Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn

Úrskurður nr. 152/2023

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.), 41. gr. 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 32. gr.)   Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.), 31. gr. 3. mgr. (brl. nr. 29/2021, 16. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr.  

Í máli þessu sætti kæru ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda, sem var skráður fyrirsvarsmaður X ehf., sekt vegna brota á lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda í starfsemi félagsins á árunum 2018, 2019 og 2020. Vegna athugasemda kæranda um að fjárskortur X ehf. hefði fyrst og fremst stafað af samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar að vanskil staðgreiðslu og virðisaukaskatts vörðuðu að mestu leyti greiðslu- og uppgjörstímabil áður en samkomutakmörkunum hefði verið komið á af stjórnvöldum. Þá yrði ekki séð að X ehf. hefði verið skylt að hætta starfsemi sinni eða láta af þjónustu á grundvelli sóttvarnalaga. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2023, fimmtudaginn 19. október, er tekið fyrir mál nr. 127/2023; kæra A, dags. 14. júní 2023, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 14. júní 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun skattrannsóknarstjóra, dags. 14. mars 2023, um að gera kæranda sekt að fjárhæð 31.050.000 kr. fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2018, 2019 og 2020. Byggði ákvörðun skattrannsóknarstjóra á því að kærandi hefði sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú afskráð, vanrækt skyldur sínar, sem mælt væri fyrir um í 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, til að að standa á tilskildum tíma skil á staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin október 2018, janúar til og með desember 2019 og janúar og mars til og með ágúst 2020, að fjárhæð samtals 11.172.331 kr., og vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2019 og janúar-febrúar og mars-apríl 2020 að fjárhæð samtals 7.405.634 kr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að umrædd háttsemi varðaði kæranda sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Í ákvörðun skattrannsóknarstjóra var rakið að skattrannsóknarstjóri hefði tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. desember 2022, um fyrirhugaða ákvörðun sektar að fjárhæð 31.050.000 kr. Bréfi þessu var svarað af hálfu kæranda með bréfi umboðsmanns hans, dags. 21. desember 2022. Tók skattrannsóknarstjóri fram í ákvörðun sinni að ekki lægi annað fyrir en að vanhöld á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts stöfuðu fyrst og fremst af erfiðleikum í rekstri X ehf. og væri ekkert komið fram um að kærandi hefði hagnast á brotinu. Þætti mega líta til þess að skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila málsins lægju fyrir og væru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Þá hefði kærandi verið samvinnuþýður. Taldi skattrannsóknarstjóri sekt kæranda því hæfilega ákveðna 31.050.000 kr.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi andmæli í sjálfu sér ekki þeim brotum sem honum séu gefin að sök en enginn ásetningur hafi þó verið til staðar. Hafi fjárskortur X ehf. stafað af atvikum sem rekja megi til lokana og sóttvarnaraðgerða í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru árið 2020 en á því ári hafi dregið mjög úr greiðslum félagsins til Skattsins. Mestur hluti vanskila sé vegna rekstrarársins 2020. Þá hefðu verið kreditfærðir sölureikningar á M upp á 7,7 m. kr. þar sem þeir hefðu ekki fengist greiddir áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Hins vegar hafi launakostnaður verið sá sami og áður og starfsmenn ekki getað unnið vegna sóttvarnartakmarkana. Telji kærandi að um „force majeure“ tilvik sé að ræða. Þá telur kærandi að hann eigi sér málsbætur sem taka beri tillit til við ákvörðun sektar, sbr. 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988. Verulegar greiðslur hafi verið inntar af hendi þar til félagið hafi orðið gjaldþrota á árinu 2020 eða 21.464.118 kr. Telji kærandi að meiru hefði verið hægt að ráðstafa inn á höfuðstól skuldarinnar þannig að vextir hefðu orðið lægri vegna vanskila.

II.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2023, hefur skattrannsóknarstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða sektarákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattrannsóknarstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. ágúst 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn skattrannsóknarstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu eða virðisaukaskatti samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, sem bætt var við lögin með c-lið 16. gr. og e-lið 32. gr. laga nr. 29/2021, er skattrannsóknarstjóra heimilt að ákvarða sekt lægri en lágmark sektar samkvæmt 30. gr. laga nr. 45/1987 og 40. gr. laga nr. 50/1988 ef málsatvik eða aðstæður skattaðila mæla sérstaklega með því, svo sem ef skattaðili hefur leiðrétt skattskil sín, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar.        Við ákvörðun sektarfjárhæðar í máli kæranda þótti skattrannsóknarstjóra ástæða til að líta til þess að vanhöld á skilum staðgreiðslu og virðisaukaskatts stöfuðu fyrst og fremst af erfiðleikum í rekstri X ehf. og væri ekkert komið fram um að kærandi hefði hagnast á brotinu. Þá lægju fyrir skilagreinar staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna allra greiðslu- og uppgjörstímabila málsins og væru fjárhæðir byggðar á þeim. Loks vísaði skattrannsóknarstjóri til þess að kærandi hefði verið samvinnuþýður. Á þessum grundvelli og með vísan til fyrrnefndra ákvæða 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 ákvarðaði skattrannsóknarstjóri kæranda sekt nokkuð undir lögbundnu lágmarki sektarrefsingar.

Af hálfu kæranda eru sem fyrr segir ekki gerðar athugasemdir við þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að gera kæranda sekt vegna brota á skattalögum en leitað eftir því að sektin verði lækkuð. Hefur kærandi í því sambandi vísað til þess að fjárskort X ehf. megi rekja til samkomutakmarkana sem ráðist hafi verið í vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Af því tilefni skal tekið fram að vanskil staðgreiðslu opinberra gjalda ná aftur til ársins 2018 og er meirihluti fjárhæðar vangoldinnar staðgreiðslu vegna greiðslutímabila á árunum 2018, 2019 og 2020 eða áður en fyrstu samkomutakmörkunum vegna faraldurs var komið á af stjórnvöldum í mars 2020. Hið sama má segja um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt, en þrjú af fjórum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts sem málið varðar voru liðin er samkomutakmörkunum var komið á.

Skráður tilgangur X ehf. var málningarvinna og skyldur rekstur. Verður því ekki séð að þannig hafi verið statt um rekstur félagsins að því hafi verið skylt að hætta starfsemi eða láta af þjónustu á grundvelli 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Samkvæmt framansögðu varðar mál þetta vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti að verulegum fjárhæðum og vegna alllangs tímabils. Vegna athugasemda í kæru til yfirskattanefndar um greiðslur inn á skattskuldir X ehf. skal tekið fram að umræddar greiðslur varða að meginstofni til önnur greiðslu- og uppgjörstímabil en mál þetta tekur til. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra virðist hið sama eiga við um sölureikning á hendur M ehf. sem vísað er til í kæru. Þykir kærandi ekki hafa fært neitt fram sem meta megi honum til frekari málsbóta í skilningi 2. mgr. 30. gr. og 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 en þegar hefur verið tekið tillit til eða að atvikum sé þannig háttað að ákvæði 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við.

Að þessu virtu verður ekki talið að tilefni sé til að lækka sektarfjárhæð umfram það sem skattrannsóknarstjóri ákvarðaði. Er kröfu kæranda í málinu því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja