Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur

Úrskurður nr. 183/2023

Gjaldár 2023

Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður 7. mgr.  

Kröfu kæranda í máli þessu um að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur með þremur börnum sínum, sem voru búsett í Bretlandi, var hafnað þar sem lagaskilyrði þess efnis að barn væri heimilisfast í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum væri ekki uppfyllt. Kom fram í úrskurðinum að umsömdu aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefði lokið 1. janúar 2021 og að eftir það tækju ákvæði EES-samningsins ekki lengur til Bretlands.

Ár 2023, miðvikudaginn 13. desember, er tekið fyrir mál nr. 153/2023; kæra A, dags. 12. október 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 12. október 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. september 2022, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2023. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda, sem fram kom í kæru sem mun hafa borist embættinu 8. ágúst 2023, um að kæranda yrðu ákvarðaðar barnabætur vegna þriggja barna sinna sem ekki væru búsett á Íslandi, sbr. umsókn kæranda, dags. 31. júlí 2023, vegna tekjuársins 2022.

Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra kom fram að krafa kæranda lyti að því að henni yrðu ákvarðaðar barnabætur hér á landi á grundvelli reglugerðar EES nr. 883/2004, vegna barna sem búsett væru á Evrópska efnahagssvæðinu. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 7. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og reglugerð um greiðslu barnabóta nr. 555/2004 væri heimilt að ákvarða barnabætur með börnum sem ekki væru með varanlega heimilisfesti á Íslandi og væru á framfæri ríkisborgara frá ríki innan hins Evrópska efnahagssvæðis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, enda væri framfærandi skattskyldur samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 eða tryggður á grundvelli 12., 13. eða 14. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Samkvæmt upplýsingum kæranda væru börn hennar búsett í Bretlandi. Þá hefðu borist upplýsingar frá samstarfsstofnun í Svíþjóð þess efnis að kærandi hefði flutt frá Svíþjóð þann 14. desember 2020 auk þess sem kærandi hefði lagt fram vottorð frá Bretlandi, dags. 11. desember 2020, um takmarkað dvalarleyfi þar í landi.

Tók ríkisskattstjóri fram að Bretland hefði ekki verið hluti af Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu frá janúar 2020. Af fyrrgreindum ástæðum ætti reglugerð EES nr. 883/2004 ekki við vegna barna kæranda. Væri umsókn kæranda því synjað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að hún hafi fengið greiddar bætur, þar með talið barnabætur, á liðnum árum á meðan hún hafi verið búsett í Svíþjóð, en hún sé nú flutt til Bretlands. Gerður hafi verið samningur vegna Brexit sem geri ráð fyrir því að einstaklingar haldi Evrópuréttindum sínum. Kærunni fylgir vottorð frá breskum yfirvöldum (Home Office), dags. 11. desember 2020, þar sem fram kemur að kæranda sé veitt leyfi til dvalar í Bretlandi (e. Limited Leave in the United Kingdom under Appendix EU to the Immigration Rules).

II.

Með bréfi, dags. 19. október 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með tölvupósti 31. október 2023 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er ítrekað að kæranda hafi ávallt verið greiddar barnabætur hér á landi og hún sé ekki að fá neinar barnabætur frá Bretlandi. Samningur hafi verið gerður vegna Brexit þannig að kærandi eigi að halda sömu réttindum eins og ef Bretland væri enn í Evrópusambandinu. Eru þessi sjónarmið kæranda ítrekuð í tölvupósti til yfirskattanefndar 26. nóvember 2023.

III.

Um barnabætur er fjallað í A-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, með síðari breytingum. Í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 segir að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teljist sá aðili sem hafi barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins.

Í 7. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. stafliðarins megi ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda sé framfærandi skattskyldur hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 eða tryggður á grundvelli 4. eða 5. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Er skilyrði fyrir ákvörðun barnabóta samkvæmt þessari málsgrein að börnin séu heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og að fram séu lögð fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því landi þar sem börnin eru heimilisföst. Sá sem rétt kunni að eiga til barnabóta með börnum sem ekki hafi heimilisfesti á Íslandi skuli sækja um bætur til ríkisskattstjóra og leggja fram upplýsingar um tekjur framfærenda ásamt upplýsingum um barnabætur eða hliðstæðar greiðslur vegna sömu barna sem greiddar hafa verið erlendis, sbr. 1. mgr.

Krafa kæranda í máli þessu lýtur að því að henni verði ákvarðaðar barnabætur með þremur börnum sínum sem búsett eru í Bretlandi, sbr. framangreind ákvæði, en í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi flutt til Bretlands á árinu 2020 og hafi áður verið búsett í Svíþjóð, sbr. m.a. tölvupóst kæranda til yfirskattanefndar frá 31. október 2023. Svo sem kunnugt er gekk Bretland úr Evrópusambandinu þann 31. janúar 2020. Eftir að umsömdu aðlögunartímabili útgöngunnar lauk 1. janúar 2021 taka ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) ekki lengur til Bretlands. Má um þetta vísa til samnings um fyrirkomulag milli Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands um réttindi borgara í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu og lokaaðildar þess að EES-samningnum, sem undirritaður var 2. apríl 2019 og birtur er sem fylgiskjal með lögum nr. 121/2019, um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Samningur þessi fól í sér að við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fólu í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt EES-samningnum, skyldi á aðlögunartímabilinu litið á Bretland með sama hætti og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 3. gr. laga nr. 121/2019. Þegar aðlögunartímabilinu lauk 1. janúar 2021 hættu ákvæði EES-samningsins hins vegar að gilda um Bretland, sbr. auglýsingu nr. 6, 27. janúar 2020 sem birtist í A-deild Stjórnartíðinda, enda kom ekki til framlengingar þess.

Samkvæmt framansögðu brestur lagaskilyrði til að ákvarða kæranda barnabætur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2023. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja