samningur sé gerður við og skattleggja það fyrirtæki sem raunverulega hafi notið starfskrafta starfsmanns. Samkvæmt þessu ætti að skattleggja kæranda eins og hann væri launþegi sem þægi launin sín á Íslandi, en Y, raunverulegur vinnuveitandi hans, ætti að standa skil á launatengdum gjöldum. Að mati kæranda sé brýnt að hafa í huga aðstöðumun annars vegar hans sjálfs og hins vegar X. X hafi samið þann samning sem kærandi hafi skrifað undir og sé um staðlaðan samning að ræða. Þá sé félagið í yfirburðastöðu gagnvart kæranda og verði að telja það ósanngjarnt að bera samninginn fyrir sig, enda sé samningurinn ekki í samræmi við þá tilhögun sem raunverulega hafi átt sér stað. Að öllu virtu og þegar litið sé heildstætt á röksemdir og skýringar kæranda um eðli vinnuréttarsambands hans og Y, sé ljóst að það beri með sér öll þau merki að vera vinnusamningur og kærandi því launþegi en ekki verktaki. Hvað snerti dómaframkvæmd varðandi gerviverktöku vísi kærandi til H 1994:1743. Einnig vísist til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 96/2004.

Af hálfu kæranda sé einnig byggt á því að rannsókn ríkisskattstjóra sé haldin svo verulegum annmörkum að það beri að ógilda hinn kærða úrskurð. Ríkisskattstjóra sé skylt að lögum að gæta þeirra málsmeðferðarreglna sem fram komi í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, þ.m.t. rannsóknarreglu laganna. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að ríkisskattstjóri hafi ekki tekið til skoðunar þau gögn sem kærandi hafi lagt fram eins og honum beri að gera samkvæmt ákvæðinu. Í tilkynningu um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda komi fram að greiðandi tekna kæranda sé erlendur aðili sem beri ekki afdráttarskyldu á Íslandi samkvæmt lögum nr. 45/1987. Þau gögn sem kærandi hafi lagt fram sýni að kærandi hafi í raun verið starfsmaður Y og því ekki starfsmaður hjá X og þar af leiðandi hafi verið um gerviverktöku að ræða. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirra gagna sem kærandi hafi lagt fram og þau skoðuð sem heild í því skyni að meta hvort skattsambandið hafi í raun verið með þeim hætti sem haldið hafi verið fram af hálfu kæranda heldur málið afgreitt með kerfisbundnum hætti. Verði því að telja að málið sé vanupplýst og rannsókn ekki tæk sem grundvöllur endurákvörðunar opinberra gjalda.

V.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2023, hefur umboðsmaður kæranda komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og áréttað kröfur kæranda.

VI.

Ágreiningur máls þessa stendur um þá ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 11. október 2022, að hækka tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 5.854.043 kr. gjaldárið 2019 og um 11.919.540 kr. gjaldárið 2020, auk álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði ekki gert í skattframtölum sínum nefnd ár grein fyrir tekjum frá X Ac. að fjárhæð alls 5.854.043 kr. á árinu 2018 og að fjárhæð 10.636.205 kr. á árinu 2019 svo og tekjum að fjárhæð 1.283.335 kr. frá X Ltd. á árinu 2019. Lagði ríkisskattstjóri til grundvallar að um hefði verið að ræða vantaldar launatekjur kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Er byggt á því í kærunni að ríkisskattstjóri leggi ranglega til grundvallar breytingum sínum að kærandi starfi fyrir X þegar staðreyndin sé sú að kærandi starfi í reynd fyrir íslenska flugfélagið Y. Telur kærandi öll gögn málsins bera með sér að kærandi hafi verið launþegi nefnds félags. Þá byggir kærandi á því að rannsókn ríkisskattstjóra hafi verið haldin svo verulegum annmörkum að ógilda beri hinn kærða úrskurð.

Víkur fyrst að athugasemdum kæranda varðandi málsmeðferð ríkisskattstjóra. Eins og rakið er í kafla II að framan beindi ríkisskattstjóri því til kæranda með skriflegum hætti að leggja fram skýringar og gögn varðandi greiðslur sem lagðar voru inn á bankareikning hans frá tilgreindum erlendum fyrirtækjum á árunum 2018 og 2019. Af hálfu kæranda voru ýmis gögn lögð fram af þessu tilefni sem hann taldi styðja það að Y hefði í raun verið vinnuveitandi hans. Ekki verður séð að kærandi hafi undir rekstri málsins tilgreint nein þau önnur gögn eða upplýsingar sem þýðingu hefðu um sakarefnið og kæranda væru ekki tiltæk. Verður ekki séð að neitt hafi í heild sinni skort á undirbúning málsins af hálfu ríkisskattstjóra þannig að málsatvik hafi verið í þeim mæli óupplýst að til ómerkingar leiði, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að því er varðar athugasemdir umboðsmanns kæranda um að ríkisskattstjóri hafi ekki fallist á sjónarmið kæranda um raunverulegan launagreiðanda verður ekki talið að þar sé um rannsóknarannmarka að ræða. Hvað snertir málsmeðferð ríkisskattstjóra að öðru leyti er þess að geta að í boðunarbréfi sínu, dags. 15. september 2022, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins og var kæranda gefinn kostur á að andmæla fyrirhuguðum breytingum. Í hinum kærða úrskurði er sömuleiðis gerð grein fyrir málavöxtum, lagagrundvelli málsins og niðurstaðan rökstudd. Samkvæmt þessu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem leiða eigi til ómerkingar hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra í heild sinni vegna breytinga á skattframtölum kæranda árin 2019 og 2020.

Í málinu liggja fyrir samningar (Contractor‘s Agreement) milli kæranda og starfsmannaleigunnar X Ltd., sem skráð er erlendis, annars vegar vegna tímabilsins 12. nóvember 2017 til 11. nóvember 2018 og hins vegar vegna tímabilsins 18. september 2018 til 17. september 2019. Eru samningarnir undirritaðir af kæranda og félaginu. Í samningunum, sbr. og meðfylgjandi samningsskilmála, er mælt fyrir um greiðslur til kæranda vegna hvers vinnudags miðað við ákveðinn fjölda vinnustunda og greiðslur vegna vinnu umfram þær (yfirvinnu). Um starfsstöðvar („bases“) kemur fram að þær séu „worldwide as assigned by „client““. Af hálfu kæranda er komið fram og stutt gögnum að hann hafi á grundvelli þessara samninga eingöngu unnið fyrir Y. Ráðið verður af málatilbúnaði kæranda að hann dragi þá ályktun af gögnum þessum að rétt sé með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að líta fram hjá verktakasamningi hans og X Ltd. í skattalegum skilningi og líta svo á að kærandi hafi verið launþegi Y, enda þótt vinnusambandið hafi byggst á fyrrgreindum verktakasamningi kæranda og X Ltd. Telur kærandi að á grundvelli slíkrar niðurstöðu bæri ríkisskattstjóra að snúa sér að hinu íslenska félagi fremur en kæranda sjálfum. Segir um þetta í kæru að samkvæmt þessu „ætti að skattleggja kæranda líkt og hann væri launþegi sem þægi launin sín á Íslandi, en Y, raunverulegur vinnuveitandi [kæranda] ætti að standa skil á launatengdum gjöldum“.

Af hálfu kæranda hefur ekki komið fram að hvaða leyti hann telur það eiga að leiða til breytinga á tekjufærslum í skattframtölum hans árin 2019 og 2020, sem ríkisskattstjóri ákvað með hinum kærða úrskurði, ef fallist yrði á framangreint sjónarmið hans um beint starfssamband hans og Y. Helst verður ráðið að kærandi líti svo á að Y bæri á grundvelli slíkrar niðurstöðu að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af greiðslunum til kæranda sem kæmi þá til frádráttar endurákvörðuðum opinberum gjöldum hans. Um þetta er það að segja að ekki er sjálfgefið að innheimta beri staðgreiðslufé af launagreiðanda þótt skattyfirvöld telji um gerviverktöku að ræða og leggi þannig annað mat á starfssamband en málsaðilar hafa gert, enda má ætla að sjaldnast yrði komið við afdrætti skatta af greiðslum til launþegans við þessar aðstæður. Verður ekki heldur séð að skattframkvæmd standi til slíkrar innheimtu í málum af þessu tagi að staðgreiðsluári liðnu og frumálagningu um garð genginni. Þótt talið yrði að slík innheimta fengi staðist er til þess að líta að staðgreiðsla opinberra gjalda er bráðabirgðagreiðsla skatta, sbr. 1. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og þannig þáttur í innheimtukerfi skatta, en innheimt staðgreiðslufé skal fært á sérstaka skrá sem síðan kemur til frádráttar álögðum opinberum gjöldum, sbr. VIII. kafla laga nr. 45/1987. Það fengi hins vegar ekki haggað skattskyldu greiðslna til kæranda, sem málið tekur til, þótt fallist yrði á sjónarmið hans um beint starfssamband hans og Y. Samkvæmt þessu gæti niðurstaða í þá átt ekki leitt til ógildingar á hinum kærða úrskurði, svo sem kærandi virðist telja.

Þrátt fyrir að krafa kæranda í máli þessu gæti ekki fengið brautargengi á grundvelli viðhorfa kæranda um starfssambandið þykir bera að víkja orðum að þessum sjónarmiðum hans. Í því sambandi er til þess að líta að það fyrirkomulag starfs kæranda, sem í málinu greinir, fellur í megindráttum að starfsemi sem um er fjallað í lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, að því gættu að þau lög taka eingöngu til fyrirtækja sem veita þjónustu hér á landi. Nánar tiltekið er um það að ræða að maður telst ráðinn til starfa hjá starfsmannaleigu en er ráðstafað gegn gjaldi til verkefna hjá notendafyrirtæki. Þetta fyrirkomulag mun ekki vera óalgengt í tilviki flugliða og flugvirkja sem starfa í þágu flugrekenda á alþjóðaleiðum eða í erlendum flughöfnum og hafa ýmis álitamál um skattalega meðferð greiðslna frá áhafnaleigum komið til kasta yfirskattanefndar, sbr. m.a. úrskurði nr. 583/1995 og 110/2016.

Að virtum skýringum kæranda og samningum hans við áhafnaleiguna X Ltd. verður ekki séð að neitt hafi komið fram sem gefi tilefni til að ætla annað en að farið hafi verið að öllu leyti eftir samningsákvæðum sem þar greinir. Meðal annars liggur fyrir að greiðslur til kæranda vegna verkefna hans í þágu Y stöfuðu frá áhafnaleigunni. Hvorki upplýsingar kæranda um starfsaðstöðu hjá flugfélaginu, verkstjórn þess og atbeina varðandi flutning kæranda á starfsstöðvar erlendis né annað það sem kærandi hefur dregið að landi í kæru sinni þykir leiða til þess að líta beri fram hjá nefndum samningum kæranda við X Ltd. og líta á kæranda sem launþega flugfélagsins, enda verður ekki talið að þessi atriði séu út af fyrir sig með öðrum hætti en leiðir af sjálfu sér þegar starfsmannaleiga leigir starfsmann sinn til annars atvinnufyrirtækis til verkefna undir verkstjórn þess.

Samkvæmt framansögðu og þar sem kærandi hefur engar tölulegar athugasemdir gert varðandi ákvarðanir ríkisskattstjóra um fjárhæð skattskyldra tekna verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Af hálfu kæranda er ekki gerð sérstök krafa um niðurfellingu álags en tekið skal fram að ekki þykir tilefni til niðurfellingar þess. Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður og að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja