Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur

Úrskurður nr. 194/2023

Gjaldár 2023

Lög nr. 90/2003, 68. gr. B-liður 1. mgr.  

Kærandi flutti til Íslands frá Danmörku um sumarið 2023. Skilyrði vaxtabóta voru ekki talin uppfyllt í tilviki kæranda tekjuárið 2022 þar sem kærandi hefði verið búsett í Danmörku á því ári.

Ár 2023, fimmtudaginn 21. desember, er tekið fyrir mál nr. 165/2023; kæra A, dags. 7. nóvember 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 7. nóvember 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. september 2023, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2023. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um vaxtabætur vegna íbúðarkaupa. Tók ríkisskattstjóri fram að kærandi hefði verið með skráð lögheimili í Danmörku allt árið 2022 og hefði hún því ekki borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Tekjur sem kærandi hefði aflað hefðu verið skattlagðar samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 3. gr. og 1. tölul. 70. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 ættu þau sem skattskyld væru samkvæmt 1. gr. sömu laga og bæru vaxtagjöld af lánum sem tekin hefðu verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota rétt á vaxtabótum, enda væri gerð grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákvæði að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Þar sem kærandi hefði ekki verið skattskyld hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 uppfyllti hún ekki skilyrði laganna til að eiga rétt á vaxtabótum.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er rakið að kærandi hafi að loknu námi í Danmörku hafið störf hjá K þar í landi og starfað þar allt árið 2022. Vinnuveitandi kæranda hafi gert kröfu um að hún ætti lögheimili í Danmörku en kærandi hafi dvalið mikið á Íslandi og unnið í fjarvinnu. Hún hafi haft tekjur frá M ehf. og greitt af þeim skatta til íslenska ríkisins. Þá hafi hún keypt íbúðarhúsnæði á Íslandi á árinu en vaxtakostnaður hafi aukist mikið. Er þess farið á leit í kærunni að tekið verði tillit til þess við ákvörðun vaxtabóta að kærandi hafi aflað tekna frá íslensku fyrirtæki og greitt af þeim skatta hér á landi. Einnig er bent á þetta hafi verið fyrstu íbúðarkaup kæranda. Þá er vísað til sanngirnissjónarmiða og að kærandi hafi nú flutt lögheimili sitt til Íslands og starfi alfarið á Íslandi.

II.

Með bréfi, dags. 21. nóvember 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 7. desember 2023, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað fram komin sjónarmið.

III.

Í upphafsákvæði B-liðar 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að maður, sem skattskyldur sé samkvæmt 1. gr. laganna og beri vaxtagjöld af lánum sem tekin hafi verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, eigi rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali samkvæmt 1. mgr. 90. gr. í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Eins og fram er komið var kærandi búsett í Danmörku á árinu 2022 og bar því ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 tekjuárið 2022, en samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá flutti kærandi til landsins frá Danmörku um sumarið 2023. Eru skilyrði vaxtabóta samkvæmt B-lið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003 því ekki uppfyllt í tilviki kæranda tekjuárið 2022. Að þessu athuguðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja