Úrskurður yfirskattanefndar
- Bifreiðahlunnindi
- Skattmat
- Málsmeðferð
- Álag
Úrskurður nr. 159/2023
Gjaldár 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 108. gr. 2. mgr., 118. gr. Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr. Skattmat fyrir tekjuárin 2016-2020.
Ríkisskattstjóri ákvarðaði kæranda, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður B ehf., bifreiðahlunnindi vegna afnota kæranda af þremur bifreiðum í eigu félagsins, þar með talið bifreið af gerðinni Ford Mustang. Ákvörðun ríkisskattstjóra vegna þeirrar bifreiðar var felld úr gildi með því að verulega þótti skorta á að ríkisskattstjóri hefði tekið skýringar kæranda til rökstuddrar úrlausnar, en kærandi hélt því fram að um sýningarbifreið væri að ræða. Þá var fallist á kröfu kæranda um lækkun bifreiðahlunninda vegna annarrar bifreiðar, en kröfu hans um niðurfellingu 25% álags var hafnað.
Ár 2023, föstudaginn 27. október, er tekið fyrir mál nr. 43/2023; kæra A, dags. 17. febrúar 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 17. febrúar 2023, sbr. greinargerð, dags. 28. mars 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. nóvember 2022, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021. Með úrskurði þessum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.646.000 kr. í skattframtali árið 2017, 2.381.400 kr. í skattframtali árið 2018, 1.879.548 kr. í skattframtali árið 2019, 4.548.772 kr. í skattframtali árið 2020 og 3.572.462 kr. í skattframtali árið 2021 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreiðum af gerðinni Ford Mustang með skráningarnúmerið X á árunum 2016 og 2017 og til 8. september 2018, BMW með skráningarnúmerið Y frá 13. nóvember 2018 til 10. janúar 2019 og Mercedes Benz með skráningarnúmerið Z frá 18. janúar 2019 til 4. nóvember 2020. Bifreiðar þessar voru í eigu B ehf., en kærandi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess félags. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda sem af breytingunum leiddi umrædd ár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um lækkun tekjufærðra bifreiðahlunninda auk þess sem gerð er krafa um að 25% álag verði fellt niður.
II.
Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar var kærandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður B ehf. Einkahlutafélagið var á árunum 2015 til 2018 eigandi bifreiðar af gerðinni Ford Mustang með skráningarnúmið X, á árunum 2018 og 2019 eigandi bifreiðar af gerðinni BMW með skráningarnúmerið Y og á árunum 2019 og 2020 eigandi bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz með skráningarnúmerið Z.
Með bréfum til B ehf., dags. 15. mars 2021 og 28. október 2021, og til kæranda, dags. 18. janúar 2022, fór ríkisskattstjóri fram á að gerð yrði grein fyrir notkun á tilteknum bifreiðum, bifhjólum og hjólhýsi sem félagið virðist hafa haft umráð yfir eða verið eigandi að á árunum 2016, 2017, 2018 og 2019. Tiltók ríkisskattstjóri í þessu sambandi m.a. bifreiðarnar X sem keypt hefði verið 2015, Y sem keypt hefði verið 2018 og Z sem keypt hefði verið 2019. Fram þyrftu að koma upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðarnar til umráða á umræddum árum og hver þau umráð hefðu verið. Upplýsa þyrfti um tengsl þeirra sem í hlut ættu við félagið, m.a. þyrfti að koma fram starfsheiti viðkomandi innan fyrirtækisins og hvort um hluthafa og/eða stjórnarmann væri að ræða. Einnig skyldi upplýst hvort félagið hefði lagt bann við einkaafnotum starfsmanna á téðum bifreiðum þess. Hefði svo verið væri óskað upplýsinga um það hver hefði lagt bannið á og hvernig eftirliti hefði verið háttað. Bréfum þessum var ekki svarað af hálfu B ehf. eða kæranda.
Með bréfi til kæranda, dags. 14. júní 2022, greindi ríkisskattstjóri frá því mati sínu að reikna bæri kæranda bifreiðahlunnindi vegna fullra umráða hans á árunum 2016 til 2020 af bifreiðunum X, Y og Z í eigu félagsins. Við mat á ákvörðun bifreiðahlunninda væri byggt á skattmatsreglum ríkisskattstjóra sem endurspegluðu þau verðmæti sem um ræddi. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir útreikningi skattmatsfjárhæða og forsendum þeirra. Samkvæmt gögnum málsins bárust ríkisskattstjóra ekki efnisleg svör af þessu tilefni frá kæranda.
Með bréfi, dags. 19. ágúst 2022, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að launagreiðandi kæranda, B ehf., hefði m.a. verið eigandi að bifreiðunum X, keypt árið 2015, Y, keypt árið 2018, og Z, keypt árið 2018. Fríðindi og hlunnindi, þar á meðal afnot bifreiða, teldust til skattskyldra launa, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en kveðið væri á um mat hlunninda í skattmatsreglum er væru birtar árlega í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. reglur nr. 1202/2015 fyrir árið 2016, nr. 1260/2016 fyrir árið 2017, nr. 1162/2017 fyrir árið 2018, nr. 1141/2018 fyrir árið 2019 og nr. 1223/2019 fyrir árið 2020. Samkvæmt skattmatsreglum teldust umráð eigenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra þeirra og annarra í sambærilegum störfum, ætíð full og ótakmörkuð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota, hvað sem liði í hvaða mæli einkanot hefðu í raun verið. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 49/2015. Í ljósi framangreinds yrði að gera ríkar kröfur til kæranda, sem framkvæmdastjóra félagsins, að sýna fram á það með haldbærum gögnum eða með afdráttarlausum hætti að hann hefði ekki haft þau ótakmörkuðu umráð yfir bifreiðum félagsins sem meta bæri til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Engin efnisleg svör hefðu borist ríkisskattstjóra um notkun á ökutækjum í eigu félagsins á árunum 2016 til 2020. Í ljósi svarleysis kæranda og í samræmi við framangreindar skattmatsreglur, sem og fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu kæranda gagnvart félaginu, yrði að líta svo á að kærandi hefði haft algert sjálfdæmi um afnot bifreiða einkahlutafélagsins á umræddu tímabili, án þess að nokkru eftirliti hefði verið komið við. Bæri því að miða við að kærandi hefði haft bifreiðar félagsins til fullra umráða. Þessu til stuðnings væri einnig að D, sem skráð væri með sama lögheimili og kærandi, hefði verið skráð umráðamaður bifreiðarinnar X á því tímabili sem bifreiðin hefði verið í eigu félagsins. Væri það mat ríkisskattstjóra að reikna bæri kæranda bifreiðahlunnindi vegna fullra umráða hans yfir bifreiðum félagsins. Í samræmi við það hefði ríkisskattstjóri í hyggju að færa kæranda til tekna bifreiðahlunnindi gjaldárin 2017 til 2021, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, að fjárhæð 2.646.000 kr. gjaldárið 2017, 2.381.400 kr. gjaldárið 2018, 1.879.548 kr. gjaldárið 2019, 4.548.772 kr. gjaldárið 2020 og 3.572.462 kr. gjaldárið 2021, svo sem nánar var gerð grein fyrir. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en vanframtaldar tekjur þættu vera verulegur annmarki á skattskilum.
Með bréfi, dags. 19. september 2022, mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu kom fram að starfsemi B ehf. fælist m.a. í breytingum á bifreiðum eftir séróskum viðskiptavina. Bifreiðum sem boðaðar breytingar ríkisskattstjóra beindust að hefði verið breytt í auglýsingaskyni til þess að kynna starfsemi og getu félagsins fyrir væntanlegum viðskiptavinum. Bifreiðarnar hefðu verið sýningabifreiðar sem til hefði staðið að selja. Þær hefðu verið tryggðar svokallaðri bílasölutryggingu, sbr. meðfylgjandi staðfestingu frá vátryggingafélagi, en það væru tryggingar sem ákveðnir fagaðilar fengju til að sýna og selja bifreiðar en heimiluðu ekki önnur almenn not þeirra. Því væri ljóst að umræddar bifreiðar hefðu aldrei verið til almennra nota, heldur aðeins þeirra sem gerð væri grein fyrir í bréfinu. Því bæri kæranda ekki að reikna sér bifreiðahlunnindi vegna þessara bifreiða.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 17. nóvember 2022, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis. Ríkisskattstjóri færði sömu rök fyrir breytingum sínum og fram höfðu komið í boðunarbréfi. Í tilefni af andmælum kæranda tók ríkisskattstjóri fram að í lögum nr. 90/2003 væri kveðið skýrt á um að fríðindi og hlunnindi, svo sem afnot bifreiða teldust til skattskyldra launa, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt skattmati umræddra ára teldust umráð eigenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra þeirra og annarra í sambærilegum störfum, ætíð full og ótakmörkuð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota, hvað sem liði því í hvaða mæli einkanot væru í raun, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 49/2015. Gilti afstaða embættisins því þrátt fyrir að umræddar bifreiðar kynnu að hafa verið ætlaðar til sölu síðar og óháð notkun þeirra í rekstri félagsins, enda væri með skattlagningu bifreiðahlunninda verið að líta til þeirra umráða sem sem gjaldandi hefði yfir bifreiðunum með tilliti til ráðstöfunar til eigin nota. Þætti ekkert vera fram komið sem kallaði á að fallið yrði frá boðuðum breytingum á skattframtölum kæranda.
III.
Í greinargerð umboðsmanns kæranda, dags. 28. mars 2023, sbr. kæru, dags. 17. febrúar 2023, er mótmælt ákvörðun bifreiðahlunninda vegna bifreiðarinnar X af gerðinni Ford Mustang. Þessi bifreið hafi aðeins verið nýtt í þágu B ehf. og aldrei höfð til einkaerinda kæranda. Algert akstursbann hafi gilt um bifreiðina nema þegar hún var færð á milli staða. Tilgangur með kaupum bifreiðarinnar hafi verið að markaðssetja rekstur B ehf. Með því að breyta útliti bifreiðarinnar með málningu hafi verið hægt að nota hana í auglýsingaskyni svo eftir væri tekið. Hafi bifreiðin ýmist verið til sýnis á starfsstöð félagsins, sérstökum bílasýningum eða hjá bílasölum í sölumeðferð. Hafi bifreiðin oftast verið færð á milli staða á bílaflutningavagni. Bifreiðin hafi verið færð til skoðunar 3. júní 2020 eða tveimur árum eftir sölu hennar og hafi kílómetrastaða hennar verið skráð 9.089 km. Sé reiknuð út meðalnotkun á dag frá skráningu hennar 18. janúar 2016 hafi daglegur akstur hennar verið 5,68 km (9.089 km/1598 dagar). Ætla megi að akstur eftir sölu bifreiðarinnar hafi verið mun meiri en þegar hún var í eigu B ehf., enda hafi skilmálar vátryggingar gert ráð fyrir að bifreiðin væri ekki í almennri notkun.
Einnig sé kært það umráðatímabil sem miðað sé við í útreikningum ríkisskattstjóra vegna bifreiðarinnar Z af gerðinni Mercedes Benz. Bifreiðin hafi verið seld 30. ágúst 2019 til ótengds aðila. Fyrningarskýrsla með skattframtali B ehf. árið 2020 sýni að bifreiðin hafi verið seld á árinu 2019, sbr. og upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu. Í útreikningum sínum byggi ríkisskattstjóri hins vegar á því að bifreiðin hafi verið seld 4. nóvember 2020. Bifreiðin hafi verið nýtt af kæranda frá 18. janúar 2019 til 30. ágúst 2019 eða í 225 daga. Sé því farið fram á að útreikningur ríkisskattstjóra verði leiðréttur til samræmis við það og bifreiðahlunnindi lækkuð í 2.899.726 kr. á árinu og engin bifreiðahlunnindi reiknuð fyrir árið 2020.
Ekki sé gerð athugasemd við ákvörðun bifreiðahlunninda vegna bifreiðarinnar Y af gerðinni BMW þar sem um óverulega fjárhæð sé að ræða.
Í niðurlagi greinargerðarinnar kemur fram að jafnframt sé kærð beiting 25% álags á hækkun skattstofna.
IV.
Með bréfi, dags. 6. júlí 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn sína í málinu og krafist þess að hinn kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðuninni. Ríkisskattstjóri tekur fram að fyrst sé upplýst um það í kæru til yfirskattanefndar að algert akstursbann hafi gilt um bifreiðina X, samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjóra B ehf., nema þegar bifreiðin hafi verið færð á milli staða. Þá sé einnig bent á það í fyrsta sinn á þessu stigi málsins að akstur bifreiðarinnar hafi verið mjög lítill eða hugsanlega um 5,68 km á dag á meðan bifreiðin var í eigu félagsins. Kærandi þyki ekki hafa lagt fram nein haldbær gögn til staðfestingar á greindu akstursbanni bifreiðarinnar eða sýnt fram á það með haldbærum gögnum eða með afdráttarlausum hætti að hann hafi ekki haft ótakmörkuð umráð yfir bifreiðinni. Þá verði ekki séð að akstur bifreiðarinnar áður en hún var seld staðfesti að kærandi hafi ekki haft bifreiðina til ótakmarkaðra umráða. Í kæru séu gerðar athugasemdir við það tímabil sem ríkisskattstjóri miði við vegna bifreiðarinnar Z og bent á að bifreiðin hafi verið seld ótengdum aðila 30. ágúst 2019 og lögð fram gögn því til staðfestingar. Sé fallist á kröfur kæranda hvað varði þennan þátt málsins. Hins vegar sé því hafnað að 25% álag verði fellt niður, enda þyki kærandi ekki hafa sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. júlí 2023, var kæranda sent afrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
V.
Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.646.000 kr. í skattframtali árið 2017, 2.381.400 kr. í skattframtali árið 2018, 1.879.548 kr. í skattframtali árið 2019, 4.548.772 kr. í skattframtali árið 2020 og 3.572.462 kr. í skattframtali árið 2021 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreiðinni X af gerðinni Ford Mustang tímabilið 1. janúar 2016 til 8. september 2018, af bifreiðinni Y af gerðinni BMW tímabilið 13. nóvember 2018 til 10. janúar 2019 og af bifreiðinni Z af gerðinni Mercedes Benz tímabilið 18. janúar 2019 til 4. nóvember 2020. Bifreiðar þessar voru í eigu B ehf., en kærandi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þess félags. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda sem af breytingunum leiddi umrædd ár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ákvörðun ríkisskattstjóra á því að að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir bifreiðunum þremur á greindum tímabilum, sbr. reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi uni ákvörðun ríkisskattstjóra hvað snertir ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota af bifreiðinni Y. Þá er ákvörðun ríkisskattstjóra ekki mótmælt að því er tekur til bifreiðahlunninda vegna bifreiðarinnar Z að öðru leyti en því að bent er á að B ehf. hafi selt bifreiðina 30. ágúst 2019 en ríkisskattstjóri miði við að bifreiðin hafi verið í eigu félagsins til 4. nóvember 2020. Hafi bifreiðahlunnindi því verið ofreiknuð. Sé því gerð krafa um að bifreiðahlunnindi verði lækkuð með hliðsjón af styttri umráðatíma. Hvað varðar bifreiðina X krefst kærandi þess að alfarið verði hnekkt ákvörðun ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi vegna ætlaðra umráða kæranda yfir bifreiðinni á árunum 2016, 2017 og 2018, enda hafi sú bifreið alfarið verið notuð í þágu rekstrar B ehf. og ekki staðið kæranda til einkanota að neinu leyti.
Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020, sbr. reglur nr. 1202/2015, 1260/2016, 1162/2017, 1141/2018 og 1223/2019 sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda.
Eins og fram kemur í kafla II hér að framan var slælega brugðist við af hálfu B ehf. og kæranda vegna fyrirspurnarbréfa ríkisskattstjóra til aðilanna sem vörðuðu notkun tilgreindra ökutækja á árunum 2016 til 2019, m.a. bifreiðanna X, Y og Z. Með bréfi til kæranda, dags. 14. júní 2022, upplýsti ríkisskattstjóri kæranda um það mat sitt að reikna bæri kæranda bifreiðahlunnindi vegna fullra umráða hans yfir nefndum bifreiðum á árunum 2016 til 2020. Engar efnislegar athugasemdir virðast hafa verið gerðar af hálfu kæranda og með bréfi, dags. 19. ágúst 2022, tilkynnti ríkisskattstjóri honum um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2017, 2018, 2019, 2020 og 2021 vegna meintra vanframtalinna bifreiðahlunninda.
Með bréfi, dags. 19. september 2022, var boðuðum breytingum andmælt af hálfu kæranda. Í bréfinu er því m.a. haldið fram að í raun hafi verið um sýningabifreiðar að ræða og hafi bifreiðarnar verið tryggðar svokallaðri bílasölutryggingu. Bréfinu fylgdi staðfesting tryggingafélags þess efnis að nefndar bifreiðar hefðu verið „tryggðar sem sölubílar“. Ekki kemur nánar fram í staðfestingu tryggingafélagsins hvað felist í tryggingu af þessu tagi. Í andmælabréfi kæranda er á hinn bóginn staðhæft og lögð á það sérstök áhersla að um sé að ræða tryggingar sem ákveðnir fagaðilar fái til að sýna og selja bifreiðar en heimili ekki önnur almenn afnot þeirra.
Skýring kæranda um bílasölutryggingu og þýðingu hennar fékk enga úrlausn í úrskurði ríkisskattstjóra, heldur er þar einungis með almennum hætti áréttað í tilefni framkominna andmæla að samkvæmt ákvæðum skattmatsreglna teljist eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum ætíð hafa full og ótakmörkuð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim séu látnar í té og þeir hafi til einkanota, hvað sem liði því í hvaða mæli einkanot séu í raun. Hvorki skipti máli notkun bifreiðanna í rekstri félagsins né hvort þær kynnu að hafa verið ætlaðar til sölu síðar.
Skýring kæranda um „bílasölutryggingu“ og þýðingu hennar er þess eðlis að óhjákvæmilegt var að ríkisskattstjóri tæki hana til rækilegrar umfjöllunar og aflaði eftir atvikum frekari upplýsinga um skilmála tryggingarinnar. Með því að það var ekki gert verður ekki talið að rökstuðningur ríkisskattstjóra hafi verið fullnægjandi hvað þetta varðar, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi stjórnvaldsákvörðun ekki verið rökstudd eða rökstuðningur hefur verið haldinn verulegum annmarka leiðir það almennt til þess að íþyngjandi ákvörðun verður talin ógildanleg, enda nást þá venjulega ekki þýðingarmikil markmið sem að er stefnt með rökstuðningi, svo sem að auðvelda málsaðilum að leggja mat á það hvort efni séu til að nýta frekari úrræði, t.d. kæru til æðra stjórnvalds. Þegar virtir eru fyrrgreindir annmarkar á rökstuðningi ríkisskattstjóra, sem felast í því að veigamikið atriði var ekki tekið til úrlausnar með fullnægjandi hætti, þykir einsýnt að um verulegan ágalla á rökstuðningnum hafi verið að ræða. Að svo vöxnu máli verður að ómerkja hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi vegna ætlaðra umráða kæranda yfir bifreiðinni X. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins að þessu leyti.
Eins og fram er komið gerir kærandi athugasemdir við það umráðatímabil sem miðað sé við í útreikningi ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar Z og krefst kærandi lækkunar ákvarðaðra bifreiðahlunninda með hliðsjón af styttra umráðatímabili. Að öðru leyti mótmælir kærandi ekki ákvörðun bifreiðahlunninda vegna umræddrar bifreiðar auk þess sem ekki er kærð ákvörðun bifreiðahlunninda vegna bifreiðarinnar Y. Með umsögn sinni, dags. 6. júlí 2023, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda um lækkun ákvarðaðra bifreiðahlunninda kæranda vegna bifreiðarinnar Z og bera tiltæk gögn ekki annað með sér en að krafa kæranda eigi við rök að styðjast. Samkvæmt þessu er fallist á að að lækka bifreiðahlunnindi kæranda vegna umráða hans yfir bifreiðinni Z og miða lok umráðatímabils við 30. ágúst 2019 í stað 4. nóvember 2020. Lækka bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar Z því úr 4.484.909 kr. í 2.899.726 kr. eða um 1.585.183 kr. gjaldárið 2019 og falla niður gjaldárið 2020.
Víkur þá að kröfu kæranda um niðurfellingu álags. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó ekki beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færi rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattframtölum kæranda umrædd ár, þar sem skattskyld hlunnindi voru vantalin, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 356/1999, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu kæranda um niðurfellingu álags því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Ákvörðun ríkisskattstjóra um bifreiðahlunnindi kæranda vegna bifreiðarinnar X er ómerkt. Bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar Z lækka um 1.585.183 kr. gjaldárið 2019 og falla niður (3.572.462 kr.) gjaldárið 2020. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.