Úrskurður yfirskattanefndar
- Sambýlisfólk
- Barnabætur
Úrskurður nr. 20/2024
Gjaldár 2023
Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A-liður 1. mgr.
Kærandi og barnsfaðir hennar, B, voru með sameiginlegt lögheimili í árslok 2022. Að því athuguðu og gögnum málsins að öðru leyti var talið verða að byggja á því að kærandi og B hefðu bæði annast framfærslu barna sinna í árslok 2022 og teldust því bæði framfærendur í skilningi skattalaga. Var kröfu kæranda um að litið yrði á kæranda sem einstætt foreldri við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2023 hafnað.
Ár 2024, miðvikudaginn 21. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 181/2023; kæra A, dags. 15. desember 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi óskaði eftir leiðréttingu á skattframtali sínu gjaldárið 2023 með beiðni til ríkisskattstjóra 26. maí 2023. Í beiðninni kom fram að kærandi hefði gleymt að haka við það í skattframtalinu að hún væri einstætt foreldri. Þá teldi hún sig ekki þurfa að endurgreiða barnabætur ársins 2022.
Ríkisskattstjóri tók beiðni kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 14. september 2023. Í úrskurðinum kom fram að í athugasemdadálki á forsíðu skattframtalsins segði: „Einstætt foreldri eða ekki. Ég flutti með dætur mínar í sama húsnæði og barnsfaðir minn í nóvember 2022 og tel mig ekki vera einstæð þó að við séum ekki í skráðri sambúð.“ Rakti ríkisskattstjóri skilyrði laga fyrir rétti til barnabóta og tók fram að við ákvörðun barnabóta gjaldárið 2023 væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri skráð í þjóðskrá 31. desember 2022, en breytingar innan ársins hefðu ekki áhrif á þá ákvörðun. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hefðu kærandi og B verið með sameiginlegt lögheimili í árslok 2022 ásamt því að eiga börn saman. Teldust þau því bæði framfærendur barnanna. Með vísan til þessa hefðu þau uppfyllt skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í lok tekjuársins 2022 og væri því ekki fallist á að ákvarða kæranda barnabætur sem einstæðu foreldri vegna álagningar 2023.
II.
Með kæru, dags. 15. desember 2023, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni segir kærandi að ekki eigi að hegna henni fyrir að reyna sambúð með barnsföður hennar heldur eigi hún að fá að njóta vafans og sama reynslutíma eins og ef um einhvern annan sambúðaraðila væri að ræða. Kærandi fari með fulla forsjá barnanna og séu hún og B með aðskilinn fjárhag og tryggingar. Í raun hafi ekkert breyst nema að þau búi undir sama þaki. Væri leigumarkaður á svæðinu betri mætti leiða líkur að því að þær mæðgur byggju ekki lengur með föður barnanna.
Með kærunni fylgir greinargerð forstöðumanns vegna kæranda og bréf frá sálfræðingi um að kærandi hafi verið í meðferðarviðtölum hjá stofnuninni.
III.
Með bréfi, dags. 3. janúar 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðuninni.
Með tölvupósti, dags. 25. janúar 2024, hefur kærandi ítrekað kröfur sínar og gert nánari grein fyrir aðstæðum sínum.
IV.
Hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra er dagsett 14. september 2023 og liggur ekki annað fyrir en ákvörðunin hafi verið póstlögð sama dag. Kærufrestur til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar stjórnvalds, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattnefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessu var síðasti dagur kærufrests 14. desember 2023 (fimmtudagur). Kæran til yfirskattanefndar er dagsett 15. desember 2023 og barst sama dag. Tekið skal fram að með gögnum sem ríkisskattstjóri sendi yfirskattanefnd vegna kærunnar fylgdi afrit kæruúrskurðar ríkisskattstjóra í málinu sem er dagsett 15. september 2023. Þá er gengið út frá því í umsögn ríkisskattstjóra að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp 15. september 2023. Engar skýringar hafa komið fram á þessu misræmi, en ekki þykir annað tækt en að miða við dagsetningu kæruúrskurðar sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar eða 14. september 2023. Samkvæmt þessu er kæran fram komin að liðnum kærufresti. Á hinn bóginn þykir að virtum skýringum kæranda um heilsubrest og öðrum atvikum athuguðum rétt að taka kæruna til efnismeðferðar.
Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skal skipta barnabótum milli þeirra til helminga. Ennfremur er svo kveðið á í umræddri lagagrein að hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljist þeir sem haldi heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skuli ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða.
Í málinu liggur fyrir að kærandi og barnsfaðir hennar, B, voru með sameiginlegt lögheimili í árslok 2022. Að þessu athuguðu og gögnum málsins að öðru leyti verður að byggja á því að kærandi og B hafi bæði annast framfærslu barna sinna í árslok 2022 og teljist því framfærendur í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.