Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vantaldar tekjur
  • Málsmeðferð
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 25/2024

Gjaldár 2023

Virðisaukaskattur 2022

Lög nr. 90/2003, 7. gr. B-liður, 96. gr.   Lög nr. 50/1988, 2. gr. 2. mgr., 26. gr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.   Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr., sbr. brl. nr. 69/2021, 6. gr.)  

Þær breytingar ríkisskattstjóra, að færa kæranda til tekna í skattframtali meintar vantaldar verktakagreiðslur og hækka virðisaukaskattsskylda veltu, voru felldar úr gildi með því að boðunarbréf ríkisskattstjóra og hinn kærði úrskurður um endurákvörðun voru ekki send á skráð lögheimili kæranda heldur á fyrrverandi heimilisfang hans. Lagaskilyrði voru ekki talin vera fyrir hendi til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, m.a. þar sem kærandi hafði rekið mál sitt sjálfur og ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað af málinu.

 

Ár 2024, miðvikudaginn 21. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 8/2024; kæra A, dags. 11. janúar 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023 og ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. janúar 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2023, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2023 og virðisaukaskatts árið 2022. Með úrskurði þessum hækkaði ríkisskattstjóri framtaldar verktakagreiðslur í rekstrarskýrslu (RSK 4.11) með skattframtali kæranda árið 2023 um 691.879 kr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og skattskylda veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022 um 605.224 kr. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við hækkun skattstofns sem af þessu leiddi og 10% álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við hækkun virðisaukaskatts kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til upplýsinga í innsendum launamiða um verktakagreiðslur til kæranda og tók fram að af hálfu kæranda hefði hvorki verið brugðist við fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2023, né boðunarbréfi, dags. 27. október 2023.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að framtaldar launatekjur í lið 2.1 í skattframtali hans árið 2023 verði lækkaðar um 968.824 kr. og að álag á skattstofna og virðisaukaskatt verði fellt niður. Til vara er gerð sú krafa að skattskyld velta kæranda verði lækkuð úr 857.581 kr. í 165.702 kr., hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri lækki um 666.879 kr. og að álag verði fellt niður. Til þrautavara er krafist lækkunar og niðurfellingar álags. Í öllum tilvikum sé gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Í kærunni er gerð grein fyrir því að á árinu 2022 hafi kærandi látið af sjálfstæðri starfsemi við innflutning og tekið að sér að veita þjónustu til þeirra sem rötuðu á fjörur Útlendingastofnunar. Hafi kærandi gefið út tvo reikninga af því tilefni og fært tekjur af starfseminni til tekna með launatekjum í lið 2.1 í skattframtali sínu árið 2023, sbr. liðinn „Verktakatekjur tryggingagjald - kostnaður 4.10 virkaði ekki“ í framtalinu. Kærandi hafi síðan flust búferlum, en misfarist hafi að breyta póstfangi hans. Hinn kærði úrskurður hafi því borist fyrrverandi maka kæranda. Þá er gerð frekari grein fyrir kröfum kæranda og kemur m.a. fram að kærandi líti svo á að ekki sé um að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi hans eftir að innflutningi var hætt. Þá er beitingu 25% álags mótmælt með vísan til þess að kærandi hafi talið fram umræddar tekjur sem launatekjur. Um málskostnaðarkröfu kæranda kemur fram að kostnaður kæranda af málinu sé fjármagnskostnaður vegna greiðslna sem haldið hafi verið eftir af launum kæranda vegna málsins.

II.

Með bréfi, dags. 24. janúar 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að það sé álit ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður skuli verða felldur úr gildi þar sem ljóst sé af gögnum málsins að tilkynning ríkisskattstjóra, dags. 27. október 2023, um fyrirhugaða endurákvörðun hafi ekki verið send á lögheimili kæranda. Þá er tekið fram að hluti kæruefnisins virðist felast í beiðni um breytingu á álagningu gjaldárið 2023 vegna launa. Sé það álit ríkisskattstjóra að þennan þátt kærunnar beri að framsenda ríkisskattstjóra til úrlausnar, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Eins og getið er í umsögn ríkisskattstjóra í máli þessu munu bréf embættisins vegna málsins, dags. 11. og 27. október 2023, ekki hafa verið send á skráð lögheimili kæranda samkvæmt þjóðskrá heldur á fyrrverandi heimilisfang hans að ... Að þessu athuguðu og með vísan til umsagnar ríkisskattstjóra verður að fella úr gildi hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2023 og virðisaukaskatti árið 2022, enda verður ekki séð að kærandi hafi átt þess kost að tjá sig um breytingar þessar og gæta hagsmuna sinna áður en þeim var hrundið í framkvæmd með hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefna málsins.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er m.a. höfð uppi krafa um að gerðar verði tilteknar breytingar á skattframtali kæranda árið 2023. Að því athuguðu þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og afgreiðslu.

Kærandi hefur gert kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Fyrir liggur að kærandi hefur rekið mál sitt sjálfur á öllum stigum þess. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn um útlagðan kostnað þrátt fyrir ábendingu þar um í bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2024, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Líta verður svo á að sá fjármagnskostnaður, sem tíundaður er í kæru, feli í sér óbeinan kostnað kæranda sem ekki kemur til álita sem málskostnaður í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. og lið 3.2 í starfsreglum yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, sem birtar eru á vef nefndarinnar. Með vísan til framanritaðs eru ekki til staðar lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði. Verður því að hafna málskostnaðarkröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra eru felldar úr gildi. Að öðru leyti er kæran send ríkisskattstjóra til meðferðar. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja