Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis
  • Regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 142/2023

Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XLV, 1. mgr. og 4. mgr.   Reglugerð nr. 376/2022, 1. gr., 2. gr.  

Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við trjáfellingu var hafnað þar sem slík vinna á lóð íbúðarhúsnæðis gæti ekki talist til vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis í skilningi virðisaukaskattslaga.

Ár 2023, miðvikudaginn 27. september, er tekið fyrir mál nr. 116/2023; kæra A, dags. 29. maí 2023, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 29. maí 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 8. sama mánaðar um að hafna endurgreiðslu á virðisaukaskatti að fjárhæð 45.370 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem byggð var á 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XLV sömu laga og reglugerð nr. 376/2022, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í ákvörðun ríkisskattstjóra var vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, þar sem tekið væri fram að heimilt væri að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu manna við heimilisaðstoð eða reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 30. júní 2022. Einungis væri því heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna slíkrar vinnu samkvæmt reikningum útgefnum til og með 30. júní 2022. Ekki væri því heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt samkvæmt reikningi frá A ehf., dags. 31. ágúst 2022, og væri umsókn kæranda því hafnað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að samkvæmt reglugerð nr. 376/2022 skuli á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. ágúst 2022 endurgreiða 100% virðisaukaskatts sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhald þess. Þá komi fram í sömu reglugerð að regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis sé þjónusta sem veitt sé utan veggja séreignar íbúðareiganda eða leigjanda í eða við íbúðarhúsnæði, svo sem ræsting sameignar, garðsláttur, trjáklippingar eða önnur garðvinna og önnur regluleg umhirða íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt reikningi A ehf. sé tilgreindur virðisaukaskattur vegna trjáfellinga að fjárhæð 33.350 kr. og trjásnyrtinga að fjárhæð 8.890 kr. Er tekið fram að verktaki hafi verið að fella tólf metra háa ösp í garði íbúðarhúsnæðisins og hafi rætur asparinnar verið farnar að valda skemmdum á húsnæðinu.

II.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun hans.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. ágúst 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis á árinu 2022, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, og ákvæði XLV til bráðabirgða í lögunum. Í nefndu bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 50/1988, sbr. 60. gr. laga nr. 131/2021, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, kemur fram í 1. mgr. að á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 31. ágúst 2022 skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhald þess. Þá segir í 4. mgr. sama ákvæðis að á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022 skuli endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XLV er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 376/2022, um tímabundna endurgreiðslu  virðisaukaskatts af vinnu manna. Um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 31. ágúst 2022 er fjallað í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar og um endurgreiðslu af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu slíks húsnæðis á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022 er fjallað í 2. mgr. 1. gr. hennar, sbr. e-lið ákvæðisins.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 376/2022 er að finna skilgreiningar og orðskýringar hugtaka í reglugerðinni. Kemur fram að með reglulegri umhirðu íbúðarhúsnæðis sé átt við þjónustu sem veitt sé utan veggja séreignar íbúðareiganda eða leigjanda í eða við íbúðarhúsnæði, svo sem ræstingu sameignar, garðslátt, trjáklippingar eða aðra garðvinnu og aðra reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis.

Samkvæmt endurgreiðslubeiðni kæranda til ríkisskattstjóra, sem er meðal gagna málsins, sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 45.370 kr. á grundvelli reiknings frá A ehf., dags. 31. ágúst 2022, að fjárhæð 234.410 kr. með virðisaukaskatti. Á reikningnum kemur fram að um sé að ræða vinnu við trjáfellingar, trjásnyrtingar, akstur og kurlun og í kæru til yfirskattanefndar er rakið að þjónusta nefnds einkahlutafélags hafi verið fólgin í vinnu við að fella tólf metra háa ösp í garði íbúðarhúsnæðisins við K. Eftir beinni orðskýringu getur slík vinna á lóð íbúðarhúsnæðis ekki talist vinna við „endurbætur eða viðhald“ húsnæðis. Verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um sé að ræða garðvinnu af þeim toga sem greinir í 2. gr. reglugerðar nr. 376/2022 sem telst til reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis í skilningi 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XLV í lögum nr. 50/1988, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 376/2022. Samkvæmt ákvæðum þessum er heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af slíkri vinnu bundin við vinnu sem unnin er á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022. Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja