Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 696/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 14/1965 — 2. gr. — 4. gr. Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. og 2. mgr. og B-liður — 59. gr. 1. mgr. — 91. gr. 1. mgr. — 92. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. Reglugerð nr. 151/1986 — 4. gr. — 5. gr. — 7. gr. — 19. gr.
Launatekjur — Atvinnurekstrartekjur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstur — Þýðingar — Launaskattur — Launaskattsskylda — Launaskattur á reiknað endurgjald — Launaskattsstofn — Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Fyrri skattframkvæmd — Framtalsháttur — Breytingarheimild skattstjóra — Verktakagreiðsla — Rekstrarreikningur — Fylgigögn skattframtals — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda verkkaupa — Kröfugerð kæranda — Sönnun — Sjónarmið skattaðila um það, hvort hann stundi sjálfstæða starfsemi
Málavextir eru þeir, að gjaldárið 1989 var lagður launaskattur á kæranda 21.548 kr. vegna sjálfstæðrar starfsemi við þýðingar. Var skatturinn lagður á reiknað endurgjald kæranda við þessa starfsemi að fjárhæð 615.660 kr.
Kærandi lét rekstrarreikning fyrir árið 1988 vegna þessarar starfsemi fylgja skattframtali sínu árið 1989. Voru hreinar tekjur af starfsemi þessari 555.660 kr. samkvæmt rekstrarreikningnum. Færði kærandi þessar hreinu tekjur í reit 62 í skattframtalinu. Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, felldi skattstjóri niður gjaldaliðinn leiga á eigin húsnæði 60.000 kr. og færði 615.660 kr. sem reiknað endurgjald í reit 24 í stað tilfærðra hreinna tekna í reit 62.
Í kæru, dags. 14. ágúst 1989, mótmælti kærandi útstrikun nefnds gjaldaliðs og bar sig upp undan launaskattsálagningunni. Þá sagði svo í kærunni:
„Þá ráðstöfun að færa tekjur í reit 62 í skattframtali mínu í reit 24 sem „reiknuð laun“ skil ég ekki. Hér er um að ræða hreinar tekjur af aukastarfi sem eru þau laun sem mér hafa verið borguð vegna þýðinga að frádregnum kostnaði samkvæmt rekstrarreikningi, og sé ég ekki annað en að þær eigi heima í reit 62.“
Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 18. desember 1989. Synjaði hann kröfu kæranda um nefndan gjaldalið og er ekki lengur ágreiningur um það atriði. Skattstjóri tók fram, að samkvæmt 59. gr. laga nr. 75/1981 bæri að virða hreinar tekjur kæranda af rekstri sem reiknuð laun. Um væri að ræða laun til kæranda sem verktaka og af þeirri ástæðu greiddu launagreiðendur hans ekki launaskatt og launatengd gjöld og því kæmi í hans hlut að greiða þessi gjöld.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. janúar 1990, og krefst niðurfellingar álagðs launaskatts á þeim forsendum að því er best verður séð, að um starf í hjáverkum sé að ræða og að um tvísköttun sé að ræða, þar sem hann hafi greitt tekjuskatt og útsvar af þessum tekjum í staðgreiðslu.
Með bréfi, dags. 20. nóvember 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt skattframtali kæranda árið 1988 hefur hann fært hliðstæðar tekjur og um ræðir í máli þessu sem launatekjur og var ekki við því hróflað af hálfu skattstjóra. Skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi hins vegar rekstrarreikningur vegna þýðingarstarfsins og hreinar tekjur samkvæmt honum færðar í reit 62 í skattframtalinu. Samkvæmt framtalshætti kæranda verður ekki annað álitið en hann hafi sjálfur litið svo á, að þessa starfsemi hans bæri að telja sjálfstæða starfsemi, þannig að honum bæri að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar við starfsemina, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki kemur skýrlega fram af hálfu kæranda, hvert viðhorf hans er til skattalegrar meðferðar tekna þeirra sem hér um ræðir en samkvæmt launauppgjöf var um verktakagreiðslur að ræða. Að því virtu sem hér hefur verið rakið og með vísan til 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum, þykir bera að láta hina kærðu launaskattsálagningu óhaggaða standa.