Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 605/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 68. gr. B-liður — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal, tortryggilegt — Skattframtal, vefenging — Skattframtal, höfnun — Framfærslueyrir — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Álag á áætlaða skattstofna — Vítaleysisástæður — Fyrirspurn skattstjóra — Vantaldar skuldir — Skuldir vantaldar — Sjómannaafsláttur — Sjómaður — Sjómannsstörf — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Sönnun
I.
Með hinum kærða úrskurði, dags. 8. desember 1989, hafnaði skattstjóri þeirri kröfu kæranda að leggja síðbúið skattframtal hans árið 1989 til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar áður, en féllst þó á að lækka hana nokkuð. Ástæður skattstjóra voru þær, að lífeyrir kæranda samkvæmt framtalinu teldist hafa verið óeðlilega lágur; ekki hafi verið send afrit af reikningum fyrir innlögðum afla, kvittun fyrir greiddri kaupleigu eða afrit af kaupsamningi um bát, þrátt fyrir áskorun þar um. Þá féllst skattstjóri ekki á þá kröfu kæranda að miða sjómannaafslátt við allt árið 1988 vegna ófullnægjandi rökstuðnings af hálfu kæranda.
II.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. desember 1989, og með framhaldsgreinargerð, dags. 6. júní 1990. Krefst hann þess, að áætlun skattstjóra verði felld úr gildi og innsent skattframtal lagt til grundvallar nýrri álagningu gjalda án tillits til álags. Er gerð grein fyrir ástæðum síðbúinna framtalsskila, en skattframtalið barst skattstjóra þann 10. ágúst 1989 samkvæmt móttökustimpli hans. Þá krefst kærandi þess að sjómannaafsláttur verði miðaður við það, að hann hafi gegnt sjómannsstörfum allt árið 1988. Gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir ofangreindum kröfum sínum þar á meðal lífeyri kæranda og gögnum þeim, sem skattstjóri gerir að umtalsefni í kæruúrskurði sínum.
III.
Með bréfi, dags. 9. mars 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur „enda hafa fullnægjandi skýringar enn ekki komið fram á þeim annmörkum sem skattstjóri taldi baga framtal kæranda“. Eigi gerði ríkisskattstjóri athugasemdir við framhaldsgreinargerð kæranda, dags. 6. júní 1990.
IV.
Af hálfu kæranda hefur verið sýnt fram á, að skuld við Landsbanka Íslands pr. 31. desember 1988 að fjárhæð 331.931 kr. hafi verið vanframtalin í skattframtali kæranda árið 1989. Verður því höfnun þess ekki á því byggð, að lífeyrir kæranda fengi ekki staðist. Að því virtu og gögnum og skýringum kæranda að öðru leyti er fallist á að miða gjaldstofna hans við hið innsenda framtal að gerðri ofangreindri leiðréttingu og að virtum atvikum án álags. Þá er fallist á kröfu kæranda um sjómannaafslátt.