Úrskurður yfirskattanefndar
- Aðflutningsgjöld
- Tollflokkun
- Kókosís
Úrskurður nr. 62/2024
Lög nr. 88/2005, 20. gr. Almennar reglur um túlkun tollskrár.
Deilt var um tollflokkun á kókosís. Yfirskattanefnd taldi ekki fara á milli mála að varan væri að uppistöðu til úr kókosrjóma unnum úr aldini kókosplöntu og því áþekk venjulegum ávaxtaís, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 172/2019. Þá var þingleg meðferð lagafrumvarps, sem var undanfari að upptöku sérstaks tollskrárnúmers í tollskrá sem tók til íss úr hnetum o.fl. með minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd, eindregið talin mæla gegn því að varan félli þar undir, svo sem kærandi byggði á.
Ár 2024, þriðjudaginn 30. apríl, er tekið fyrir mál nr. 45/2024; kæra A ehf., dags. 26. febrúar 2024, vegna bindandi álits tollgæslustjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæra í máli þessu, dags. 26. febrúar 2024, varðar bindandi álit tollgæslustjóra á tollflokkun vörunnar AK Coco frost chocolate hazelnut sem tollgæslustjóri lét uppi hinn 16. febrúar 2024 samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í álitinu komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir vörulið 2105 í tollskrá, nánar tiltekið tollskrárnúmer 2105.0091 sem annar ís til manneldis. Í kærunni er þess krafist að álit tollgæslustjóra verði fellt úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 16. febrúar 2024, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollgæslustjóra á tollflokkun AK Coco frost chocolate hazelnut, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsókninni kom fram að kærandi liti svo á að tollflokka bæri vöruna undir tollskrárnúmer 2105.0039 í tollskrá. Tollgæslustjóri lét samdægurs uppi bindandi álit í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollgæslustjóri taldi að varan félli undir tollskrárnúmer 2105.0091 sem annar ís til manneldis. Kom fram í álitinu að um væri að ræða ís að uppstöðu úr kókosrjóma. Varan innihéldi kakó en ekki mjólkurfitu, soja, hafra, hrísgrjón, hnetur, acai eða möndlur.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að um tollflokkun þeirrar vöru sem í málinu greinir gildi ákveðin sérlög, sbr. lög nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, en með þeim lögum hafi tollum á ís úr jurtamjólk verið breytt. Er gerð grein fyrir athugasemdum með frumvarpi til laganna og ummælum í nefndaráliti og tekið fram að þau beri með sér að vilji löggjafans hafi staðið til þess að undanþiggja tilteknar vörur tollum til þess að stuðla að jafnri stöðu þeirra sem af einhverjum ástæðum neyttu ekki mjólkuríss. Við flokkun í þessu tilliti hafi löggjafinn ekki stuðst við fræðikerfi líffræðinnar heldur við almenna málvenju og málskilning. Verði því að líta svo á að vilji löggjafans hafi verið sá að telja kókosís meðal þeirra tegunda sem byggju við gjaldfrelsi, enda séu vörur úr hnetum tilteknar sérstaklega í dæmaskyni. Ljóst sé því að ís úr kókosmjólk (kókoshnetum) falli undir lagabreytingarnar. Niðurstaða tollgæslustjóra sé byggð á þröngri túlkun lagatexta sem leiði til annarrar niðurstöðu en túlkun samkvæmt orðanna hljóðan og til samræmis við vilja löggjafans og markmið lagasetningarinnar.
IV.
Með bréfi, dags. 18. mars 2024, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að í málinu sé deilt um tollflokkun vöru af gerðinni AK Coco Frost Cocoa Hazelnut Crunch, þ.e. hvort vöruna beri að tollflokka sem ís úr hnetu, sbr. tollskrárnúmer 2105.0039 í tollskrá, eða sem annan ís en mjólkurís eða ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum, acai og/eða möndlum, sbr. tollskrárnúmer 2105.0091. Tekið er fram að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu framleiðanda vörunnar samanstandi varan af 38% kókosrjóma, kókosvatni og reyrsykri, 10% kakósósu og agave sýrópi og 4,2% karamelliseruðum heslihnetum auk þykkingar- og bindiefnum. Varan sé markaðssett sem lífrænn, vegan eða laktósalaus ís. Niðurstaða hins kærða bindandi álits tollgæslustjóra sé byggð á því að þar sem kókoshnetur séu ávöxtur þá flokkist ís sem sé að uppistöðu úr þeim og með kakóinnihaldi í tollskrárnúmer 2105.0091. Að mati tollgæslustjóra sé skýrt að vilji löggjafans við setningu laga nr. 125/2015 hafi verið sá að gera einungis ís úr ákveðnum vörum undanþeginn tollum en ekki allan ís sem teldist vera staðgönguvara hefðbundins mjólkuríss, sbr. ummæli í nefndaráliti sem vísað sé til í kæru. Staðreynd sé að í grasafræði sé kókoshneta ekki hneta heldur ávöxtur. Engir ávextir séu nefndir í lögum nr. 125/2015 og lögskýringargögnum heldur sé þvert á móti tiltekið að ávaxtaís skuli áfram bera toll. Ekki hafi verið brugðist við ábendingu Félags atvinnurekenda í umsögn um frumvarpið varðandi ís úr kókosmjólk og bendi það til þess að ekki hafi verið vilji til að undanþiggja slíkan ís frá gjaldskyldu. Sé þess því krafist að hið kærða bindandi álit verði staðfest.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar 2. apríl 2024 hefur kærandi áréttað áður fram komin sjónarmið félagsins. Er ítrekað að hvað sem líði skilgreiningum grasafræðinnar séu kókoshnetur taldar hnetur samkvæmt almennum málskilningi og engin ástæða til að ætla að vilji Alþingis hafi verið sá að víkja frá því.
V.
Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollgæslustjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 16. febrúar 2024 í tilefni af beiðni kæranda sama dag. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollgæslustjóra um tollflokkun íss sem ber heitið AK Coco Frost Cocoa Hazelnut Crunch og er í gögnum málsins lýst sem ís að uppistöðu til úr kókosrjóma. Í umsókninni kom fram að ísinn innihéldi kókosrjóma (29%), vatn, sykur, kakósósu o.fl. Beiðninni fylgdi ljósmynd af umbúðum vörunnar og vörulýsing (e. General Specification Report) frá framleiðanda þar sem vörunni var lýst sem „Organic coconut milk ice cream with cocoa sauce and carmelised hazelnuts“. Í hinu kærða bindandi áliti sínu komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir tollskrárnúmer 2105.0091 í tollskrá sem annar ís til manneldis. Í beiðni kæranda var hins vegar byggt á því að varan gæti fallið undir tollskrárnúmer 2105.0039 sem ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum, acai og/eða möndlum sem innihéldi minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd. Verður að líta svo á að krafa kæranda í málinu fyrir yfirskattanefnd sé byggð á þeirri tollflokkun vörunnar þar sem niðurstaða tollgæslustjóra sé efnislega röng.
Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 21. kafla tollskrár er fjallað um ýmsa matvælaframleiðslu. Undir vörulið 2105 í þessum kafla fellur rjómaís og annar ís til manneldis, einnig með kakaóinnihaldi. Skiptist sá vöruliður í þrjá jafnsetta undirliði og leit tollgæslustjóri svo á að hin umspurða vara félli undir safnliðinn „Annar“ og tollskrárnúmer 2105.0091 („Með kakaóinnihaldi“).
Sá undirliður, sem kærandi telur eiga við um vöruna og tekur til íss úr sojabaunum o.fl., sbr. tollskrárnúmer 2105.0031, 2105.0032 og 2105.0039, var tekinn upp í tollskrá með auglýsingu nr. 121, 18. desember 2015 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005, sbr. 1. gr. auglýsingarinnar sem breytti orðalagi vöruliðar 2105 í tollskrá. Tildrög breytingar þessarar á tollskrá má rekja til laga nr. 125/2015, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016, sbr. 14. gr. nefndra laga þar sem mælt er fyrir um lækkun tolla á vörur í tilgreindum tollskrárnúmerum í tollskrá, þar með talið vörur í tollskrárnúmerum 2105.0021 og 2105.0029 (annar ís til manneldis). Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 125/2015, kemur fram að samhliða framlagningu frumvarpsins sé gert ráð fyrir því að ráðherra birti auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda þar sem kveðið verði á um breytingu á vörulið 2105. Er tekið fram að með auglýsingunni verði ís til manneldis sem inniheldur minna en 3% mjólkurfitu miðað við þyngd og er úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum felldur undir tollskrárnúmerið 2105.0029, en undir númerið 2105.0021 verði felldur sams konar ís með kakóinnihaldi. Kemur fram að tillaga frumvarpsins samræmist breytingu sem Alþingi hafi gert með samþykkt laga nr. 76/2014 og sé markmið breytingarinnar að stuðla að því að staða þeirra sem ekki neyta mjólkuríss af einhverjum ástæðum verði sambærilegri stöðu þeirra sem neyta íss úr mjólkurafurðum (þskj. 708 á 145. löggjafarþingi 2015-2016).
Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga nr. 125/2015 er m.a. vikið að greindum breytingum og athugasemdum umsagnaraðila um þær, sbr. þskj. 577. Er tekið fram að í umsögnum um frumvarpið hafi m.a. verið bent á ákveðnar vörur sem að mati umsagnaraðila gætu talist staðgengdarvörur mjólkurafurða sem yrðu ekki undanþegnar tollum. Af þessu tilefni er fyrrgreint markmið breytinganna áréttað í nefndarálitinu og vísað til þess að markmið breytinga með lögum nr. 76/2014 hafi verið að fella niður tolla af staðgengdarvörum mjólkur. Það sé mat meiri hlutans að í umsögnum sé hugtakið staðgengdarvörur mjólkur útvíkkað umfram það sem leiða megi af tilgangi laga nr. 76/2014 og því gert ráð fyrir að niðurfelling tolla taki eingöngu til íss úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum en ekki til annarra tegunda, svo sem ávaxtaíss. Eins og getið er í umsögn tollgæslustjóra í málinu var í umsögnum tilgreindra umsagnaraðila um frumvarp til laga nr. 125/2015 vakin athygli á því að afnám gjaldskyldu samkvæmt frumvarpinu tæki eingöngu til ákveðinna staðgengdarvara mjólkuríss en ekki annarra. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu, dags. 7. október 2015, var sérstaklega vikið að ávaxtaís og ávaxtaíspinnum í þessu sambandi. Í umsögn Félags atvinnurekenda, dags. 7. október 2015, var tekið fram að félagið teldi rökréttara að allur mjólkurlaus ís yrði fluttur inn án tolla og bent á í dæmaskyni að til landsins væri fluttur ís úr kókosmjólk sem samkvæmt frumvarpinu yrði áfram tollaður. Sama ætti við um ís sem gerður væri úr vatni og litar- og bragðefnum, þ.e. frostpinnar og sorbet.
Af hálfu kæranda er lögð á það áhersla í kæru til yfirskattanefndar að sá undirliður vöruliðar 2015 í tollskrá, sem tekinn var upp með auglýsingu nr. 121/2015, taki samkvæmt orðalagi sínu til íss úr hnetum sem innihaldi minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd, en hin umspurða vara sé gerð úr hnetum, þ.e. kókoshnetum. Af þessu tilefni er í umsögn tollgæslustjóra í málinu teflt fram því sjónarmiði að hvað sem líði almennum málskilningi sé kókoshneta ekki hneta heldur ávöxtur (þurraldin) samkvæmt kenningum í grasafræði. Hvað sem þessu líður fer ekki á milli mála að hin umspurða vara er að uppistöðu til úr kókosrjóma unnum úr aldini kókosplöntu. Að því athuguðu verður að telja að varan sé áþekk venjulegum ávaxtaís, sbr. til hliðsjónar úrskurð yfirskattanefndar nr. 172/2019 sem laut að tollflokkun á berjasorbet. Þá verður að taka undir með tollgæslustjóra að þingleg meðferð frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 125/2015, þykir mæla eindregið gegn þeirri tollflokkun vörunnar sem byggt er á í kæru til yfirskattanefndar, sbr. fyrrgreindar athugasemdir í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem brugðist er við athugasemdum sem fram komu af hálfu umsagnaraðila og lutu að því að ástæða væri til að mæla með almennum hætti fyrir um tollfrelsi ýmissa tegunda íss, sem líta mætti á sem staðgengdarvöru venjulegs rjóma- og mjólkuríss, t.d. íss úr kókosrjóma.
Að því athuguðu, sem hér að framan greinir, er fallist á með tollgæslustjóra að hin umspurða vara falli undir tollskrárnúmer 2105.0091 í tollskrá. Með vísan til þess og reglu 1 og 6 í almennum reglum um túlkun tollskrár verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.