Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 659/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 32/1978 — 126. gr. — 130. gr. — 145. gr. 3. mgr. Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 56. gr. — 91. gr. — 100. gr. 5. mgr.
Hlutafélag — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda hlutafélags — Lok skattskyldu — Lok skattskyldu hlutafélags — Samruni — Samruni hlutafélaga — Sameining félaga — Samrunadagur — Yfirfærsla skattaréttarlegra réttinda og skyldna — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Félagsslit — Framtalsskylda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Tilkynning um hlutafélög send lögreglustjóra
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Er kröfugerð kæranda fyrir ríkisskattanefnd svohljóðandi:
„Þannig er að A h.f. og B h.f., sameinuðust þann 1. janúar 1988 og gáfu hluthafar B h.f. eftir sinn hlut endurgjaldslaust í fyrirtækinu þar sem skuldir voru umfram eignir. Yfirtók þá A h.f. allar skuldbindingar B h.f. og tilkynnt var til söluskattsdeildar Skattstjórans í X-umdæmi að öll starfsemi færi fram undir nafni A h.f. og var öllum söluskatti 1988 skilað eins og um eitt fyrirtæki væri að ræða.
Innköllun skulda fyrir B h.f. fór fram síðari hluta árs 1988 sbr. meðfylgjandi kvittun frá Lögbirtingablaði.
Sameining var svo tilkynnt til Bæjarfógetaembættisins 30. desember 1988 (sbr. meðfylgjandi ljósrit) þar sem tekið var fram að hún hefði átt sér stað 1. janúar 1988.
Tilkynning til hlutafélagaskrár var send frá Bæjarfógetaembættinu í janúar 1989 og byggir skattstjóri að hluta sinn úrskurð á því, þegar hann hafnar sameiningu fyrirtækjanna.
Er þess nú krafist að innsent framtal fyrir árið 1989 fyrir sameinuð fyrirtækin A h.f. og B h.f. verði tekið til greina og fyrirtækin skattlögð sameiginlega.“
Með bréfi, dags. 6. desember 1989, fellst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda að „virtum atvikum öllum og með hliðsjón af framkomnum skýringum“.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var tilkynning um sameiningu félaganna fyrst tilkynnt bæjarfógetaembættinu hinn 30. desember 1988. Getur sameiginlegt skattframtal fyrir félögin ekki náð til alls tekjuársins 1988. Þegar af þessari ástæðu er kröfu kæranda hafnað.