Úrskurður yfirskattanefndar

  • Almannaheillaskrá
  • Félagasamtök

Úrskurður nr. 17/2024

Lög nr. 90/2003, 4. gr. 4. tölul. og 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl. nr. 133/2021, 1. gr.)   Lög nr. 110/2021, 1. gr.  

Ríkisskattstjóri synjaði kæranda, sem var félagasamtök, um skráningu í almannaheillaskrá á þeim forsendum að samþykktir kæranda bæru ekki með sér með skýrum og afmörkuðum hætti að hvaða almannaheillamálefnum starfsemi kæranda sneri. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að kæranda væri markaður almennur og víðtækur tilgangur í samþykktum félagsins og hefði ekkert komið fram um það hvernig starfsemi kæranda væri nánar háttað. Var kröfu kæranda um skráningu í almannaheillaskrá hafnað.

Ár 2024, miðvikudaginn 14. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 179/2023; kæra F, dags. 7. desember 2023, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra frá 8. nóvember 2023 að hafna skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að samþykktir kæranda bæru ekki með sér með skýrum og afmörkuðum hætti að hvaða almannaheillamálefnum starfsemi stofnunarinnar sneri sem fella mætti undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig 16. og 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Eins og tilgangi og markmiði kæranda væri lýst í samþykktunum þá væri um afar yfirgripsmikla og almenna lýsingu að ræða og yrði ekki af henni ráðið hver væri í raun starfsemi félagsins eða að hvaða markmiðum og málefnum starfsemin raunverulega beindist að. Yrði því að telja að samþykktir kæranda væru of óljósar og almenns eðlis. Þá yrði að gera athugasemdir við að í samþykktunum væri heimild kæranda til að stunda atvinnurekstur ekki settar neinar skorður, m.a. með tilliti til ráðstöfunar fjármuna. Þá þættu ákvæði 3. gr. samþykktanna um félagsaðild óljós sem benti til þess að aðild að kæranda væri ekki í megindráttum öllum frjáls og opin heldur sætti mati stjórnar sem ekki yrði séð að helgaðist endilega af tilgangi og markmiði félagsins. Með vísan til framanritaðs væri umsókn kæranda um skráningu í almannaheillaskrá hafnað.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að kærandi verði skráð í almannaheillaskrá. Kærandi sé almannaheillafélag, sbr. lög nr. 110/2021, og starfsemi kæranda sé skýr samkvæmt samþykktum. Félagið geti látið ýmislegt gott af sér leiða, en að meginstefnu til sé lögð áhersla á loftslagsverkefni og baráttu gegn loftslagsvanda. Kærandi telji að þau skilyrði sem ríkisskattstjóri tefli fram í ákvörðun sinni standist ekki skoðun. Enginn vafi leiki á því að markmið kæranda miði að almannaheill. Verði ekki gerð sú krafa að í samþykktum sé niður njörvað hvaða forsendur þurfi að koma til svo félagið teljist bundið að sinna þeim þörfu verkefnum sem um ræðir. Verði ekki til þess ætlast að nákvæmar forsendur styrkveitinga séu ákveðnar þegar við stofnun kæranda. Sé óljóst hvað ríkisskattstjóri eigi við með umfjöllun sinni um atvinnustarfsemi. Ennfremur sé því alfarið hafnað að ákvæði 3. gr. samþykkta kæranda um félagsaðild séu óljós, enda sé öllum heimil aðild að uppfylltum tveimur hlutlægum skilyrðum sem bæði lúti að því að styrkja og styðja við almannaheillamarkmið kæranda. Ekki verði litið svo á að öllum verði ávallt að vera heimil aðild að félagi án nokkurra skilyrða.

II.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með tölvupósti 1. febrúar 2024 hefur umboðsmaður kæranda greint frá því að umsögn ríkisskattstjóra gefi ekki tilefni til athugasemda.

III.

Ákvæði um skráningu lögaðila á svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.–VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir skráningu lögaðila í almannaheillaskrá að aðili eigi undir ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, þ.e. verji hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í 2. mgr. 4. tölul. greinarinnar er skilgreint nánar hvaða starfsemi telst til almannaheilla, sbr. a-g-lið málsgreinarinnar þar sem m.a. er tiltekin mannúðar- og líknarstarfsemi, sbr. a-lið, og æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, sbr. b-lið. Svipað ákvæði var að finna í eldri lögum, sbr. 2. málsl. A-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Það ákvæði tók þó samkvæmt orðan sinni einungis til hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila. Núgildandi ákvæði, sem upphaflega var lögtekið með 4. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, tekur hins vegar til allra þeirra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. laganna, uppfylli þeir þau skilyrði sem sett eru í 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði skattfrelsis samkvæmt ákvæðinu er m.a. að lögaðili hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum að verja hagnaði til almannaheilla. Af dóma- og úrskurðaframkvæmd verður glögglega ráðið að það sé raunverulegt markmið með starfsemi lögaðila sem ræður úrslitum í þessum efnum þannig að liggi fyrir, að tilgangur með starfsemi sé í raun annar en skráður er í samþykktum, geti slík aðstaða girt fyrir skattfrelsi, sbr. til nokkurrar hliðsjónar H 1995:435.

Samkvæmt samþykktum fyrir kæranda frá maí 2023 starfar félagið samkvæmt lögum nr. 110/2021, um félög til almannaheilla. Tilgangur félagsins er samkvæmt 2. gr. samþykktanna sá að styrkja og starfa að málefnum sem stuðla að framþróun samfélagsins og hafa samfélagsleg markmið að leiðarljósi, m.a. með sérstakri áherslu á loftslagsverkefni, er styðja við baráttuna gegn loftslagsvanda heimsins, þar með talið vísindalega rannsóknarstarfsemi. Þá er tekið fram að félaginu sé heimilt að styðja við og stuðla að framgangi mannúðarmála og aðstoðar við fólk í þörf auk menningarmálastarfsemi. Félagið sé að meginstefnu fjármagnað með styrkjum en sé frjálst að afla sér fjármögnunar, þ.m.t. með sjálfsaflafé og/eða með lánsfé. Fjármunum félagsins skuli eingöngu ráðstafað til samræmis við tilgang þess. Félaginu sé jafnframt heimil atvinnustarfsemi til fjáröflunar í þágu eða í tengslum við verkefni og tilgang þess. Um félagsaðild kemur fram í 3. gr. samþykktanna að þeir einstaklingar, félög, sjóðir eða sjálfseignarstofnanir sem stjórn félagsins telji að verði félaginu, markmiðum þess og tilgangi til hagsbóta hverju sinni skuli heimiluð aðild að félaginu telji stjórn tilgreind skilyrði uppfyllt, þ.e. a) að fjárframlag, stofnframlag, væntanlegs félagsmanns til félagsins að fjárhæð sem samræmist tilgangi og markmiði félagsins og b) að væntanlegur félagsmaður sé tilbúinn til þess í orði og verki að ljá tilgangi og markmiðum félagsins atbeina sinn. Stjórn félags taki ákvörðun um hvort víkja beri félagsmanni úr félaginu telji hún hann ekki lengur uppfylla skilyrði félagsins um aðild. Um slit félagsins kemur fram í 12. gr. samþykktanna að félagsfundur geti tekið ákvörðun um að slíta félaginu og skuli það þá gert í samræmi við lög nr. 110/2021. Við slit félagsins skuli öllum eftirstandandi eignum þess einungis úthlutað í samræmi við tilgang þess og markmið.

Samkvæmt framansögðu er kæranda markaður almennur og víðtækur tilgangur í samþykktum félagsins. Þá hefur ekkert komið fram um það hvernig starfsemi kæranda sé nánar háttað. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að gera verði ríkar kröfur til afmörkunar á tilgangi lögaðila og ráðstöfun hagnaðar af starfsemi hans til almannaheilla þannig að til skattfrelsis geti komið á grundvelli 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, svo sem dómaframkvæmd þykir bera órækan vott um, sbr. einkum H 1945:197 og H 1951:46, en dómar þessir vörðuðu báðir eldri skattfrelsisákvæði í þágildandi lögum um skemmtanaskatt og útsvar, sem þó gerðu ekki eins strangar kröfur til forms samþykkta og gerðar eru í ákvæði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Afmörkun á tilgangi kæranda í samþykktum félagsins getur ekki talist fullnægja framangreindum áskilnaði. Til hliðsjónar um þetta þykir mega vísa til ákvæða 1. gr. laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, þar sem fram kemur að lögin gildi um félög sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Í athugasemdum með ákvæði þessu í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 110/2021, kemur m.a. fram að lögin taki til svonefndra hugsjónafélaga sem stofnuð séu til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinist að ákveðnum einstaklingum sem uppfylli ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar sé skilgreint í samþykktum félagsins, þ.e. félaga sem stofnuð eru til þess að efla og styrkja skýrt afmörkuð málefni á þeim sviðum sem um ræðir (þskj. 1030 á 151. löggjafarþingi).

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði fyrir skráningu í almannaheillaskrá, sbr. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja