Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Barnabætur

Úrskurður nr. 188/2023

Gjaldár 2018

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A-liður.  

Talið að við ákvörðun barnabóta sambýlisfólks, sem uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuárs, bæri að miða við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki væri óskað samsköttunar.

Ár 2023, þriðjudaginn 19. desember, er tekið fyrir mál nr. 139/2023; kæra A, dags. 16. ágúst 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2018. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 16. ágúst 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júlí 2023, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2018. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður barnabætur kæranda að fjárhæð 444.200 kr. sem ákveðnar höfðu verið við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til úrskurðar um endurákvörðun opinberra gjalda fyrrverandi sambýlismanns kæranda, B, en þar sem kærandi og B hefðu verið samsköttuð greint gjaldár myndi hækkun opinberra gjalda hjá honum leiða til þess að áður útgreiddar barnabætur þeirra myndu lækka. Tók ríkisskattstjóri fram að barnabætur væru tekjutengdar og gæti endurákvörðun skattstofns haft áhrif á útreikning barnabóta afturvirkt.

Í kæru til yfirskattanefndar er því borið við að kærandi og fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi hvorki verið samsköttuð né gift heldur hafi þau verið skattlögð hvort í sínu lagi og haft aðskilinn fjárhag. Kærandi hafi verið tekjulaus og ekki skipt sér af fjármálum B. Þessu til viðbótar hafi kæranda ekki verið greiddar barnabætur á árunum 2020 og 2021. Kærandi hafi verið einstæð móðir með helmings forræði yfir börnunum og búsetu þeirra og vilji kærandi að þetta verði skoðað og lagað aftur í tímann. Er tekið fram í kærunni að kærandi hafi ekki brugðist við boðuðum breytingum ríkisskattstjóra þar sem bréf ríkisskattstjóra hafi farið forgörðum.

II.

Með bréfi, dags. 29. september 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Í umsögn embættisins er tekið fram að ábending kæranda um að hún hafi ekki verið samsköttuð með B sé rétt. Rekur ríkisskattstjóri að samkvæmt 1. mgr. 68. gr. A laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli hjón sem skattlögð séu samkvæmt 62. gr. sömu laga teljast bæði framfærendur og skiptist barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. laganna, enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Tekjuárið 2017 hafi kærandi verið skráð í sambúð með B og skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 því uppfyllt. Skiptist barnabætur milli þeirra því til helminga, enda þótt þau hafi ekki óskað eftir að vera skattlögð sem hjón. Þá hafi það ekki áhrif á úrskurð ríkisskattstjóra að kærandi og B hafi ekki óskað eftir samsköttun tekjuárið 2017.

III.

Í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um það að karl og kona, sem búi saman í óvígðri sambúð og eigi sameiginlegt lögheimili, eigi rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafi átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hafi varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 segir að með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., skuli ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda barnsins. Framfærandi teljist sá aðili sem hafi barnið hjá sér og annist framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiði meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón, sem skattlögð séu samkvæmt 62. gr. laganna, teljist bæði framfærendur og skiptist barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.

Kærandi og B voru skráð í sambúð frá og með ... 2015 til ... 2019 samkvæmt skráningu í þjóðskrá. Samkvæmt því verður að miða við að kærandi og B hafi uppfyllt skilyrði til skattlagningar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Óumdeilt er hins vegar að kærandi og B óskuðu ekki eftir samsköttun greint ár og sættu skattlagningu sem sérskattað sambýlisfólk.

Í 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um ákvörðun barnabóta með tilliti til tekna og eigna skattaðila, svo sem þær eru nánar skilgreindar í ákvæðinu. Hliðstætt ákvæði um vaxtabætur er í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna, en þar kemur fram að hjá hjónum eða sambýlisfólki, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. í lok tekjuárs, skuli við útreikning miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttar.

Skýra verður framangreind ákvæði 1. og 4. mgr. A-liðar 68. gr.  laga nr. 90/2003 og 4. og 7. mgr. B-liðar sömu lagagreinar til samræmis þannig að við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta sambýlisfólks, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr. laganna í lok tekjuárs, skuli miðað við samanlagðar tekjur beggja að teknu tilliti til frádráttarliða, enda þótt ekki sé óskað skattlagningar samkvæmt síðarnefndu lagagreininni. Er þetta í samræmi við úrskurðaframkvæmd um hliðstæð ágreiningsefni, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 173/2007, sem birtur er á vef nefndarinnar.

Í málinu er fram komið að ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað opinber gjöld B gjaldárið 2018 og að endurákvörðun opinberra gjalda kæranda sama gjaldár sé bein afleiðing af þessari ákvörðun. Samkvæmt þessu liggur ekki annað fyrir en að ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði sé í samræmi við gildandi lög og er kröfu kæranda um að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi því hafnað.

Í kærunni er þess farið á leit að barnabætur vegna tekjuáranna 2020 og 2021 verði endurskoðaðar og lagfærðar en kærandi hafi ekki fengið neinar barnabætur á þessum árum þrátt fyrir að vera einstæð móðir með helmings forræði og helmings búsetu allra barnanna. Að því er kröfu þessa varðar skal tekið fram að ekki liggur fyrir kæranlegur úrskurður til yfirskattanefndar eftir ákvæðum 3. gr. laga nr. 30/1992 vegna annarra gjaldára en gjaldársins 2018. Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 er ríkisskattstjóra heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Hliðstæða heimild hefur yfirskattanefnd ekki. Þykir rétt að vísa þessu kæruatriði frá yfirskattanefnd og framsenda erindi kæranda til ríkisskattstjóra til meðferðar að því er varðar beiðni um leiðréttingu á álagningu gjaldárin 2021 og 2022.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða endurákvörðun ríkisskattstjóra stendur óhögguð. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar beiðni um leiðréttingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2021 og 2022 og erindið framsent ríkisskattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja