Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur við innflutning
- Rafmagnsbifhjól, undanþága
Úrskurður nr. 145/2023
Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXIV (brl. nr. 69/2012, 10. gr.).
Ökutæki af tegundinni Moonbike, sem kærandi flutti inn til landsins á árinu 2023, voru ekki talin uppfylla skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti þar sem þau voru hvorki skráð sem bifreiðar né bifhjól í ökutækjaskrá heldur sem torfærutæki (beltabifhjól). Gæti krafa kæranda ekki náð fram að ganga á þeim forsendum einum saman, án lagaheimildar, að sömu rök stæðu til veitingar skattívilnunar í tilviki hinna innfluttu ökutækja og löggjafinn teldi eiga við um rafmagnsbifreiðar og -bifhjól.
Ár 2023, miðvikudaginn 27. september, er tekið fyrir mál nr. 97/2023; kæra A, dags. 18. apríl 2023, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 18. apríl 2023, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 28. mars 2023, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda vegna innflutnings tveggja ökutækja af gerðinni Moonbike á árinu 2023. Aðdragandi að uppkvaðningu úrskurðarins var sá að kærandi mun hafa spurst fyrir um virðisaukaskattsskyldu vegna innflutnings tækjanna með tölvupósti 3. febrúar 2023. Með tölvupósti tollgæslustjóra 23. sama mánaðar var greint frá því að ökutækin uppfylltu ekki skilyrði fyrir niðurfellingu virðisaukaskatts þar sem bifhjól þyrftu að vera með tveimur, þremur eða fleiri hjólum. Af hálfu kæranda var ákvörðun tollgæslustjóra mótmælt með kæru sem barst embættinu 3. mars 2023. Í kæruúrskurði tollgæslustjóra var vísað til þess að heimild tollyfirvalda til niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsbifreiðum væri að finna í bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðisins væri skilyrði niðurfellingar að ökutæki væri skráð sem bifreið í ökutækjaskrá og félli undir vöruliði 8703 eða 8704 í tollskrá. Hugtakið bifreið væri skilgreint í 9. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga og væri ljóst að hin innfluttu tæki féllu ekki undir þá skilgreiningu þar sem þau væru undir 400 kg að eigin þyngd, þ.e. 74 kg án rafhlöðu. Einnig væri heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafmagnsbifhjóli og af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið væri rafmagni, sbr. 10. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXIV í lögum nr. 50/1988. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu væri skilyrði niðurfellingar að bifhjól væri skráð sem slíkt í ökutækjaskrá, væri eingöngu knúið rafmagni og félli undir vöruliði 8703, 8704 eða 8711 í tollskrá. Hugtakið bifhjól væri skilgreint í 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga. Hin innfluttu tæki gætu ekki talist bifhjól þar sem þau væru búin beltum en ekki hjólum. Þá væri hámarkshraði tækjanna 41 km á klst. samkvæmt tækniupplýsingum, en til að teljast bifhjól þyrfti tæki að vera hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. Þar sem tækin væri búin beltum gætu þau jafnframt ekki talist til léttra bifhjóla eða reiðhjóla, sbr. ákvæði 28. og 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga.
Í úrskurðinum tók tollgæslustjóri fram að þar sem flokkar rafknúinna ökutækja sem uppfylltu skilyrði niðurfellingar væru skýrt tilgreindir í bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum nr. 50/1988 yrði ekki fallist á með kæranda að innflytjendum væri mismunað að neinu leyti. Þá kom fram, vegna þess sjónarmiðs kæranda að beltabifhjól (vélsleðar) féllu undir ákvæði b-liðar 9. tölul. 3. gr. umferðarlaga, að vélsleðar væru almennt undir 400 kg að eigin þyngd og féllu þar af leiðandi jafnan undir 35. tölul. 3. gr. umferðarlaga sem torfærutæki. Ljóst væri því að vélsleðar nytu ekki undanþágu frá virðisaukaskatti við innflutning á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XXIV í lögum nr. 50/1988. Þá yrði að hafna því sjónarmiði kæranda að umrædd túlkun tollyfirvalda bryti gegn þeim tilgangi undanþáguákvæðisins að flýta orkuskiptum, enda væru flokkar ökutækja sem vilji stæði til að fella niður virðisaukaskatt af skýlega tilgreindir í lögum. Anda laga eða vilja löggjafans væri ekki unnt að veita vægi umfram skýrt orðalag lagaákvæðisins. Yrði því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu virðisaukaskatts.
Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður tollgæslustjóra verði felldur úr gildi og að fallist verði á að hin innfluttu ökutæki falli undir bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum nr. 50/1988 að hámarki 96.000 kr. á hvort tæki. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að hin innfluttu ökutæki séu nýjung í samgöngum og sé ætlunin að kynna þau fyrir ferðaþjónustuaðilum hér á landi, enda henti þau vel til að flytja ferðamenn um snævi þakta jörð á umhverfisvænan hátt. Samgöngustofa hafi flokkað ökutækin sem beltabifhjól (vélsleða), sbr. ákvæði 01.71 í reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja. Það sé mat kæranda að þar sem tækin séu flokkuð með þessum hætti geti þau í raun talist bifreið í skilningi b-liðar 9. tölul. 3. gr. umferðarlaga að því undanskildu að þau séu undir 400 kg að þyngd. Jafnframt geti tækin fallið undir 8. tölul. sem bifhjól og 28. tölul. sem létt bifhjól að því undanskildu að þau séu ekki á hjólum. Túlkun tollyfirvalda sé of þröng og í andstöðu við tilgang undanþágunnar sem sé að hraða orkuskiptum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 154/2019. Ekki verði annað ráðið en að ákvörðun tollyfirvalda feli í sér ólögmæta mismunun í garð kæranda. Líta verði til þess að hin innfluttu ökutæki séu nýjung og sé hreinlega ekki gert ráð fyrir þeim í umferðarlögum. Hins vegar sé gert ráð fyrir vélsleðum og léttum bifhjólum sem myndu falla undir undanþáguna, sbr. 9. tölul. og 28. tölul. 3. gr. laganna. Miðað við flokkun Samgöngustofu uppfylli hin innfluttu ökutæki skilyrði þess að falla undir undanþáguna séu ákvæðin lesin saman og litið til tilgangs að baki bráðabirgðaákvæði XXIV. Gert sé ráð fyrir ökutækjum sem bæði séu á beltum og hjólum.
II.
Með bréfi, dags. 2. júní 2023, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í umsögn tollgæslustjóra eru áréttuð þau sjónarmið sem fram koma í úrskurðinum.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. júní 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollgæslustjóra í málinu og gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kemur fram að innheimta skuli virðisaukaskatt af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning hennar að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum nr. 50/1988, sbr. 10. gr. laga nr. 69/2012, um breyting á þeim lögum, er heimilt við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæðinu. Er tollyfirvöldum heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreið að tilteknu hámarki, sbr. 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan mælt fyrir um hliðstæða heimild tollyfirvalda til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýs rafmagns- eða vetnisbifhjóls, létts bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls.
Í 6. mgr., sbr. 10. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXIV er kveðið á um nánari skilyrði fyrir greindum undanþágum. Að því er snertir rafmagns- og vetnisbifreiðar kemur fram í 1. tölul. 6. mgr. að slíkt ökutæki skuli vera skráð sem bifreið í ökutækjaskrá, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, og falla undir vöruliði 8703 eða 8704 í tollskrá. Um rafmagns- og vetnisbifhjól segir í 1. tölul. 10. mgr. ákvæðisins að hjólið skuli vera skráð sem bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, vera eingöngu knúið rafmagni eða vetni og falla undir vöruliði 8703, 8704 eða 8711 í tollskrá. Loks er áskilið í 2. tölul. 10. mgr. að létt bifhjól eða reiðhjól sem knúið er rafmagni skuli falla undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga og vörulið 8711 í tollskrá. Létt bifhjól í flokki II skuli vera skráð sem létt bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga.
Fram er komið að hin innfluttu, rafknúnu ökutæki af gerðinni Moonbike eru hvorki skráð sem bifreiðar né bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 8. og 9. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, heldur sem torfærutæki (beltabifhjól) samkvæmt 35. tölul. sömu málsgreinar, sbr. og grein 01.71 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum. Er og óumdeilt að ökutækin uppfylli ekki skilyrði fyrir slíkri skráningu vegna þyngdar sinnar og þar sem þau eru búin beltum í stað hjóla. Ljóst er því að frumskilyrði niðurfellingar virðisaukaskatts samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum nr. 50/1988, þ.e. að rafknúið ökutæki sé skráð sem bifreið eða bifhjól, eða eftir atvikum létt bifhjól, í ökutækjaskrá er ekki uppfyllt í tilviki hinna innfluttu ökutækja. Þá verður að telja að lög nr. 50/1988 séu skýr um skattskyldu vegna innflutnings ökutækja til landsins og fyrrgreind bráðabirgðaákvæði XXIV að sama skapi skýr um skilyrði skattívilnunar vegna innflutnings rafknúinna ökutækja, sbr. hér að framan. Verður því ekki fallist á með kæranda að lögin uppfylli að þessu leyti ekki skýrleikakröfur stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 40. gr. og 77. gr. hennar, og breytir því ekki þótt álitamál kunni að rísa í einstökum tilvikum um skilgreiningu ólíkra tegunda ökutækja og flokkun þeirra í samræmi við skráningu í ökutækjaskrá og flokkunarreglur tollskrár. Þá getur krafa kæranda í málinu ekki náð fram að ganga á þeim forsendum einum saman, án lagaheimildar, að sömu rök standi til veitingar skattívilnunar í tilviki hinna innfluttu ökutækja og löggjafinn taldi eiga við um þau ökutæki sem talin eru í bráðabirgðaákvæði XXIV, sbr. einkum athugasemdir með frumvarpi til laga nr. 69/2012, um breytingu á lögum nr. 50/1988, á þskj. 1072 á 140. löggjafarþingi 2011-2012.
Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.