Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Kæra vegna tafa á afgreiðslu máls
  • Málshraði

Úrskurður nr. 49/2024

Lög nr. 50/1988, 29. gr. A (brl. nr. 143/2018, 11. gr.).   Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. mgr. og 4. mgr.  

Kæra í máli þessu laut að drætti á afgreiðslu máls kæranda hjá ríkisskattstjóra vegna innsendrar virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022, sbr. kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist var á með kæranda að óhæfilegur dráttur hefði orðið á afgreiðslu málsins sem brotið hefði í bága við almennar málshraðareglur.

Ár 2024, miðvikudaginn 3. apríl, er tekið fyrir mál nr. 158/2023; kæra A ehf., dags. 25. október 2023, vegna afgreiðslu á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, sem barst nefndinni 25. október 2023, hefur kærandi gert athugasemdir við tafir á afgreiðslu á innsendri virðisaukaskattsskýrslu félagsins vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2022. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi með höndum byggingu … til raforkuframleiðslu. Sé verkefni kæranda unnið í samstarfi við M sem sé leiðandi fyrirtæki á þessu sviði. Kærandi hafi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022 hinn 24. mars 2023. Í kjölfar þessa hafi félagið verið krafið um gögn og skýringar 23. maí 2023 sem hafi verið látin í té samdægurs. Með tölvupósti 1. júní 2023 hafi kæranda síðan verið tilkynnt um að tilfærður innskattur samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu virtist ekki rúmast innan almennrar skráningar félagsins á virðisaukaskattsskrá. Hafi félagið svarað því erindi 5. júní sama ár og 13. sama mánaðar hafi kærandi látið í té frekari skýringar og gögn. Af hálfu kæranda hafi að svo búnu verið gengið á eftir afgreiðslu málsins með tölvupóstum í ágúst og september 2023. Þann 12. september 2023 hafi kæranda síðan borist tölvupóstur frá ríkisskattstjóra þar sem greint sé frá því að samkvæmt upplýsingum frá álagningarsviði embættisins uppfylli kærandi sennilega ekki skilyrði fyrir skráningu í virðisaukaskattsskrá samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 2. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem einungis innskatti sé til að dreifa í starfsemi félagsins. Samdægurs hafi kærandi svarað tölvupóstinum og mótmælt þessari afstöðu ríkisskattstjóra. Málið sé enn óafgreitt og kærandi ekki fengið innskattinn greiddan.

Að svo búnu er í kærunni vikið að lagagrundvelli málsins og þeim réttarreglum sem ríkisskattstjóri hafi vísað til, þ.e. 1. mgr. og 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 og 2. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996. Er lýst sjónarmiðum kæranda í því sambandi og sé litið svo á að öll skilyrði almennrar skráningar í virðisaukaskattsskrá séu uppfyllt í tilviki kæranda, enda hafi félagið verið á skránni frá árinu 2018. Þá feli ákvörðun ríkisskattstjóra í sér mismunun gagnvart sprotafyrirtækjum sem brjóti í bága við ákvæði bæði samkeppnislaga nr. 44/2005 og raforkulaga nr. 54/2003, svo sem nánar er rökstutt. Er tekið fram að dráttur á afgreiðslu málsins hafi haft neikvæð áhrif á fjárhag kæranda og sé því kært til yfirskattanefndar. Þá er þess að geta að hinn 15. nóvember 2023 lét kærandi yfirskattanefnd í té bréf ríkisskattstjóra til félagsins, dags. 10. nóvember 2023, þar sem kæranda er með vísan til 8. og 9. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 og 1. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996 boðað að fyrirhugað sé að fella kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts frá 31. ágúst 2023 að telja og hafna innskatti sem tilgreindur sé í virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022. Þá kemur fram að fyrirhugað sé að fella niður áætlun virðisaukaskatts félagsins greint uppgjörstímabil. Er kæranda í boðunarbréfinu veittur 15 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af því.

II.

Með bréfi, dags. 12. desember 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er vakin athygli á því að ríkisskattstjóri hafi lokið máli kæranda með ákvörðun, dags. 11. desember 2023, sem fylgi umsögninni í afriti. Er tekið fram að ákvörðun ríkisskattstjóra hafi verið send kæranda. Þá barst yfirskattanefnd afrit af ákvörðun ríkisskattstjóra frá kæranda hinn 16. desember 2023.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 8. janúar 2024, hefur kærandi greint frá því að félagið hafi kært ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 11. desember 2023, til embættisins sama dag. Bréfinu fylgdi afrit af kæru þessari.

III.

Kæra í máli þessu, dags. 25. október 2023, varðar meintar tafir á meðferð ríkisskattstjóra á máli kæranda vegna innsendrar virðisaukaskattsskýrslu félagsins fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022. Er ljóst að kæran byggir á kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi ekki hafa staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2022 á tilskildum tíma og sætti félagið af þeim sökum áætlun virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hinn 24. mars 2023 eða að liðnum kærufresti vegna ákvörðunar virðisaukaskatts greint uppgjörstímabil, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, barst ríkisskattstjóra virðisaukaskattsskýrsla kæranda vegna uppgjörstímabilsins og leit embættið á skýrsluna sem beiðni um breytingu á ákvörðun um virðisaukaskatt samkvæmt 29. gr. A laga nr. 50/1988, sbr. 11. gr. laga nr. 143/2018, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum. Í niðurlagsákvæði þeirrar lagagreinar kemur fram að aðila sé heimilt að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Verður því að telja að kæranda sé heimilt að kæra drátt á afgreiðslu málsins til yfirskattanefndar á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda ber almennt að beina kæru á grundvelli þess ákvæðis til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Má um þetta vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 28/2010. Þessa kæruheimild stjórnsýslulaga verður þó að skýra svo að hún eigi einungis við í þeim tilvikum þegar mál hefur ekki verið til lykta leitt af lægra stjórnvaldi, sbr. m.a. athugasemdir með 9. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 37/1993, en þar er tekið fram að um sé að ræða undantekningu frá reglu 2. mgr. 26. gr. laganna um að ákvarðanir, sem ekki binda endi á mál, verði ekki kærðar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þegar lægra stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og þannig lokið meðferð þess fer því um kærumeðferð hjá æðra stjórnvaldi eftir almennum reglum. Hvað þetta varðar liggur fyrir að kærandi hefur með kæru, dags. 8. janúar 2024, sem barst yfirskattanefnd 23. sama mánaðar, skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra frá 11. desember 2023 sem getið er í umsögn ríkisskattstjóra í máli þessu. Með ákvörðuninni felldi ríkisskattstjóri kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts frá 31. ágúst 2023 að telja og hafnaði innskatti sem tilgreindur var í hinni síðbúnu virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2022.

Eins og greinir hér að framan mun virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir fyrrgreint uppgjörstímabil hafa borist ríkisskattstjóra 24. mars 2023. Með tölvupósti til kæranda 23. maí 2023 fór ríkisskattstjóri fram á tiltekin gögn vegna skýrslunnar, þ.e. afrit af reikningum og hreyfingalista vegna innskatts, og skýringar á því hvernig tilfærður innskattur tengdist öflun virðisaukaskattsskyldra tekna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988 sem vísað var til í tölvupóstinum. Umbeðin gögn og skýringar bárust ríkisskattstjóra samdægurs. Var kæranda í kjölfar þess sendur tölvupóstur 1. júní 2023 þar sem ríkisskattstjóri óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum vegna málsins. Mátti ráða af þessum tölvupósti að ríkisskattstjóri teldi áhöld um heimild kæranda til almennrar skráningar í virðisaukaskattsskrá, en jafnframt kom fram að kærandi kynni að eiga rétt á svonefndri fyrirfram skráningu vegna starfsemi félagsins. Af hálfu kæranda var erindi ríkisskattstjóra svarað í tölvupósti þann 5. júní þar sem afstöðu ríkisskattstjóra var mótmælt og óskað eftir skýringum m.a. um lagagrundvöll hennar. Í kjölfar frekari tölvupóstsamskipta og framlagningar frekari gagna og skýringa af hálfu kæranda í júní 2023 mun félagið hafa grennslast fyrir um afgreiðslu málsins með tölvupóstum í ágúst og september sama ár. Með tölvupósti til kæranda 12. september 2023 fór ríkisskattstjóri enn fram á gögn og upplýsingar vegna málsins og áréttaði áður fram komin sjónarmið um skráningu félagsins. Gekk síðan á með tölvupóstum milli aðila og með tölvupósti 6. október greindi ríkisskattstjóri kæranda frá því að málið „[væri] á bið þar til formleg umsókn um fyrirframskráningu berst embættinu ásamt tilskildum fylgigögnum slíkra umsókna“, sbr. fyrri tölvupóst frá 12. september sem ríkisskattstjóri vísaði til. Í kjölfar frekari tölvupósta frá kæranda dagana 10., 17. og 24. október boðaði ríkisskattstjóri félaginu með bréfi, dags. 10. nóvember 2023, afskráningu þess af virðisaukaskattsskrá og höfnun innskatts samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu. Að fengnu andmælum kæranda með tölvupósti 20. sama mánaðar hratt ríkisskattstjóri ákvörðun sinni í framkvæmd með bréfi, dags. 11. desember 2023.

Virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2022 barst ríkisskattstjóra eins og fyrr er rakið að liðnum 30 daga kærufresti vegna ákvörðunar virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, og var því réttilega tekin til meðferðar sem beiðni um leiðréttingu á fyrri ákvörðun virðisaukaskatts félagsins, þ.e. áætlunar, samkvæmt 29. gr. A greindra laga. Hvorki í lögum nr. 50/1988 né í reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra er ríkisskattstjóra settur ákveðinn frestur til að ljúka afgreiðslu á erindi af þessum toga. Það þýðir þó ekki að ríkisskattstjóri hafi sjálfdæmi um afgreiðslutíma slíks erindis, enda gilda þá almennar málshraðareglur, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Má í þessu sambandi jafnframt vísa til sjónarmiða í áliti umboðsmanns Alþingis frá 2. desember 1999 í máli nr. 1924/1996. 

Ekki verður séð að sérstakar tafir hafi orðið á meðferð máls kæranda á fyrri stigum þess, sbr. lýsingu hér að framan, en eins og þar greinir fór ríkisskattstjóri fram á upplýsingar og gögn vegna innsendrar virðisaukaskattsskýrslu félagsins með tölvupóstum dagana 23. maí og 1. júní 2023 í kjölfar þess að skýrslan barst embættinu hinn 24. mars sama ár, sbr. 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Á hinn bóginn verður að fallast á með kæranda að óþarfa dráttur hafi síðan orðið á því að ríkisskattstjóri lyki afgreiðslu málsins. Er þá fyrst til þess að líta að kærandi var tvívegis krafinn upplýsinga og gagna til stuðnings mögulegri fyrirfram skráningu félagsins samkvæmt II. kafla reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með áorðnum breytingum, sbr. tölvupósta dagana 1. júní og 12. september 2023, en í báðum tilvikum var í meginatriðum um að ræða sömu upplýsingar, m.a. greinargerð um starfsemina ásamt rekstraráætlun. Þótt ekki verði fundið að því að ríkisskattstjóri hafi við meðferð málsins leiðbeint kæranda um mögulegan rétt til slíkrar skráningar í samræmi við leiðbeiningarskyldur embættisins verður ekki talið að nein ástæða hafi verið til þess að þýfga kæranda um upplýsingar og gögn í því sambandi, ekki síst í ljósi þess að af hálfu kæranda hafði því sjónarmiði félagsins ítrekað verið komið á framfæri við ríkisskattstjóra að félagið teldi ekki þörf á slíkri skráningu. Af sömu ástæðu verður ekki séð að neitt tilefni hafi verið til að fresta afgreiðslu málsins í september 2023, sbr. tölvupósta kæranda dagana 12. og 13. september og þá afstöðu félagsins sem þar kom fram.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að fallast á með kæranda að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu máls félagsins sem sérstakar skýringar hafa ekki komið fram á.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra sem brotið hafi í bága við almennar málshraðareglur. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja