Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna fasteignar

Úrskurður nr. 125/2024

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 3. mgr. b-liður.   Lög nr. 37/1993, 7. gr.  

Talið var leiða af skýlausum ákvæðum laga um erfðafjárskatt að ákvarða bæri skattstofn vegna fasteignar, sem dánarbú M seldi í apríl 2021, miðað við skráð fasteignamatsverð á dánardegi M, enda hafði ekki verið óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum.

Ár 2024, fimmtudaginn 3. október, er tekið fyrir mál nr. 102/2024; kæra A, B, C, D og E, dags. 25. júní 2024, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 25. júní 2024, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést … desember 2020, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 11. nóvember 2021. Er þess krafist í kærunni að við ákvörðun á verðmæti fasteignarinnar að K verði miðað við söluverð fasteignarinnar 32.000.000 kr. í stað fasteignamatsverðs 49.200.000 kr. og að skattstofn erfðafjárskatts kærenda verði lækkaður til samræmis. Í kærunni er m.a. vísað til ákvörðunar sýslumanns, dags. 18. júní 2024, vegna arfs úr dánarbúi M þar sem tekin sé afstaða til kröfu kærenda þess efnis að ákvörðun erfðafjárskatts taki mið af söluverði fasteignarinnar og verðmati löggilts fasteignasala og þeirri kröfu hafnað. Er rakið í kærunni að fasteignamatsverð eignarinnar sé ekki raunhæft. Húsið sé byggt 1946 og sé í afar lélegu ástandi, eins og tekið sé fram í kaupsamningi um eignina, dags. 28. apríl 2021. Komi fram í verðmati fasteignasalans að fasteignin sé í slæmu ástandi og þarfnist gagngerra endurbóta að utan sem innan. Sé því farið fram á að ákvörðun sýslumanns um skattstofn verði endurskoðuð.

II.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2024, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Kemur fram í umsögninni að um skattstofn fasteigna til erfðafjárskatts sé fjallað í 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, og samkvæmt b-lið 3. mgr. þeirrar lagagreinar skuli fasteignir taldar fram á fasteignamatsverði eins og það sé skráð á dánardegi arfleifanda, nema erfingjar hafi áður aflað matsgerðar samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., fyrir milligöngu sýslumanns. Þar sem fasteignin sé ekki lengur í eigu dánarbúsins verði matsgerðar ekki aflað. Það sé mat sýslumanns að framlagðar erfðafjárskýrslur, þar sem ekki sé stuðst við fasteignamat eignarinnar á dánardegi, uppfylli ekki lagaskilyrði og því hafi sýslumaður ákvarðað erfðafjárskatt á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2024, hafa kærendur komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Í bréfinu kemur fram að kærendur hafi leitað eftir því að fá fasteignamat fasteignar dánarbúsins leiðrétt þar sem mat löggilts fasteignasala hafi verið að skráð fasteignamat eignarinnar væri of hátt. Engin niðurstaða hafi þó fengist í það mál og hafi kærendur verið send á milli stofnana, sbr. meðfylgjandi tölvupóstsamskipti við fulltrúa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og sýslumanns. Eins og tölvupóstarnir beri með sér vísi hver stofnun á aðra og ekki hafi reynst mögulegt að komast að niðurstöðu þar sem stærð lóðar hafi ekki verið talin rétt skráð, en í löggiltu skjali sýslumanns komi þó fram að lóðin sé 0,34 hektarar að stærð. Ekkert sé því til fyrirstöðu að aflað verði matsgerðar vegna fasteignarinnar með milligöngu sýslumanns þótt eignin hafi verið seld einum erfingja. Kærendur líti svo á að vinnubrögð sýslumanns í málinu séu óvönduð og fljótfærnisleg. Það sé von kærenda að komist verði að niðurstöðu sem sé sanngjörn þannig að unnt sé að ljúka erfðamálum vegna andláts M.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést ... desember 2020, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 11. nóvember 2021. Lýtur ágreiningur málsins að ákvörðun skattstofns erfðafjárskatts vegna fasteignar við K sem dánarbú M seldi með kaupsamningi, dags. 28. apríl 2021. Er krafa kærenda sú að skattstofn vegna fasteignarinnar verði miðaður við söluverð hennar í greindum viðskiptum 32.000.000 kr. í stað fasteignamatsverðs eignarinnar á dánardegi arfleifanda 49.200.000 kr. sem sýslumaður taldi að leggja bæri til grundvallar. Kemur fram í kæru kærenda að söluverð fasteignarinnar hafi verið ákveðið til samræmis við mat löggilts fasteignasala á verðmæti eignarinnar, en eignin hafi verið í slæmu ástandi og endurbóta þörf á henni. Þá er fundið að því í kærunni að sýslumaður hafi ekki vakið athygli kærenda á þeim möguleika að óska eftir mati samkvæmt lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum, á verðmæti fasteignarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram í þeirri málsgrein að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 er að finna sérreglur um skattstofn vegna tiltekinna eigna og tekur b-liður málsgreinarinnar til fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. b-liðar 3. mgr. 4. gr. laganna skulu fasteignir taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á dánardegi arfleifanda. Í 2. mgr. stafliðarins er svohljóðandi ákvæði:

„Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.–23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi matsgjörð, ekki eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.“

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., er erfingja heimilt meðan skiptum hefur ekki verið lokið og dánarbúið hefur ekki verið tekið til opinberra skipta að krefjast að þær eignir þess, sem hefur ekki þegar verið ráðstafað við skiptin, verði að einhverju leyti eða öllu skrásettar og eftir atvikum metnar til peningaverðs. Með sama hætti getur erfingi krafist þess að skuldbindingar dánarbúsins verði metnar til peningaverðs. Skal kröfu um þessar aðgerðir beint skriflega til þess sýslumanns sem skiptin eiga undir. Í 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 eru frekari ákvæði um slíkt mat á eignum og skuldum dánarbús og framkvæmd þess. Kemur m.a. fram í 2. mgr. 18. gr. laganna að sé slíks mats krafist skuli sá sýslumaður, sem í hlut á, tilnefna matsmann áður en lengra sé haldið, sbr. frekari ákvæði um hæfi matsmanns og skyldur í 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Fyrir liggur að af hálfu kærenda var ekki óskað eftir mati á verðmæti fasteignarinnar að K samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 20/1991, heldur var eignin seld í apríl 2021, sbr. hér að framan. Leiðir því af skýlausum ákvæðum laga nr. 14/2004, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. þeirra, að ákvarða ber skattstofn fasteignarinnar miðað við fasteignamatsverð eins og það var skráð hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á dánardegi arfleifanda. Hvorki verður því mati löggilts fasteignasala, sem kærendur hafa vísað til, jafnað til mats samkvæmt 17.-23. gr. laga nr. 20/1991 né getur söluverð fasteignarinnar komið í stað fortakslausrar viðmiðunar við fasteignamatsverð samkvæmt ákvæði b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Vegna athugasemda kærenda um að sýslumaður hafi ekki gætt að leiðbeiningaskyldu sinni við meðferð málsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal tekið fram að þegar erfðafjárskýrsla barst sýslumanni í desember 2021 hafði eigninni þegar verið ráðstafað og varð slíku mati því ekki við komið, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1991. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að sýslumanni hafi gefist sérstakt tilefni til þess á fyrri stigum að leiðbeina kærendum um heimild til þess að óska eftir slíku mati sem hér um ræðir.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja