Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattsekt
- Skattrannsókn
Úrskurður nr. 124/2023
Lög nr. 90/2003, 109. gr. 1. mgr., 110. gr. 1. mgr. og 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 10. gr.) Reglugerð nr. 808/2022, 31. gr.
Í máli þessu sætti kæru ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda sekt að fjárhæð 40.350.000 kr. vegna brota á skattalögum. Þar sem kærandi stóð skil á endurákvörðuðum skatti innan tilsettra tímamarka lækkaði skattrannsóknarstjóri ákvarðaða sektarfjárhæð til greiðslu um helming eða í 20.175.000 kr. Þá greiddi kærandi sektina innan þriggja mánaða frá ákvörðun skattrannsóknarstjóra og féllst skattrannsóknarstjóri á að lækka sektarfjárhæð af þeim sökum í 15.131.250 kr., þ.e. um fjórðung fyrrgreindu fjárhæðarinnar. Fallist var á með kæranda að reikna bæri fjórðungs viðbótarafslátt af greiðslu sektarinnar frá hinni upphaflega ákvörðuðu sektarfjárhæð þannig að sektarfjárhæð yrði 10.087.500 kr. þar sem talið var að skilja yrði hlutaðeigandi reglugerðarákvæði á þann veg. Var krafa kæranda því tekin til greina.
Ár 2023, miðvikudaginn 23. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 77/2023; kæra A, dags. 22. mars 2023, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 22. mars 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun skattrannsóknarstjóra, dags. 28. desember 2022, um að gera kæranda sekt að fjárhæð 40.350.000 kr. fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna tekjuáranna 2017 til og með 2020. Af hálfu kæranda eru ekki gerðar athugasemdir við þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda sekt vegna brota á skattalögum en því haldið fram að sektarfjárhæð til greiðslu eigi ekki að nema hærri fjárhæð en 10.087.500 kr. Vísar kærandi í þessu sambandi til þess að sektarfjárhæðin verði greidd fyrir tiltekið tímamark og að vangoldin opinber gjöld kæranda umrædd ár samkvæmt úrskurði skattrannsóknarstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda séu að fullu greidd.
II.
Málavextir eru þeir að skattrannsóknarstjóri hóf hinn 21. febrúar 2022 rannsókn á tekjum og skattskilum kæranda vegna tekjuáranna 2017 til og með 2020. Leiddi rannsóknin í ljós að kærandi hefði vanrækt að gera grein fyrir tekjum frá einkahlutafélagi sínu, X ehf., í skattframtölum sínum gjaldárin 2018, 2019, 2020 og 2021, sem skattskyldar væru samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, sbr. einnig tölvupóst frá 10. október 2022, fór kærandi þess á leit við skattrannsóknarstjóra að tilteknar breytingar yrðu gerðar á skattframtölum X ehf. og kæranda. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2022, var kæranda sent niðurstöðuskjal skattrannsóknarstjóra samkvæmt 7. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, dags. 24. nóvember 2022, og tilkynnt um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 til og með 2021 og fyrirhugaða sektarákvörðun. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum vegna boðaðra ákvarðana. Með tölvupósti 20. desember 2022 tilkynnti kærandi að ekki stæði til að hreyfa andmælum vegna málsins.
Með úrskurði, dags. 28. desember 2022, endurákvarðaði skattrannsóknarstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárin 2018, 2019, 2020 og 2021. Í úrskurðinum kom fram að framlögð leiðréttingarbeiðni kæranda væri í samræmi við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra og því fyrirliggjandi grunnur til að byggja rétt skattskil á, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Hækkaði skattrannsóknarstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 4.854.124 kr. gjaldárið 2018, um 13.664.144 kr. gjaldárið 2019, um 40.184.116 kr. gjaldárið 2020 og um 4.618.676 kr. gjaldárið 2021.
Með bréfi, dags. 28. desember 2022, ákvarðaði skattrannsóknarstjóri kæranda sekt að fjárhæð 40.350.000 kr. með vísan til 109. gr. laga nr. 90/2003. Í ákvörðun skattrannsóknarstjóra voru helstu málavextir raktir og gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarskýrslu embættisins. Um ákvörðun sektarfjárhæðar sagði m.a. í ákvörðun skattrannsóknarstjóra að samkvæmt 4. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022 mætti lækka fjárhæð sektar um allt að helming hefði endurákvarðaður skattur vegna þeirra skattskila er hún varðaði verið greiddur innan tiltekins tíma. Þá mætti samkvæmt 5. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar lækka sekt um fjórðung væri hún greidd innan tiltekins tíma, en í 6. mgr. kæmi fram að sektarfjárhæð ákvarðaðist af öllum þeim þáttum sem fram kæmu í 2.–5. mgr. ákvæðisins sem þannig gætu myndað eina heild til grundvallar sektarákvörðun. Gæti því til þess komið að endanleg sektarfjárhæð til greiðslu lækkaði frá þeirri sektarfjárhæð sem upphaflega væri ákveðin. Var rakið nánar í bréfi skattrannsóknarstjóra að í 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 væri kveðið svo á að væru skattar gjaldanda hækkaðir eftir álagningu félli viðbótarfjárhæðin í gjalddaga 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra um hækkunina og væri eindagi mánuði eftir gjalddaga. Vísaði skattrannsóknarstjóri til þess að yrði endurákvarðaður skattur í málinu greiddur innan greinds eindaga, 7. febrúar 2023, myndi sektarfjárhæðin lækka um helming. Í niðurlagi bréfsins benti skattrannsóknarstjóri á að frestur til að greiða sektina með fjórðungsafslætti samkvæmt 5. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022 væru þrír almanaksmánuðir frá gjalddaganum að telja. Samkvæmt því stæði sá frestur sem veittur væri til að greiða sektina með fjórðungs afslætti til 8. maí 2023. Samkvæmt þessu réðist fjárhæð sektar sem kæmi til greiðslu að mati skattrannsóknarstjóra annars vegar af því hvort gjöld samkvæmt endurákvörðun vegna málsins hefðu verið greidd er gjalddagi sektarinnar rynni upp og hins vegar af því hvort sektin sjálf hefði verið greidd.
III.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 22. mars 2023, kemur fram að sekt sú sem kæranda hafi verið ákvörðuð hafi numið 40.350.000 kr. en fjórðungur af þeirri fjárhæð sé 10.087.500 kr. Að mati kæranda sé ljóst að lög og reglur á sviði skatta beri að túlka með ívilnandi hætti. Þar sem álagningin hafi verið greidd innan þeirra tímamarka sem tiltekin hafi verið í úrskurði skattrannsóknarstjóra, dags. 28. desember 2022, og ákvörðun embættisins um álagningu sektar, sé ljóst að sektarfjárhæðin skuli ekki vera hærri en 10.087.500 kr., svo framarlega sem fjárhæðin hafi verið greidd fyrir 8. maí 2023. Bendir kærandi á að kröfum þess efnis hafi áður verið beint að Skattinum sem hafi hafnað þeirri túlkun kæranda á ákvæðum reglugerðar nr. 808/2022. Þannig virðist embættið byggja á því að sektarfjárhæð skuli aðeins lækka um helming af því sem eftir standi eftir að fjárhæðin hafi verið lækkuð um helming í kjölfar greiðslu álagningar í kjölfar endurákvörðunar opinberra gjalda. Sé þess því krafist að kæranda verði aðeins gert að greiða 10.087.500 kr. í sekt í ljósi þess að endurálagning samkvæmt úrskurði skattrannsóknarstjóra hafi verið að fullu greidd fyrir 7. febrúar 2023.
IV.
Með bréfi, dags. 12. maí 2023, hefur skattrannsóknarstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða sektarákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattrannsóknarstjóra. Í umsögninni er rakið að það sé mat kæranda að túlka beri 5. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, með þeim hætti að stofn sektarinnar skuli vera hin ákvarðaða fjárhæð sem birtist í ákvörðun embættisins og miða skuli þann fjórðungsafslátt sem þar sé kveðið á um við þá fjárhæð svo sem nánar sé rakið. Skattrannsóknarstjóri hafni hins vegar túlkun kæranda og telji ekki leika vafa á að reikna beri hinn umrædda fjórðungs afslátt af þeirri sekt sem eftir standi eftir að álagðir skattar hafi verið greiddir. Skattrannsóknarstjóri líti svo á að, þrátt fyrir ákvarðaða sekt að fjárhæð 40.350.000 kr., að við síðar tilkomin og uppfyllt skilyrði um að endurákvarðaður skattur hafi verið greiddur, hafi ný krafa sektar orðið til. Sé þannig litið svo á að við hvert uppfyllt afsláttarskilyrði sem kveðið sé á um í reglugerð nr. 808/2002, verði til nýr höfuðstóll sektar, sem miða skuli við þegar frekari afslættir séu reiknaðir og veittir.
Er vísað til þess í umsögn skattrannsóknarstjóra að í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, komi fram að sekt skuli aldrei vera lægri en sem nemi tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Heimilt sé að ákvarða sekt lægri en lágmark sektar ef málsatvik eða aðstæður skattaðila mæla sérstaklega með því, svo sem ef skattaðili hafi leiðrétt skattskil sín, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða ef málsbætur eru miklar, sbr. ákvæði 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 10. gr. laga nr. 29/2021. Í 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022 hafi verið sett ákvæði varðandi beitingu þessarar heimildar. Vegna þeirra heimilda er um geti í 7. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar hafi verið vikið frá fyrrgreindu sektarlágmarki þar sem kærandi hefði leiðrétt skattskil sín áður en rannsókn málsins lauk. Að því skilyrði uppfylltu hafi orðið til ný sektarfjárhæð og með því sá höfuðstóll sem tilgreindur hafi verið í ákvörðun embættisins, að fjárhæð 40.350.000 kr. Þegar síðar endurákvarðaður skattur hafi verið greiddur hafi á ný verið uppfyllt skilyrði til afsláttar sem hafi fært greinda sekt niður um helming, þ.e. niður í 20.175.000 kr. Þar sem kærandi greiddi sektina innan þriggja mánaða þá hafi hann notið fullnaðarafsláttar, sem hafi verið fjórðungur til viðbótar og hafi endanleg fjárhæð sektarinnar þá verið 15.131.250 kr.
Að mati skattrannsóknarstjóra verði að líta heildstætt til atvika máls og málsmeðferðarinnar þegar afsláttarheimildum reglugerðarinnar sé beitt. Liggi það í hlutarins eðli að tilgreindur afsláttur af greiðslu fjárhæðar sem til greiðslu standi miðist við þá fjárhæð sem greiða beri en ekki þá hærri fjárhæð sem um ræddi áður en uppfyllt hafi verið það skilyrði sem leiddi til lækkunar. Þannig eigi ákvæði 5. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar um að heimilt sé að lækka sekt um fjórðung hafi hún verið greidd innan þess tíma sem tiltekinn hafi verið við þá sekt sem til greiðslu standi er skil séu gerð. Það sé sektin sem til sé vísað í umræddri 5. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar. Þannig hafi greiðsla gjalda samkvæmt endurákvörðun vegna þeirra skattskila sem sekt varði það í för með sér að sektin lækki þegar í stað um helming samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar. Sé kveðið á um afslátt af fjárhæð með tilteknu hlutfalli sé fjárhæð greidd innan ákveðins tíma hljóti það að verða hlutfall af þeirri fjárhæð sem greiða beri, sbr. hljóðan 5. mgr. 31. gr.
Í niðurlagi umsagnarbréfs skattrannsóknarstjóra er tekið fram að fyrirséð hafi verið að ákvörðuð sekt í málinu yrði 53.800.000 kr. væri einvörðungu miðað við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra, sbr. ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Í ljósi þess að kærandi hafi leiðrétt skattskil sín hafi skilyrði verið uppfyllt til að beita heimild 7. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022 og sektarfjárhæð færð niður fyrir lágmark sektarfjárhæðar samkvæmt lögunum. Verði fallist á röksemdafærslu kæranda, megi jafnvel á grundvelli sömu sjónarmiða halda því fram að reikna ætti alla afslætti á hina upprunalegu og fyrirséðu fjárhæð sektar, þ.e. þá sekt sem samræmist meginreglunni um að sekt skuli aldrei vera lægri en sem nemi tvöfaldri undanskotinni fjárhæð, en með slíkum útreikningum yrði sektin að engu yrði öllum afsláttarskilyrðum mætt.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2023, hefur umboðsmaður kæranda lagt fram athugasemdir vegna umsagnar skattrannsóknarstjóra. Er tekið fram í bréfinu að túlkun skattrannsóknarstjóra byggi ekki á neinum þeim gögnum sem kynnu eða ættu að hafa orðið til við setningu reglugerðar nr. 808/2022. Verði fallist á túlkun skattrannsóknarstjóra feli það í sér að íþyngjandi túlkun skattyfirvalda á beitingu sektarákvæða verði ofan á, sem sé í ósamræmi við almenn lagatúlkunarsjónarmið þess efnis að íþyngjandi ákvæði skuli ávallt túlka almennum borgurum í hag. Það eitt að framkvæmd þessara mála hafi áður verið meira íþyngjandi leiði ekki til þess að túlka beri ákvæði reglugerðarinnar með íþyngjandi hætti. Þvert á móti sé á því byggt í málinu, að vegna þess að ráðuneytið hafi kosið að breyta framkvæmd skattamála með þeim hætti sem gert hafi verið í reglugerð nr. 808/2022, hafi það verið gert til þess að auka heimtur fjár í sambærilegum málum og gera einstaklingum og lögaðilum kleift að greiða álagðar sektir. Með úrskurði skattrannsóknarstjóra hafi kæranda verið gert að sæta endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2018 til og með 2021. Hafi honum borið að greiða sekt að fjárhæð 40.350.000 kr. Tekið hafi verið fram í úrskurðinum að væri endurálagningin að fullu greidd fyrir 5. febrúar 2023, myndi sektarfjárhæðin lækka um helming, samkvæmt ákvæði 4. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Kærandi hafi greitt endurálagninguna að fullu 1. febrúar 2023 og eftir hafi því staðið 20.175.000 kr. Ljóst sé að sekt sú sem kæranda hafi verið ákvörðuð hafi verið upp á 40.350.000 kr. og sé það stofn hennar en fjórðungur af þeirri fjárhæð sé 10.087.500 kr. Þá er ítrekað að skattalög og reglur á grundvelli skattalaga beri að túlka með ívilnandi hætti fyrir skattaðila. Þar sem álagningin hafi verið greidd innan þeirra tímamarka sem tiltekin hafi verið í úrskurði skattrannsóknarstjóra og ákvörðun embættisins nr. 32/2022, sé ljóst að sektarfjárhæðin skuli ekki vera hærri en 10.087.500 kr., svo framarlega sem fjárhæðin sé greidd fyrir 8. maí 2023, sem hafi og verið gert.
V.
Í 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Í 1. mgr. 110. gr. sömu laga er mælt fyrir um að skattrannsóknarstjóri leggi á sektir samkvæmt 109. gr. nema máli sé vísað til meðferðar hjá lögreglu samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara samkvæmt 121. gr. laganna. Í 1. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003 er síðan mælt fyrir um að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna, svo sem um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sem gert hefur verið með reglugerð nr. 808/2022.
Fjallað er um sektir í 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Kemur þar fram í 1. mgr. að ríkisskattstjóri (skattrannsóknarstjóri) geti lokið refsimeðferð máls með ákvörðun sektar samkvæmt 109. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 90/2003 og geti sektir numið frá 100 þúsund krónum til 100 milljóna króna. Í 2. mgr. kemur fram að við ákvörðun sektarfjárhæðar skuli hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota og heildarmati allra atvika máls. Skuli þar m.a. litið til þess hvort brot sé ítrekað, brotastarfsemi langvarandi eða skipulögð. Þá skuli litið til þess hve alvarlegt brotið er með tilliti til saknæmisstigs og fjárhæðar undandregins eða vangreidds skatts. Geti sektir numið allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni, sbr. þó 1. mgr. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að heimilt sé að ákvarða sekt lægri en lágmark sektar ef málsatvik eða aðstæður skattaðila eða sakbornings mæli sérstaklega með því, svo sem ef skattaðili hefur leiðrétt skattskil sín, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 og hliðstæð ákvæði annarra skattalaga. Gæta skuli ákvæða 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eftir því sem við eigi, þ. á m. ef skattaðili hafi af sjálfsdáðum sagt til brots eða bætt úr því tjóni sem hann olli. Í 4. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar er svo kveðið á um að ákveða megi að fjárhæð sektar lækki um allt að helming hafi endurákvarðaður skattur vegna þeirra skattskila er hún varðar verið greiddur innan tiltekins tíma. Einskorðist brotið við vanhöld á greiðslu vörslufjár sé heimilt að lækka sekt enn frekar við greiðslu vangoldinna skatta innan tiltekins tíma. Í 5. mgr. er tekið fram að heimilt sé að lækka sekt um fjórðung hafi hún verið greidd innan þess tíma sem tiltekinn hefur verið. Þá kemur fram í 6. mgr. ákvæðisins að sektarfjárhæð ákvarðist af öllum þeim þáttum er fram komi í 2.-5. mgr. er þannig geti myndað eina heild til grundvallar sektarákvörðun. Í 7. mgr. er svo tekið fram að hafi skattaðili leiðrétt skattskil sín fyrir lok rannsóknar sé heimilt að ákvarða sekt með verulega lægri fjárhæð en lágmarkssekt nemur og taka mið af því hversu málsbætur eru miklar. Til að máli verði lokið með þeim hætti skuli skattaðili viðurkenna brot sín með framlagningu leiðréttra skattskilagagna þar til samræmis, enda fallist ríkisskattstjóri á réttmæti þeirra. Ljúki máli á framangreindan hátt sé ekki gerð skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar heldur skuli helstu atvik málsins tekin saman í stuttu máli í niðurstöðuskjali þar sem fram komi helstu atriði varðandi málið, svo sem hverju hafi verið áfátt í skattskilum og hversu úr hafi verið bætt með leiðréttingu, sem og fjárhæð sektar. Ekki sé þó heimilt að ljúka máli með þessu móti sé verknaður framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auki mjög á saknæmi brotsins.
Í málinu er fram komið að með rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda vegna tekjuáranna 2017, 2018, 2019 og 2020 voru leiddir í ljós annmarkar á skattskilunum sem gerð er grein fyrir í niðurstöðuskjali skattrannsóknarstjóra, dags. 24. nóvember 2022. Fyrir lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra lagði kærandi fram leiðrétt skattskilagögn sem ríkisskattstjóri féllst á. Vegna umræddra annmarka ákvarðaði skattrannsóknarstjóri kæranda skattsekt að fjárhæð 40.350.000 kr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003. Vegna leiðréttingar kæranda á skattskilum sínum var sektarfjárhæð ákvörðuð lægri en lögbundið fésektarlágmark stóð til, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 7. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Óumdeilt er að kærandi stóð skil á endurákvörðuðum skatti samkvæmt úrskurði skattrannsóknarstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017 til og með 2020, dags. 28. desember 2022, innan tilgreindra tímamarka og lækkaði skattrannsóknarstjóri af þeim sökum ákvarðaða sektarfjárhæð til greiðslu um helming samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022, þ.e. úr 40.350.000 kr. í 20.175.000 kr. Enn fremur liggur fyrir að kærandi greiddi sekt skattrannsóknarstjóra samkvæmt ákvörðun embættisins, dags. sama dag, innan þriggja mánaða. Vegna þessa lækkaði skattrannsóknarstjóri sektarfjárhæð til greiðslu úr 20.175.000 kr. í 15.131.250 kr., þ.e. um fjórðung fyrrgreindu fjárhæðarinnar, með vísan til 5. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Snýr ágreiningur málsins að því hvort þessi fjórðungs viðbótarafsláttur af greiðslu sektarinnar skuli reiknast frá upphaflega ákvarðaðri sektarfjárhæð 40.350.000 kr. þannig að endanleg fjárhæð til greiðslu nemi 10.087.500 kr., svo sem kærandi heldur fram, eða hvort reikna skuli afsláttinn frá sektarfjárhæðinni eins og hún var þegar tekið hafði verið tillit til helmingsafsláttar 20.175.000 kr., sem kæranda var veittur eftir að hafa greitt vangoldin opinber gjöld innan tilsettra tímamarka, svo sem ríkisskattstjóri miðaði við.
Svo sem rakið hefur verið kemur fram í 6. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 808/2022, um þær sektir sem ákvarðaðar eru af skattrannsóknarstjóra (ríkisskattstjóra), að sektarfjárhæð ákvarðist af öllum þeim þáttum er fram komi í 2.-5. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar er þannig geti myndað eina heild til grundvallar sektarákvörðun. Hvað sem þessu ákvæði líður verður ekki annað séð af gögnum málsins en að eina stjórnvaldsákvörðunin sem fyrir liggur um skattsekt á hendur kæranda sé ákvörðun skattrannsóknarstjóra frá 28. desember 2022 þar sem sektarfjárhæð var ákvörðuð 40.350.000 kr. með fyrirvörum um lækkun fjárhæðarinnar kæmi til greiðslna ákvarðaðra skatta eða sektarinnar sjálfrar innan tilgreindra tímamarka. Skilja verður ákvæði 4. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar, um að heimilt sé að lækka sekt um allt að helming hafi endurákvarðaður skattur vegna þeirra skattskila er hún varðar verið greiddur innan tiltekins tíma, og ákvæði 5. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar, um að heimilt sé að lækka sekt um fjórðung hafi hún verið greidd innan þess tíma sem tiltekinn hefur verið, þannig að þar sé vísað til hinnar upphaflega ákvörðuðu sektarfjárhæðar, þ.e. 40.350.000 kr. í tilviki kæranda. Að þessu virtu þykir mega fallast á með kæranda að umræddur fjórðungs afsláttur reiknist af upphaflegri ákvarðaðri sektarfjárhæð 40.350.000 kr. og nemi því 10.087.500 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina.