Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjöf
  • Álag

Úrskurður nr. 80/2024

Gjaldár 2023

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul., 108. gr. 2. mgr.  

Ríkisskattstjóri færði kæranda til skattskyldra tekna greiðslu annars aðila, P, á skattskuld kæranda við innheimtumann ríkissjóðs í janúar 2022 á þeim grundvelli að um væri að ræða beina gjöf til kæranda. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði tilkynnt ríkisskattstjóra í desember 2021 að skuldin yrði greidd af öðrum en henni sjálfri og óskað upplýsinga um mögulega skattskyldu vegna þess. Að virtum atvikum málsins og þar sem beiting 25% álags vegna tekjufærslu greiðslunnar var ekki talin nægilega rökstudd af hálfu ríkisskattstjóra var krafa kæranda um niðurfellingu álagsins tekin til greina.

Ár 2024, fimmtudaginn 23. maí, er tekið fyrir mál nr. 9/2024; kæra A, dags. 10. janúar 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. janúar 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 4. janúar 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2023. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 64.115.982 kr. greint gjaldár. Ríkisskattstjóri byggði niðurstöðu sína á því að kærandi hefði þegið umrædda fjárhæð að gjöf frá einstaklingi búsettum erlendis að nafni P á árinu 2022 og ekki gert grein fyrir henni í skattskilum sínum. Færði ríkisskattstjóri kæranda umrædda greiðslu til tekna í skattframtali hennar árið 2023 sem skattskylda gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda umrætt ár sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist aðallega krafist að 25% álag samkvæmt hinum kærða úrskurði verði fellt niður. Til vara er þess krafist að ákvarðað álag verði lækkað. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Forsaga málsins er sú að skattrannsóknarstjóri ríkisins tók skattskil kæranda vegna tekjuáranna 2016 og 2017 til rannsóknar, en tilefni rannsóknarinnar voru erlendar greiðslur inn á bankareikning kæranda hér á landi á rannsóknartímabilinu. Lauk rannsókninni með skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 30. september 2020. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að kærandi hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum umrædd ár þar sem fyrirliggjandi gögn og upplýsingar þættu benda til þess að kærandi hefði dulið fyrir skattyfirvöldum verðmæti að fjárhæð samtals 131.414.910 kr. sem hún hefði þegið að gjöf frá einstaklingi búsettum erlendis að nafni P. Skattrannsóknarstjóri ríkisins sendi ríkisskattstjóra mál kæranda til meðferðar með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, og í kjölfar bréfaskipta endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárin 2016 og 2017 með úrskurði, dags. 8. apríl 2021. Með úrskurðinum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem gjöf, sbr. ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, umræddar greiðslur frá téðum P og hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 130.806.410 kr. gjaldárið 2017 og um 608.500 kr. gjaldárið 2018. Kærandi skaut úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda hennar til yfirskattanefndar með kæru, dags. 18. maí 2021, og krafðist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra yrði hnekkt. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 206/2021, sem kveðinn var upp 17. desember 2021, var kröfu kæranda hafnað.

Það næsta sem gerðist var að kærandi sendi ríkisskattstjóra fyrirspurn í tölvupósti 28. desember 2021 þar sem fram kom að kærandi væri að ganga frá greiðslu á skattskuldinni og að greiðslan myndi koma erlendis frá beint inn á reikning sýslumanns, en kærandi væri að hafa samband til að vita hvort sú greiðsla væri skattskyld og hve háa fjárhæð hún þyrfti að borga. Hefði kærandi haft samband við starfsmann ríkisskattstjóra sem hefði tjáð henni að þar sem annar einstaklingur væri að greiða skuldina fyrir hana yrði líklegast litið á greiðsluna sem skattskylda gjöf. Kæranda barst svar við tölvupóstinum frá ríkisskattstjóra 6. janúar 2022 þar sem kæranda var kynnt að gjafir teldust til skattskyldra tekna samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og að ef hún hefði móttekið gjöf bæri henni að gera grein fyrir henni í skattframtali fyrir viðkomandi tekjuár. Var kæranda bent á að hægt væri að komast hjá beitingu 2,5% verðbótaálags með staðgreiðslu tekjuskatts. Þann 20. janúar 2022 var skattskuld kæranda gerð upp með tveimur erlendum greiðslum að fjárhæð samtals 64.115.982 kr. sem greiddar voru sýslumanni og var greiðandi skráður P.

Því næst sendi ríkisskattstjóri kæranda fyrirspurnarbréf, dags. 6. september 2023, þar sem farið var fram á að kærandi léti ríkisskattstjóra í té skýringar og eftir atvikum gögn um hverju það sætti að umræddur P hefði greitt upp skuldir kæranda og hvers vegna kærandi hefði ekki gert grein fyrir greiðslunum í skattframtali vegna tekjuársins 2022. Í gögnum málsins eru rakin samskipti kæranda og ríkisskattstjóra í kjölfarið sem áttu sér stað með tölvupóstum og í símtölum dagana 6.-12. september 2023. Kemur þar fram það viðhorf kæranda að hún hafi haft samband við ríkisskattstjóra og leitað upplýsinga um hvort greiðslurnar væru skattskyldar, einkum þar sem greiðslurnar hefðu aldrei borist henni sjálfri, en fengið óljós og misvísandi svör. Þá hefði endurskoðandi hennar, sem hefði séð um skil á skattframtölum hennar, vitað af greiðslunni og hefði kærandi talið að þar sem greiðsla skattskuldarinnar hefði farið beint til Skattsins ættu öll gögn að liggja fyrir embættinu. Hefði kærandi ekki gert sér grein fyrir því að hún þyrfti að biðja endurskoðanda sinn sérstaklega um að skrá greiðsluna því hún hefði haldið að þetta væri nú þegar skráð og að Skatturinn vissi allt um greiðsluna. Þá sendi kærandi ríkisskattstjóra í tölvupósti beiðni um leiðréttingu á skattframtali sínu fyrir tekjuárið 2022 þann 12. september 2023 í samræmi við framangreint.

Með bréfi, dags. 3. október 2023, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárið 2023. Í bréfinu kom fram að til stæði að færa kæranda til tekna sem gjöf, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, umrædda greiðslu P á skattskuld hennar og hækka stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars greint ár um 64.115.982 kr., að viðbættu 25% álagi að fjárhæð 16.028.996 kr., sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 30. október 2023, var fyrirhuguðum breytingum andmælt. Ríkisskattstjóri sendi kæranda í kjölfarið framhaldsfyrirspurn, dags. 9. nóvember 2023, sem var svarað með bréfi, dags. 22. nóvember 2023. Því næst afturkallaði ríkisskattstjóri boðunarbréf sitt og boðaði kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hennar að nýju með bréfi, dags. 24. nóvember 2023. Í bréfinu var sem fyrr boðuð hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda gjaldárið 2023 um 64.115.982 kr., að viðbættu 25% álagi. Með tölvupósti 18. desember 2023 lagði umboðsmaður kæranda fram andmæli af hálfu kæranda.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. janúar 2024, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda gjaldárið 2023 til samræmis.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Í kærunni eru málavextir raktir. Þá er áréttað að kærandi hafi fengið óljós og misvísandi svör við fyrirspurn sinni frá 28. desember 2021 en hafa beri í huga að kærandi hafi upplýst ríkisskattstjóra fyrirfram um uppgreiðsluna. Kærandi hafi alltaf ætlað sér að greiða skatta af greiðslunni ef hún væri skattskyld. Þá hafi kærandi lagt töluvert á sig til að greiðslan gæti farið fram en telja verði að uppgreiðsla af þessum toga heyri til undantekninga. Ennfremur hafi kærandi falið sérfræðingi að annast frágang og skýrsluskil sem hafi líka gefið kæranda óljós svör. Vísar kærandi til sérfræðiþekkingar Skattsins og leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kærandi hafi ekki verið í stöðu til að meta hvaða upplýsingar hafi verið réttar. Sumir starfsmenn Skattsins hafi sagt greiðsluna skattskylda á meðan aðrir hafi haft aðra sögu að segja þar sem greiðslan færi ekki inn á reikning kæranda. Þá hafi kærandi sent leiðréttingarbeiðni vegna skattframtals árið 2023 til ríkisskattstjóra 12. september 2023 eða um leið og henni hafi verið gert ljóst að um skattskylda gjöf væri að ræða. Hafi hún því bætt úr þeim annmörkum sem hafi verið á framtalinu. Beri því að fella álagið niður.

Til stuðnings varakröfu vísar umboðsmaður kæranda einkum til þess að kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á framtalinu í september 2023, eða áður en „endanleg álagning“ vegna málsins hafi farið fram, svo sem segir í kæru.

IV.

Með bréfi, dags. 8. mars 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. mars 2024, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal fella niður álag samkvæmt greininni ef skattaðili færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Eins og fram er komið tilkynnti kærandi ríkisskattstjóra með tölvupósti 28. desember 2021 að skattskuld hennar vegna úrskurðar embættisins um endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárin 2017 og 2018, dags. 8. apríl 2021, yrði greidd af öðrum en henni sjálfri og óskaði kærandi eftir upplýsingum um mögulega skattskyldu vegna þessa og upplýsingum um fjárhæðir í því sambandi. Þá liggur fyrir að P greiddi innheimtumanni ríkissjóðs samtals 64.115.982 kr. í tveimur greiðslum inn á reikning sýslumanns 20. janúar 2022 vegna skuldar kæranda við innheimtumann. Samkvæmt þessu og eins og málið ber að verður að telja að upplýsingar um skattskylda gjöf umrædds P til handa kæranda hafi legið fyrir ríkisskattstjóra fyrir lok almennrar álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Þegar til þessa er litið og að virtri heimild ríkisskattstjóra til leiðréttinga á einstökum liðum skattframtals, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, svo sem það ákvæði hefur verið skilið og skýrt í úrskurðaframkvæmd, verður ekki talið að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 sé nægilega rökstudd. Að þessu athuguðu og að virtum atvikum málsins þykir mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað hennar af meðferð málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. janúar 2024, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja