Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignfærsla fasteignar
  • Vaxtagjöld

Úrskurður nr. 122/2023

Gjaldár 2020, 2021 og 2022

Lög nr. 90/2003, 75. gr.  

Kærandi og sonur hennar keyptu saman íbúð á árinu 2019 og voru frá þeim tíma bæði skráð eigendur íbúðarinnar, þ.e. kærandi eigandi að 73% hlut og sonurinn eigandi að 27% hlut. Ekki var talið að neinn grundvöllur væri fyrir kröfu kæranda þess efnis að lífeyrissjóðslán, sem kærandi og sonur hennar tóku í sameiningu til að fjármagna kaup íbúðarinnar, yrði fært að fullu í skattframtölum kæranda árin 2020, 2021 og 2022. Kom fram að tilhögun ábyrgðar á endurgreiðslu lánsins gæti ekki skipt neinu máli í því sambandi.

Ár 2023, miðvikudaginn 23. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 113/2023; kæra A, dags. 20. maí 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2020, 2021 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. maí 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 27. apríl 2023, vegna erindis kæranda til ríkisskattstjóra sem barst embættinu 31. mars 2023. Í erindinu fór kærandi fram á að eftirstöðvar láns frá Birtu lífeyrissjóði vegna kaupa á fasteign að M á árinu 2019 yrðu færðar í skattframtöl kæranda árin 2020, 2021 og 2022. Erindinu fylgdi m.a. afrit veðskuldabréfs að fjárhæð 12.000.000 kr. útgefnu af kæranda og D. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á erindi kæranda með þeirri athugasemd að erindið lyti að því að 73% hluti lánsins yrði færður í skattframtöl kæranda umrædd ár. Kom fram að breytingin hefði ekki áhrif á gjaldstofna. Í kjölfar úrskurðarins fór kærandi fram á með tölvupósti til ríkisskattstjóra 4. maí 2023 að lánið yrði að fullu (100%) fært í skattframtöl kæranda. Benti kærandi á í póstinum að hún væri meðskuldari lánsins og bæri óskipta ábyrgð á greiðslu þess. Ríkisskattstjóri tók greint erindi kæranda til meðferðar sem beiðni um endurupptöku á úrskurði embættisins og synjaði beiðninni með bréfi, dags. 12. maí 2023. Í bréfinu tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt skattframtölum kæranda og upplýsingum í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands væri kærandi eigandi 73% eignarhlutar í fasteigninni M á móti D sem væri eigandi að 27% eignarhlut í íbúðinni. Þegar um væri að ræða sameiginlega lántöku aðila, annarra en hjóna eða samskattaðs sambýlisfólks, þyrfti hver fyrir sig að færa sinn hluta af heildargreiðslu, nafnverðsafborgunum og eftirstöðvum í liði 5.2 eða 5.5 eftir því sem við ætti. Ríkisskattstjóri hefði því réttilega fallist á að 73% hlutur kæranda í láninu frá Birtu lífeyrissjóði yrði færður í lið 5.5 í skattframtölum kæranda árin 2020, 2021 og 2022.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi sé meðskuldari láns frá Birtu lífeyrissjóði og beri óskipta (100%) ábyrgð á greiðslu lánsins, sbr. yfirlit úr netbanka Íslandsbanka hf. Lánið eigi því að koma að fullu í skattframtölum kæranda árin 2020, 2021 og 2022. Þessara leiðréttinga sé þörf þar sem kærandi þurfi að leggja skattframtölin fram sem dómskjöl í dómsmáli. Þá kemur fram í tölvupósti kæranda til yfirskattanefndar 31. maí 2023 að kærandi og sonur hennar hafi tekið lánið frá Birtu lífeyrissjóði til að fjármagna kaup sonarins á 27% hlut í M. Þar sem kærandi sé meðskuldari hvíli lánið að öllu leyti á henni, þ.e. 100%.

II.

Með bréfi, dags. 7. júní 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

III.

Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að vaxtagjöld af láni frá Birtu lífeyrissjóði vegna húseignar að M og eftirstöðvar lánsins verði færð að fullu hjá kæranda í skattframtölum hennar árin 2020, 2021 og 2022. Eins og fram er komið er kærandi eigandi að 73% hlut í húsnæðinu á móti syni sínum, D, sem er eigandi 27% hlutar í eigninni. Lánsins var ekki getið í skattframtölum kæranda umrædd ár, en með hinum kærða úrskurði hefur ríkisskattstjóri fallist á að færa vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna lánsins í lið 5.5 í skattframtölunum með öðrum skuldum og vaxtagjöldum til samræmis við eignarhlutdeild kæranda í húsnæðinu eða að 73% hlut. Er sú ákvörðun ágreiningslaus að öðru leyti en því að þess er krafist af hálfu kæranda að lánið verði fært að fullu í lið 5.5 með því að kærandi sé meðskuldari lánsins ásamt syni sínum og beri óskipta ábyrgð á greiðslu þess.

Á framtali skal gera grein fyrir skuldum skattaðila, sbr. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Eins og fram er komið keyptu kærandi og sonur hennar, D, íbúðina að M í sameiningu á árinu 2019 og voru frá þeim tíma bæði eigendur íbúðarinnar í þeim hlutföllum sem áður greinir, þ.e. kærandi eigandi að 73% hlut og D eigandi að 27% hlut. Um greiðslu afborgana og vaxta af láni frá Birtu lífeyrissjóði, sem mun hafa verið tekið til að fjármagna kaup á eignarhlut D í íbúðinni eftir því sem greinir í kæru til yfirskattanefndar, hefur ekkert komið fram í málinu. Að framangreindu athuguðu verður ekki talið að neinn grundvöllur sé fyrir kröfu kæranda þess efnis að vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda vegna lánsins verði færð að fullu í skattframtölum hennar árin 2020, 2021 og 2022 og getur tilhögun ábyrgðar á endurgreiðslu lánsins engu máli skipt í því sambandi. Verður því að hafna kröfu kæranda í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja