Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 594/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 11. gr. — 27. gr.
Sameignarfélag — Lögaðili — Sjálfstæður skattaðili — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður fyrnanlegs lausafjár — Söluhagnaður, dreifing — Dreifing skattskylds söluhagnaðar — Skuldaviðurkenning — Skuldabréf — Félagsaðilar í sameignarfélagi — Dreifingartímabil söluhagnaðar — Afborgunartími — Skuldaviðurkenning, sala á dreifingartímabili
I.
Af hálfu kæranda, sem er sameignarfélag, var talið fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 og undirrituðu og staðfestu skattframtali skilað. Með bréfi, dags. 10. mars 1989, fór skattstjóri fram á það við kæranda, að hann gerði grein fyrir eftirgreindu atriði: „Í efnahagsreikningi er ekki að finna skuldabréf vegna sölu bifreiða félagsins o.fl. á árinu 1986. Í efnahagsreikningi pr. 31/12 1987 var skuldabréfið eignfært á kr. 4.049.120, en ekkert er á það minnst í ársreikningi 1988. Skv. rekstrarreikningi ársins 1988 nema vaxtatekjur aðeins kr. 24.796. Umsögn óskast.“ Af hálfu kæranda var bréfi þessu svarað með bréfi, dags. 28. mars 1989. Var þar tekið fram, að í upphafi ársins 1988 hafi nefnt skuldabréf verið afhent eigendum kæranda. „Það sama var gert á árinu 1987 en ekki látið virka í reikningsuppgjöri fyrr en 1988. Eins og fram kemur af efnahagsreikningi félagsins hefur eign hjá eigendum aukist sem því nemur.“ Að svo vöxnu tilkynnti skattstjóri kæranda um svofellda ætlun sína, sbr. bréf hans, dags. 23. maí 1989:
„Í ofangreindu bréfi félagsins kemur fram að eigendur sameignarfélags þessa hafa á árinu 1988, tekið til sín skuldabréf sem gefið var út til félagsins vegna sölu eigna þess á árinu 1986. Á grundvelli skuldabréfs þessa hefur félagið nýtt sér heimild, skv. 27. gr. laga nr. 75/1981, til að telja hluta söluhagnaðar vegna ofangreindrar sölu, til tekna hlutfallslega eftir afborgunartíma skuldabréfs.
Það er álit skattstjóra, að þar sem eigendur félagsins hafi tekið til sín téð skuldabréf, séu þar með fallnar úr gildi forsendur fyrir frekari frestun söluhagnaðar, enda byggist heimild til dreifingar söluhagnaðar skv. 27. gr. augljóslega á því að afborganir og vextir af skuldaviðurkenningu renni til viðkomandi skattaðila jafnframt því sem hann tekjufærir söluhagnað.
Skv. framansögðu hefur skattstjóri í hyggju að færa eftirstöðvar söluhagnaðar, kr. 675.487, til tekna á skattframtali 1989 þannig að tekjuskattsstofn verði kr. 983.288.“
Þann 13. júní 1989 hafði skattstjóra ekki borist andmæli frá kæranda og tilkynnti hann þá honum um framkvæmd ofangreindrar breytingar á framtali hans. Þann 27. júní 1989 móttók skattstjóri bréf frá umboðsmanni kæranda, dags. 16. júní 1989, þar sem hann mótmælir þeirri fyrirætlan skattstjóra, sem birtist í bréfinu frá 23. maí 1989. Tekur hann fram að ekki verði séð af lestri nefndrar 27. gr., að kærandi „geti ekki fært umrædda skuldaviðurkenningu yfir á hendur eiganda sameignarfélagsins. Í nefndri 27. grein kemur hvergi fram að skuldaviðurkenning þurfi að standa eftir hjá þeim sem nota þá heimild sem lagagreinin segir til um.“ Eftir álagningu gjalda kærði umboðsmaður kæranda umrædda breytingu til skattstjóra með bréfum, dags. 29. ágúst og 26. október 1989. Með kæruúrskurði, dags. 21. nóvember 1989, tók skattstjóri til meðferðar mótmæli kæranda í síðasttöldu af þremur bréfum kæranda. Hafnaði hann framkomnum kröfum og staðfesti fyrri ákvörðun sína.
II.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. desember 1989. Mótmælir hann breytingu skattstjóra og krefst þess, að hún verði felld úr gildi, enda verði ekki séð, að ákvæði 27. gr. nefndra laga styðji afstöðu skattstjóra.
III.
Með bréfi, dags. 14. nóvember 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Ákvæði 27. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykja eigi standa í vegi fyrir skilningi kæranda á meðferð umrædds söluhagnaðar, sem skattstjóri heimilaði dreifingu á í samræmi við ákvæði greinarinnar á árinu 1986. Er því fallist á kröfu kæranda í máli þessu.
Athugasemd.
Með a-lið 2. gr. laga nr. 85, 27. desember 1991, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var skotið inn nýjum málslið á eftir 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. síðarnefndu laganna svohljóðandi: „Þó fellur þessi heimild niður ef skuldaviðurkenning er seld á þeim tíma sem heimilt er að dreifa söluhagnaði.“ Tók þessi breyting gildi 1. janúar 1992 og kom til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992, sbr. 18. gr. laga nr. 85/1991.