Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat
  • Álag

Úrskurður nr. 128/2024

Gjaldár 2019-2023

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 108. gr. 2. mgr., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2018-2022.  

Í máli þessu var ágreiningur um ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota kæranda, sem var eigandi og fyrirsvarsmaður T ehf., af bifreið í eigu félagsins á árunum 2018-2022, en félagið hafði með höndum sölu á hálendisferðum. Ekki var fallist á það með kæranda að breytingaskráning bifreiðarinnar, sem var af gerðinni Toyota Land Cruiser, í undirflokk í ökutækjaskrá sem torfærubifreiðar í kjölfar breytinga á bifreiðinni hefði í för með sér að henni yrði þar með skotið undan skattmatsreglum ríkisskattstjóra, enda væri bifreiðin eftir sem áður skráð fólksbifreið og ætluð til almennrar notkunar á vegum landsins. Var kröfum kæranda hafnað, þar með talið kröfu um niðurfellingu 25% álags.

Ár 2024, fimmtudaginn 3. október, er tekið fyrir mál nr. 99/2024; kæra A, dags. 21. júní 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. júní 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. mars 2024, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.841.299 kr. í skattframtali árið 2019, 3.341.804 kr. í skattframtali árið 2020, 3.007.624 kr. í skattframtali árið 2021, 2.706.861 kr. í skattframtali árið 2022 og 2.436.175 kr. í skattframtali árið 2023 vegna meintra ótakmarkaðra umráða kæranda yfir bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið K á árunum 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, en bifreið þessi var í eigu T ehf. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við þá hækkun skattstofna kæranda umrædd ár sem leiddi af þessum breytingum , sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er gerð krafa um að álögð gjöld vegna bifreiðahlunninda verði lækkuð þannig að aðeins verði reiknuð hlunnindi frá 3. júlí 2018 til 9. nóvember 2018. Þá er þess krafist að fallið verði frá beitingu álags. Ennfremur er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Tekið skal fram að með hinum kærða úrskurði tilkynnti ríkisskattstjóri jafnframt maka kæranda, B, um breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum hennar sömu gjaldár sem leiddu af framangreindum breytingum á skattskilum kæranda, en þar var einkum um að ræða lækkun áður ákvarðaðra barnabóta. Kæra í máli þessu er sett fram í nafni beggja hjóna, þó ekki sé vikið sérstaklega að breytingum er varða B í kærunni. Ljóst er að kæruefnið varðar ekki B með öðrum hætti en leiðir af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambýlisfólks. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því.

II.

Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar voru kærandi og maki hans eigendur alls hlutafjár í T ehf. Þá var kærandi stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins og fékk greidd laun frá félaginu. Einkahlutafélagið var frá 3. júlí 2018 og árin 2019, 2020, 2021 og 2022 eigandi bifreiðar af gerðinni Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið K.

Með bréfum til kæranda og T ehf., dags. 19. september og 2. október 2023, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun á bifreið félagsins fyrrgreind ár. Þyrftu að koma fram upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðina til umráða og hver þau umráð hefðu verið. Jafnframt þyrfti að upplýsa um tengsl þeirra sem í hlut ættu við félagið. Í svarbréfum kæranda og félagsins, dags. 13. október 2023 og 22. janúar 2024, var rakið að félagið hefði fest kaup á bifreiðinni á árinu 2018 og hefði hún verið notuð í sérhæfðar ferðir um hálendi Íslands sem krefðust sérútbúinnar bifreiðar. Bifreiðin hentaði illa til aksturs í þéttbýli og þar af leiðandi til eigin nota fyrir eigendur félagsins. Þá þyrfti umgengni við bílinn að vera með þeim hætti að hún væri boðleg kröfuhörðum viðskiptavinum félagsins um ferðir, sem oft á tíðum væru farnar með skömmum fyrirvara. Þá hefðu eigendur félagsins aðgang að öðrum bifreiðum, svo sem nánar var rakið.

Með bréfi, dags. 6. febrúar 2024, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.841.299 kr. í skattframtali árið 2019, 3.341.804 kr. í skattframtali árið 2020, 3.007.624 kr. í skattframtali árið 2021, 2.706.861 kr. í skattframtali árið 2022 og 2.436.175 kr. í skattframtali árið 2023 vegna ótakmarkaðra umráða kæranda yfir bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser í eigu T ehf. á árunum 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, auk beitingar 25% álags á vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda nefnd gjaldár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda var boðuðum breytingum ríkisskattstjóra mótmælt með bréfi, dags. 21. febrúar 2024. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. mars 2024, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og færði kæranda til skattskyldra tekna í skattframtölum hans bifreiðahlunnindi með fyrrgreindum fjárhæðum. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 sem af tekjufærslu bifreiðahlunninda leiddi.

III.

Í úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 21. mars 2024, sbr. boðunarbréf, dags. 6. febrúar 2024, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum, tildrögum málsins og bréfaskiptum í því. Þá rakti ríkisskattstjóri lagagrundvöll skattlagningar bifreiðahlunninda, þar á meðal reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar nr. 1162/2017, 1141/2018, 1223/2019, 1431/2020 og 1503/2021 í B-deild Stjórnartíðinda. Fram kom að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum væri kærandi eigandi helmings hlutafjár í T ehf. á móti maka sínum og stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins. Þá reiknaði félagið kæranda laun þau ár sem um ræddi og væri kærandi því starfsmaður félagsins. Þegar svo háttaði til sem í tilviki kæranda yrði að gera ríkar kröfur til þess að leitt væri í ljós með haldbærum gögnum eða sýnt fram á með öðrum afdráttarlausum hætti að kærandi hefði ekki haft þau umráð yfir bifreið einkahlutafélagsins sem metin yrðu honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð.

Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt skattmatsreglum teldust umráð eigenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra þeirra og annarra í sambærilegum störfum ætíð full og ótakmörkuð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota, hvað sem liði í hvaða mæli einkanot væru í raun. Hinn raunverulegi akstur eða notkun í eigin þágu væri ekki hið eiginlega inntak hlunninda miðað við full umráð, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 356/1999 og í máli nr. 49/2015. Ekki væri efast um að umrædd bifreið hefði verið notuð í þágu T ehf. Kærandi hefði þó ekki sýnt fram á það með neinum sannanlegum hætti að umráð hans hefðu verið takmörkuð með einhverjum hætti. Skráð aðsetur félagsins væri á lögheimili kæranda á umræddum árum. Þætti það eitt og sér benda til þess að kærandi hefði haft bifreiðina til ótakmarkaðra umráða og að hann hefði haft sjálfdæmi um notkun hennar á tímabilinu án þess að eftirliti yrði komið við. Þá hefðu kærandi og maki hans haft yfir að ráða annarri Toyota bifreið án dráttarbúnaðar á tímabilinu en jafnframt verið eigendur ferðavagns og hestakerru hluta tímabilsins. Þessu til viðbótar hefði kærandi aðeins lagt fram almennar skýringar þess efnis að kærandi hefði ekki haft umráð yfir bifreiðinni á greindum árum og að bifreiðin hentaði illa til aksturs í þéttbýli þar sem hún væri breytt og sérútbúin. Bæri þess þó að geta að kærandi og maki hans hefðu búið í dreifbýli á tímabilinu.

Samkvæmt framansögðu yrði að mati ríkisskattstjóra ekki betur séð en að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma og þá til persónulegra nota. Bæri því að reikna kæranda til tekna bifreiðahlunnindi vegna þessara umráða í skattframtölum umrædd ár. Til stuðnings beitingu 25% álags tók ríkisskattstjóri fram að kærandi þætti hafa orðið aðnjótandi skattskyldra hlunninda sem hann hefði ekki gert grein fyrir í skattskilum sínum og teldust vanframtaldar tekjur til verulegs annmarka á skattframtali. 

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. júní 2024. Í kærunni eru málavextir raktir. Kemur fram að til að skattmatsreglur geti átt við verði að vera um að ræða fólksbifreið, en umrædd bifreið T ehf. sé flokkuð sem torfærubifreið og hafi alla tíð verið með fólksflutningaleyfi í atvinnuskyni. Slíkt leyfi sé ekki unnt að fá á fólksbifreið. Sé ekkert óeðlilegt við það að starfsstöð T ehf. sé skráð með sama heimilisfang og lögheimili kæranda en rekstur félagsins sé ekki háður söluskrifstofu eða öðru slíku. Þá verði að hafa í huga að kærandi sé með réttindi til að keyra slíka breytta bifreið og hafi reksturinn ekki verið með skipulegan opnunartíma eða slíkt heldur hafi ferðir verið pantaðar og þær farnar á mismunandi tímum en ekki á skrifstofutíma. Ennfremur sé rétt að benda á að kærandi hafi árið 2018 og hluta árs 2019 átt aðra bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser og á seinni hluta ársins 2019 hafi kærandi keypt aðra bifreið, en báðar þessar bifreiðar hafi verið með dráttarkrók. Bifreið sú sem málið varði hafi engan veginn hentað til að draga fellihýsi, enda langtum hærri en sjálfur eftirvagninn. Þannig væri í raun nær ólöglegt að draga slíkan eftirvagn á svona breyttri bifreið og myndi skapa hættu. Sama eigi við um hestakerruna, en það væri alveg augljóst að enginn maður myndi nýta atvinnutæki til fólksflutninga og ferðaþjónustu í hestamennsku. Bifreiðin væri forsenda rekstrar félagsins og þó svo hún væri flokkuð sem fólksbifreið væri skráður undirflokkur hennar torfærubifreið.

Þá er í kærunni gerð grein fyrir ákvæði 118. gr. laga nr. 90/2003 og tekið fram að ótækt sé að skattyfirvöld setji skattmatsreglur og ákvarði þannig í raun umfang tiltekinna skattstofna á almennum grundvelli án þess að kynna sér til hlítar „hver hinn raunverulegi skattstofn [sé] í sérhverju tilviki fyrir sig“. Eðlilegra væri að viðkomandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður eða eigandi myndi greiða skatt af þeim raunverulegu hlunnindum sem hann hefði hlotið. Í tilviki kæranda hafi bifreið aðeins verið nýtt til atvinnureksturs. Lagaákvæði sem skyldi skattyfirvöld til að setja almennar skattmatsreglur veiti hvorki né heimili undanþágu frá sannvirðissjónarmiðum. Slíkt hafi Hæstiréttur Íslands staðfest í dómi í máli nr. 218/2008, svo sem nánar er rakið í kærunni.

Í niðurlagi kærunnar kemu fram að það skjóti skökku við að takmarka rétt lögaðila til fjárfestinga í bifreiðum sem notaðar séu í rekstri ef ríkisskattstjóri ætli að heimfæra einkanot á framkvæmdastjóra eða eiganda slíkra félaga. Með slíkri niðurstöðu halli á minni fyrirtæki í ferðaþjónustu þar sem vandséð sé að hlunnindi yrðu reiknuð á framkvæmdastjóra eða eigendur ferðaþjónustufyrirtækja sem hefðu á sínum snærum sérútbúnar bifreiðar. Bifreiðin hafi verið geymd fyrir utan heimili kæranda þar sem starfsstöð félagsins hafi verið. Geti skattmatsreglur ríkisskattstjóra ekki sett það skilyrði að bifreið sé ekki á lögheimili eiganda eða framkvæmdastjóra. Sé einstrengingslegum rökstuðningi ríkisskattstjóra um þetta mótmælt og ítrekað að það leiði til mismununar milli aðila í ferðaþjónustu eftir stærð og umfangi. Er tekið fram að verði ekki fallist á að fella hinn kærða úrskurð úr gildi sé farið fram á lækkun tekjufærslu bifreiðahlunninda þannig að aðeins verði reiknuð hlunnindi frá 3. júlí 2018 til 9. nóvember 2018 þegar önnur bifreið af gerðinni Toyota hafi verið keypt. Þá sé krafist niðurfellingar álags.

V.

Með bréfi, dags. 16. júlí 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að í framlögðu skjali kæranda, sem beri yfirskriftina „Almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga samkvæmt lögum nr. 28/2017“ sé ekki að finna neina tilvísun til þeirrar bifreiðar sem málið varði. Þá sé leyfishafi samkvæmt skjalinu T ehf. og breyti þetta skjal engu um afstöðu embættisins til umráða kæranda yfir bifreiðinni. Vegna athugasemdar kæranda um að ekki sé um að ræða fólksbifreið er tekið fram að ekki sé að finna neina sérstaka skilgreiningu á fólksbifreið eða öðrum bifreiðum í tekjuskattslögum en á grundvelli umferðarlaga nr. 50/1987 hafi verið sett reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, þar sem ökutæki séu flokkuð. Þar sé fólksbifreið skilgreind sem bifreið sem aðallega sé ætluð til fólksflutninga og sé gerð fyrir átta farþega eða færri. Með vísan til skráningar bifreiðarinnar K í ökutækjaskrá verði ekki um villst að bifreiðin teljist fólksbifreið. Undirflokkur bifreiðarinnar sé torfærubifreið og að mati ríkisskattstjóra teljist Toyota Land Cruiser bifreið til jeppa, þ.e. til fólksbifreiða. Meti ríkisskattstjóri það svo að bifreiðin falli undir skattmatsreglur embættisins, en samhengisins vegna megi taka fram að víða megi sjá Toyota Land Cruiser bifreiðar keyra um þéttbýl svæði á Íslandi sem og í dreifbýli.

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2024, hefur kærandi lagt fram athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu víkur umboðsmaður kæranda að reglugerð nr. 822/2004 og telur greinilegt að löggjafinn leggi annan skilning í hugtakið fólksbifreið annars vegar og torfærubifreið hins vegar. Hafi bifreiðin K hlotið skráningu sem torfærubifreið og geti illa verið lögð að jöfnu við fólksbifreið með almenna skráningu. Ákvarðanir stjórnvalda verði að vera eins skýrar og glöggar og kostur sé svo skattborgarar geti metið stöðu sína og staðið rétt að skilum opinberra gjalda. Þessu næst er vikið að lögmætisreglu og ákvæðum stjórnarskrár um að skatt megi ekki leggja á nema með lögum. Eru fram komin sjónarmið og rök kæranda ítrekuð.

VI.

Kæra í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda hjá kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser með skráningarnúmerið K á árunum 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, en bifreið þessi var í eigu launagreiðanda kæranda, T ehf. Fram er komið í málinu að kærandi var á þeim tíma sem um ræðir eigandi helmings hlutafjár í félaginu á móti maka sínum og stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Kærandi tilfærði ekki skattskyld bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar í skattframtölum sínum þau ár sem málið tekur til, enda var og er viðhorf kæranda að engum einkaafnotum af bifreiðinni hafi verið fyrir að fara. Með hinum kærða úrskurði ákvarðaði ríkisskattstjóri honum bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.841.299 kr. gjaldárið 2019, 3.341.804 kr. gjaldárið 2020, 3.007.624 kr. gjaldárið 2021, 2.706.861 kr. gjaldárið 2022 og 2.436.175 kr. gjaldárið 2023. Tóku þær fjárhæðir mið af kostnaðarverði bifreiðarinnar og öðrum þeim atriðum sem ráða ákvörðun bifreiðahlunninda samkvæmt skattmatsreglum miðað við að um full og ótakmörkuð umráð hafi verið að ræða, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, sem ríkisskattstjóri vísaði til. Að því er varðar fyrsta árið lagði ríkisskattstjóri til grundvallar að um afnot kæranda væri að ræða í 181 dag á árinu 2018, en T ehf. mun hafa keypt bifreiðina K þann 3. júlí 2018. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi, enda hafi bifreiðin alfarið verið notuð í þágu rekstrar T ehf. Til vara er gerð krafa um lækkun tekjufærslu bifreiðahlunninda, nánar tiltekið að eingöngu verði reiknuð hlunnindi frá 3. júlí 2018 til 9. nóvember 2018 þegar önnur bifreið af gerðinni Toyota hafi verið keypt. Þá verður að líta svo á að af hálfu kæranda sé höfð uppi sjálfstæð krafa um niðurfellingu 25% álags sem ríkisskattstjóri bætti við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 sem leiddi af breytingum hans, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. reglur nr. 1162/2017, 1141/2018, 1223/2019, 1431/2020 og 1503/2021 sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda.

Sem fyrr segir vísar kærandi til þess að það sé grundvallarskilyrði fyrir tekjufærslu bifreiðahlunninda samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að skattaðila hafi hlotnast tiltekin gæði með því að hafa haft bifreið í eigu launagreiðanda til einkanota, en ekki hafi verið sýnt fram á að sú sé raunin í tilviki kæranda. Þá er því haldið fram að skattmatsreglur um bifreiðahlunnindi uppfylli ekki þær kröfur til skýrleika og lögmætis skattlagningarheimilda sem gera verði, sbr. m.a. ákvæði 40. og 77. gr. í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en ríkisskattstjóra sé fengið óheft mat um það hvort bifreiðar sem hafi hlotið skráningu sem torfærubifreiðar verði lagðar að jöfnu við bifreiðar til almennra nota. Bifreiðin K sé breytt torfærubifreið sem hafi verið grundvöllur að rekstri T ehf. og hafi nýst illa til aksturs í þéttbýli.

Um starfsemi T ehf. er komið fram að félagið hafi með höndum sölu á ferðum upp á hálendi. Mun félagið hafa nýtt bifreiðina af gerðinni K til aksturs í þeim ferðum. Vegna athugasemda um skráningu bifreiðarinnar sem torfærubifreiðar, sem er megin röksemd kæranda í málinu, skal tekið fram að í ökutækjaskrá Samgöngustofu er bifreiðin skráð sem bifreið til almennrar notkunar í ökutækjaflokknum „Fólksbifreið“. Ekki liggja fyrir í málinu nákvæmar upplýsingar um það hvernig bifreiðinni hefur verið breytt, en samkvæmt upplýsingum í ökutækjaskrá Samgöngustofu er dekkjastærð bifreiðarinnar önnur eftir breytingarnar. Hvað sem þessu líður verður ekki talið að breytingaskráning bifreiðarinnar í undirflokk sem torfærubifreiðar í kjölfar umræddra breytinga á henni geti haft þá þýðingu sem kærandi byggir á, þ.e. að bifreiðinni verði þar með skotið undan skattmatsreglum ríkisskattstjóra, enda er bifreiðin eftir sem áður skráð fólksbifreið og ætluð til almennrar notkunar á vegum landsins. Að því leyti sem athugasemdir kæranda varða lagagrundvöll bifreiðahlunninda og skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi þykir rétt að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 (H 2000:571), en með dómi meiri hluta Hæstaréttar í máli þessu var talið að matsreglur ríkisskattstjóra væru málefnalegar og reistar á almennum efnislegum mælikvarða. Kom fram að reglurnar væru einfaldar, hlutlægar og gegnsæjar og talið að skattstjóra hefði verið rétt að fara eftir reglunum við skattmat bifreiðahlunninda.

Hvað sem líður skýringum kæranda á notkun bifreiðarinnar í þágu T ehf., sem út af fyrir sig er ekki ástæða til að draga í efa, verður byggt á því að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, svo sem raunar er ekki vefengt af hálfu kæranda. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Verður ekki annað ráðið en að í raun hafi kærandi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Tekið skal fram að engin gögn hafa komið fram í málinu sem bera með sér að allur akstur bifreiðarinnar hafi verið í þágu einkahlutafélagsins. Þá þykja skýringar kæranda varðandi eigin bifreiðaeign ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Ráða má af málatilbúnaði kæranda að hann líti svo á að notkun bifreiðar í raun hafi þýðingu. Vegna þessa skal vísað til áðurnefnds dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 (H 2000:571), sbr. ennfremur dóm Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 49/2015, sem varðaði skattlagningu bifreiðahlunninda vegna bifreiðar af sömu tegund og um ræðir í máli þessu, en í dómi þessum er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem nýtur ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú, að virtum aðstæðum og atvikum að öðru leyti, að miðað verður við að kærandi hafi haft umráð bifreiðar T ehf. utan vinnutíma á árunum 2018, 2019, 2020, 2021 og 2022. Í samræmi við þetta ber að ákvarða skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 vegna afnota af bifreiðinni eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð í skilningi matsreglna ríkisskattstjóra. Að þessu athuguðu er kröfum kæranda um niðurfellingu bifreiðahlunninda hafnað. Af sömu ástæðum verður að hafna varakröfu kæranda um lækkun bifreiðahlunninda en ekkert hefur komið fram í málinu um að kærandi hafi staðið straum af rekstrarkostnaði bifreiðarinnar.

Víkur þá að beitingu 25% álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, en af hálfu kæranda er gerð sérstök krafa um að álagið verði fellt niður. Að teknu tilliti til fyrrgreindrar niðurstöðu málsins varðandi bifreiðahlunnindi í skattframtölum kæranda og með sérstakri skírskotun til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 356/1999 þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu um niðurfellingu álags því hafnað.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja