Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 182/2023

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Kærandi í máli þessu hafði neytt heimildar í almannatryggingalögum til að fresta greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins og fá þær inntar af hendi í einu lagi eftir álagningu opinberra gjalda vegna viðkomandi tekjuárs. Með því að ekki hafði komið til þess að kærandi fengi greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2023 var kröfu hans um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna örorku hafnað að svo stöddu. Var í því sambandi vísað til áskilnaðar í lögum um bifreiðagjald um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá Tryggingastofnun.

Ár 2023, miðvikudaginn 13. desember, er tekið fyrir mál nr. 159/2023; kæra A, dags. 26. október 2023, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds árið 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. október 2023, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 6. september 2023, um synjun niðurfellingar bifreiðagjalds af ökutækinu F á grundvelli örorku kæranda. Byggði ríkisskattstjóri á því að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar hjá embættinu fengi kærandi ekki neinar slíkar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á tekjuárinu 2023 sem tilgreindar væru í ákvæði a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, þ.e. örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna. Þar sem kærandi uppfyllti þannig ekki skilyrði ákvæðisins væri kröfu hans um niðurfellingu bifreiðagjalds á 2. gjaldtímabili árið 2023 synjað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi sé metinn 100% öryrki eftir bílslys á árinu 2007 og hafi kærandi á liðnum árum óskað eftir því að fá greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Rangt sé í úrskurði ríkisskattstjóra að kærandi sé ekki að þiggja neinar greiðslur frá Tryggingastofnun, sbr. meðfylgjandi gögn. Sé þess því krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt með úrskurði yfirskattanefndar og að kæranda verði „endurgreidd bifreiðagjöld vegna 2023 og þau ár aftur í tímann sem ég hef verið látinn greiða bifreiðagjald“, eins og segir í kærunni. Kærunni fylgir afrit af bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 23. maí 2023, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2022, og tölvupósti starfsmanns stofnunarinnar til kæranda 13. október 2023 þar sem fram kemur að kærandi sé örorkulífeyrisþegi sem hafi valið að fá greiðslu einu sinni á ári í samræmi við 3. mgr. 32. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Er tekið fram að samkvæmt uppgjöri vegna ársins 2022 hafi kærandi fengið greidda inneign, sbr. fyrrgreint bréf Tryggingastofnunar.

II.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni tekur ríkisskattstjóri fram að hinn kærði úrskurður lúti að niðurfellingu bifreiðagjalds vegna 2. gjaldtímabils árið 2023. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra fái kærandi ekki greiðslur samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 frá Tryggingastofnun ríkisins á tekjuárinu 2023 og séu lagaskilyrði því ekki uppfyllt. Í gögnum með kæru komi fram að kærandi fái greiddar 27.241 kr. vegna alls tekjuársins 2022 og sé fjárhæðin greidd honum 1. júní 2023. Athygli sé vakin á því að einstaklingar sem fái endurútreikning tekjutengdra greiðslna frá Tryggingastofnun vegna eldri tekjuára þurfi að sækja um niðurfellingu bifreiðagjalds fyrir það tekjuár þegar sá útreikningur liggi fyrir. Kærandi hafi ekki sótt um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna ársins 2022.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. nóvember 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar er kærður úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 6. september 2023, þar sem ríkisskattstjóri tók til afgreiðslu umsókn kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds fyrir gjaldtímabilið 1. júlí til 31. desember 2023, sbr. og tölvupóst kæranda til ríkisskattstjóra 29. júlí 2023 sem er meðal gagna málsins. Krafa kæranda í kærunni lýtur hins vegar að niðurfellingu bifreiðagjalds vegna alls ársins 2023 og eldri ára, svo sem hér að framan greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Mælt er fyrir um fjárhæð gjaldsins í 2. gr. laganna og gjalddaga o.fl. í 3. gr. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt a-lið lagagreinarinnar skulu bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins, vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Í lokamálslið þessa stafliðar kemur fram að fyrir álagningu bifreiðagjalds skuli Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fái slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.

Eins og fram er komið synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kærandi væri ekki móttakandi neinna þeirra greiðslna sem kveðið er á um í 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Fram kemur í gögnum málsins, sbr. tölvupóst frá starfsmanni hjá Tryggingastofnun ríkisins til kæranda 13. október 2023, sem fylgdi kæru, að kærandi, sem sé með varanlegt örorku- og hreyfihömlunarmat hjá Tryggingastofnun, hafi neytt heimildar samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, til að fresta greiðslum samkvæmt lögunum og fá þær inntar af hendi í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur á árinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Verður ráðið af umsögn ríkisskattstjóra í málinu að vegna þessara aðstæðna telji embættið skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 að svo stöddu ekki uppfyllt í tilviki kæranda, en bent er á að kæranda sé unnt að óska eftir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna gjaldtímabila á árinu 2023 þegar endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna vegna ársins 2023 liggur fyrir af hendi Tryggingastofnunar.

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi, þrátt fyrir örorku sína sem vottuð er af Tryggingastofnun ríkisins, fengið á þeim tíma sem hér skiptir máli greiddan örorkustyrk eða örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Eftir orðalagi 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 verður að skilja ákvæðið þannig að ekki sé nægilegt að úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins hafi gengið um örorku manns til að komið geti til niðurfellingar bifreiðagjalds, heldur sé áskilnaður um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá stofnuninni. Með því að ekki hefur komið til þess í tilviki kæranda vegna ársins 2023, eftir því sem fram er komið, getur að svo stöddu ekki komið til niðurfellingar bifreiðagjalds á grundvelli lagaákvæðisins vegna gjaldtímabila á sama ári. Verður því að hafna kröfu kæranda um að hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt.

Skilja verður kæru kæranda til yfirskattanefndar svo að af hans hálfu sé jafnframt höfð uppi krafa um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna gjaldtímabila á árinu 2022 og vegna eldri ára. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að kærandi hafi ekki sótt um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna ársins 2022, en á því ári hafi kærandi fengið greiðslur sem falli undir a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Þessar kröfur kæranda voru ekki lagðar fyrir ríkisskattstjóra, að því er séð verður, og tók ríkisskattstjóri enga afstöðu til þeirra með ákvörðun sinni. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir bera að vísa kæru kæranda ásamt meðfylgjandi gögnum til ríkisskattstjóra til meðferðar að því er varðar niðurfellingu bifreiðagjalds vegna ársins 2022 og eldri ára.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna síðara gjaldtímabils ársins 2023 er hafnað að svo stöddu. Að öðru leyti er kæran send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja