Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 590/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 7. gr. C-liður 2. tl. 2. mgr. — 100. gr. 3. og 5. mgr. — 116. gr.
Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Húsaleigutekjur, reiknaðar — Reiknaðar húsaleigutekjur — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Sifjalið — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Fordæmisgildi stjórnvaldsákvörðunar — Fyrri skattframkvæmd
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem á heimilisfesti hér á landi en býr í Bandaríkjunum, á íbúð, sem dóttir hans hafði endurgjaldslaus afnot af. Með bréfi, dags. 26. júlí 1990, færði skattstjóri kæranda til tekna reiknaðar húsaleigutekjur 55.863 kr. vegna íbúðar þessarar, sbr. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda var tekjufærslu þessari mótmælt í kæru, dags. 1. ágúst 1990. Skattstjóri synjaði kærunni með kæruúrskurði, dags. 22. nóvember 1990, með vísan til bréfs síns, dags, 26. júlí 1990, og þess að „endurgjaldslaus afnot af íbúðinni flokkast eigi undir afnot t.d. barns í námi eða annarra svipaðra aðstæðna,“ eins og sagði í úrskurðinum. Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 18. desember 1990. Í bréfi, dags. 19. febrúar 1991, var kröfugerð lögð fram. Þess er getið, að kærandi dveljist í húsinu, þegar hann sé hér á landi. Húsið stæði autt, ef dóttir kæranda byggi þar ekki. Dvöl hennar þar væri tímabundin, þar sem hún og sambýlismaður hennar væru að byggja íbúðarhúsnæði, og væri byggingin langt komin. Þá var vísað til úrskurðar ríkisskattstjóra, dags. 28. desember 1982 (mál 1-1-3-1211), þar sem forsendur væru þær sömu og kröfur gjaldkrefjenda teknar til greina.
Með bréfi, dags. 21. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda á máli þessu.
Undanþágu þá, sem greinir í lokamálslið 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að skýra svo, að afnot dóttur kæranda af íbúð hans á árinu 1989 teljist eins og á stendur falla undir notkun til eigin þarfa hans í skilningi þessa undanþáguákvæðis. Er krafa kæranda því tekin til greina.