Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 87/2024

Virðisaukaskattur 2021

Lög nr. 50/1988, 24. gr. 1. mgr., 27. gr. 1. og 6. mgr., 28. gr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglugerð nr. 667/1995, 3. gr.  

Kæranda í málinu var við upphaf rekstrar á árinu 2021 gert að nota árið sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts. Kærandi gætti ekki að því að standa skil á skatti þegar skattskyld velta hans fór umfram fjárhæðarmörk ársskila og sætti því álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Með úrskurði yfirskattanefndar var álagið fellt niður þar sem talið var að andmælaréttar kæranda hefði ekki verið gætt með fullnægjandi hætti, en eina vísbendingin um beitingu álagsins hefði verið krafa sem innheimtumaður ríkissjóðs lagði í heimabanka kæranda. Þar sem ekki var talið á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta var þeim hluta kærunnar vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2024, mánudaginn 10. júní, er tekið fyrir mál nr. 143/2023; kæra A, dags. 4. september 2023, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. september 2023, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. júní 2023, varðandi beitingu álags að fjárhæð 89.935 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið nóvember-desember 2021, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Jafnframt mótmælir kærandi ákvörðun dráttarvaxta vegna hinna síðbúnu skila, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988.

II.

Málavextir eru þeir að þann 1. apríl 2021 var kærandi skráður í ársskil virðisaukaskatts vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Á síðustu tveimur mánuðum ársins 2021 fór heildarfjárhæð skattskyldrar veltu kæranda umfram mörk ársskila, er nema 4.000.000 kr., sbr. lokamálslið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1149/2006, 2. gr. reglugerðar nr. 103/2012 og 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 1232/2016.

Samkvæmt því sem kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra stóð kærandi þann 7. mars 2022 skil á virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2021 þar sem velta var tilgreind 481.333 kr., útskattur 115.520 kr. og virðisaukaskattur til greiðslu 115.520 kr. Þann 16. mars 2022 stóð kærandi skil á skattframtali árið 2022 ásamt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts fyrir árið 2021 þar sem samtals velta var tilgreind 4.228.610 kr., útskattur 1.014.866 kr., enginn innskattur og virðisaukaskattur til greiðslu því 1.014.866 kr. Mismunur á virðisaukaskatti til greiðslu samkvæmt leiðréttingarskýrslunni og virðisaukaskattsskýrslunni sem kærandi skilaði fyrr í sama mánuði nam þannig 899.346 kr. (1.014.866 kr. – 115.520 kr.). Við ákvörðun virðisaukaskatts á grundvelli leiðréttingarskýrslunnar bætti ríkisskattstjóri hinu kærða 10% álagi, þ.e. 89.935 kr., á skattfjárhæðina.

III.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 30. janúar 2023 mótmælti kærandi ákvörðun dráttarvaxta og óskaði skýringa á því hvers vegna hann þyrfti að greiða meira en tvö hundruð þúsund krónur í vexti af virðisaukaskatti sem hann skuldaði frá fyrra ári. Kvaðst kærandi hafa unnið sem verktaki í einstaklingsrekstri frá apríl 2021 til desember 2022. Kærandi hefði fengið þær upplýsingar í byrjun að virðisaukaskattur yrði innheimtur árlega. Hann hefði starfað lengur sem verktaki en hann hefði reiknað með upphaflega og haft meiri tekjur en leyfilegt væri fyrir verktaka sem skilaði virðisaukaskatti árlega. Mjög erfitt væri að fá skýrar upplýsingar á vef ríkisskattstjóra um reglurnar og hvernig breyta ætti úr ársskilum, sér í lagi ef fólk hefði ekki íslensku að móðurmáli. Eftir vonlausa leit á netinu hefði kærandi endað á því að hringja í ríkisskattstjóra og fengið þær leiðbeiningar hjá starfsmanni embættisins að þar sem stutt væri í að skila þyrfti skattframtali gæti kærandi skilað upplýsingum um virðisaukaskattinn með því. Kærandi hefði farið eftir þessum ráðleggingum. Hann hefði gert sér grein fyrir að hann þyrfti að greiða virðisaukaskatt eftir að búið væri að yfirfara skattframtalið og því beðið eftir að fá kröfu í bankann. Krafan hefði ekki komið í bankann fyrr en í desember 2022 og þá með fyrrgreindum vöxtum. Kærandi kvaðst ekki skilja hvers vegna vextir væru innheimtir. Kærandi hefði ekki getað gengið frá greiðslu fyrr en krafan hefði verið komin í heimabanka þar sem hann vissi ekki upphæðina sem hann ætti að greiða. Þá fann kærandi að því að gjalddagi og eindagi kröfunnar væri sá sami. Vegna vaxtanna hefði kærandi ekki getað greitt upphæðina í einu lagi. Fór kærandi fram á að vextirnir yrðu felldir niður svo hann gæti greitt rétta upphæð.

Með tölvupósti 10. febrúar 2023 svaraði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Baðst ríkisskattstjóri velvirðingar á seinum svörum, en eftir að erindi kæranda hefði borist hefði komið í ljós að leiðrétta hefði þurft álagningu kæranda vegna ársins 2021. Þar sem farið hefði verið yfir veltumörk ársins, 4.000.000 kr., á tímabilinu nóvember-desember, þegar kærandi hefði verið í árskilum, yrði að telja fram heildarveltu á því tímabili þó svo að sundurliðun lægi fyrir á innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (10.26) með skattframtali. Þetta hefði nú verið leiðrétt svo ekki þyrfti að greiða álag og dráttarvexti vegna allra tímabila virðisaukaskatts 2021, heldur aðeins vegna nóvember-desember. Í 27. gr. laga nr. 50/1988 kæmi fram að væri virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skyldi aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu. Í 28. gr. laganna væri tilgreint að væri virðisaukaskattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skyldi greiða ríkissjóði dráttarvexti á það sem gjaldfallið væri. Álag og dráttarvextir væru lögbundnir en fella mætti niður álag ef aðili færði gildar ástæður sér til málsbóta. Teldi kærandi um slíkar aðstæður að ræða gæti hann óskað niðurfellingar álags með tölvupósti til ríkisskattstjóra.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 29. mars 2023 fór kærandi fram á að álag yrði fellt niður þar sem síðbúin skil stöfuðu af óviðráðanlegum ástæðum. Til stuðnings niðurfellingu álags ítrekaði kærandi áður fram komin rök og athugasemdir um að honum hefði gengið illa að fá skýr svör af vefsíðu ríkisskattstjóra og hjá starfsmönnum embættisins, en kærandi hefði verið nýr í verktakarekstri á árinu 2021. Kærandi hefði farið eftir ráði þjónustufulltrúa að skila leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts með skattframtali í mars 2022 og lenti nú í þeirri stöðu að þurfa að greiða álag á upphæðina.

Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 6. júní 2023. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að í framkvæmd hefði verið litið svo á að ríkar ástæður þyrftu að vera til staðar til að beitt yrði heimild 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 til að fella niður álag. Ekki hefði verið talið heimilt að fella niður álag ef síðbúin skil á virðisaukaskatti væru einungis tilkomin vegna ástæðna sem skattaðili bæri einn ábyrgð á og ekki að neinu leyti hægt að kenna utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Kærandi hefði verið skráður á virðisaukaskattsskrá 1. apríl 2021 og settur í ársskil. Gjalddagi árskilanna hefði verið 5. febrúar 2022. Kærandi hefði ekki skilað virðisaukaskattsskýrslu á réttum tíma og því sætt áætlun. Þann 7. mars 2022 hefði kærandi skilað virðisaukaskattsskýrslu fyrir tímabilið nóvember-desember 2021 þar sem velta hefði verið 481.333 kr., útskattur 115.520 kr. og þar með álagning til greiðslu 115.520 kr. Þann 16. mars 2022 hefði ríkisskattstjóra borist skattframtal kæranda árið 2022 ásamt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts þar sem velta hefði verið 4.228.610 kr., útskattur 1.014.866 kr. og álagning til greiðslu því 1.014.866 kr. Greiðsla á virðisaukaskatti 1.014.866 kr. fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2021 hefði ekki borist innheimtumanni ríkissjóðs að fullu. Gjalddagi tímabilsins nóvember-desember 2021 hefði verið 7. febrúar 2022. Eins og atvikum málsins væri háttað væri ekki tilefni til að falla frá beitingu álags 89.935 kr. í tilviki kæranda.

Í lok úrskurðarins var tekið fram að með úrskurðinum væri ekki tekin afstaða til dráttarvaxta. Væri kæranda bent á að leita til innheimtumanns ríkissjóðs, sýslumanns, ef hann óskaði niðurfellingar þeirra.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram m.a. að kærandi hafi upphaflega ætlað að dvelja í stuttan tíma á Íslandi á árinu 2021, en hann hafi ílengst vegna covid faraldursins. Hann hafi ákveðið að taka skammtímavinnu sem honum hafi boðist sem sjálfstæður verktaki hjá S ehf. Kærandi hafi ekki haft neina fyrri reynslu af verktakavinnu og haft litla þekkingu á íslenska skattkerfinu. Honum hafi verið bent á að gera virðisaukaskattsskýrslu árlega en breyta því ef aðstæður hans breyttust. Kærandi hafi ekki verið viss um hvenær hann ætti að breyta skilamátanum og hafi honum gengið illa að fá upplýsingar um það hjá ríkisskattstjóra, en hann hafi hringt þangað nokkrum sinnum. Loks hafi hann fengið samband við virðisaukaskattsdeildina og verið bent á að hann þyrfti ekki að breyta skilamátanum heldur gæti hann sent sundurliðun virðisaukaskatts með skattskýrslu 2022 vegna tekjuársins 2021. Kærandi hafi farið eftir þessum ráðleggingum.

Kæranda hafi síðan brugðið mjög í mars 2022 við að sjá kröfu í heimabankanum upp á 1.130.655 kr. með 214.282 kr. vöxtum. Hann hafi ekki vitað að skuldin væri gjaldfallin og hafi hann ekki fengið neina tilkynningu um kröfuna frá ríkisskattstjóra. Gjalddagi og eindagi hafi verið sama dag og krafan birtist í heimabanka kæranda. Hann hafi ekki farið inn í heimabankann þann dag og því hafi bæst við 4.151 kr. vanskilagjald. Kærandi hafi óskað eftir greiðsludreifingu skuldarinnar meðan hann skoðaði málið. Þá hafi krafan verið tekin út og sett inn ný krafa á sama hátt og fyrr en með hærri vöxtum. Í úrskurði ríkisskattstjóra sé vísað til álags að fjárhæð 89.935 kr., en kærandi hafi ekki hugmynd um hvernig sú fjárhæð sé fundin. Kærandi mótmæli vöxtunum sem hafi verið bætt við upphaflegu skuldina án skýringa, þ.e. 214.282 kr. sem síðan hafi hækkað.

Krafa kæranda um niðurfellingu vaxtanna sé byggð á því að leiðbeiningarnar sem hann hafi fengið hjá ríkisskattstjóra virðist hafa leitt til þess að vextir hafi bæst við skuldina. Hefði honum verið sagt frá því að vextir myndu bætast við skuldina hefði hann gert aðrar ráðstafanir. Kærandi telji starfsmenn ríkisskattstjóra hafa brugðist leiðbeiningarskyldu sinni um hvernig best væri fyrir hann að leiðrétta virðisaukaskattinn og greiða skuldina. Kærandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá réttar upplýsingar hjá ríkisskattstjóra. Erfitt sé að skilja skattkerfið og nánast ómögulegt að fá réttar upplýsingar. Kærandi viðurkenni að hann hafi gert mistök varðandi uppgjör virðisaukaskatts, en hins vegar hafi hann ekki fengið nógu góðar leiðbeiningar frá ríkisskattstjóra. Því telji hann að fella eigi niður vextina í sínu tilviki samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þá óskar kærandi skýringa á því hvers vegna hann hafi verið rukkaður um vexti af skuld sem ekki hafi verið búið að krefja hann um greiðslu á áður.

V.

Með bréfi, dags. 20. október 2023, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. október 2023, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingu með reglugerð nr. 493/2024, skyldu þeir sem seldu skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á almanaksári á næsta almanaksári nota það sem uppgjörstímabil. Jafnframt skyldu aðilar sem væru að hefja skattskylda starfsemi, þó með tilgreindum undantekningum, nota almanaksárið sem uppgjörstímabil. Fram kom í 5. mgr. greinarinnar að ríkisskattstjóri skyldi tilkynna aðila sem gerði upp virðisaukaskatt samkvæmt 1. mgr. um breytt uppgjörstímabil þegar fyrir lægi að velta hans á viðkomandi almanaksári hefði farið umfram 4.000.000 kr. Þá er í 6. mgr. greinarinnar ákvæði um að fari skattskyld velta aðila samkvæmt 1. mgr. umfram þau mörk er þar greinir skuli hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hafi á sölu og kaup skattaðila á almanaksárinu.

Skattframtali kæranda árið 2022, sem barst ríkisskattstjóra þann 16. mars 2022, fylgdi leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2021, þar sem gerð var grein fyrir skattskyldri veltu og útskatti á uppgjörstímabilunum mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember, svo og virðisaukaskatti til greiðslu þessi tímabil, samtals að fjárhæð 1.014.866 kr. Samkvæmt þessu og öðrum gögnum málsins fór skattskyld velta kæranda umfram veltumörk 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2021 og bar kæranda því samkvæmt 6. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar að standa skil á virðisaukaskatti á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar, eða 7. febrúar 2022. Óumdeilt er að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskatti á þessum tíma nema að hluta eða 115.520 kr. Eftir stóð því vangreiddur skattur að fjárhæð 899.346 kr. vegna umrædds tímabils. Lagaskilyrði voru því til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 667/1995, með áorðnum breytingum.

Af hálfu kæranda er því borið við að hann hafi fengið ónákvæmar og að einhverju leyti villandi leiðbeiningar hjá ríkisskattstjóra varðandi það hvernig bæri að standa að skilum á virðisaukaskatti þegar fyrir lægi að skattskyld velta árið 2021 yrði umfram fjárhæð ársskila, en kærandi hafi þegar í nóvember 2021 leitað eftir leiðbeiningum um þetta atriði. Jafnframt bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið aðra tilkynningu um ákvörðun virðisaukaskatts, álags og dráttarvaxta en með birtingu kröfu í heimabanka. Síðarnefnda athugasemd kæranda verður að skilja þannig að hann telji sig ekki hafa vegna hinnar kærðu álagsbeitingar verið gefið nægjanlegt færi á að neyta andmælaréttar síns.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur einnig fram að kærandi skilji ekki hvernig fjárhæð álags sé fundin. Eins og fram kemur í kafla II hér að framan hefur fjárhæð álags, sem um er að tefla í málinu, verið reiknuð sem 10% af mismun virðisaukaskatts sem kærandi stóð skil á 7. mars 2022 og virðisaukaskatts samkvæmt leiðréttingarskýrslu kæranda er fylgdi skattframtali hans árið 2022, en mismunur þessi nam 899.346 kr., þ.e. 1.014.866 kr. – 115.520 kr. Í úrskurði ríkisskattstjóra er álagsfjárhæðar getið en ekkert kemur þar fram um það hvernig hún var fengin. Verður að taka undir með kæranda að úrskurður ríkisskattstjóra er ekki svo skýr sem skyldi hvað þetta atriði varðar.

Hvað snertir viðbárur kæranda að öðru leyti er þess að gæta að meðal málsgagna sem ríkisskattstjóri hefur lagt fyrir yfirskattanefnd vegna kærunnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 30/1992, eru hvorki tilkynningar ríkisskattstjóra til kæranda um endurákvörðun virðisaukaskatts í tilefni innsendrar leiðréttingarskýrslu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 29. gr. A laganna, né tilkynning um breytingu á uppgjörstímabili, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995. Eins og fyrr greinir er staðhæft af hálfu kæranda að hann hafi ekki fengið upplýsingar um skattákvörðunina fyrr en krafa um greiðslu hafi birst í heimabanka. Verður að byggja á því að atvikum hafi verið svo háttað sem kærandi lýsir.

Þegar það er virt sem kærandi hefur fært fram til stuðnings kröfu sinni um niðurfellingu álags og sérstaklega til þess litið, eins og kærandi bendir á, að eina vísbendingin um hina umdeildu álagsbeitingu var krafa sem innheimtumaður ríkissjóðs lagði í heimabanka kæranda, en þar kom út af fyrir sig ekkert fram um álagsbeitinguna, verður að taka undir það með kæranda að andmælaréttar hans hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og atvikum var farið samkvæmt framansögðu þykir engu breyta um þetta þótt um sé að ræða lögbundið álag, eins og fyrr er lýst, enda hafði kærandi hagsmuni af því að koma að athugasemdum við álagsbeitinguna, m.a. með tilliti til 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt þessu ber að ómerkja hina kærðu álagsbeitingu. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af framangreindri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Að því er snertir mótmæli kæranda við dráttarvöxtum skal tekið fram að í 28. gr. laga nr. 50/1988 eru ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs. Ekki er sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna þessara atriða í lögunum. Fjallað er um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé, í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta ber því í tilviki kæranda að beina til sýslumannsins á Norðurlandi eystra. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag 89.935 kr. fellur niður. Kröfu kæranda varðandi dráttarvexti er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja