Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Yfirfærsla greiddra skatta erlendis

Úrskurður nr. 139/2023

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Tvísköttunarsamningur milli Norðurlandanna, 15. gr.   Norðurlandasamningur um aðstoð í skattamálum, 20. gr.  

Í skattframtali kæranda árið 2021 var gerð grein fyrir sænskum tekjum og greiddum sköttum í Svíþjóð. Sænsk skattyfirvöld litu svo á að tekjur kæranda ættu að skattleggjast á Íslandi í samræmi við tvísköttunarsamning milli Norðurlandanna og voru greiddir skattar kæranda í Svíþjóð í kjölfar þess yfirfærðir til Íslands í febrúar 2023. Í málinu var deilt um það hvaða gengi bæri að leggja til grundvallar við yfirfærslu sænsks skatts í íslenskar krónur. Yfirskattanefnd taldi að miða bæri umreikning skattfjárhæðarinnar í íslenskar krónur við gengi þess dags þegar yfirfærslan fór fram á árinu 2023, enda yrði að byggja á því að skattgreiðslan hefði þá fyrst orðið aðgengileg móttakanda hennar, þ.e. íslenskum skattyfirvöldum, og getað komið til frádráttar álögðum opinberum gjöldum hér á landi.

Ár 2023, mánudaginn 11. september, er tekið fyrir mál nr. 122/2023; kæra A, dags. 2. júní 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 2. júní 2023, er endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 2. mars 2023, með tilliti til tekna kæranda vegna vinnu í þágu erlends launagreiðanda, þ.e. sænska félagsins F AB. Af hálfu kæranda er þess krafist að skattlagning verði ákvörðuð miðað við lægri fjárhæð sænskra tekna og hærri fjárhæð greiddra skatta í Svíþjóð en ríkisskattstjóri lagði til grundvallar í úrskurði sínum.

II.

Í skattframtali sínu árið 2021 gerði kærandi gerði grein fyrir erlendum tekjum frá F AB í Svíþjóð að fjárhæð 633.476 SEK og greiddum sköttum erlendis að fjárhæð 182.376 SEK. Í skattframtalinu var gengi sænskrar krónu gagnvart íslenskri krónu tilgreint 15 og erlendar tekjur því tilfærðar 9.502.140 kr. Í athugasemdareit í skattframtalinu gat kærandi þess að hann hefði haft aðsetur á Íslandi allt árið 2020 og starfað fyrir hið sænska fyrirtæki í fjarvinnu. Vegna vinnunnar hefði hann þurft að halda lögheimili í Svíþjóð en myndi í mars 2021 færa lögheimili til Íslands. Tók kærandi fram að hann hefði haft samband við ríkisskattstjóra sem hefði ráðlagt honum að telja fram bæði á Íslandi og í Svíþjóð og að yfirvöld myndu sjá til þess að bæði gögn og greiðslur yrðu rétt. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 var skattframtal kæranda lagt óbreytt til grundvallar álagningu. Fór álagning á kæranda þannig fram að tekjuskatts- og útsvarsstofn hans ákvarðaðist sem tekjur hér á landi að viðbættum tekjum frá Svíþjóð eða samtals 13.702.601 kr. Álagður tekjuskattur og útsvar ákvarðaðist síðan þannig að opinber gjöld voru reiknuð á skattstofna kæranda en þau síðan lækkuð um hlutfall erlendra tekna í skattstofni eða sem nam 69,35%. Nam lækkun tekjuskatts 1.717.069 kr. og lækkun útsvars 1.379.711 kr. og varð álagður tekjuskattur 759.038 kr. og álagt útsvar 609.907 kr.

Í kjölfar fyrirspurnarbréfs ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2023, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2021 með bréfi, dags. 7. febrúar 2023. Í bréfinu kom fram að fyrirhugað væri að hækka skattskyldar tekjur kæranda um 9.502.140 kr. (633.476 SEK miðað við gengið 15) í skattframtali árið 2021 og myndi tekjuskattur kæranda samkvæmt þessu hækka um 1.717.069 kr. og útsvar um 1.379.711 kr. Kom fram í bréfinu að sænsk skattyfirvöld hefðu yfirfært staðgreiðslu sem kærandi greiddi þar í landi á árinu 2020 til Íslands á grundvelli 8. og 10. gr. samkomulags um innheimtu og yfirfærslu skatta, sbr. 20. gr. í samningi Norðurlanda um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, sbr. auglýsingu nr. 635/1997. Hefði ríkisskattstjóri í hyggju að ráðstafa skatti greiddum í Svíþjóð að fjárhæð 2.418.408 kr. á móti hækkun gjalda.

Það næsta sem gerðist í málinu var að kærandi leitaði eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra símleiðis og með tölvupósti um forsendur útreiknings og þýðingu boðaðra skattbreytinga. Að því er varðar það gengi sem notast væri við kom fram í tölvupóstum ríkisskattstjóra til kæranda að miðað væri við gengi þess árs sem tekna væri aflað við útreikning tekjuskatts og útsvars. Reifaði ríkisskattstjóri nánar að frádráttur vegna skatta sem yfirfærðir væru frá Svíþjóð gæti eingöngu miðast við það gengi sem gilti á yfirfærsludeginum. Þetta væri í samræmi við áratuga framkvæmd sem væri hin sama á Norðurlöndunum. Með úrskurði, dags. 2. mars 2023, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 2. júní 2023, er þess krafist að gengi sænskrar krónu til útreiknings tekna í íslenskum krónum verði 14,754 íslenskar krónur fyrir hverja sænska krónu í stað 15, en hið fyrrnefnda sé meðalgengi sænskrar krónu gagnvart íslenskri krónu á árinu 2020 samkvæmt Seðlabanka Íslands. Því fari kærandi fram á að erlendar tekjur í skattframtali hans árið 2021 lækki úr 9.502.140 kr. í 9.346.305 kr. Þá er farið fram á að yfirfærsla skatta frá Svíþjóð verði reiknuð yfir í íslenskar krónur á sama gengi og tekjurnar og verði því 2.690.776 kr. ráðstafað á móti gjaldahækkun í stað 2.418.408 kr.

Kærandi bendir á að ekki hafi komið fram í samskiptum við ríkisskattstjóra hvaða gengi hafi verið notað eða hvaða dag yfirfærslan miðist við svo kærandi hafi ekki getað sannreynt útreikningana. Öllu mikilvægara sé að mati kæranda að ekki hafi verið notast við sama gengi þegar tekjurnar hafi verið reiknaðar yfir í íslenskar krónur og þegar staðgreiðslan sé reiknuð í íslenskar krónur. Þegar kærandi hafi innt skattyfirvöld eftir lagastoð hafi verið vísað til áratuga framkvæmdar en ekki til settra reglna. Þessi þáttur sé þar að auki ekki nefndur í úrskurði ríkisskattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 27. júní 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að fallast megi á þá kröfu kæranda að gengi sænskrar krónu til útreiknings tekna í íslenskum krónum verði 14,754 íslenskar krónur fyrir hverja sænska krónu. Tekjur kæranda frá sænskum launagreiðanda lækki þannig úr 9.502.140 kr. í 9.346.305 kr. Með hliðsjón af þeim lagarökum er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé þess krafist að þessum hluta kærunnar verði vísað til ríkisskattstjóra til úrlausnar, þar sem um ný málsrök sé að ræða. Að öðru leyti sé þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 19. júlí 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er tekið fram í bréfinu að skattur sé í meginefnum lagður á tekjur manna sem hlutfall af tekjunum og með því að reikna tekjur kæranda á einu gengi og greiddan skatt á öðru sé ríkisskattstjóri að víkja frá þessari meginreglu.

V.

Ágreiningsefni í máli þessu er það viðmiðunargengi sem ríkisskattstjóri notaðist við í úrskurði sínum um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021 við umreikning sænskra tekna kæranda og yfirfærslu greiddra skatta í Svíþjóð í íslenskar krónur. Svo sem rakið hefur verið miðaði ríkisskattstjóri gengi sænskrar krónu við 15 við umreikning erlendra tekna kæranda í íslenskar krónur og gengi sænskrar krónu á yfirfærsludegi við umreikning greiddra skatta erlendis. Af hálfu kæranda er þess krafist að í báðum tilvikum verði gengi sænskrar krónu miðað við ársmeðaltal ársins 2020.

Vegna sjónarmiða í umsögn ríkisskattstjóra í málinu skal tekið fram að hvorki verður séð að kæru til yfirskattanefndar fylgi gögn, sem ekki lágu fyrir ríkisskattstjóra við meðferð málsins, né að kæran hafi að geyma upplýsingar sem ekki komu fram á fyrri stigum þess. Í því sambandi er til þess að líta að í tölvupóstsamskiptum kæranda og ríkisskattstjóra, sem rakin eru hér að framan, áttu sér stað skoðanaskipti m.a. um það við hvaða gengi væri miðað við útreikning fjárhæða. Verður því ekki talið að mál þetta liggi fyrir með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í umsögn ríkisskattstjóra.

Af hálfu kæranda hefur ekki annað komið fram en að tekjur hans frá hinum sænska launagreiðanda hans hafi verið honum til ráðstöfunar með jöfnum hætti allt árið 2020 í samræmi við útborgun launanna. Samkvæmt opinberri gengisskráningu Seðlabanka Íslands var meðalgengi sænskrar krónu 14,754 árið 2020. Að þessu gættu, og með hliðsjón af því sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra um þetta atriði, er fallist á kröfu kæranda um að miða við gengið 14,754 við umreikning erlendra tekna kæranda í íslenskar krónur í skattframtali árið 2021. Er krafa kæranda um að skattskyldar erlendar tekjur kæranda í skattframtalinu verði lækkaðar úr 9.502.140 kr. í 9.346.305 kr. því tekin til greina.

Víkur þá að kröfu kæranda um að einnig beri að miða við meðalgengi sænskrar krónu árið 2020 við umreikning greiddra skatta í Svíþjóð í íslenskar krónur. Ástæða er til að taka fram að hvorki kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra né í öðrum gögnum málsins við hvaða gengi hafi verið miðað í umreikningi greiddra skatta erlendis yfir í íslenskar krónur. Ekki er heldur getið um yfirfærsludag í hinum kærða úrskurði svo sem kærandi bendir á. Verður að taka undir með kæranda að ágalli sé á rökstuðningi ríkisskattstjóra um þetta atriði.

Í bréfi frá sænskum skattyfirvöldum (Skatteverket), dags. 11. desember 2022, ásamt fylgigögnum, sem var sent kæranda með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2023, kemur fram að litið sé svo á að tekjur kæranda að fjárhæð 633.476 SEK eigi ekki að skattleggjast í Svíþjóð, sbr. 15. gr. norræna tvísköttunarsamningsins. Afdregnir skattar í staðgreiðslu vegna tekjuársins 2020 hafi numið 182.376 SEK og að ofgreiddir skattar í Svíþjóð nemi 179.953 SEK. Með bréfinu var því beint til ríkisskattstjóra að láta í ljósi afstöðu sína til þess hvort yfirfæra bæri síðarnefnda fjárhæð til Íslands. Meðal gagna málsins er orðsending ríkisskattstjóra til Skatteverket, dags. 25. janúar 2023, þar sem farið er fram á yfirfærslu nefndrar fjárhæðar 179.953 SEK. Einnig liggur fyrir tilkynning Skatteverket um yfirfærslu fjárhæðarinnar 2. febrúar 2023. Af hálfu ríkisskattstjóra er komið fram að við umreikning yfirfærðrar fjárhæðar í íslenskrar krónur hafi verið miðað við gengi sænskrar krónu á yfirfærsludegi. Sé það í samræmi við áratugalanga stjórnsýsluframkvæmd sem sé hin sama á Norðurlöndunum. Samkvæmt þessu virðist ríkisskattstjóri hafa miðað við gengið 13,44 við umreikning fjárhæðarinnar í íslenskar krónur (2.418.408 kr.). Er það í samræmi við kaupgengi sænskrar krónu í lok janúar 2023.

Samkvæmt framansögðu var það ekki fyrr en með nefndum bréfum Skatteverket sem afstaða sænskra skattyfirvalda lá fyrir um skattalega meðferð tekna kæranda frá F AB og voru ofgreiddir skattar kæranda í Svíþjóð í framhaldi af því yfirfærðir til Íslands um mánaðamótin janúar/febrúar 2023. Verður að byggja á því að skattgreiðslan hafi þá fyrst verið aðgengileg móttakanda hennar, þ.e.a.s. íslenskum skattyfirvöldum, og getað komið til frádráttar álögðum opinberum gjöldum hér á landi. Af þessu leiðir að miða verður umreikning skattfjárhæðarinnar í íslenskar krónur við gengi þess dags þegar yfirfærsla fór fram. Er ekki fallist á það með kæranda að ósamræmi sé milli þessa og niðurstöðu að framan um gengisviðmiðun varðandi tekjur kæranda. Kröfu kæranda um þetta kæruatriði er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Skattskyldar erlendar tekjur kæranda lækka úr 9.502.140 kr. í 9.346.305 kr. gjaldárið 2021. Að öðru leyti er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja