Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattrannsókn
  • Sönnun
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 147/2023

Gjaldár 2017, 2018, 2019 og 2020

Lög nr. 90/2003, 7. gr. C-liður 9. tölul., 96. gr., 103. gr.  

Kæruefni máls þessa var sú ákvörðun skattrannsóknarstjóra að færa kæranda til skattskyldra tekna greiðslur frá samtals 448 einstaklingum á árunum 2016 til 2019. Nánar tiltekið voru vantaldar tekjur kæranda leiddar fram sem mismunur greiðslna sem lagðar voru inn á bankareikninga kæranda og greiðslna kæranda til sömu einstaklinga á sama tímabili. Af hálfu kæranda var því haldið fram að um væri að ræða sameiginlegan sjóð vinahópa sem greiðendur gætu síðan fengið greitt úr eftir því sem þeir þyrftu á að halda. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar í málinu að með tilliti til fjölda þeirra aðila sem hlut ættu að máli og fjárhæða væri með ólíkindum að kærandi hefði ekki fært greiðslur í hinn sameiginlega sjóð til bókar með einhverjum hætti. Þótt kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn sem styddu skýringar hennar um eðli greiðslnanna yrði í ljósi málavaxta í heild sinni og einkum með tilliti til yfirlýsinga þeirra aðila sem skattrannsóknarstjóri hefði leitað til vegna rannsóknar málsins ekki talið að það atriði út af fyrir sig væri nægilegt til þess að ekki yrði byggt á skýringum kæranda. Þá þóttu engar forsendur til þess, svo sem rannsókn málsins væri farið, að áætla skattskyldar tekjur kæranda með öðrum og lægri fjárhæðum. Var hinum kærða úrskurði skattrannsóknarstjóra því hnekkt að öllu leyti.

Ár 2023, miðvikudaginn 27. september, er tekið fyrir mál nr. 82/2023; kæra A, dags. 27. mars 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 27. mars 2023, sbr. rökstuðning í bréfi, mótt 2. maí 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattrannsóknarstjóra, dags. 28. desember 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020. Úrskurð þennan kvað skattrannsóknarstjóri upp í umboði ríkisskattstjóra, sbr. 2. málsl. 88. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Endurákvörðun skattrannsóknarstjóra fór fram í kjölfar rannsóknar embættisins á skattskilum kæranda tekjuárin 2016, 2017, 2018 og 2019 sem lauk með skýrslu, dags. 17. nóvember 2021. Með hinum kærða úrskurði hækkaði skattrannsóknarstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 8.905.850 kr. gjaldárið 2017, 12.027.857 kr. gjaldárið 2018, 16.827.104 kr. gjaldárið 2019 og um 10.025.382 kr. gjaldárið 2020 vegna meintra vantalinna tekna fyrrgreind tekjuár.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurði skattrannsóknarstjóra verði hrundið. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að 3. júní 2020 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skattskilum kæranda er tók til tekna og skattskila vegna tekjuáranna 2016 til og með 2019. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri skýrslu af kæranda 15. júní 2020. Rannsókninni lauk með skýrslu, dags. 17. nóvember 2021.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra er kærandi … að uppruna. Í skýrslunni er greint frá því að kærandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2017 til og með 2020 vegna tekjuáranna 2016 til og með 2019. Heildartekjur kæranda á rannsóknartímabilinu hafi samtals numið 14.177.391 kr. Við skýrslutökuna kvaðst kærandi vera atvinnulaus. Hún hefði starfað hjá X ehf. þar til hún missti vinnuna árið 2018. Fram kom af hálfu kæranda að hún gæti ekki lesið íslensku og að nágranni hennar og aðrir hefðu aðstoðað hana við skattframtalsgerð.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að innborganir á rannsóknartímabilinu hafi numið 264.183.677 kr. og útborganir 216.397.484 kr. Mismunur nemi 47.786.193 kr. Innborganir séu frá 448 einstaklingum. Þær skýringar hafi komið fram af hálfu kæranda að annars vegar ræði um greiðslur vegna útlagðs kostnaðar vegna ferða hennar til Y-lands og hins vegar sé um að ræða einhvers konar sparnað þar sem þessir aðilar leggi inn á reikninginn pening sem nýtist þeim sem þurfi á að halda. Þetta sé einhvers konar menning frá Y-landi. Skattrannsóknarstjóri hafi haft samband við 15 þeirra einstaklinga sem um ræði með handahófsúrtaki og hafi svör borist frá 10 aðilum, svo sem nánar er rakið.

Skoðun á bankareikningi kæranda leiði í ljós að á rannsóknartímabilinu hafi úttektir með debetkorti numið samtals 22.090.116 kr., úttekið reiðufé numið 2.433.000 kr., erlendar símgreiðslur numið 19.295.561 kr. og úttekt í erlendum gjaldeyri numið 598.669 kr. Alls hafi úttektir þessar numið 44.417.346 kr. á rannsóknartímabilinu. Stór hluti mismunar á inn- og útborgunum á bankareikningi virðist fara í eigin neyslu kæranda.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er greint frá þeirri niðurstöðu skattrannsóknarinnar að virða beri greiðslur inn á bankareikning kæranda frá einstaklingum að frádregnum útborgunum til sömu einstaklinga sem vanframtaldar tekjur hennar sem skattleggja beri sem almennar tekjur samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 9. tölul. C-liðar sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu nemi vanframtaldar tekjur 8.905.850 kr. árið 2016, 12.027.857 kr. árið 2017, 16.827.104 kr. árið 2018 og 10.025.382 kr. árið 2019 eða samtals 47.786.193 kr. allt rannsóknartímabilið.

III.

Í kjölfar boðunarbréfs skattrannsóknarstjóra, dags. 14. nóvember 2022, sem ekki var svarað af hálfu kæranda, endurákvarðaði skattrannsóknarstjóri í umboði ríkisskattstjóra opinber gjöld kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020 með úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. desember 2022. Í úrskurði skattrannsóknarstjóra, sbr. boðunarbréf embættisins, kemur fram að til grundvallar breytingum á opinberum gjöldum kæranda séu niðurstöður í skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 17. nóvember 2021. Samkvæmt þeim hafi kærandi vantalið tekjur sínar um alls 47.786.484 kr. umrædd gjaldár.

Fjallað sé um inn- og útborganir af bankareikningi kæranda í ítarskjali A1 með skýrslu skattrannsóknarstjóra. Á því tímabili sem rannsóknin hafi tekið til hafi greiðslur inn á bankareikning kæranda numið 264.183.677 kr. frá 448 einstaklingum. Þá hafi útborganir samtals verið 216.397.484 kr. Mismunur á inn- og útborgunum séu 47.786.193 kr. Skýringar kæranda á millifærslum þessum hafi verið þær að annars vegar færi hún reglulega til Y-lands og keypti þá ýmislegt fyrir vini og kunningja. Hins vegar væri um að ræða einhverskonar lán/sparnað bar sem þessir aðilar legðu fjármuni inn á reikninginn sem síðan væru lánaðir til annarra sem á þyrftu að halda.

Skattrannsóknarstjóri hafi haft samband við 15 af þessum 448 einstaklingum, sem valdir hafi verið af handahófi, og beðið þá um að skýra millifærslur til kæranda og leggja fram gögn og upplýsingar vegna millifærslnanna, svo sem afrit sölureikninga frá kæranda og/eða önnur gögn vegna viðskiptanna. Svör hafi borist frá tíu aðilum og hafi skýringar þeirra í grunninn verið þær sömu og áður hefðu komið fram af hálfu kæranda. Engum gögnum hafi verið skilað til skattrannsóknarstjóra.

Ráða megi af því sem fram komi í skýrslutöku af kæranda að hópar einstaklinga hafi að einhverju leyti haft sameiginlega inneign á bankareikningi kæranda sem síðan hafi verið ráðstafað milli einstaklinga innan hópsins eftir þörfum hverju sinni og líka til annarra mála. Þá megi ráða af framburði kæranda að hún hafi tekið að sér að færa fjármuni einstaklinga til annarra í þeirra umboði, m.a. til aðstandenda i Y-landi.

Fyrir liggur að 448 einstaklingar hafi lagt fjármuni inn á reikning kæranda. Af þessu megi ráða að hóparnir hafi verið fjölmargir og að fjármunum hópanna og einstaklinga innan þeirra verið ráðstafað í gegnum þennan eina bankareikning kæranda. Þá verði ráðið að ekki hafi verið haldið skipulega utan um inn- og útborganir eða að bókhald hafi verið fært um fjármuni hvers hóps og einstaklinga innan hvers hóps. Verði ekki með góðu móti séð hvernig þessi fjárstýring fyrir fjölmarga einstaklinga ætti að geta gengið án þess að til kæmi ítarlegt utanumhald um eigna- og skuldastöðu hvers hóps og einstaklinga innan hópanna.

Undir rannsókn mélsins hafi skattrannsóknarstjóri óskað eftir gögnum varðandi utanumhald kæranda á þessu flæði fjármuna inn og út af bankareikningi hennar. Engin gögn um eigna- eða skuldastöðu þeirra einstaklinga sem lögðu fé inn á bankareikning kæranda hafi verið lögð fram.

Með vísan til framangreinds sé það mat skattrannsóknarstjóra að kærandi hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á innborgunum umfram útborganir af bankareikningi sínum. Þannig hafi ekki verið lögð fram gögn sem sýni fram á að innborganir á bankareikning kæranda hafi á endanum skilað sér til þeirra sem lögðu fjármunina inn.

Skattrannsóknarstjóri hafi ennfremur rannsakað mögulega einkaneyslu kæranda út frá fyrirliggjandi gögnum. Skoðun á bankareikningi kæranda og kreditkortayfirlit hafi leitt í ljós að úttektir með debetkorti, í reiðufé, erlendar símgreiðslur og úttektir í erlendum gjaldeyri hafi samtals numið 44.417.346 kr. á rannsóknartímabilinu. Útborguð laun kæranda á sama tímabili hafi numið alls 10.991.775 kr. Megi því ljóst vera að kærandi hafi haft aðrar tekjur til framfærslu en eingöngu tilgreindar launatekjur. Tekjur sem ekki hafi verið tilgreint hverjar voru.

Því þyki ljóst að greiðslur hafi runnið til kæranda sem ekki hafi verið gerð grein fyrir með hvaða hætti henni hafi hlotnast. Innlagnir umfram úttektir á bankareikning kæranda sýni þetta glögglega. Tekjuhugtak laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé rúmt og taki til hvers konar gæða sem aðila hlotnist og unnt sé að meta til peningaverðs, sbr. upphafsákvæði 7. gr. laganna.

Að mati skattrannsóknarstjóra þykir því ekki varhugavert að telja hér vera um að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. tölul. C-liðar sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu sé tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda hækkaður um 8.905.850 kr. gjaldárið 2017, um 12.027.857 kr. gjaldárið 2018, um 16.827.104 kr. gjaldárið 2019 og um 10.025.382 kr. gjaldárið 2020.

Þá hafi skattrannsóknarstjóri ákveðið að nota heimild 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og bæta 25% álagi við vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn. Nam álagsfjárhæð 2.226.463 kr. gjaldárið 2017, 3.006.964 kr. gjaldárið 2018, 4.206.776 kr. gjaldárið 2019 og 2.506.346 kr. gjaldárið 2020. Vantaldar tekjur teljist svo stórfelldur annmarki á framtali að ekki séu efni til annars en að beita álagi.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru umboðsmanns hennar til yfirskattanefndar, dags. 27. mars 2023, sbr. rökstuðning í bréfi, mótt. 2. maí 2023. Í kærunni er bent á að kærandi sé útlendingur sem hvorki tali né skilji íslensku eða ensku. Skattrannsóknarstjóri hafi rannsakað skattskil kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði haft miklar tekjur sem hún hefði ekki talið fram. Skýrsla hafi verið tekin af kæranda vegna rannsóknarinnar þar sem kærandi hafi reynt að útskýra að greiðslur inn á bankareikning hennar væru ekki tekjur hennar, heldur væri um að ræða gegnumflæði fjármuna vegna annarra aðila. Skýringar kæranda hafi að stórum hluta verið teknar til greina en að öðru leyti ekki.

Að því leyti sem skattyfirvöld hafi ekki tekið skýringar kæranda til greina snúist málið um það að kærandi fari nokkuð oft til heimalands síns og taki að sér í þeim ferðum að kaupa alls kyns varning, t.d. matvöru, fyrir samlanda sína. Hún kaupi einnig happdrættismiða fyrir aðra. Kærandi hafi einnig sótt happdrættisvinninga og miðlað til eigenda í gegnum bankareikning sinn. Einnig hafi kærandi farið með peninga út til ættingja og samlanda sinna. Greiðslur frá samlöndum kæranda hafi þá verið lagðar inn á bankareikning kæranda og kærandi síðan sent pening út á reikning erlendis, tekið pening út úr banka eða með íslensku korti sínu og farið með fjármunina til viðkomandi ættingja. Samanlagðar símgreiðslur af bankareikningi kæranda til heimalandsins nemi tæplega 20 milljónum króna á tímabilinu. Þær símgreiðslur séu einmitt vegna framangreinds.

Greiðslur sem hafi farið í gegnum bankareikning kæranda séu aðeins flæði fjármuna í eigu annarra einstaklinga en ekki greiðslur til kæranda, nema smáræði vegna sölu kæranda á gerviblómum og vörum sem hún hafi keypt í ferðum sínum, t.d. matvöru. Það séu þó smáaurar í stóra samhenginu.

Almennt liggi sönnunarbyrði í skattamálum hjá skattyfirvöldum. Sanna þurfi hvaða innborganir á bankareikning séu tekjur viðkomandi skattaðila. Í öllu falli þurfi rannsókn að vera fullnægjandi. Trúi skattyfirvöld ekki skýringum skattaðila á innborgunum annarra einstaklinga, sem þó eigi sér stoð í gögnum málsins, sé ljóst að það beri undir skattyfirvöld að hrekja skýringarnar. Það verði ekki gert með öðrum hætti en að leitað sé skýringa hjá hverjum og einum sem greiddi inn á bankareikning kæranda. Skattrannsóknarstjóri hafi talað við tíu af 448 aðilum og hafi svör þeirra staðfest skýringar kæranda. Því séu augljóslega meiri líkur en minni á því að allir hinir hefðu gert það einnig. Hefðu allir aðrir gefið þá skýringu, eftir atvikum, að kærandi hefði keypt varning fyrir það fé sem þeir hefðu lagt inn á bankareikning hennar, lægi ljóst fyrir að tekjufærsla skattrannsóknarstjóra byggði á röngum grunni.

Niðurstaða skattrannsóknarstjóra um að tekjufæra hjá kæranda mismun innborgana og útborgana byggi á því að gögn hafi ekki komið fram sem sýndu fram á að innborganir hafi á endanum skilað sér til þeirra sem lögðu inn á reikninginn. Þetta standist ekki þar sem fyrir liggi að margar innborganir á bankareikning kæranda hafi verið þess eðlis að þær yrðu ekki endurgreiddar, m.a. innborganir vegna keypts varnings í Y-landi, innborganir vegna greiðslna til ættingja viðkomandi og innborganir vegna skjala sem kærandi hafi aflað í Y-landi fyrir greiðanda. Einnig virðist greiðslur sonar kæranda vegna sameiginlegs heimilishalds taldar til tekna kæranda. Það standist augljóslega ekki.

Kærandi hafni því alfarið að hafa haft tekjur vegna ferða sinna til heimalandsins nema rétt upp í kostnað vegna aðstoðar við greiðanda, t.d. kostnað við ferð í heimaþorp viðkomandi eða í verslun til innkaupa. Hér hafi í öllum tilvikum verið um lágar fjárhæðir að ræða. Fari víðs fjarri að kærandi hafi haft af þessum viðvikum tekjur sem nálgast geti þá fjárhæð sem skattrannsóknarstjóri hafi ætlað henni. Við blasi að allt þetta fólk hafi ekki verið að greiða kæranda laun. Gögn málsins og skýringar kæranda sanni að ályktun skattyfirvalda í þá átt sé fráleit.

V.

Með bréfi, dags. 21. júní 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður skattrannsóknarstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðuninni.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef hún teldi ástæðu til. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattrannsóknarstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. desember 2023, að færa kæranda til tekna 8.905.850 kr. í skattframtali árið 2017, 12.027.857 kr. í skattframtali árið 2018, 16.827.104 kr. í skattframtali árið 2019 og 10.025.382 kr. í skattframtali árið 2020 sem skattskyldar tekjur samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna greiðslna frá 448 einstaklingum á árunum 2016, 2017, 2018 og 2019. Til grundvallar endurákvörðuninni var skýrsla skattrannsóknarstjóra, dags. 17. nóvember 2021, um rannsókn á skattskilum kæranda. Samkvæmt því sem þar kemur fram voru ætlaðar vantaldar tekjur leiddar fram sem mismunur greiðslna frá umræddum einstaklingum sem þeir lögðu inn á bankareikning kæranda á rannsóknartímabilinu og greiðslna kæranda til þessara sömu einstaklinga samkvæmt færslum á bankareikningi kæranda á tímabilinu. Við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020, sem breytingar ríkisskattstjóra á skattframtölum kæranda umrædd ár hafði í för með sér, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Krafa kæranda um ógildingu endurákvörðunar skattrannsóknarstjóra er byggð á því að umræddar greiðslur til kæranda séu ekki tekjur hennar heldur aðallega framlög greiðenda í sameiginlegan sjóð þeirra sem ætlaður sé til að standa straum af óvæntum útgjöldum þeirra.

Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra námu greiðslur frá einstaklingum inn á bankareikning kæranda 69.410.970 kr. árið 2016, 77.964.646 kr.árið 2017, 66.964.586 kr. árið 2018 og 49.843.475 kr. árið 2019 eða alls 264.183.677 kr. á rannsóknartímabilinu. Útborganir af bankareikningnum til umræddra aðila námu 60.505.120 kr. fyrsta árið, 65.936.789 kr. annað árið, 50.137.482 kr. þriðja árið og 39.818.093 kr. fjórða árið eða alls 216.397.484 kr. öll árin. Eins og fyrr segir var það niðurstaða skattrannsóknarinnar að líta bæri á mismun inn- og útborgana, þ.e. 8.905.850 kr. árið 2016, 12.027.857 kr. árið 2017, 16.827.104 kr. árið 2018 og 10.025.382 kr. árið 2019, sem vantaldar tekjur kæranda. Sama niðurstaða varð samkvæmt úrskurði skattrannsóknarstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda og voru fjárhæðir þessar færðar kæranda til skattskyldra tekna samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 15. júní 2020 gaf kærandi þær skýringar á fjárflæði um bankareikning sinn að greiðslur frá einstaklingum með lágum fjárhæðum (5.000 kr. og lægri) væru vegna ýmissa viðvika kæranda í þágu samlanda sinna, sem búsettir væru hér á landi, í tengslum við ferðir kæranda til Y-lands, m.a. við öflun matvöru eða vöru af öðru tagi eða vottorða frá yfirvöldum í Y-landi. Kærandi kvaðst ekki áskilja sér ákveðna þóknun fyrir þessi viðvik og væri það komið undir viðkomandi hvort hann greiddi eitthvað í þakklætisskyni. Hærri fjárhæðirnar væru greiðslur í sameiginlegan sjóð vinahóps eða vinahópa sem greiðendur gætu síðan fengið greitt úr eftir því sem þeir þyrftu á að halda. Allir fengju sínar greiðslur til baka á endanum. Kærandi ætti ekki þessa fjármuni nema sem svaraði til greiðslna frá sér. Aðspurð um tekjur sem ekki kæmu fram í skattframtölum sagðist kærandi hafa á fyrri árum dundað sér við það að framleiða og selja blóm úr gerviefni. Af hálfu kæranda hefur einnig komið fram að hún hafi haft milligöngu um færslur fjármuna samlanda sinna sem eru búsettir hér á landi til ættingja þeirra í Y-landi og að þeir fjármunir hafi farið um bankareikning hennar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að vegna rannsóknar málsins hafi verið leitað til 15 einstaklinga sem valdir voru af handahófi úr hópi þeirra 448 er lögðu inn fé á bankareikning kæranda á rannsóknartímabilinu. Hafi þessir aðilar verið beðnir um skýringar vegna greiðslna til kæranda og að lögð yrðu fram gögn um tilefni greiðslna, svo sem afrit sölureikninga frá kæranda. Níu aðilar svöruðu fyrirspurn skattrannsóknarstjóra efnislega. Fimm þeirra gáfu þá skýringu að um væri að ræða greiðslur í sameiginlegan sjóð þeirra sem væri notaður til að aðstoða þá sem þyrftu á fjármunum að halda vegna óvæntra útgjalda. Þrjú þessara svara eru samhljóða og ljóst að samráð hefur verið um þau. Þessir aðilar kváðust hafa fengið endurgreidda þá fjármuni sem þeir hefðu lagt í sjóðinn að frátöldum kostnaði sem runnið hefði til K-félags. Fjórir svarenda sögðu að um væri að ræða greiðslur vegna vara sem kærandi hefði keypt í Y-landi eða vegna lána frá kæranda. Engin gögn voru afhent skattrannsóknarstjóra til stuðnings þessum skýringum.

Hin kærða endurákvörðun, sbr. og niðurstöðu skattrannsóknarinnar, ber með sér að skattrannsóknarstjóri hefur tekið skýringar kæranda til greina að því leyti að greiðslur kæranda til þeirra aðila sem lögðu fé inn á bankareikning hennar voru færðar til frádráttar innborgunum við ákvörðun skattskyldra tekna hennar. Er þannig viðurkennt af hálfu skattrannsóknarstjóra að greiðslur til kæranda frá umræddum aðilum teljist ekki tekjur hennar án tillits til ráðstöfunar fjármunanna. Sú afstaða skattrannsóknarstjóra að fallast þrátt fyrir þetta ekki á skýringar kæranda að öllu leyti, heldur tekjufæra hjá henni fjárhæðir umfram það sem hún endurgreiddi, er annars vegar studd því að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings skýringum sínum og hins vegar að notkun fjármuna á bankareikningi kæranda beri með sér einkaneyslu hennar umfram það sem framtaldar tekjur standi undir. Nánar tiltekið hafi laun að frádreginni staðgreiðslu og tillagi í lífeyrissjóð numið 10.991.775 kr. árin 2016 til og með 2019 en úttektir af bankareikningi kæranda með debetkorti, í reiðufé, með erlendum símgreiðslum og í erlendum gjaldeyri alls numið 44.417.346 kr. á þessum árum.

Hvað snertir síðarnefnda atriðið, sem skattrannsóknarstjóri vísaði til, skal tekið fram að í skýrslu skattrannsóknarstjóra er því slegið fram að „[s]tór hluti mismunar á inn- og útborgunum á bankareikningi skattaðila virðist fara í eigin neyslu skattaðila“. Ekki er gerð nánari grein fyrir því á hverju þessi ályktun er byggð að öðru leyti en því að skírskotað er til fyrrgreindra úttekta með debetkorti o.fl. að fjárhæð 44.417.346 kr. Ekki kemur heldur skýrt fram hvort hér sé vísað til allrar þeirrar fjárhæðar eða hluta hennar. Af úrskurði skattrannsóknarstjóra að dæma er hér horft til allrar fjárhæðarinnar. Eins og bent er á í kæru til yfirskattanefndar þarf í þessu sambandi að taka tillit til launatekna kæranda á tímabilinu. Ekki verður ráðið af úrskurði skattrannsóknarstjóra að það hafi verið gert. Það er að athuga við rannsókn skattrannsóknarstjóra hvað snertir ætlaða einkaneyslu kæranda með fyrrgreindri fjárhæð eða annarri lægri að hvorki við skýrslutöku af kæranda né á síðari stigum rannsóknarinnar var leitað skýringa kæranda á notkun þeirra fjármuna sem fóru um bankareikning hennar umfram endurgreiðslur til þeirra aðila sem lögðu inn á reikninginn. Við skýrslutökuna kom þó fram að kærandi ætti bankareikning í Y-landi. Aðspurð sagðist kærandi ekki hafa millifært á þann bankareikning, enda væri ekki heimilt að millifæra á hann, en hins vegar hefði kærandi millifært á bankareikninga móður sinnar eða systur. Af hálfu rannsóknarmanna var ekki gengið eftir skýringum um tilgang þessara millifærslna.

Ekki verður séð að kæranda hafi verið gefinn kostur á að bregðast við niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra fyrr en skýrsla um rannsóknina var send henni með boðunarbréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 14. nóvember 2022. Af hálfu kæranda voru ekki gerðar athugasemdir vegna boðunarbréfsins. Í kæru til yfirskattanefndar er hins vegar leitast við að skýra umræddar úttektir kæranda, þótt ekki risti sú umfjöllun djúpt, og er því haldið fram á almennum nótum að umtalsverður hluti úttekta kæranda af bankareikningnum sé vegna erindreksturs hennar í þágu samlanda sinna. Sérstaklega er tiltekið í þessu sambandi að erlendar símgreiðslur að fjárhæð tæplega 20 m.kr. séu vegna greiðslna sem samlandar kæranda hafi lagt inn á bankareikning hennar vegna ættingja sinna í Y-landi en kærandi millifært á bankareikning þar í landi og síðan tekið út og fært ættingjunum. Þessi umfjöllun í kærunni hefur ekki orðið ríkisskattstjóra tilefni til viðbragða í umsögn embættisins vegna kærunnar.

Eins og fyrr greinir leitaði skattrannsóknarstjóri til 15 manna úr hópi þeirra 448 sem lögðu fé inn á bankareikning kæranda á þeim árum sem rannsóknin tók til. Þar af svöruðu tíu aðilar að meðtöldum einum manni sem gaf ekki aðra skýringu en að greiðsla frá honum hefði verið á vegum eiginkonu hans. Í hinum kærða úrskurði skattrannsóknarstjóra segir réttilega að skýringar þeirra níu sem eftir standa séu í grundvallaratriðum í samræmi við framburð kæranda. Samkvæmt svörunum voru greiðslur þessara aðila inn á bankareikning kæranda ýmist vegna kostnaðar kæranda í þágu þeirra vegna kaupa á vöru, vegna lánveitinga kæranda, vegna greiðslna í sameiginlegan sjóð til að aðstoða samlanda sem á þyrftu að halda eða vegna framlaga til K-félags.

Svör sem lutu að greiðslum í sameiginlegan sjóð verður að skilja þannig að hlutaðeigandi greiðendur hafi talið sig eiga rétt á endurgreiðslu framlaga sinna, eftir atvikum að frádregnu tillagi til K-félags, en að litið sé á kæranda sem umsjónaraðila sjóðsins. Miðað við þetta virðast þessir aðilar hafa talið sig eigendur að innstæðu í sjóðnum að sínum hlut. Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra og hin kærða endurákvörðun byggir hins vegar á því að framlög þessara aðila umfram það sem þeir höfðu fengið endurgreitt í árslok 2019 hafi falið í sér greiðslur til kæranda persónulega og skattskyldar tekjur hennar. Úr því skattrannsóknarstjóri tók þennan pól í hæðina og vefengdi þannig það sem samhljómur var um samkvæmt fyrirliggjandi skýringum var óhjákvæmilegt að hann leitaðist við að afla nánari upplýsinga um eðli umrædds sjóðs til þess að leiða í ljós hvort framkomnar skýringar stæðust. Verður ekki séð að neinir vankantar hafi verið á því að rannsaka þetta nánar, eftir atvikum með því að leita til fleiri greiðenda en gert var, en nöfn greiðenda munu hafa legið fyrir í öllum tilvikum og því af nægum efnivið að taka.

Ástæða er til að taka fram að þótt gengið yrði út frá þeirri forsendu að einkaneysla kæranda hafi verið umfram það sem rúmaðist innan launatekna hennar og að kærandi kunni því að hafa ráðstafað greiðslum samlanda sinna í eigin þágu er ekki þar með sagt að staðist fái að tekjufæra umræddar fjárhæðir hjá kæranda, enda getur kærandi – miðað við að staðhæfingar hennar og þeirra aðila sem svöruðu fyrirspurn skattrannsóknarstjóra standi óhaggaðar – naumast talist eiga þann rétt til greiðslnanna að þær verði taldar réttmætar tekjur hennar samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. tölul. C-liðar lagagreinarinnar, sem skattrannsóknarstjóri vísaði til.

Vegna forsendna skattrannsóknarstjóra að öðru leyti verður að taka undir það með embættinu að þegar litið er til fjölda aðila sem hér eiga hlut að máli og fjárhæða er með ólíkindum að kærandi hafi ekki fært greiðslur í hinn ætlaða sameiginlega sjóð hennar og landsmanna hennar til bókar með einhverjum hætti. Við það verður þó að miða að engu slíku sé til að dreifa, en við skýrslutöku neitaði kærandi því að búa að gögnum um greiðslur og inneignir aðila umfram það sem fram kæmi í bankayfirlitum. Þótt kærandi hafi samkvæmt þessu ekki lagt fram nein gögn sem styðja skýringar hennar um eðli greiðslna sem fóru um bankareikning hennar verður í ljósi málavaxta í heild sinni og einkum með tilliti til yfirlýsinga þeirra aðila sem skattrannsóknarstjóri leitaði til vegna rannsóknar málsins ekki talið að þetta atriði út af fyrir sig sé nægilegt til þess að ekki verði byggt á skýringum kæranda.

Skilja verður svör kæranda við skýrslutöku af henni þannig að hún hafi á umræddum árum haft tekjur af framleiðslu og sölu gerviblóma sem ekki hafi verið gerð grein fyrir í skattskilum hennar. Einnig er að skilja að sumir samlandar kæranda hafi greitt henni þóknun fyrir vöruútvegun eða aðra þjónustu hennar í þágu hlutaðeigandi aðila. Í kæru til yfirskattanefndar er slegið úr og í um tekjur kæranda vegna þessara viðvika og kemur bæði fram að það sé af og frá að hún hafi haft nokkrar tekjur af þessu og að því fari víðs fjarri að slíkar tekjur gætu nálgast þá fjárhæð sem skattrannsóknarstjóri hafi ætlað henni. Hvað sem þessu líður verður með vísan til þess sem hér að framan er rakið ekki talið að leitt hafi verið í ljós með hinni kærðu endurákvörðun og skattrannsókn að baki henni að kærandi hafi vantalið tekjur sínar um þær fjárhæðir sem greinir í úrskurði skattrannsóknarstjóra. Engar forsendur er til þess, svo sem rannsókn málsins er farið, að áætla skattskyldar tekjur kæranda með öðrum og lægri fjárhæðum. Að svo vöxnu verður ekki hjá því komist að hnekkja úrskurði skattrannsóknarstjóra að öllu leyti, svo sem kröfugerð kæranda stendur til.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hennar vegna meðferðar málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. maí 2023, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020 fellur niður. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja