Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning sambýlisfólks

Úrskurður nr. 111/2023

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 63. gr. 1. mgr.  

Kærendur hófu sambúð hinn 13. október 2021. Fallist var á kröfu þeirra í málinu um að þau yrðu skattlögð sem einstaklingar frá byrjun tekjuársins 2021 til þess dags er sambúð þeirra hófst og sem hjón frá þeim tíma til ársloka, enda var ekki tekið undir með ríkisskattstjóra að lagaheimild skorti fyrir slíkri tilhögun skattskila í tilviki sambúðarfólks.

Ár 2023, föstudaginn 16. júní, er tekið fyrir mál nr. 10/2023; kæra A og B, dags. 20. janúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. janúar 2023, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. október 2022, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2022. Með úrskurði þessum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kærenda í kæru, dags. 30. ágúst 2022, sem laut að því að álagningu gjalda á þau umrætt gjaldár yrði hagað í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. kærendur yrðu skattlögð hvort í sínu lagi vegna tímabilsins frá 1. janúar til 12. október 2021 og sem hjón frá og með 13. október til ársloka sama ár. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmu skilyrði samsköttunar og tók fram að við framtalsskil árið 2022 hefðu kærendur óskað eftir samsköttun. Kærendur hefðu uppfyllt skilyrði samsköttunar í lok tekjuársins 2021 þar sem þau væru skráð í sambúð þann 13. október 2021. Með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 væri engin heimild til að telja fram sitt í hvoru lagi fram að þeim tíma er kærendur hófu sambúð og væri því ekki unnt að fallast á beiðni þeirra um að fá að skila þremur skattframtölum árið 2022.

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar kemur fram, sbr. tölvupóst 9. febrúar 2023, að samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 beri kærendum að telja fram tekjur og eignir sínar vegna tímabilsins 1. janúar til og með 13. október 2021 sem einstaklingar þar sem skilyrði 62. gr. laganna séu aðeins uppfyllt hluta ársins, þ.e. frá og með skráningu sambúðar 13. október 2021. Í skattframkvæmd sé hjúskapur og sambúð yfirleitt lögð að jöfnu. Ástæða þess að kærendur óski eftir því að fá að skila þremur skattframtölum séu sú að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi krafið kæranda, B, um endurgreiðslu húsnæðisbóta á grundvelli upplýsinga frá Skattinum um eignir í árslok. Krafan hafi því í reynd enga skattalega þýðingu.

II.

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með tölvupósti 6. mars 2023 hafa kærendur komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í tölvupósti kærenda er rakið að í 4. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 sem og í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra komi fram að það séu réttindi einstaklinga í óvígðri sambúð að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, enda sé þess óskað af báðum aðilum. Núverandi skattframkvæmd með misgóðri miðlun upplýsinga til annarra stofnana hafi þau áhrif að viðkomandi stofnanir hafi ekki nægilega góðar upplýsingar til að reikna út réttar húsnæðisbætur. Því ítreki kærendur gerðar kröfur í málinu.

III.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru reglur um skattskil á því ári þegar hjúskapur er stofnaður eða honum lýkur. Um er að ræða þau tilvik þegar skilyrði hjónasköttunar, sbr. 62. gr. laganna, eru aðeins uppfyllt hluta úr ári. Tekur 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 til stofnunar eða slita hjúskapar, slita á samvistum og andláts maka. Meginreglan er sú samkvæmt þessu lagaákvæði að skattaðilum ber að telja fram tekjur sínar í samræmi við reglur 62. gr. laganna fyrir þann tíma ársins sem skilyrði þessarar lagagreinar voru uppfyllt, þ.e.a.s. telja fram sem hjón þann tíma. Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi og skattleggja þær samkvæmt því. Um útreikning tekjuskatts og ónýtts persónuafsláttar fer eftir ákvæðum 2. mgr. 69. gr. Settar eru reglur um tímamörk og skal miða við þann dag sem til hjúskapar var stofnað eða skilnaður eða samvistarslit urðu eða andlátsdag maka. Í 4.–6. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003 eru heimildir til að víkja frá framangreindum meginreglum. Samkvæmt ákvæðunum er það lagt á vald skattaðila hvort þeir nýta sér frávik frá meginreglunum sem felast í þessum heimildarákvæðum. Efnislega eru þessi frávik þrenns konar: a) Þeim sem gengið hafa í hjúskap á árinu eða uppfyllt hafa skilyrði 3. mgr. 62. gr. er jafnan heimilt að telja fram allar tekjur sínar á árinu sem hjón í samræmi við ákvæði 62. gr. og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun ónýtts persónuafsláttar samkvæmt því. b) Ljúki hjúskap vegna andláts maka er með hliðstæðum hætti og greinir í a-lið veitt heimild fyrir eftirlifandi maka að telja fram allar tekjur sínar og hins látna sem hjón væru í samræmi við ákvæði 62. gr. í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans. c) Hjónum, sem slíta hjúskap eða samvistum á árinu, er heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi.

Eins og fram er komið hófu kærendur sambúð hinn 13. október 2021 samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá. Stóðu kærendur skil á sameiginlegu skattframtali árið 2022 og við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2022 voru þau skattlögð sem hjón vegna alls tekjuársins 2021, sbr. fyrrgreint heimildarákvæði 4. málsl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003. Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 30. ágúst 2022, óskuðu kærendur eftir því að hverfa frá fyrri tilhögun skattskilanna, sem álagning hafði verið byggð á, þannig að skattleggja bæri þau í samræmi við fyrrgreinda meginreglu 1. mgr. 63. gr., þ.e. sem einstaklinga frá byrjun tekjuársins 2021 til þess dags er sambúð þeirra hófst 13. október 2021 og sem hjón frá þeim tíma til ársloka. Er það krafa kærenda í málinu að álagningu verði hagað með þessum hætti á grundvelli þriggja skattframtala sem fylgdu kæru þeirra til ríkisskattstjóra. Þessari kröfu hafnaði ríkisskattstjóri á þeim forsendum að engin heimild væri fyrir slíkri tilhögun í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003. Ekki verður á það fallist, enda tekur heimildarákvæði 4. málsl. 1. mgr. 63. gr. samkvæmt orðalagi sínu jafnt til þeirra sem gengið hafa í hjúskap á árinu og þeirra sem uppfyllt hafa skilyrði hjónasköttunar á grundvelli óvígðrar sambúðar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. sömu laga. Af ákvæðinu verður því gagnályktað að sambúðarfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, hafi val um framtalshátt að þessu leyti á því tekjuári sem sambúð hefst. Að þessu athuguðu og með vísan til greinds ákvæðis eru ekki efni til annars en að taka kröfu kærenda til greina. Það leiddi af fyrrgreindri niðurstöðu ríkisskattstjóra að embættið hefur ekki tekið neina afstöðu til hinna endurgerðu skattskila kærenda vegna tekjuársins 2021. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd þykir því rétt að senda ríkisskattstjóra kæru kærenda til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kærenda er tekin til greina. Kærunni er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar um álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2022.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja