Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsfélag
  • Tilfallandi tekjur

Úrskurður nr. 16/2024

Gjaldár 2022 og 2023

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Reglugerð nr. 591/1987, 2. gr.  

Kærandi fékk greiðslur frá húsfélagi fyrir umsjón með sameign og sorpgeymslu hússins. Kröfu hans um að skattlagning greiðslnanna yrði felld niður var hafnað með því að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda sem ekki væru sérstaklega undanþegnar skattlagningu í lögum.

Ár 2024, miðvikudaginn 14. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 168/2023; kæra A, mótt. 20. nóvember 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2022 og 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. nóvember 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurðum ríkisskattstjóra, dags. 18. október 2023, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2022 og 2023. Með hinum fyrri úrskurði, sem varðar gjaldárið 2022, tók ríkisskattstjóri mál kæranda til nýrrar afgreiðslu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar nr. 23, 1. mars 2023, en með þeim úrskurði var felldur úr gildi kæruúrskurður ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2022, vegna tilgreindra annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra og lagt fyrir embættið að taka mál kæranda að nýju til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Eins og rakið er í úrskurði yfirskattanefndar nr. 23/2023 laut ágreiningur málsins að skattlagningu verktakagreiðslu til kæranda frá M, húsfélagi að fjárhæð 72.000 kr. í skattframtali hans árið 2022, en af hálfu kæranda var skattlagningu greiðslunnar mótmælt. Með hinum kærða úrskurði vegna gjaldársins 2022 tók ríkisskattstjóri málið til meðferðar að nýju og hafnaði kröfu kæranda. Með hinum síðari kæruúrskurði vegna gjaldársins 2023 hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að skattlagning verktakagreiðslu frá M, húsfélagi að fjárhæð 72.000 kr. yrði felld niður í skattframtali kæranda árið 2023.

Forsendur ríkisskattstjóra í hinum kærðu úrskurðum embættisins voru þær að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem ríkisskattstjóri vísaði til. Kom fram að kærandi hefði fengið verktakagreiðslu að fjárhæð 72.000 kr. frá M, húsfélagi, á árinu 2021 og sömuleiðis á árinu 2022. Væru greiðslurnar vegna umsjónar kæranda með sameign og sorpgeymslu fjöleignarhússins, sbr. fundargerð aðalfundar húsfélagsins frá apríl 2022. Af hálfu kæranda væri litið svo á að ekki væri um að ræða skattskyldar greiðslur þar sem framlög hans og annarra eigenda til húsfélagsins væru greidd af tekjum sem þegar hefðu verið skattlagðar. Hússjóður væri eign eigenda og þeirra einkamál hvernig farið væri með sjóðinn. Tók ríkisskattstjóri fram af þessu tilefni að þegar keypt væri þjónusta af þriðja aðila væri greiðsla vegna hennar skattskyld í hendi þess sem þjónustuna veitti, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003. Mætti alla jafna gera ráð fyrir því að fyrir slíka þjónustu væri greitt með peningum sem þegar hefðu verið skattlagðir. Óumdeilt væri að húsfélagið hefði greitt 72.000 kr. fyrir þjónustu sem hefði falist í því að sjá um sameign og sorpgeymslu. Væri sú greiðsla skattskyld í hendi þess sem hana hefði fengið, sbr. fyrrnefnt ákvæði, og skipti þá ekki máli að greiðslan hefði verið innt af hendi til eins af eigendum hússins. Yrði því að hafna kröfum kæranda.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er skattlagningu greiðslna til hans frá M, húsfélagi mótmælt. Kemur fram að kærandi uni því ekki að sæta skattlagningu fyrir að hafa annast um málefni húsfélagsins. Hafi kærandi verið beittur ranglæti og sé K sökudólgur, en félagið hafi tekið að sér að annast húsfélagaþjónustu fyrir eigendur M. Vísar kærandi til 2. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. K telji sig hafa rétt til að fara með málefni húsfélagsins á opinberum vettvangi án þess að láta nokkurn vita. Sé félagið með því að bregðast skyldu sinni gagnvart húsfélaginu sem sé ekki skattskylt félag. Ríkisskattstjóri fari afar frjálslega með staðreyndir í hinum kærðu úrskurðum. Þá séu margir formgallar á úrskurðunum sem kærandi líti fram hjá.

II.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinir kærðu úrskurðir embættisins verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðunum ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. desember 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum af því tilefni.

Í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra hefur kærandi upplýst símleiðis að hann hafi engu við kæruna að bæta.

III.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að skattalegri meðferð greiðslna sem kærandi fékk á árunum 2021 og 2022 frá M, húsfélagi, sbr. innsenda verktakamiða frá húsfélaginu. Var annars vegar um að ræða launamiða að fjárhæð 101.500 kr. vegna greiðslna til kæranda á árinu 2021 og hins vegar launamiða að fjárhæð 159.000 kr. vegna greiðslna til kæranda á árinu 2022. Voru greiðslur frá húsfélaginu sem þessum fjárhæðum nam færðar til tekna í skattframtölum kæranda árin 2022 og 2023, en fyrir liggur að með kæruúrskurðum sínum, dags. 11. október 2022 og 18. október 2023, lækkaði ríkisskattstjóri fjárhæðir greiðslnanna í 72.000 kr. hvort ár. Af hálfu kæranda er þess hins vegar krafist að skattlagning greiðslna þessara verði felld niður. Kemur fram í kæru hans til yfirskattanefndar að þar sem um sé að ræða greiðslur úr hússjóði sem sé í eigu hans og meðeigenda hans að húseigninni sé ekki um að tefla skattskyldar tekjur í hans hendi.

Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Síðan eru í dæmaskyni tilgreindar í 7. gr. skattskyldar tekjur í þremur stafliðum. Í 1. tölul. A-liðar lagagreinarinnar er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun „og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til skattskyldra tekna „sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna sem eigi eru sérstaklega undanskildar í lögum þessum eða sérlögum“, eins og þar segir.

Ágreiningslaust er í málinu að hinar umdeildu greiðslur húsfélagsins til kæranda á árunum 2021 og 2021 séu endurgjald fyrir umsjón hans með sameign og sorpgeymslu fjöleignarhússins. Þar sem slíkar tekjur eru ekki sérstaklega undanþegnar skattlagningu í lögum nr. 90/2003 eða öðrum lögum verður að fallast á með ríkisskattstjóra að um sé að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. til hliðsjónar ákvæði 7. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með áorðnum breytingum, þar sem tekna af greindum toga er getið með ýmsum öðrum launagreiðslum sem ekki tengjast atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfum kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja