Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 74/2024

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds með vísan til áskilnaðar í lögum um bifreiðagjald um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá Tryggingastofnun. Var tekið fram að krafa kæranda fengi ekki samþýðst beinu orðalagi undanþáguákvæðis laganna sem væri afdráttarlaust að því er varðar þær tegundir greiðslna sem skapa móttakanda þeirra rétt til niðurfellingar bifreiðagjalds.

Ár 2024, fimmtudaginn 23. maí, er tekið fyrir mál nr. 48/2024; kæra A, dags. 1. mars 2024, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds árið 2024. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 1. mars 2024, hefur kærandi mótmælt ákvörðunum ríkisskattstjóra frá 26. febrúar 2024 um synjun niðurfellingar bifreiðagjalds af ökutækinu V á grundvelli örorku kæranda. Beiðni kæranda um niðurfellingu gjaldsins tók til 2. gjaldtímabils árið 2023 og 1. gjaldtímabils árið 2024. Byggði ríkisskattstjóri á því að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar hjá embættinu fengi kærandi endurhæfingarlífeyri greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins, en heimild a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, tæki ekki til slíkra greiðslna. Þar sem kærandi uppfyllti þannig ekki skilyrði ákvæðisins væri kröfu hennar um niðurfellingu bifreiðagjalds á 2. gjaldtímabili árið 2023 og 1. gjaldtímabili árið 2024 synjað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá febrúar 2021. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, öðlist þeir einstaklingar rétt til örorkulífeyris sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku, sbr. 25. gr. sömu laga þar sem vísað sé til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Í ákvæðinu komi fram að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku umsækjenda samkvæmt örorkustaðli. Tekið sé fram í ákvæðinu að heimilt sé að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Er tekið fram í kærunni að samkvæmt þessu sé ljóst að endurhæfingarlífeyrir og örorkulífeyrir gegni sama tilgangi lagalega séð og því felist mismunun í hinni kærðu synjun. Eigi niðurfelling bifreiðagjalds jafnt við um endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri þar sem um sömu greiðslur sé að ræða að því undanskildu að heiti þeirra sé ekki hið sama. Sé farið fram á að tekin sé afstaða til allra þátta sem liggi að baki endurhæfingarlífeyri annars vegar og örorkulífeyri hins vegar og niðurfelling bifreiðagjalds endurskoðuð til samræmis. Kæru kæranda fylgja gögn, m.a. greiðsluáætlun 2024, læknisvottorð og bréf Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 26. febrúar 2024, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri.

II.

Með bréfi, dags. 2. apríl 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður vegna 1. gjaldtímabils bifreiðagjalds árið 2024 verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Þá sé það álit ríkisskattstjóra að vísa beri kærunni frá yfirskattanefnd að því er varðar synjun um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna 2. gjaldtímabils árið 2023 þar sem sú synjun uppfylli ekki skilyrði 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Í umsögn ríkisskattstjóra er áréttað að samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 sé réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna örorku bundinn við bifreiðar í eigu þeirra sem fái greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. apríl 2024, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kæra til yfirskattanefndar í máli þessu varðar tvo úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. febrúar 2024, um erindi kæranda til embættisins 10. janúar 2024 sem laut að niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni V á 2. gjaldtímabili árið 2023 og 1. gjaldtímabili árið 2024. Með úrskurðunum synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu gjaldsins vegna umræddra gjaldtímabila. Eins og rakið er í umsögn ríkisskattstjóra í málinu verður að líta svo á að ríkisskattstjóri hafi tekið erindi kæranda vegna hins fyrra gjaldtímabils til úrlausnar á grundvelli heimildarákvæðis 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum. Samkvæmt hinu fyrrnefnda ákvæði er ríkisskattstjóra heimilt að taka til greina beiðni skattaðila um breytingu á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, þó lengst sex tekjuár aftur í tímann, talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Skuli beiðni byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum og skuli skilyrði 96. gr. uppfyllt ef um hækkun sé að ræða. Samkvæmt niðurlagsákvæði 2. mgr. 101. gr. laganna er skattaðila heimilt að kæra breytingar til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Synjun ríkisskattstjóra um að neyta umræddrar heimildar hefur ekki verið talin kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992. Leiðir þetta af niðurlagsákvæði 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að skattaðila sé heimilt að kæra breytingar ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Tekið skal fram að hliðstæða heimild og ríkisskattstjóra er veitt með 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 hefur yfirskattanefnd ekki. Samkvæmt þessu ber að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar 2. gjaldtímabil bifreiðagjalds árið 2023. Úrskurður ríkisskattstjóra vegna 1. gjaldtímabils árið 2024 sætir hins vegar kæru til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1988 og er kæran fram komin innan lögboðins 3ja mánaða kærufrests vegna úrskurðarins, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Mælt er fyrir um fjárhæð gjaldsins í 2. gr. laganna og gjalddaga o.fl. í 3. gr. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt a-lið lagagreinarinnar skulu bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins, vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Í lokamálslið þessa stafliðar kemur fram að fyrir álagningu bifreiðagjalds skuli Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fái slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.

Eins og fram er komið synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kærandi væri ekki móttakandi neinna þeirra greiðslna sem kveðið er á um í 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Er það raunar ágreiningslaust í málinu, en af hálfu kæranda er byggt á því að greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins á endurhæfingarlífeyri til kæranda frá árinu 2021, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, verði lagðar að jöfnu við greiðslur örorkustyrks og örorkulífeyris, enda sé greiðslum þessum ætlað að þjóna sama tilgangi að lögum. Samkvæmt 7. gr. nefndra laga nr. 99/2007 er heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Er m.a. skilyrði fyrir greiðslum að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Innheimtu bifreiðagjalds var upphaflega komið á fót með bráðabirgðalögum nr. 68/1987, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sbr. I. kafla þeirra laga. Var ákvæði í 4. mgr. 3. gr. laganna þar sem fjármálaráðherra var heimilað að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja er notið hefðu styrks til bifreiðakaupa samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 170/1987, um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra. Ákvæðum um bifreiðagjald í I. kafla bráðabirgðalaganna var síðar komið fyrir í sérlögum sem urðu lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. frumvarp til þeirra laga sem lagt var fyrir Alþingi á 110. löggjafarþingi 1987-88. Í athugasemdum með frumvarpinu var tekið fram að það væri efnislega samhljóða I. kafla bráðabirgðalaganna að öðru leyti en því að ráðherra væru veittar rýmri heimildir en gert væri í gildandi ákvæðum til þess að undanþiggja bifreiðagjaldi bifreiðir í eigu öryrkja og björgunarsveita (Alþt. 1987-88, A-deild, bls. 3366). Var svo mælt fyrir í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988 að fjármálaráðherra væri heimilt að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita, svo og bifreiðum sem væru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Gæti ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um hverjir féllu undir undanþáguheimild þessa og önnur skilyrði sem hann teldi nauðsynleg. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 590/1987, um bifreiðagjald, sem sett var á grundvelli heimildar í 8. gr. bráðabirgðalaga nr. 68/1987, skyldi ekki greiða bifreiðagjald af bifreiðum í eigu þeirra sem nytu örorkustyrks, styrks vegna örorku barna eða örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Hliðstæð ákvæði voru í reglugerðum um bifreiðagjald allt til þess að ákvæði laga nr. 39/1988 um heimild ráðherra til að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald voru afnumin með lögum nr. 37/2000, um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, og mælt fyrir um skyldubundna undanþágu frá gjaldskyldu vegna bifreiða í eigu öryrkja, sbr. a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 381/1994 og a-lið 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998. Með 4. gr. nefndra laga nr. 37/2000 komst umrætt undanþáguákvæði í núverandi horf.

Samkvæmt orðalagi 1. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 er gerður ótvíræður áskilnaður um greiðslu örorkustyrks eða örorkulífeyris eða annarra tilgreindra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins til þess að komið geti til niðurfellingar bifreiðagjalds á grundvelli ákvæðisins. Þrátt fyrir það sem álykta má um tilgang reglu, sem þar kemur fram, verður ekki framhjá því litið að orðalag ákvæðisins er afdráttarlaust að því er varðar þær tegundir greiðslna sem skapa móttakanda þeirra rétt til niðurfellingar bifreiðagjalds. Þá er til þess að líta að heimild Tryggingastofnunar ríkisins til greiðslu svonefnds endurhæfingarlífeyris á rót sína að rekja til 1. gr. laga nr. 39/1989, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, og hafði þannig verið við lýði um árabil þegar ákvæði a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 um undanþágu frá gjaldskyldu vegna bifreiða í eigu öryrkja voru færð til núverandi horfs með lögum nr. 37/2000, sbr. hér að framan. Krafa kæranda fær ekki samþýðst beinu orðalagi undanþáguákvæðisins. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna síðara gjaldtímabils ársins 2023 er vísað frá yfirskattanefnd. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja