Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna íbúðarréttar

Úrskurður nr. 10/2024

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 2. mgr.  

Í máli þessu vegna erfðafjárskatts var fallist á kröfu kærenda um ákvörðun skattstofns vegna íbúðarréttar hjá hjúkrunarheimili sem laut að því að samningsbundið umsýslugjald yrði ekki talið með stofni til erfðafjárskatts.

 

Ár 2024, mánudaginn 5. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 167/2023; kæra A og B, dags. 8. nóvember 2023, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2023, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést … 2022, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 6. október 2023. Í kæru kærenda kemur fram að kæruefni málsins sé sú ákvörðun sýslumanns að miða skattstofn til erfðafjárskatts vegna íbúðarréttar (búseturéttar) arfleifanda hjá G, hjúkrunarheimili, við endurgreiðsluverðmæti eða 35.947.515 kr. Telji kærendur að meta eigi íbúðarréttinn til eignar á því verði sem greitt hafi verið fyrir réttinn við uppgjör G eða 34.869.090 kr. Mismunur að fjárhæð 1.078.425 kr. felist í umsýslugjaldi sem G taki sér við uppgjör samkvæmt samningi um íbúðarréttinn. Sýslumaður hafi litið á gjaldið sem ígildi sölulauna sem teljist því ekki vera skuld dánarbúsins. Kærendur telji hins vegar að gjaldið eigi að koma til frádráttar og sé það byggt á ákvæðum samnings arfleifanda við G, sbr. 7. og 8. tölul. hans. Hafi hvorki arfleifandi né kærendur því átt þess nokkurn kost að komast hjá greiðslu gjaldsins og því ljóst að skuldbindingin hafi verið til staðar við andlát M.

II.

Með bréfi, dags. 14. desember 2023, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögn sýslumanns er tekið fram að við afgreiðslu málsins hjá sýslumanni hafi málið ekki ratað í farveg samkvæmt 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, þannig að ekki liggi fyrir ákvörðun um erfðafjárskatt eftir þeim formreglum sem ákvæði 4. mgr. lagagreinarinnar mæli fyrir um. Sé vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 146/2023 þar sem fram komi að reikna skuli virði íbúðarréttar eftir forsendum í búsetusamningi aðila miðað við dánardag arfleifanda, en við skiptalok dánarbús M hafi sýslumanni ekki verið tilkynnt um þann úrskurð. Við yfirferð á gögnum málsins verði ekki séð að umboðsmaður erfingja hafi með skýrum hætti haldið fram kröfu með því að reka málið sem ágreiningsmál. Það liggi fyrir að erfingjar hafi móttekið greiðslu að fjárhæð 34.869.090 kr. í samræmi við samkomulag við G, dags. 29. apríl 2022, um endurgreiðslu íbúðarréttar. Sýslumaður telji að líta megi svo á að í samkomulaginu hafi verið tekið tillit til skilmála í íbúðarréttarsamningi arfláta og G sem gerður hafi verið 27. september 2018, en vísað sé til nánari útreikninga í excel-skjali sem ekki hafi verið lagt fram. Sýslumaður telji þar af leiðandi, með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 146/2023, að erfðafjárskattur í máli þessu hafi ekki verið lagður á með réttum hætti og að fallast skuli á kröfu erfingja um að miðað verði við þá endurgreiðslufjárhæð sem fram komi í samkomulagi erfingja við G, dags. 29. apríl 2022, þ.e. 34.869.090 kr.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. desember 2023, var kærendum sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Með vísan til umsagnar sýslumanns í máli þessu er krafa kærenda tekin til greina. Lækkar skattstofn erfðafjárskatts því um 1.078.425 kr. frá því sem sýslumaður ákvað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Skattstofn erfðafjárskatts kærenda lækkar um 1.078.425 kr. frá því sem sýslumaður ákvað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja