Úrskurður yfirskattanefndar

  • Reiknað endurgjald
  • Álag

Úrskurður nr. 155/2023

Gjaldár 2019, 2020 og 2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 58. gr., 108. gr. 2. mgr.  

Ríkisskattstjóri hækkaði reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. Félagið hafði með höndum ferða- og gistiþjónustu og trésmíðar. Að virtum skýringum kæranda var fallist á kröfu hans um niðurfellingu 25% álags á hækkun skattstofna.

Ár 2023, fimmtudaginn 19. október, er tekið fyrir mál nr. 133/2023; kæra A, dags. 29. júní 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019, 2020 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 29. júní 2023, móttekinni 4. júlí sama ár, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. maí 2023, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020 og 2022. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. úr 4.560.000 kr. í 6.427.500 kr. tekjuárið 2018, úr 4.652.000 kr. í 6.843.800 kr. tekjuárið 2019 og úr 4.656.000 kr. í 7.636.700 kr. tekjuárið 2021. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda tók ríkisskattstjóri mið af viðmiðunarflokkum B(4) og B(5) í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald, sbr. auglýsingar nr. 1160/2017, 1142/2018 og 1430/2020 sem birtust í B-deild Stjórnartíðinda. Við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2019, 2020 og 2022, sem af breytingum þessum leiddi, bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 1. september 2022 og 1. desember sama ár, og svarbréf kæranda, dags. 10. október 2022 og 2. mars 2023, sbr. boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 12. apríl 2023, og svarbréf kæranda, dags. 4. maí  2023. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra voru þær, sbr. hinn kærða úrskurð, að kærandi, sem væri framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf., hefði ákvarðað sér of lágt endurgjald vegna starfa í þágu félagsins á árunum 2018, 2019 og 2021 í skattframtölum sínum vegna þeirra ára, sbr. ákvæði um reiknað endurgjald í 2. mgr. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fyrrgreindar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að X ehf. hefði með höndum ferða- og trésmíðaþjónustu og þeirra skýringa kæranda að rekstur félagsins væri sveiflukenndur eftir árstíðum. Kom fram að miðað við þær upplýsingar og stöðu kæranda hjá félaginu félli kærandi undir viðmiðunarflokk B í reglum um reiknað endurgjald. Samkvæmt útgefnum launamiðum og staðgreiðsluskrá hefðu á bilinu 5-8 starfsmenn starfað hjá X ehf. á árunum 2018-2021 að kæranda meðtöldum. Svo virtist þó sem hluti starfsmanna hefði eingöngu verið í hlutastarfi og yrði dregin sú ályktun að 3-4 starfsmenn hefðu að meðaltali starfað hjá félaginu yfir sumartíma og 1-2 að meðaltali yfir vetrartíma. Með hliðsjón af eðli rekstrar X ehf., fjölda starfsmanna og umfangi rekstrarins teldi ríkisskattstjóri að kæranda bæri að ákvarða sér reiknað endurgjald miðað við flokk B(5) í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra yfir sumartíma (maí til september) og miðað við flokk B(4) yfir vetrartíma (október til apríl). Að teknu tilliti til 100% starfshlutfalls kæranda yfir sumartíma og 70% starfshlutfalls yfir vetrartíma yrðu árslaun 6.427.500 kr. tekjuárið 2018, 6.843.800 kr. tekjuárið 2019 og 7.636.700 kr. tekjuárið 2021. Væru reiknuð laun kæranda vegna vinnu fyrir eigið einkahlutafélag, þ.e. X ehf., á greindum árum því vanreiknuð og væru samkvæmt því hækkuð um 1.867.500 kr. fyrsta árið, um 2.191.800 kr. annað árið og um 2.980.000 kr. þriðja árið. Var tekið fram í úrskurðinum að í ljósi þess hversu mikið rekstrartekjur X ehf. hefðu dregist saman á rekstrarárinu 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru yrði ekki hróflað við reiknuðu endurgjaldi kæranda í skattframtali árið 2021.

Til stuðnings beitingu 25% álags á hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2019, 2020 og 2022, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, tók ríkisskattstjóri fram í úrskurðinum að kærandi hefði ekki reiknað sér laun í samræmi við viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald viðkomandi ár. Vantaldar tekjur teldust verulegur annmarki á framtalsgerð. Með vísan til þess og málsástæðna ríkisskattstjóra að öðru leyti þætti kærandi ekki hafa fært fram rök fyrir því að fella ætti niður álag, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kæran lúti einvörðungu að beitingu 25% álags. Er rakið að X ehf., sem sé í eigu kæranda, reki ferða- og gistiþjónustu á landsbyggðinni auk trésmíðaþjónustu. Nánast allar tekjur félagsins af ferðaþjónustu falli til á sumrin og sama gildi um trésmíðina. Þá sé töluverð árstíðasveifla eftir því hvernig viðri á sumrin. Kærandi hafi þó reiknað sér jöfn laun yfir árið og staðið skil á staðgreiðslu af þeim. Nokkrir starfsmenn hafi aðstoðað við reksturinn, einkum á sumrin. Kærandi vinni ekki fulla vinnu vegna heilsubrests og hafi reiknað endurgjald hans einnig tekið mið af því. Með hliðsjón af rekstrarumhverfi kæranda og óvissu sem því fylgi verði ekki séð að kærandi hafi farið á svig við reglur um reiknað endurgjald.

II.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Vegna athugasemda í kæru um heilsubrest kæranda tekur ríkisskattstjóri fram að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að upplýsa um það á fyrri stigum málsins. Allt að einu verði ekki séð að kærandi hafi með þeim athugasemdum fært fram viðhlítandi rökstuðning og gögn fyrir fjárhæðum reiknaðs endurgjalds hans þau ár sem málið tekur til, sbr. m.a. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003. Í tölvupósti 23. febrúar 2023 hafi kærandi greint frá óvinnufærni undanfarna mánuði, en úrskurður ríkisskattstjóra taki til áranna 2018-2021 og sé því um að ræða annað tímabil en vísað sé til af kæranda. Hafi því ekki verið færð rök fyrir því að fella beri niður álag á grundvelli 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 27. september 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu kemur fram að á liðnum árum hafi kærandi starfað við smíðar, ferðaþjónustu og landbúnað. Yfir sumartíma (júní, júlí og ágúst) séu starfsmenn þrír auk kæranda sjálfs, en aðra mánuði sé aðeins einn starfsmaður við ferðaþjónustu og hafi kærandi sinnt búrekstri og öðrum tilfallandi verkefnum í um 60% starfi. Kærandi hafi hætt sauðfjárrækt í október 2021 og síðan unnið við endurgerð þjónustuhúsnæðis sem hafi skemmst. Þá ítrekar kærandi að tekjuöflun í starfseminni sé sveiflukennd eftir mánuðum og tíðarfari, svo sem nánar greinir, auk þess sem heimsfaraldur hafi haft áhrif á árunum 2020 og 2021. Sé nú svo komið að kærandi, sem sé óvinnufær eftir læknisaðgerð síðastliðinn vetur, muni minnka við sig vinnu yfir vetrartíma til að geta sinnt rekstrinum betur þegar tekjur falli til, þ.e. yfir sumarmánuði.

III.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök fyrir því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Með hinum kærða úrskurði hækkaði ríkisskattstjóri reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. á árunum 2018, 2019 og 2021 um 1.867.500 kr. fyrsta árið, um 2.191.800 kr. annað árið og um 2.980.700 kr. þriðja árið, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003, með því að ríkisskattstjóri leit svo á að tilfærð laun kæranda hjá félaginu væru lægra endurgjald en ef kærandi hefði innt starfið af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, sbr. áskilnað fyrrnefnds lagaákvæðis. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. tók ríkisskattstjóri mið af viðmiðunarflokki B í reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald á tekjuárunum 2018, 2019 og 2021, sbr. auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1160/2017, 1142/2018 og 1430/2020, þ.e. nánar tiltekið viðmiðunarflokkum B(4) og B(5) eftir starfsmannafjölda, svo sem nánar greinir í kafla I hér að framan. Ríkisskattstjóri taldi þó að ákvarða mætti lægri fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda umrædd ár en leiddi af viðmiðunarreglunum miðað við að um fullt starf hefði verið að ræða með því að ríkisskattstjóri féllst á að kærandi hefði einungis verið í hlutastarfi yfir vetrartíma, þ.e. miðað við 70% starfshlutfall.

Í kæru til yfirskattanefndar og í bréfi kæranda, dags. 27. september 2023, er gerð nánari grein fyrir eðli starfa kæranda í þágu X ehf. og vinnumagni á því tímabili sem um ræðir. Eins og hér að framan greinir er ágreiningslaust í málinu að ekki sé um fullt starf kæranda að ræða nema yfir sumartíma. Að framangreindu virtu og fram komnum skýringum kæranda þykir mega fallast á kröfu hans um niðurfellingu 25% álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda um niðurfellingu 25% álags er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja