Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arðstekjur
  • Lækkun hlutafjár
  • Stofnverð

Úrskurður nr. 98/2024

Gjaldár 2023

Lög nr. 90/2003, 1. gr., 11. gr. 4. mgr., 12. gr. 2. mgr., 59. gr. 2. mgr., 96. gr.  

Kærandi í máli þessu flutti til Íslands á árinu 2021. Deilt var um ákvörðun arðstekna vegna greiðslu til kæranda í tengslum við hlutafjárlækkun í X ehf. á árinu 2022, en kærandi hélt því fram að við ákvörðun stofnverðs hlutabréfanna bæri að miða við gangverð þeirra við upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu kæranda við flutning til landsins á árinu 2021. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að atvik er réðu skattskyldu arðstekna kæranda hefðu orðið á árinu 2022 og tekjurnar fallið til á því ári. Var tekið fram að þróun verðmætis hlutafjárins frá kaupum þess þar til lækkun eða eftir atvikum sala ætti sér stað skipti að lögum ekki máli hvað stofnverð varðaði. Þá voru fyrirliggjandi upplýsingar um samruna X ehf. og annarra félaga erlendis áður en kærandi flutti til Íslands ekki taldar geta leitt til annarrar niðurstöðu um ákvörðun arðstekna kæranda og var m.a. bent á í því sambandi að ekkert hefði komið fram um það að kærandi hefði svarað skatti erlendis af verðmætisaukningu hlutabréfa vegna afhendingar þeirra við samruna.

Ár 2024, miðvikudaginn 3. júlí, er tekið fyrir mál nr. 47/2024; kæra A, dags. 29. febrúar 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Þórarinn Egill Þórarinsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 29. febrúar 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. nóvember 2023, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2023. Með úrskurði þessum, sem kveðinn var upp á grundvelli 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna kæru kæranda, dags. 9. ágúst 2023, á álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um lækkun fjárhæðar skattskyldrar arðgreiðslu vegna hlutafjárlækkunar X ehf. sem fram fór á árinu 2022. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 29. febrúar 2024, er sett fram aðalkrafa um að fjárhæð skattlagðs arðs vegna hlutafjárlækkunar X ehf. verði lækkuð úr … kr. í … kr. og að álagður fjármagnstekjuskattur verði lækkaður til samræmis. Til vara er gerð krafa um að fjárhæð skattlagðs arðs lækki úr … kr. í … kr. Til þrautavara er gerð krafa um að við ákvörðun stofnverðs hlutafjár verði litið til raunverulegra viðskipta með það hlutafé sem um ræðir. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 9. ágúst 2023, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2023. Í kærunni var vísað til þess að samkvæmt álagningarseðli 2023 væri stofn til fjármagnstekjuskatts kæranda … kr. en kærandi teldi að fjárhæðin ætti að vera töluvert lægri. Nánar var greint frá því að hlutafé í einkahlutafélagi kæranda, X ehf., hefði verið lækkað og hefði hlutafjárlækkunin numið … kr. í heild sinni, en þar af hefði stofnverð lækkaðra hluta numið … kr. og skattskyldur arður því … kr. Taldi kærandi að fjármagnstekjuskattur hefði ranglega verið reiknaður á stofnverðshlutann og álagning fjármagnstekjuskatts því of há.

Í kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. nóvember 2023, kom fram að samkvæmt upplýsingum á hlutabréfablaði með skattframtali kæranda árið 2022 hefði nafnverð hlutabréfa í X ehf. verið 500.000 kr. í lok árs 2021 og stofnverð 366.738 kr. Í athugasemd með skattframtali kæranda árið 2023 og í kæru kæmi fram að X ehf. hefði verið sameinað tveimur félögum sem hefðu verið í eigu sjálfseignarsjóðsins (e. Trust) Z á árinu 2022. Af hálfu kæranda væri komið fram að hann hefði flutt til Íslands á árinu 2021 og væri eini rétthafinn að eignum Z. Þá hefðu eignir sjóðsins, m.a. þau tvö félög sem hefðu sameinast X ehf., verið færð í skattframtal kæranda við flutning hans til Íslands. Þegar eignirnar hefðu verið færðar í skattframtalið hefði verið miðað við nafnverð umreiknað í krónur auk stofnverðs sem hefði miðast við eigið fé þeirra 30. nóvember 2021. Nafnverð og stofnverð eignarhlutanna hefði grundvallast á drögum að upphafsefnahagsreikningi félaganna tveggja auk X ehf. í samruna þessa þriggja félaga og drög að upphafsefnahagsreikningnum hefðu miðast við … 2021. Nýtt stofnverð hefði grundvallast á eigin fé sameinaðs félags X ehf. og tveggja erlendra félaga samkvæmt samrunaefnahagsreikningi. Í samrunaáætlun hefði komið fram að útgefið hlutafé í félögunum hefði verið; 1) X ehf. 500.000 kr. sem skiptist í 500.000 hluti , 2) B 50.000 … sem skiptist í 50 hluti og 3) C 40.000 … sem skiptist í 40.000 hluti.

Í framhaldi af þessari umfjöllun gerði ríkisskattstjóri grein fyrir ákvæðum 2. og 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að þegar íslenskt félag yfirtæki erlent félag á Evrópska efnahagssvæðinu og afhenti eiganda erlenda félagsins hlutabréf í skiptum fyrir yfirtökuna skyldi stofnverð miðað við upphaflegt kostnaðarverð nema þegar skattalegt uppgjör á gangvirði hefði átt sér stað í heimalandi þess félags sem væri yfirtekið. Engin gögn hefðu verið lögð fram sem staðfestu að skattuppgjör hefði farið fram erlendis. Kæmi skýrlega fram í 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 að færi skattalegt uppgjör ekki fram í samræmi við gangverðsreglur í fyrrverandi heimilisfestarríki skyldi eftir atvikum miða skattalegt stofnverð eigna við upphaflegt kostnaðarverð að frádregnum fyrningum umreiknað í íslenskar krónur. Þá segði jafnframt að væri yfirfærslan byggð á gangverðsútreikningi skyldi sýnt fram á að skattuppgjör hefði tekið mið af því. Af hálfu kæranda hefði komið fram að stofnverð C væri … og hefði kærandi tekið við bréfum í félaginu á stofndegi þess … 2021 í skiptum fyrir bréf í öðru félagi, D. Því félagi hefði verið skipt upp í tvö félög og við skiptin hefði félagið C m.a. orðið til. Í fylgiskjali með svarbréfi kæranda kæmi fram að ekki hefði komið til skattlagningar við skiptin. Þætti því ekki rétt að miða stofnverð C við eigið fé samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi D. Stofnverð bréfanna ætti réttilega að miðast við upphaflegt kostnaðarverð, sbr. 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu bæri að ákvarða upprunalegt stofnverð þannig að í fyrsta lagi miðaðist stofnverð X ehf. við upplýsingar í skattframtali kæranda árið 2022, eða 366.738 kr. Í öðru lagi næmi stofnverð B … kr. samkvæmt svarbréfi kæranda,  dags. 22. nóvember 2023, og í þriðja lagi tæki stofnverð í C mið af stofnverði eða innborguðu hlutafé og eignarhluta skattaðila í D, en C hefði orðið til við skiptingu á D og hefði kærandi orðið eigandi að öllum bréfum í C í skiptum fyrir hlut sinn í D. Samkvæmt ársreikningi D (sem fenginn hefði verið af vefsíðu) hefði innborgað hlutafé félagsins numið …. Eignarhlutur kæranda í félaginu hefði numið …% og hefði hlutaféð verið greitt á árinu 2020. Ákvarðaðist stofnverð kæranda í C því … kr. og stofnverð X ehf. eftir sameiningu … kr. Með vísan til þessa væri hafnað kröfu kæranda um lækkun arðsfjárhæðar. Tók ríkisskattstjóri fram að á hlutabréfablaði með skattframtali 2023 hefði kærandi hækkað nafnverð X ehf. um … kr. og stofnverð um … kr. sem virtist vera í samræmi við efni kæru. Í samræmi við framangreint og ákvæði 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003. væri stofnverð á hlutabréfablaði með skattframtali kæranda árið 2023 leiðrétt í … kr. og skattskyldur arður í … kr.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar. Í kærunni er rakið að C hafi verið stofnað á árinu 2021 við skiptingu og slit félagsins D og hafi C tekið við eignum að verðmæti ... Endurgjald kæranda fyrir hluti í slitafélaginu hafi verið allir hlutir í C að sama verðmæti. Sú fjárhæð hafi á þeim tíma svarað til … íslenskra króna, en gögn þar að lútandi hafi verið lögð fyrir ríkisskattstjóra á árinu 2023. Engin viðskipti hafi átt sér stað með hluti í C. Skipting D hafi farið fram með þeim hætti að undirliggjandi eignum hafi verið skipt í tvö félög, hvort um sig í 100% eigu fyrri hluthafa D þannig að eignarhlutar þeirra hafi ekki verið í sömu hlutföllum í félögunum fyrir og eftir skiptingu, sbr. kröfu 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003. Kærandi hafi flutt til Íslands frá útlöndum á árinu 2021 og við upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu á Íslandi hafi kærandi átt alla hluti í X ehf. og erlendu félögunum B og C, en erlendu félögunum hafi verið slitið með algerum samruna við X ehf. á árinu 2022 í samræmi við ákvæði íslenskra og erlendra laga. Við samrunann hafi átt sér stað skattalegt uppgjör félagsins C erlendis og það meðhöndlað eins og það hefði selt allar eignir, öfugt við það sem ríkisskattstjóri haldi fram í úrskurði sínum. Eftir samrunann hafi hlutafé X ehf. verið lækkað um 10.000 hluti gegn heildargreiðslu að fjárhæð … kr.

Aðalkrafa kæranda um lækkun skattlagðs arðs vegna lækkunar hlutafjár X ehf. er byggð á því að tekjur sem myndast hafi vegna hækkunar á virði hluta kæranda í B og C fyrir upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu hans á Íslandi séu ekki skattskyldar hér á landi. Rekur kærandi hvernig gangverð hlutabréfa hafi verið metið í framkvæmd og vísar um það til hliðsjónar til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 187/2021. Hlutabréf í B og C hafi ekki verið skráð í kauphöll eða á tilboðsmarkaði. Samkvæmt samrunaefnahagsreikningi, byggðum á árshlutareikningum félaganna, hafi bókfært eigið fé C numið fjárhæð sem svari til … kr. og bókfært eigið fé C fjárhæð sem svari til … kr. Því hafi kærandi miðað stofnverð hluta við upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu á Íslandi við sömu fjárhæð. Eigið fé C verði leitt af verði skráðra hlutabréfa í þess eigu þannig að mikil vissa sé fyrir hendi um réttmæti þess. Stofnverð hluta kæranda í X ehf. fyrir samrunann hafi verið 500.000 kr. Eftir samrunann hafi stofnverðið verið … kr. og nafnverð hluta … kr. Útgreiðsla til kæranda við hlutafjárlækkun X ehf. hafi numið … kr. Þar af hafi stofnverð hluta sem hafi fallið niður numið … kr. Útgreidd fjárhæð umfram stofnverð hafi því numið … kr. sem teljist vera fjárhæð skattskylds arðs.

Það sé misskilningur ríkisskattstjóra að þegar íslenskt félag yfirtaki félag á Evrópska efnahagssvæðinu og afhendi eiganda félagsins hlutabréf í skiptum við yfirtökuna skuli stofnverð miðast við upphaflegt kostnaðarverð nema þegar skattalegt uppgjör á gangverði hafi átt sér stað í heimaríki yfirtekna félagsins. Ákvæði 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 taki til skattalegrar meðferðar eigna og skuldbindinga yfirtekins félags við yfirfærslu til viðtökufélags en ekki til hluthafa. Óumdeilt sé að samruni sem í málinu greini hafi farið fram í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga. Þá skuli stofnverð hlutabréfa, sem skattaðili eignist við samruna félaga samkvæmt 51. gr. laga nr. 90/2003, ákvarðast jafnt stofnverði þeirra hlutabréfa sem hann hafi látið af hendi. Rökstuðningur í úrskurði ríkisskattstjóra fyrir því að ekki skuli horfa til verðmætis hlutafjár við flutning til landsins sé því enginn. Eingöngu sé vísað til 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003 og þess að skattalegt uppgjör hafi ekki farið fram. Ákvæðið eigi ekki við þannig að lagagrundvöllur rökstuðnings sé enginn. Við þetta megi bæta að jafnvel þó afstaða ríkisskattstjóra væri rétt, um að skattalegt uppgjör hefði þurft að fara fram í hinum yfirteknu félögum til þess að verðmæti við flutning til landsins væri rétt stofnverð hluthafa, þá væri forsendan sem embættið gæfi sér röng. Hin erlendu félög hafi farið í gegnum skattalegt uppgjör við samruna eins og þau hefðu selt allar sínar eignir við samruna. Þannig að þrátt fyrir að stuðst væri við lagagrundvöll ríkisskattstjóra leiddi hann til sömu niðurstöðu.

Hvað varakröfu varðar er í kæru vísað til þess að stofnverð hluta í C hafi verið … kr. við upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu kæranda á Íslandi. Við það bætist stofnverð B og X ehf. eða samtals … kr. Miðað við þetta sé stofnverð hvers hlutar … kr. þannig að þegar hlutafé hafi verið lækkað um 10.000 hluti hafi stofnverð hvers lækkunarhluta verið … kr. Af þessu leiði að skattskyldur arður hafi numið … kr. Sú afstaða ríkisskattstjóra að hafna þessum sjónarmiðum kæranda sé órökstudd með öllu að öðru leyti en því að ríkisskattstjóri vísi til þess að ekki hafi komið til skattlagningar við skiptin. Ef finna eigi stofnverð á grundvelli atvika sem eigi sér stað fyrir flutning til landsins sé ekki valkvætt hvernig það sé gert en heimfæra þurfi atvik til íslenskra laga en ekki erlendra. Vafalaust sé að skipti D, þar sem kærandi hafi látið af hendi hluti í félaginu og fengið í staðinn allt hlutafé í C, uppfylli ekki skilyrði 52. gr. laga nr. 90/2003 til skattfrjálsrar skiptingar. Að sama skapi sé ljóst að um skattskyld skipti sé að ræða sem aftur leiði til þess að þau verðmæti sem skipt sé á teljist til kaup- og söluverðs, sbr. 25. gr. laga nr. 90/2003. Skattlagning að erlendum rétti breyti engu þar um þó þau hafi átt sér stað á þeim tíma sem kærandi hafi verið utan gildissviðs laganna. Telji yfirskattanefnd rétt að horfa fram hjá tímasetningunni þegar flutt sé til landsins og horfa frekar til þess tíma þegar kærandi eignaðist hlutafé sitt í C liggi sú tímasetning fyrir, þ.e. við skipti D, sem og stofnverð bréfanna á þeim tíma.

Til stuðnings þrautavarakröfu er vísað til þess í kæru að ríkisskattstjóri hafi ekki gætt nægilega að rannsóknarskyldu sinni. Ekki hafi verið litið til verðmætis hlutafjár á þeim tíma heldur hafi verið horft til stærða í ársreikningi í stað þess að skoða viðskipti með það hlutafé sem um ræði. Einnig sé ljóst að kaupverð fari ekki saman við nafnverð. Þá hafi ekki verið horft til yfirverðsreiknings upp á um … króna. Raunin sé sú að ríkisskattstjóri hafi ekki spurt kæranda um upphaflegt kostnaðarverð hlutafjáreignar hans en kærandi hafi átt mörg viðskipti sem endað hafi með því eignarhaldi sem um ræði. Sé því ljóst að stofnverð hlutafjár hafi verið miklu hærra en ríkisskattstjóri haldi fram. 

IV.

Með bréfi, dags. 14. mars 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. mars 2024, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kærandi flutti til Íslands frá … á árinu 2021. Meðal eigna hans á þeim tíma voru allir hlutir í X ehf. sem stofnað var á árinu 2021. Í skattframtali sínu árið 2023 gerði kærandi grein fyrir arðstekjum frá X ehf. að fjárhæð … kr., sbr. reit 307 í skattframtalinu. Samkvæmt greinargerð kæranda um hlutabréfaeign - kaup og sölu (RSK 3.19), með skattframtalinu og öðrum gögnum málsins var þar um að ræða tekjur vegna lækkunar hlutafjár í nefndu einkahlutafélagi um 10.000 hluti (voru 500.000 hlutir) gegn greiðslu til hluthafa að fjárhæð … kr., sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í athugasemdareit í skattframtalinu kom fram það sjónarmið kæranda að ekki bæri að skattleggja nema tæplega helming framtalinna arðstekna frá X ehf., eða … kr., en greiðslan væri að öðru leyti stofnverð niðurfelldra hluta.

Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 30. nóvember 2023, að synja kröfu kæranda samkvæmt kæru, dags. 9. ágúst 2023, um lækkun framtalinna arðstekna með tilliti til viðhorfa kæranda um fjárhæð stofnverðs. Jafnframt því að hafna þessari kröfu hækkaði ríkisskattstjóri skattskyldar arðstekjur frá X ehf. um … kr. á þeim forsendum að stofnverð nefndra 10.000 hluta næmi … kr.

Ályktun sína um stofnverð umræddra hluta í X ehf. byggði ríkisskattstjóri á upplýsingum í greinargerð kæranda (RSK 3.19) um kaupverð hluta í X ehf. (kaupverð þar tilgreint 366.738 kr.) og upplýsingum og gögnum um stofnverð hluta í erlendu félögunum B og C sem X ehf. yfirtók á árinu 2022. Félög þessi voru áður í eigu sjálfseignarsjóðsins Z en samkvæmt gögnum málsins var kærandi einn rétthafi að eignum sjóðsins. Útgefið hlutafé í B var 50.000 … sem skiptist í 50 hluti hver að nafnverði … en útgefið hlutafé í C var 40.000 … sem skiptist í 40.000 hluti hver að nafnverði ... Ríkisskattstjóri miðaði við að stofnverð X ehf. eftir sameiningu þessa þriggja félaga hefði numið … kr. Nánar tiltekið hefði stofnverð X ehf. samkvæmt upplýsingum í skattframtali kæranda árið 2022 numið 366.738 kr. fyrir samrunann og stofnverð í B samkvæmt svarbréfi kæranda frá 22. nóvember 2023 numið … kr. Þá hefði stofnverð C numið … kr. Í þessu sambandi byggði ríkisskattstjóri á því að C hefði orðið til við skiptingu félagsins D en eignarhlutur kæranda í því félagi hefði verið …%. Innborgað hlutafé D hefði numið 100.000 […].

Í kæru til yfirskattanefndar er gerð aðalkrafa um að fjárhæð skattlagðs arðs lækki úr … kr. í … kr. og að álagður fjármagnstekjuskattur verði lækkaður til samræmis. Er gengið út frá því af hálfu kæranda að stofnverð umræddra hluta hafi verið … kr. en ekki … kr. og því sé skattstofn arðgreiðslu vegna lækkaðs hlutafjár of hár. Til vara er gerð krafa um að fjárhæð skattlagðs arðs lækki í … kr. og til þrautavara er gerð krafa um að við ákvörðun stofnverðs hlutafjár verði litið til „raunverulegra viðskipta með það hlutafé sem um ræðir“, svo sem segir í kæru.

Kærandi byggir kröfu sína um stofnverðið … kr. á því að við ákvörðun stofnverðs hluta hans í erlendu félögunum B og C beri að miða við gangverð hlutanna við upphaf ótakmarkaðrar skattskyldu hans við flutning til Íslands á árinu 2021. Hækkun á verðmæti hlutanna fyrir þann tíma myndi ekki skattskyldar tekjur hér á landi, enda hafi kæranda hlotnast þessar uppsöfnuðu en óinnleystu tekjur utan gildissviðs tekjuskattlaga.

Eins og vikið er að í kæru leiðir af heimilisfesti kæranda hér á landi á árinu 2022 að hann fellur undir ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í því felst að honum er skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. Um ákvörðun skattskyldra tekna fer eftir ákvæðum gildandi laga á þeim tíma þegar atvik verða sem leiða til skattskyldu, að teknu tilliti til þjóðréttarsamninga sem íslenska ríkið hefur gengist undir. Ákvörðun þar til bærrar stjórnunareiningar í einkahlutafélagi kæranda, X ehf., um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa var tekin á árinu 2022 og féllu umræddar tekjur kæranda því til á því ári, sbr. ákvæði 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum. Atvik þau er ráða skattskyldu tekna þessara urðu þannig á árinu 2022. Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst lækkunarfjárhæð hlutafjár umfram kaupverð til skattskylds arðs. Með hliðstæðum hætti telst mismunur á söluverði hlutabréfa og kaupverði þeirra til skattskyldra tekna á söluári, sbr. 18. gr. laga nr. 90/2003, með þeim frávikum sem lagagrein þessi tiltekur. Þróun verðmætis hlutafjár í viðkomandi félagi frá kaupum hlutafjárins þar til lækkun eða eftir atvikum sala á sér stað skiptir að lögum ekki máli hvað stofnverð varðar. Þá hefur ekki þýðingu hvort um ræði tekjur af fyrrgreindu tagi frá innlendu eða erlendu félagi. Í lögum nr. 90/2003 er enginn greinarmunur gerður á því hvort kaup hlutafjár í erlendu félagi hafa farið fram áður eða eftir að hluthafi öðlast heimilisfesti hér á landi.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á það sjónarmið kæranda að hann hafi aflað sér tekna þeirra sem féllu honum í skaut við lækkun hlutafjár X ehf., ákvarðaðar samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, að einhverju leyti áður en hann flutti til Íslands, enda féllu þessar tekjur fyrst til á árinu 2022, svo sem fyrr segir. Að öðru leyti eiga sjónarmið kæranda sér ekki stoð í lögum. Það leiðir af þessu að aðalkrafa kæranda, sem á þessu er byggð, getur ekki náð fram að ganga.

Þess skal getið að skilja verður forsendur ríkisskattstjóra þannig að hann líti svo á að hefði komið til skattlagningar kæranda vegna afhendingar hlutabréfa í D við skipti félagsins á árinu 2021 bæri að miða stofnverð hlutabréfa í hinu útskipta félagi (C) við verðmæti þeirra á þeim tíma. Virðist ríkisskattstjóri leiða þetta af ákvæðum 8. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, sbr. lög nr. 142/2013. Hins vegar hafi ekkert komið fram um skattuppgjör kæranda af þessu tagi. Hvað sem líður nefndri lagatúlkun ríkisskattstjóra verður tekið undir það að kærandi hefur ekki lagt neitt það fram sem stutt getur það að hann hafi sætt skattlagningu erlendis vegna afhendingar hlutabréfa sinna í D. Að þessu leyti verður því tekið undir forsendu ríkisskattstjóra.

Til stuðnings varakröfu kæranda er það fært fram í kæru að skipti erlenda félagsins D á árinu 2021 hafi ekki verið í samræmi við skilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003 og því hafi átt sér stað skattskyld skipti hlutafjár við þá ráðstöfun. Ályktað verði af dóma- og úrskurðaframkvæmd að við þessar aðstæður myndist nýtt stofnverð hlutafjár sem hluthafi fái í útskiptu félagi. Það leiði af þessu að stofnverð hluta kæranda í C nemi … kr. en þar við bætist stofnverð hluta í B og X ehf. að fjárhæð … kr. og 500.000 kr. Stofnverð lækkunarhluta í síðastnefnda félaginu hafi því verið … kr. svo sem leitt er fram í kæru.

Það er að segja um þessar röksemdir kæranda að atvik sem hér er til vísað, þ.e. skipti D, urðu áður en kærandi flutti heimilisfesti sitt til Íslands og fóru skipti þessi fram að erlendum rétti. Mælikvarði íslenskra skattalaga verður því ekki lagður á þessi atvik. Ekkert hefur komið fram um það að kærandi hafi svarað skatti erlendis af verðmætisaukningu hlutabréfa í D vegna afhendingu þeirra við skiptinguna við því verði sem að framan greinir. Verður því að álykta að um skattfrjálsa skiptingu að erlendum rétti hafi verið að ræða. Lög nr. 90/2003 bera með sér þá reglu að hafi skilyrði skattfrjálsrar skiptingar verið uppfyllt komi ekki til skattlagningar hjá hluthafa vegna afhendingar hlutabréfa við skiptin, en þess í stað reyni á skattskyldu við síðari ráðstöfun bréfanna. Það þykir leiða af þessu að við þá ráðstöfun hlutafjár kæranda í X ehf., sem í málinu greinir, beri að ákvarða stofnverð með tilliti til verðmætis hlutabréfa kæranda í hinu upprunalega félagi, þ.e. D.

Með vísan til framangreinds þykir ekkert hafa komið fram af hálfu kæranda sem gefur að svo stöddu tilefni til að miða við annað kaupverð hlutabréfa í X ehf. en kærandi tilfærði í skattframtali árið 2023, sbr. greinargerð kæranda um hlutabréfaeign - kaup og sölu, með þeirri breytingu sem ríkisskattstjóri gerði með úrskurði sínum, en þeirri breytingu er ekki mótmælt sérstaklega í kæru. Vegna þrautavarakröfu kæranda skal tekið fram að hafi kærandi talið önnur atvik en þau sem hann hefur fært fram í málinu hafa átt að leiða til hærra kaupverðs en hann tilgreindi í skattskilum sínum verður að ætlast til þess að hann upplýsti um þau af sjálfsdáðum. Verður því ekki fallist á það með kæranda að ríkisskattstjóri hafi ekki gætt rannsóknarskyldu sinnar í málinu, svo sem það lá fyrir honum, en í þessu sambandi er þess að geta að við meðferð málsins lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að upplýsa um stofnverð hins sameinaða félags.

Samkvæmt öllu því sem að framan greinir er hafnað kröfum kæranda um að hnekkja úrskurði ríkisskattstjóra að öllu leyti eða að hluta. Samkvæmt þeim úrslitum málsins er ennfremur hafnað kröfu kæranda um að honum verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja