Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tryggingagjald, gjaldskylda

Úrskurður nr. 15/2024

Gjaldár 2023

Lög nr. 113/1990, 1. gr., 4. gr., 6. gr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu kom fram að í lögum um tryggingagjald væri ekki að finna heimild til lækkunar á stofni til tryggingagjalds eða niðurfellingar á hluta þess vegna aldurs gjaldskylds aðila. Þá kæmi ekkert fram í lögum þessum eða öðrum lagareglum sem gæfi tilefni til að ætla að gjaldskylda samkvæmt lögunum, að því leyti sem tæki til þáttar atvinnutryggingagjalds, væri háð því hvort gjaldskyldur aðili uppfyllti sjálfur almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Var kröfu kæranda hafnað.

Ár 2024, miðvikudaginn 14. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 172/2023; kæra A, dags. 27. nóvember 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 27. nóvember 2023, lýtur að kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. september 2023. Er þess krafist af hálfu kæranda að álagt tryggingagjalds hans gjaldárið 2023 verði lækkað sem nemi hlut atvinnutryggingagjalds í heildarfjárhæð tryggingagjalds. Þá er þess krafist að tekin verði afstaða til undanþágu til handa kæranda frá greiðslu tryggingagjalds í staðgreiðslu vegna rekstrarársins 2023 og eftir atvikum síðari ára.

Kærandi bar hliðstæða kröfugerð fram með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 22. júní 2023. Í kærunni tók kærandi fram að hann hefði um árabil stundað sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni sem rafverktaki en hefði náð sjötíu ára aldri á árinu 2022 og dregið úr vinnu. Tryggingagjald samanstæði af atvinnutryggingagjaldi og almennu tryggingagjaldi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, væri skilyrði þess að vera tryggður úr atvinnuleysistryggingasjóði að hafa ekki náð 70 ára aldri. Þannig væri kærandi útilokaður frá því að njóta þeirrar tryggingar sem framlag það sem kærandi væri krafinn um stæði undir. Taldi kærandi þetta ekki fá staðist, svo sem nánar var reifað í kærunni. 

Með kæruúrskurði, dags. 4. september 2023, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir skiptingu tryggingagjalds og tók fram að samkvæmt lögum bæri kæranda að inna af hendi tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi sem hann borgaði sér úr rekstri sínum eins og 1. málsl. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segði til um. Ekkert í lögunum gæfi tilefni til að lækka eða fella niður tryggingagjald að fullu eða að hluta vegna aldurs rekstraraðila. Því væri ekki lagagrundvöllur fyrir kröfu kæranda og væri henni því hafnað.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. nóvember 2023, er því haldið fram að rökstuðningur ríkisskattstjóra sé knappur og ekki haldbær. Telur kærandi réttmætt og eðlilegt að ákvæði laga nr. 113/1990, sem fjalli um skyldu til greiðslu tryggingagjalds, verði skýrð með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 54/2006, þar sem sett sé það skilyrði að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki náð 70 ára aldri til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Skjóti niðurstaða úrskurðar yfirskattanefndar nr. 95/2006 stoðum undir þessar viðbárur kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 12. desember 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. desember 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með áorðnum breytingum, skulu launagreiðendur samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af greiddum vinnulaunum, þóknunum, reiknuðu endurgjaldi og öðrum tegundum greiðslna og launa eftir því sem nánar segir í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er tryggingagjald samsett af tveimur gjöldum, þ.e. almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi. Þá kemur fram í 3. mgr. að tryggingagjald skuli innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og lagt á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, nema öðruvísi sé ákveðið í lögunum. Í 4. gr. laganna kemur fram að gjaldskyldur aðili samkvæmt lögunum teljist hver sá aðili sem inni af hendi eða reikni greiðslur sem teljist laun samkvæmt III. kafla laganna, svo sem nánar er útlistað í lagagreininni. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 113/1990 kemur fram að gjaldskylda tryggingagjalds sé almenn og sé ekki um að ræða sérgreiningu gjaldskyldra aðila með þeim hætti er áður hafi gilt um álagningu launatengdra gjalda. Svipi gjaldskyldunni þannig að nær öllu leyti til gjaldskyldu í launaskatti.

Í 6. gr. laga nr. 113/1990 er fjallað um gjaldstofn tryggingagjalds. Þar segir í 1. mgr. að stofn til tryggingagjalds sé allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ekki skipti máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. Þá teljist til stofns endurgjald sem beri að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að gjaldstofn manns, vegna staðgreiðslu tryggingagjalds, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli vera jafn fjárhæð reiknaðs endurgjalds sem hann telur sér til tekna eða bar að telja sér til tekna samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hið sama eigi við um reiknað endurgjald maka hans og barna innan 16 ára aldurs á tekjuárinu. Í 3. mgr. kemur fram að gjaldstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli vera jafnhár fjárhæð samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 58. gr. þeirra laga. Gjaldstofn þessi skuli þó eigi vera lægri en 748.224 kr. miðað við heilt ár.

Svo sem ríkisskattstjóri benti á í kæruúrskurði sínum er ekki að finna í lögum um tryggingagjald heimild til lækkunar á stofni til tryggingagjalds eða niðurfellingar á hluta þess vegna aldurs gjaldskylds aðila. Þá kemur ekkert það fram í lögum þessum eða öðrum lagareglum sem gefur tilefni til að ætla að skylda til greiðslu tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, að því leyti sem tekur til þáttar atvinnutryggingagjalds, sé háð því hvort gjaldskyldur aðili uppfylli sjálfur almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt IV. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

Vegna athugasemda kæranda um að úrskurður yfirskattanefndar nr. 95/2005 (misritað 95/2006 í kæru) skjóti stoðum undir sjónarmið kæranda skal tekið fram að málsatvik í því máli sem lauk með nefndum úrskurði eru að engu leyti sambærileg og í máli kæranda. Í úrskurðinum var m.a. til umfjöllunar varakrafa kærandans í málinu viðvíkjandi tryggingagjaldi sem laut að því að óheimilt væri að krefja kærandann um tryggingagjald af launum erlendra starfsmanna sem kæmu tímabundið til starfa á Íslandi að því leyti sem gjaldinu væri ráðstafað til félagslegra trygginga. Kröfu þessari var vísað frá yfirskattanefnd en í umfjöllun um hana voru viðruð þau sjónarmið að það kynni að brjóta gegn regluverki Evrópusambandsins og réttarframkvæmd Evrópudómstólsins þegar launþega, sem heyrði undir tilgreinda reglugerð Evrópusambandsins um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, væri gert að greiða gjöld af sömu tekjum til að fjármagna samfélagslegar tryggingar í fleiri en einu aðildarríki, þ.e. bæði í því ríki þar sem viðkomandi launþegi starfaði sem og í því ríki þar sem hann hefði fasta búsetu. Yrði slík aðstaða jafnvel talin fela í sér brot á ákvæðum samningsins um Evrópusambandið varðandi frjálsa för launafólks og frelsi til atvinnustarfsemi, sbr. 39. og 43. gr. þess samnings. Slíkri aðstöðu er ekki til að dreifa í tilviki kæranda. Verða engar slíkar ályktanir dregnar af úrskurði yfirskattanefndar nr. 95/2005 sem kærandi gerir.

Samkvæmt framansögðu verður að taka undir með ríkisskattstjóra að ekki séu fyrir hendi aðstæður til lækkunar á stofni til tryggingagjalds eða niðurfellingar á hluta þess svo sem kærandi krefst. Þar sem kærandi hefur ekki gert athugasemdir um  þær fjárhæðir sem ríkisskattstjóri lagði til grundvallar í þessu sambandi, að öðru leyti en því sem leiðir af kröfu hans, verður hið kærða tryggingagjald látið standa óhaggað.

Ekki liggur fyrir nein kæranleg ákvörðun viðvíkjandi tryggingagjaldi rekstrarárið 2023. Er kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds í staðgreiðslu því vísað frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds í staðgreiðslu vegna rekstrarársins 2023 og eftir atvikum síðari ára er vísað frá yfirskattanefnd. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja