Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Bílaleigubifreið
Úrskurður nr. 126/2023
Lög nr. 29/1993, 6. gr., bráðabirgðaákvæði XIX (brl. nr. 140/2020, 15. gr.)
Tollgæslustjóri leit svo á að kæranda, sem var ökutækjaleiga, bæri að endurgreiða mismun vörugjalds vegna innflutnings bifreiða á árinu 2022 þar sem kærandi hefði ekki staðið við skuldbindingu um innkaup vistvænna bifreiða á því ári. Taldi tollgæslustjóri að þrátt fyrir að kærandi hefði keypt 243 vistvæn ökutæki á árinu 2022, og hlutfall vistvænna ökutækja af heildarinnkaupum kæranda á 919 ökutækjum því verið yfir lögbundnu 25% lágmarki á árinu, bæri að taka tillit til þess að kærandi hefði selt 19 hinna vistvænu ökutækja í árslok og því einungis átt 224 vistvæn ökutæki að þeirri sölu afstaðinni. Yfirskattanefnd taldi bæði orðalag viðkomandi lagaákvæðis og samanburðarskýringu mæla eindregið gegn túlkun tollyfirvalda sem auk þess var ekki talin fá neinn stuðning af tiltækum lögskýringargögnum. Var krafa kæranda um ógildingu ákvörðunar tollgæslustjóra tekin til greina.
Ár 2023, miðvikudaginn 23. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 85/2023; kæra A hf., dags. 30. mars 2023, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 30. mars 2023, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 9. mars 2023, vegna ákvörðunar tollgæslustjóra frá 24. janúar 2023 um að gera kæranda, sem er ökutækjaleiga, að greiða mismun vörugjalds að viðbættu 10% álagi á grundvelli laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. bráðabirgðaákvæði XIX í lögum þessum. Var ákvörðun tollgæslustjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. m.a. bréf tollgæslustjóra til kæranda, dags. 22. nóvember 2022, byggð á því að af hálfu kæranda hefði ekki verið staðið við skuldbindingu sem félagið hefði gengist undir um kaup rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða á árinu 2022, sbr. ákvæði 3. tölul. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XIX í lögum nr. 29/1993. Af því leiddi að kæranda bæri að endurgreiða mismun samkvæmt ákvæði þessu af öllum ökutækjum sem tekið hefðu lækkun af þessum sökum á innkaupsári að viðbættu 10% álagi, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Vísaði tollgæslustjóri til þess að af heildarinnkaupum kæranda á alls 919 ökutækjum á árinu 2022 hefðu 243 ökutæki verið vistvæn. Til að uppfylla skilyrði laganna þyrfti kærandi að eiga 230 vistvæn ökutæki, en með sölu 19 ökutækja af fyrrnefndum 243 ökutækjum til annars fyrirtækis væru ekki uppfyllt skilyrði um nýtingu og skráningu í 15 mánuði frá kaupum ökutækis, sbr. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX. Heildarfjöldi vistvænna ökutækja sem féllu undir gildissvið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXIV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri því 224 ökutæki. Þá kom fram að mismunur vegna lækkunar vörugjalds, sem kæranda bæri að standa skil á vegna þessa, næmi 189.291.452 kr. vegna samtals 628 ökutækja sem notið hefðu lækkunar.
Vegna þeirra sjónarmiða kæranda í kæru til tollgæslustjóra, dags. 30. janúar 2023, að skýra yrði 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 svo að eingöngu væri vísað til vistvænna ökutækja sem keypt hefðu verið af ökutækjaleigu á viðkomandi ári án tillits til ökutækja sem hefðu verið seld á sama ári, tók tollgæslustjóri fram í hinum kærða úrskurði að með hliðsjón af ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. og 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins yrði að túlka lög svo að skilyrði um lágmarkshlutfall vistvænna ökutækja teldist ekki vera uppfyllt ef slík ökutæki væru seld innan 15 mánaða frá kaupum þeirra þannig að hlutfall færi undir lágmarkið. Þar sem kærandi hefði selt 19 ökutæki innan 15 mánaða frá kaupum þeirra hefði hlutfall vistvænna ökutækja hjá kæranda farið undir 25% lágmark og skipti engu máli í því sambandi þótt ökutækin hefðu verið seld annarri ökutækjaleigu. Önnur túlkun laga hefði í för með sér að ökutækjaleigur gætu með kaupum og sölu ökutækja innan skamms tíma komist hjá því að nota vistvæn ökutæki í rekstri sínum sem færi gegn tilgangi ákvæðisins um að stuðla að hraðari orkuskiptum. Þá fæli bráðabirgðaákvæði XIX í sér undanþágu frá vörugjaldi, sbr. 3. gr. laga nr. 29/1993, en viðurkennt væri að skýra bæri slíkar skattundanþágur þröngt.
II.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun tollgæslustjóra verði felld úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Er greint frá atvikum málsins og tekið fram að krafa kæranda sé byggð á sömu sjónarmiðum og fram komi í kæru til tollgæslustjóra, dags. 30. janúar 2023. Aðallega sé krafa kæranda byggð á því að túlkun tollgæslustjóra á bráðabirgðaákvæði XIX í lögum nr. 29/1993 sé of víð og rúmist ekki innan orðalags ákvæðisins, sbr. og viðtekin lögskýringarsjónarmið um túlkun íþyngjandi skattalagaákvæða. Skuldbinding ökutækjaleigu samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins sé fólgin í því að af heildarinnkaupum ökutækja á ári séu 25% vegna kaupa á vistvænum ökutækjum. Skýrsla, sem ökutækjaleigu sé gert að afhenda tollyfirvöldum samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX, geti aldrei verið grundvöllur athugunar á því hvort skilyrði um nýtingu og skráningu í 15 mánuði sé uppfyllt heldur einungis hvort staðið hafi verið við skuldbindingu um hlutfall kaupa vistvænna ökutækja af heildarinnkaupum. Þessi staðreynd styðji túlkun kæranda, sbr. ennfremur ákvæði 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins þar sem mælt sé fyrir um viðurlög vegna brota á skilyrði um notkun ökutækis. Þá sé vísað til ummæla fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi, sbr. þskj. 438 á 152. löggjafarþingi 2021-2022 þar sem áhersla sé lögð á meginskuldbindingu um innkaup vistvænna ökutækja. Í kæru kæranda er fjallað nánar um túlkun ákvæða skattalaga með hliðsjón af reglum stjórnskipunarlaga, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, og vikið að nokkrum dómum Hæstaréttar Íslands í því sambandi, þ.e. dómum réttarins 28. janúar 2016 í máli nr. 282/2015, 9. febrúar 2006 í máli nr. 351/2005 og 20. desember 1994 í máli nr. 489/1991. Þá sé vísað til dóms Hæstaréttar 19. desember 1996 í máli nr. 432/1995 þar sem vafi um skýringu skattalaga hafi verið virtur skattþegni í vil. Skattalög verði ekki túlkuð skattaðila í óhag með hliðsjón af ætluðum löggjafarvilja ef niðurstaðan verður ekki ráðin af beinu orðalagi laga, sbr. dóm Hæstaréttar 2. desember 2004 í máli nr. 465/2004.
Í kærunni kemur fram að verði ekki fallist á framangreind sjónarmið sé byggt á því til vara að reglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og málefnaleg sjónarmið girði fyrir beitingu 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í tilviki kæranda. Hreint aðgæsluleysi kæranda hafi orðið þess valdandi að umrædd 19 ökutæki hafi verið meðal þeirra ökutækja sem seld voru í árslok 2022. Vegna villu í tölvukerfi kæranda hafi auðkenning ökutækjanna brostið og um leið og mistökin hafi orðið ljós hafi viðskipti með ökutækin verið látin ganga til baka. Þá megi líta til þess að þrátt fyrir framangreint hafi hlutfall vistvænna ökutækja hjá kæranda numið 24,4% þegar skýrsla hafi verið send tollyfirvöldum, þ.e. einungis 0,6% hafi vantað upp á. Kaupandi ökutækjanna hafi verið Y ehf., systurfélag kæranda sem hafi einnig með höndum leigu bifreiða. Notkun ökutækjanna hafi því verið nákvæmlega hin sama og áður, þ.e. hefðbundin útleiga, og þannig í samræmi við markmið bráðabirgðaákvæðis XIX um notkun vistvænna ökutækja um 15 mánaða skeið.
Í niðurlagi kærunnar er vikið að málskostnaðarkröfu kæranda og vísað til gagna sem fylgi kærunni, þ.e. afrita sölureikninga og vinnuyfirlits.
III.
Með bréfi, dags. 16. maí 2023, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í umsögn tollgæslustjóra er m.a. tekið fram að ákvæði 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 væri marklítið ef litið yrði svo á að ekki væri unnt að beita viðurlögum samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins þegar vistvæn ökutæki uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. þess, þar með talið ákvæði 4. tölul. Þrátt fyrir að viðurlög samkvæmt 5. mgr. séu vissulega íþyngjandi sé bráðabirgðaákvæði XIX í heild sinni ívilnandi og feli í sér undanþágu frá vörugjaldi. Að mati tollyfirvalda sé ákvæðið afar skýrt og veiti ekki svigrúm til slíkrar túlkunar sem kærandi haldi fram. Að öðru leyti sé vísað til hins kærða úrskurðar.
Með bréfi, dags. 31. maí 2023, hefur kæranda komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn tollgæslustjóra. Í bréfinu eru áður fram komin sjónarmið kæranda áréttuð og lögð á það rík áhersla að viðurlög á grundvelli 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 geti samkvæmt efni sínu með engu móti tekið til skuldbindingar ökutækjaleigu um nýtingu og skráningu ökutækis í 15 mánuði. Takmarkist málsgreinin við brot gegn þeirri skuldbindingu sem þar sé vísað til um lágmarkshlutfall ökutækja af heildarinnkaupum, sbr. b-lið 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
IV.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með áorðnum breytingum, skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, svo sem nánar greinir í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1993 nær gjaldskyldan til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Í 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. laganna segir að gjaldskyldir samkvæmt lögum þessum séu allir þeir sem flytji til landsins vörur sem séu gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum hvort sem er til endursölu eða eigin nota. Um gjaldflokka ökutækja er fjallað í 3. gr. laganna. Í lagagrein þessari er mælt fyrir um álagningu vörugjalds á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr. laganna, miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Samkvæmt 6. gr. laganna skal innflytjandi ökutækis afhenda tollyfirvöldum með aðflutningsskýrslu staðfestingu um forskráningu ökutækis þar sem m.a. skal gerð grein fyrir skráðri koltvísýringslosun þess.
Með lögum nr. 140/2020, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, var nýju ákvæði til bráðabirgða, sem varð ákvæði til bráðabirgða XIX, bætt við lög nr. 29/1993, sbr. 15. gr. laga nr. 140/2020. Í ákvæði þessu kemur fram í 1. mgr. að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993 skuli á árunum 2021 og 2022 lækka skráða losun koltvísýrings ökutækja sem undir ákvæðið falla um 30% áður en til álagningar vörugjalds kemur vegna ökutækja sem ætluð eru til útleigu hjá ökutækjaleigum. Lækkunin geti þó aldrei numið hærri fjárhæð en 400.000 kr. á hvert ökutæki og sé háð nánar tilgreindum skilyrðum, þar með talið að ökutækjaleiga gangist undir skuldbindingu þess efnis að hún muni kaupa inn ökutæki sem falli undir gildissvið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt (rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar) á árunum 2021-2022 sem nemi tilgreindum hluta heildarinnkaupa ökutækja hvort ár eða 15% fyrra árið og 25% það síðara, sbr. a- og b-lið 3. tölul. málsgreinarinnar. Þá skuli ökutækin eingöngu nýtt til útleigu hjá ökutækjaleigu sem sé skráð fyrir þeim, sbr. 4. tölul. Er tekið fram að þeim sem hlotið hafi lækkun samkvæmt 1. mgr. sé heimilt að selja bifreið eða taka hana til annarrar notkunar en til útleigu hjá ökutækjaleigu innan fimmtán mánaða tímabils, sbr. 1. mgr., enda greiði hann hluta eftirgefins vörugjalds í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir sé af tímabilinu. Samkvæmt 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX þurfa ökutæki sem falla undir gildissvið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt að uppfylla skilyrði 1. mgr. um nýtingu og skráningu í 15 mánuði frá kaupum ökutækis.
Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX kemur fram að eigi síðar en 15. janúar næsta almanaksár samkvæmt a- og b-lið 3. tölul. 1. mgr. skuli ökutækjaleiga afhenda tollyfirvöldum skýrslu á því formi sem þau ákveða þar sem gerð er grein fyrir því hvernig hafi verið staðið við skuldbindingu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. Hafi ökutækjaleiga ekki staðið við skuldbindinguna skuli hún greiða mismun samkvæmt 1. mgr. af öllum ökutækjum sem hafa tekið lækkun samkvæmt 1. mgr. á innkaupsári í ríkissjóð að viðbættu 10% álagi eigi síðar en fyrsta virka dag febrúarmánaðar næsta almanaksárs eftir innkaupsár. Í ákvæðinu eru síðan nánari ákvæði um fullnustu þeirrar kröfu. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 140/2020 öðluðust lögin gildi 1. janúar 2021 og kom bráðabirgðaákvæði XIX, sbr. 15. gr. laga nr. 140/2020, til framkvæmda 1. febrúar 2021, sbr. 8. mgr. þess.
Kærandi í máli þessu er hlutafélag um rekstur ökutækjaleigu, sbr. lög nr. 65/2015, um leigu skráningarskyldra ökutækja. Er kæruefni málsins sú ákvörðun tollgæslustjóra, sem kæranda var tilkynnt með bréfi embættisins, dags. 24. janúar 2023, og staðfest var með hinum kærða úrskurði, dags. 9. mars 2023, að gera félaginu að greiða mismun vörugjalds samkvæmt 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 að viðbættu 10% álagi vegna lækkunar á skráðri losun koltvísýrings tilgreindra ökutækja við álagningu vörugjalds eftir lögunum, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Var ákvörðunin byggð á því að kærandi hefði ekki staðið við skuldbindingu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX, sem kærandi hefði undirgengist, um að innkaup félagsins á vistvænum ökutækjum, þ.e. rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum, á árinu 2022 næmu a.m.k. 25% af heildarinnkaupum félagsins á ökutækjum á því ári. Óumdeilt er að kærandi keypti alls 919 ökutæki á árinu 2022 og þar af voru 243 ökutæki vistvæn í greindum skilningi. Miðað við þetta er ljóst að hlutfall keyptra vistvænna ökutækja af heildarinnkaupum ökutækja á árinu 2022 er út af fyrir sig yfir lágmarki b-liðar 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í tilviki kæranda. Tollgæslustjóri taldi hins vegar að taka bæri tillit til þess að kærandi hefði selt 19 hinna vistvænu ökutækja í árslok 2022 og því einungis átt 224 vistvæn ökutæki að þeirri sölu afstaðinni. Kærandi hefði því ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX um nýtingu og skráningu í 15 mánuði frá kaupum ökutækis í tilviki hinna seldu ökutækja og því ekki staðið við skuldbindingu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Bæri kæranda því að greiða mismun vörugjalds af öllum ökutækjum sem tekið hefðu lækkun samkvæmt 1. mgr. á innkaupsári, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
Samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins í 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 tekur sú skuldbinding ökutækjaleigu sem þar greinir eingöngu til þess að kaup hlutaðeigandi ökutækjaleigu á vistvænum ökutækjum á árunum 2021 og 2022 nemi tilteknu hlutfalli af heildarfjölda keyptra ökutækja sama aðila á sama ári eða 15% fyrra árið og 25% það síðara. Í ákvæðinu er enginn fyrirvari gerður um sölu ökutækja á sömu árum, hvorki vistvænna ökutækja né annarra, eða að hlutfall vistvænna ökutækja af heildarfjölda ökutækja í eigu viðkomandi ökutækjaleigu í árslok þurfi að vera yfir fyrrgreindu lágmarki. Þá kemur engin ráðagerð um slíkt fram í tiltækum lögskýringargögnum, sbr. einkum álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga nr. 140/2020, sbr. þskj. 572 á 151. löggjafarþingi 2020-2021. Þá er ástæða til að taka fram, vegna forsendna tollgæslustjóra, að í 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX er ökutækjaleigu, sem hlotið hefur lækkun vörugjalds samkvæmt 1. mgr., berum orðum heimilað að selja bifreið eða taka hana til annarrar notkunar en til útleigu innan fimmtán mánaða tímabils með þeirri réttarverkan sem þar greinir, þ.e. að staðin séu skil á hluta eftirgefins vörugjalds í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir sé af fimmtán mánaða tímabilinu. Í fyrrgreindu nefndaráliti er m.a. vikið að greindri kvöð um notkun og endursölu og tekið fram að ökutækjaleiga geti ákveðið að selja ökutæki eða taka það til annarrar notkunar með fyrrgreindum áhrifum. Ekkert kemur fram í nefndarálitinu þess efnis að sala ökutækis innan fimmtán mánaða tímabilsins hafi neins konar áhrif á skuldbindingu ökutækjaleigu um kaup vistvænna ökutækja samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX.
Í umsögn tollgæslustjóra í málinu er vikið að þýðingu 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í þessu sambandi og talið að ákvæðið yrði marklítið ef litið yrði svo á að ekki væri unnt að beita viðurlögum samkvæmt 5. mgr. í þeim tilvikum þegar skilyrði um nýtingu og skráningu séu ekki uppfyllt. Af því tilefni skal tekið fram að í áðurnefndu nefndaráliti er vikið að ákvæði 4. mgr. með þeim orðum að áskilnaði um nýtingu og skráningu vistvænna ökutækja í 15 mánuði frá kaupum sé ætlað að tryggja að þau ökutæki, sem mynda hlutfall vistvænna ökutækja í innkaupum ökutækjaleigu og séu skilyrði ívilnunar, séu í reynd ætluð til notkunar um einhvern tíma hjá ökutækjaleigu sem nýtur ívilnunarinnar. Af þessu og ákvæðinu sjálfu verður því ekki dregin víðtækari ályktun en sú að sömu reglur skuli gilda að þessu leyti um vistvæn ökutæki og önnur þannig að komi til þess að vistvænt ökutæki sé selt eða tekið til annarrar notkunar en til útleigu innan fimmtán mánaða tímabilsins komi til kasta 3. mgr. eða eftir atvikum 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið verður að telja að bæði orðalag 3. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993 og samanburðarskýring við bráðabirgðaákvæðið í heild sinni mæli eindregið gegn túlkun tollgæslustjóra í málinu sem aukinheldur þykir ekki fá neinn stuðning af tiltækum lögskýringargögnum. Í hinum kærða úrskurði tollgæslustjóra er m.a. vísað til þess markmiðs bráðabirgðaákvæðis XIX að hraða orkuskiptum í samgöngum. Ganga má út frá því að slíkum markmiðum sé að mestu náð með kaupum ökutækjaleigu á vistvænum ökutækjum og nýskráningu þeirra og notkun hér á landi með tilheyrandi fækkun ökutækja sem brenna jarðefnaeldsneyti. Þá verður að taka undir með kæranda að þótt bráðabirgðaákvæði XIX feli vissulega í sér skattaívilnun, þ.e. lækkun vörugjalds, reynir í málinu fyrst og fremst á beitingu íþyngjandi ákvæðis 5. mgr. þess sem m.a. mælir fyrir um ákvörðun viðurlaga, þ.e. 10% álags. Verður því ekki talið að viðhlítandi rök standi til þess að skýra lög svo rúmt sem niðurstaða tollgæslustjóra felur í sér, sbr. viðtekin sjónarmið við túlkun skattalaga.
Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á efnislegar forsendur tollgæslustjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun. Er krafa kæranda því tekin til greina. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er tollgæslustjóra því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.
Rétt er að taka fram að vegna sölu hinna vistvænu ökutækja kæranda, sem málið snýst um, á árinu 2022 er hvað sem öðru líður ljóst að í tilviki kæranda kann að koma til leiðréttingar vörugjalds vegna ákvæða 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis XIX í lögum nr. 29/1993, sbr. hér að framan. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun tollgæslustjóra var að engu leyti byggð á því ákvæði.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Er málskostnaðarkrafan sérstaklega rökstudd í kæru og í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 31. maí 2023. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna málsins nemur 2.342.171 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna um 73 klukkustunda vinnu sérkunnáttumanna við málið samkvæmt framlögðum sölureikningum, en í fyrrnefndu bréfi er jafnframt gerð grein fyrir kostnaði að fjárhæð 511.417 kr. með virðisaukaskatti vegna tæplega 18 klukkustunda vinnu í tilefni af umsögn tollgæslustjóra. Ekki verður talið að hér sé að öllu leyti um kostnað að ræða sem eðlilegt sé að til hafi verið stofnað vegna málsins, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, og er þá litið til þess að málið varðar afmarkað sakarefni auk þess sem öll gögn, málsástæður og lagarök kæranda, sem máli skipta, lágu fyrir þegar við meðferð málsins hjá tollgæslustjóra, sbr. kæru kæranda, dags. 30. janúar 2023. Með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 400.000 kr. og er þá miðað við u.þ.b. 15 tíma vinnu sérkunnáttumanns við kæru til yfirskattanefndar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 400.000 kr.