Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 700/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 73/1980 — 24. gr. — 35. gr. 4. mgr. — 37. gr. 7. mgr. Lög nr. 75/1981 — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. Reglugerð nr. 81/1962 — 7. gr.
Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsundanþága — Aðstöðugjaldsgreinargerð — Sláturhús — Sláturhúsarekstur — Kjötvinnsla — Sala sláturafurða — Ársreikningur — Fylgigögn skattframtals — Andmælareglan — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Upplýsingaréttur — Upplýsingaöflun skattyfirvalda — Rannsóknarregla
I.
Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi ekki greinargerð um aðstöðugjaldsstofn (RSK 1.04) vegna starfsemi kæranda á árinu 1988. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 lagði skattstjóri aðstöðugjald á kæranda 362.910 kr.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð til skattstjóra með kæru, dags. 28. ágúst 1989, og þess krafist, að álagt aðstöðugjald yrði fellt niður með skírskotun til þess, að samkvæmt 34. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, væri rekstur sláturhúsa undanþeginn aðstöðugjaldi. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 15. desember 1989, og synjaði henni. Forsendur skattstjóra fyrir synjuninni eru svohljóðandi í úrskurðinum:
„Ekki fylgdi blaðið RSK 1.04 frá framteljanda. Við athugun ársreiknings kemur í ljós, að hann er óundirritaður af stjórn félagsins og sundurliðanir nr. 1-8 fylgdu ekki. Ekki sést á reikningnum, að um slátrunarkostnað hafi verið að ræða árið 1988. Sveitarstjóri hefur yfirlýst í símtali, að engin slátrun hafi átt sér stað 1988 hjá félaginu. Þykir því tilvitnað undanþáguákvæði í kæru ekki eiga við hjá yður í þetta sinn. Rekstrarreikningur sýnir líka sölu á kjöti, niðurgreiðslur og aðrar tekjur, en enga sölu á gærum og húðum. Er kröfu því hafnað um, að 34. gr. i.f. laga nr. 73/1980 geti átt við rekstur yðar árið 1988, þar sem ekki var um slátrun að ræða.“
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 12. janúar 1990. Umboðsmaðurinn tekur fram, að rekstur kæranda á árinu 1988 hafi eingöngu verið sala sláturafurða frá árinu 1987. Engin slátrun hafi verið á árinu 1988 og ekki um neina kjötvinnslu að ræða. Telur umboðsmaðurinn því, að undanþága sú frá aðstöðugjaldi, sem mælt er fyrir um á 3. mgr. 34. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, og tekur m.a. til reksturs sláturhúsa, eigi við í tilviki kæranda gjaldárið 1989. Kærunni fylgdi auk ársreiknings greinargerð um aðstöðugjaldsstofn (RSK 1.04), þar sem niðurstaða um stofninn er sniðin eftir viðhorfi kæranda til skattlagningarinnar.
III.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi, dags. 8. mars 1991, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
IV.
Líta verður svo á, að kærandi hafi ekki látið sérstaka greinargerð um aðstöðugjaldsstofn fylgja skattframtali sínu árið 1989, sbr. 4. mgr. 35. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, af þeim sökum að hann taldi sig undanþeginn aðstöðugjaldi samkvæmt 3. mgr. 34. gr. s.l. að öllu leyti og því eigi heldur uppfyllt skilyrði til greinargerðar um stofn til gjaldskyldrar veltu, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Skattstjóri taldi á hinn bóginn rekstur kæranda árið 1988 að öllu leyti falla undir aðstöðugjaldsskyldu og leiddi fram stofn til gjaldsins af framtalsgögnum kæranda og ákvað kæranda gjald þetta við álagningu. Ekki gaf skattstjóri kæranda kost á að tjá sig áður um ákvörðun þessa og ekki var honum tilkynnt um hana. Eins og á stóð og mál þetta lá fyrir skattstjóra verður að telja að skattstjóra hefði borið að gefa kæranda kost á að tjá sig um hina umdeildu gjaldskyldu, áður en hann ákvarðaði honum gjaldið. Að þessu athuguðu og með vísan til þess, sem fram kemur í málinu um starfsemi kæranda á árinu 1988, þykir bera að fallast á kröfu kæranda.