Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 153/2023

Virðisaukaskattur 2022

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kröfu einkahlutafélags um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti var hafnað, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til þess að greiðslukrafa stofnaðist ekki í heimabanka við rafræn skil virðisaukaskattsskýrslu. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að upplýsingar um afdrif kröfu vegna virðisaukaskatts hefðu komið fram á kvittun vegna skila virðisaukaskattsskýrslu.

Ár 2023, fimmtudaginn 19. október, er tekið fyrir mál nr. 128/2023; kæra A ehf., dags. 12. júní 2023, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 12. júní 2023, er ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags að fjárhæð 704.563 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi stóð skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 7.045.625 kr. vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2022 þann 20. febrúar 2023, en gjalddagi virðisaukaskatts fyrir umrætt uppgjörstímabil var 6. febrúar 2023. Vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag að fjárhæð 704.563 kr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Með kæru til ríkisskattstjóra, sem barst embættinu 20. mars 2023, fór umboðsmaður kæranda fram á niðurfellingu álagsins. Í kærunni kom fram að krafa vegna virðisaukaskatts hefði ekki birst í heimabanka kæranda fyrr en 20. febrúar 2023 og verið greidd sama dag. Krafan hefði ekki stofnast þegar virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins hefði verið skilað sem væri afar fátítt. Þá hefði sá aðili, sem jafnan annaðist um greiðslu á öllum reikningum kæranda, farið í axlaraðgerð í febrúar og því ekki verið til taks á þeim tíma sem um ræðir. Í litlu fjölskyldufyrirtæki væri oft ekki öðrum til að dreifa til að leysa af við slíkar aðstæður.

Með kæruúrskurði, dags. 24. mars 2023, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að væru síðbúin skil á virðisaukaskatti tilkomin vegna atvika sem skattaðili bæri einn ábyrgð á og ekki væri að neinu leyti unnt að kenna utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum um, eins og t.d. mistök starfsmanna, hefði ekki verið talið unnt að fella niður álag, sbr. heimild 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu samhengi til úrskurða yfirskattanefndar nr. 153/2004 og 217/2006. Við skil kæranda á virðisaukaskatti þann 3. febrúar 2023 hefði komið fram á móttökukvittun að ekki hefði tekist að senda kröfu til Reiknistofu bankanna og tilgreindar bankaupplýsingar til að hægt væri að greiða kröfuna. Kæranda hefði því verið í lófa lagið að greiða kröfuna á gjalddaga með millifærslu og hefðu ekki verið færð fram rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hefðu staðið því í vegi. Eins og atvikum málsins væri háttað væri ekki tilefni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. júní 2023, kemur fram að bókari hafi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 þann 3. febrúar 2023 með rafrænum hætti. Við slík skil stofnist jafnan krafa í heimabanka kæranda sem prókúruhafi félagsins greiði síðan. Að þessu sinni hafi slík krafa ekki stofnast eins og sjá megi á meðfylgjandi móttökukvittun. Skatturinn hafi sjálfur stofnað kröfuna síðar og hafi krafan þá verið greidd um hæl. Ítrekað er að það sé fátítt og í raun óþekkt að krafa stofnist ekki við rafræn skil á virðisaukaskattsskýrslu. Það geti tæpast verið á ábyrgð bókara kæranda að þaullesa kvittun fyrir skilum þar sem alltaf hafi mátt treysta því að krafa stofnist við skil. Sú staðreynd að Skatturinn hafi sjálfur að lyktum stofnað kröfuna bendi til þess að það sé hin raunverulega rukkun. Sé þess því krafist að álagið verði fellt niður og að kæranda verði greiddur málskostnaður úr ríkissjóði.

IV.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er tekið fram að málið liggi nokkuð skýrt fyrir.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. ágúst 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022, þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda er komið fram að greiðsla virðisaukaskattsins hafi dregist fram yfir gjalddaga þessa uppgjörstímabils, sem var 6. febrúar 2023, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, þar sem greiðslukrafa hafi ekki stofnast við rafræn skil á virðisaukaskattsskýrslu þann 3. sama mánaðar, sbr. kvittun fyrir móttöku virðisaukaskattsskýrslu þann dag þar sem fram kemur að ekki hafi tekist að senda kröfu til Reiknistofu bankanna. Er tekið fram á kvittun þessari að hægt sé að leggja inn á tilgreindan bankareikning innheimtumanns og senda kvittun með skýringu í tölvupósti. Þá er komið fram af hálfu kæranda að sá aðili, sem jafnan annist um greiðslu virðisaukaskatts félagsins, hafi verið fjarverandi á þeim tíma sem um ræðir.

Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Er þá jafnframt litið til þess að upplýsingar um afdrif kröfu vegna virðisaukaskatts komu fram á kvittun vegna skila á virðisaukaskattsskýrslu þann 3. febrúar 2023. Samkvæmt framansögðu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst félagið undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er því hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Er málskostnaðarkröfu því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja