Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattrannsókn
- Duldar arðgreiðslur
- Álag
Úrskurður nr. 134/2024
Gjaldár 2018 og 2019
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 11. gr. 2. mgr., 108. gr. 2. mgr. Lög nr. 37/1993, 73. gr., 79. gr.
Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda tekjuárin 2017 og 2018 tók skattrannsóknarstjóri opinber gjöld kæranda til endurákvörðunar. Var deilt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að færa kæranda til skattskyldra tekna meintar óheimilar úthlutanir fjármuna úr X ehf., en kærandi var eigandi félagsins og fyrirsvarsmaður þess. Af hálfu kæranda var því borið við að hann hefði staðið straum af kostnaði vegna viðgerða á tækjum og búnaði sem nýttur hefði verið í rekstri X ehf. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að kærandi hefði engin gögn lagt fram um greiðslu reikninga frá viðgerðarþjónustu og umræddur búnaður hefði ekki verið eignfærður í bókum X ehf. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að um kostnað væri að ræða sem tilheyrði X ehf. og að kærandi hefði sjálfur staðið straum af honum. Var kröfum kæranda hafnað.
Ár 2024, föstudaginn 25. október, er tekið fyrir mál nr. 70/2024; kæra A og B, dags. 26. mars 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 26. mars 2024, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattrannsóknarstjóra, dags. 28. desember 2023, um endurákvörðun opinberra gjalda kærenda gjaldárin 2018 og 2019. Úrskurð þennan kvað skattrannsóknarstjóri upp í umboði ríkisskattstjóra, sbr. 2. málsl. 88. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Endurákvörðunin fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda, A, tekjuárin 2017 og 2018 sem lauk með skýrslu, dags. 15. mars 2020. Kæruefni málsins lýtur að þeirri ákvörðun skattrannsóknarstjóra að færa kæranda, A, til tekna í skattframtölum hans árin 2018 og 2019 meintar vantaldar greiðslur frá X ehf. að fjárhæð 15.012.632 kr. fyrra árið og 12.729.665 kr. síðara árið sem skattskyldar væru hjá kæranda samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og bæta 25% álagi við þá hækkun gjaldstofna sem af breytingunum leiddi, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 3.753.158 kr. gjaldárið 2018 og 3.182.416 kr. gjaldárið 2019. Leiddu breytingarnar til þess að áður ákvarðaðar barnabætur kærenda umrædd gjaldár féllu niður og nam fjárhæð hinna niðurfelldu barnabóta 85.762 kr. fyrra árið og 117.250 kr. síðara árið hjá hvoru kærenda um sig.
Af hálfu kærenda er þess krafist að tekjufærðar fjárhæðir samkvæmt hinum kærða úrskurði skattrannsóknarstjóra verði lækkaðar. Þá er gerð krafa um að 25% álag verði fellt niður og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Með úrskurði sínum tilkynnti skattrannsóknarstjóri jafnframt kæranda, B, um breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum hennar gjaldárin 2018 og 2019 sem leiddu af framangreindum breytingum, en þar var um að ræða lækkun barnabóta. Kæra í málinu er sett fram í nafni beggja hjóna. Ljóst er þó að kæruefnið varðar ekki kæranda, B, með öðrum hætti en sem leiðir af lagareglum um skattlagningu hjóna og sambýlisfólks. Tekur framsetning í úrskurði þessum mið af því.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi var eigandi alls hlutafjár í X ehf. frá 18. maí 2015 til … 2019, er hann seldi félagið, og var stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins til sölu þess. Með bréfi til kæranda, dags. 17. mars 2021, tilkynnti skattrannsóknarstjóri kæranda að hafin væri rannsókn á skattskilum hans. Kom fram að rannsóknin tæki til tekna og skattskila vegna tekjuáranna 2017 til og með 2019. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri skýrslu af kæranda þann 14. apríl 2021. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2022, sendi skattrannsóknarstjóri kæranda framangreinda skýrslu og boðaði jafnframt endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 og 2019 á grundvelli niðurstaðna rannsóknarinnar með vísan til 6. mgr. 103. gr. og 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. málsl. 88. gr. sömu laga. Var kæranda jafnframt boðuð fyrirhuguð álagning sektar með bréfi dagsettu sama dag. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum vegna hinna boðuðu breytinga. Af því tilefni kom kærandi að athugasemdum við boðaðar breytingar og boðaða sektarákvörðun með bréfi, dags. 14. desember 2022. Vegna fram kominna andmæla sem lutu að því að rannsaka þyrfti hvort kærandi hefði lagt félaginu til verðmæti og eignast kröfu á félagið taldi skattrannsóknarstjóri tilefni til þess að rannsaka þann þátt málsins frekar, sbr. viðauka við rannsóknarskýrslu. Í kjölfar þess afturkallaði skattrannsóknarstjóri boðunarbréf sín, dags. 7. nóvember 2022, og boðaði kæranda að nýju endurákvörðun opinberra gjalda umrædd gjaldár og sektarákvörðun með bréfum, dags. 21. júní 2023. Af hálfu kæranda voru gerðar athugasemdir við boðaðar breytingar og boðaða sektarákvörðun með bréfi, dags. 20. júlí 2023. Leiddu þær athugasemdir til þess að skattrannsóknarstjóri afturkallaði boðaða endurákvörðun gjaldárin 2018 og 2019 með bréfi, dags. 21. júní 2023, en boðaði kæranda að nýju endurákvörðun opinberra gjalda vegna sömu gjaldára með bréfi, dags. 27. nóvember 2023. Tilkynnti skattrannsóknarstjóri ennfremur að embættið hefði fellt niður fyrirhugaða ákvörðun um álagningu sektar í máli kæranda.
Í boðunarbréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 27. nóvember 2023, var vísað til fyrra boðunarbréfs, dags. 21. júní 2023, vegna endurákvörðunar opinberra gjalda gjaldárin 2018 og 2019, þ.e. umfjöllunar um málavexti, skýrslu skattrannsóknarstjóra, málsástæður og lagarök. Í því bréfi var greint frá niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra, sbr. skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 15. mars 2020. Hefði rannsókn skattrannsóknarstjóra tekið til tekjuáranna 2017 og 2018. Kærandi hefði staðið skil á skattframtölum gjaldárin 2018 og 2019. Rannsóknin hefði byggst á greiðslum inn á bankareikning kæranda og upplýsingum frá honum og fleiri aðilum um greiðslur frá X ehf. Hefði rannsóknin leitt í ljós að kærandi hefði vantalið tekjur að fjárhæð 15.012.632 kr. vegna tekjuársins 2017 og að fjárhæð 12.729.665 kr. vegna tekjuársins 2018. Skýrslu skattrannsóknarstjóra hefði fylgt ítarskjal A1 þar sem m.a. mætti finna viðbótarumfjöllun um skattframtöl kæranda, tengsl hans við X ehf. og skattlagningu greiðslna umfram framtalin laun frá félaginu. Kærandi hefði móttekið greiðslur inn á bankareikning sinn frá X ehf. sem hefðu verið umfram framtalin laun frá félaginu. Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra hefði verið sú að kærandi hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum varðandi tekjur frá X ehf. umrædd ár. Hefðu tekjur kæranda verið vanframtaldar vegna greiðslna inn á bankareikning hans. Fyrirliggjandi úttektir fyrirsvarsmanns skattaðila bæri að skattleggja sem tekjur hans samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Var það niðurstaða rannsóknarinnar að vantaldar tekjur kæranda hefðu numið 15.012.632 kr. gjaldárið 2018 og 12.729.665 kr. gjaldárið 2019. Skattrannsóknarstjóri gerði grein fyrir þeim málsástæðum og lagarökum sem byggt væri á og rakti ákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 11. gr. laganna og gerði m.a. grein fyrir ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, um úthlutanir af fjármunum einkahlutafélaga, einkum 73., 74., 76. og 79. gr. laganna. Kærandi hefði á umræddum árum fengið greiðslur frá X ehf. umfram framtalin laun að fjárhæð 16.204.632 kr. gjaldárið 2018 og 12.729.665 kr. gjaldárið 2019. Kærandi hefði verið stofnandi, stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins frá 18. maí 2015 til … 2019, en þá hefði hann selt félagið. Kærandi hefði jafnframt verið eigandi félagsins á framangreindu tímabili. Félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota á árinu 2020 og síðar verið afskráð. Væru upplýsingar um mögulegan viðskiptareikning kæranda úr bókhaldi því ekki tiltækar.
Þá var rakið að kærandi hefði gefið þær skýringar á greiðslum frá félaginu að bókari hans hefði mælt með því að kærandi millifærði á eigin reikning til endurgreiðslu á því sem hann hefði lagt út fyrir félagið vegna kaupa á vélum og efni. Hefði kærandi stundum keypt vélar af einstaklingum og þá ekki fengið kvittanir fyrir. Kærandi hefði jafnframt þurft að fá pening til að greiða eigin skuldir og til að kaupa varahluti fyrir vélar. Af hálfu kæranda hefðu verið sendar skýringar á greiðslum ásamt gögnum með bréfi, dags. 30. júní 2021, svo sem rakið væri í skýrslu. Samkvæmt reikningsyfirlitum yfir bankareikning kæranda, sem fylgt hefði bréfinu, hefði hann greitt samtals 1.192.000 kr. til X ehf. á árinu 2017 og hefði verið tekið tillit til þess. Væri það mat skattrannsóknarstjóra að greiðslur frá X ehf. á árunum 2017 og 2018, þegar tekið hefði verið tillit til framtalinna launa að frádreginni staðgreiðslu, iðgjöldum í lífeyrissjóð og framangreindra greiðslna að fjárhæð 1.192.000 kr., hefðu verið vegna starfa kæranda fyrir félagið. Bæri að skattleggja greiðslurnar á grundvelli 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framangreindu boðaði skattrannsóknarstjóri að hann hefði í hyggju að færa kæranda til tekna 15.012.632 kr. í skattframtali árið 2018 og 12.729.665 kr. í skattframtali árið 2019.
Í andmælabréfi kæranda, dags. 20. júlí 2023, var því borið við að ekki hefði verið tekið tillit til þess að kærandi hefði ekki fengið endurgjald fyrir afnot X ehf. af tækjum í hans eigu. Af því tilefni rakti skattrannsóknarstjóri að kærandi hefði borið því við að hafa ráðstafað úttektum úr X ehf. í þágu félagsins og að hann hefði lagt félaginu til tæki til afnota í rekstri þess. Eins og fram kæmi í skýrslu skattrannsóknarstjóra hefði verið óskað eftir upplýsingum frá fyrirsvarsmanni viðgerðaþjónustunnar F ehf. vegna þess kostnaðar sem kærandi hefði sagt hafa verið til staðar. Hefði fyrirsvarsmaðurinn sagt reikningana ógreidda og að hluta bakfærða. Væru útgjöld af því tagi sem kærandi hefði vísað til þess eðlis að þau myndu falla undir 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 hefði verið um þau að ræða. Ákvæði þetta væri undantekning frá þeirri meginreglu að lögaðilum væri skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 2. gr. laganna. Leiddi af þessu að þeim sem til frádráttar vildu telja bæri að sýna fram á að skilyrði frádráttar væru uppfyllt. Yrðu almennt ekki taldar forendur til að byggja skattálagningu á því að skattaðili hlyti óhjákvæmilega að hafa borið kostnað vegna tekjuöflunar sinnar er félli undir ákvæðið heldur yrði skattaðili að sanna kostnað, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 121/1997. Þannig hefði X ehf. borið að afla viðhlítandi gagna til sönnunar rekstrargjalda. Hefði borið upp á kæranda sem fyrirsvarsmann og eiganda X ehf. að gæta þess að skipulag og starfsemi félagsins væri í réttu og góðu horfi og haga bókhaldi félagsins til samræmis við 6. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, og 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Væri það mat skattrannsóknarstjóra að sá þáttur sem liti að viðgerðaþjónustunni F ehf. væri upplýstur með svörum fyrirsvarsmanns þess félags. Yrði því ekki talið að um væri að ræða gjaldfærslur í skattskilum X ehf. sem áreiðanleg eða fullnægjandi gögn lægju fyrir um, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 145/1994, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003. Væri ekki unnt að fallast á staðhæfingar um að kærandi hefði lagt félaginu til tæki og að leigugreiðslur fyrir þau væru útistandandi, enda teldist það ósannað. Væri það mat skattrannsóknarstjóra að ekki væri tilefni til að hverfa frá áformum um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda sem tilkynnt hefði verið um. Með hliðsjón af því að ekki yrði um refsimeðferð að ræða væri tilefni til að bæta álagi við stofn vantalinna tekna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og 3. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 808/2022. Væri boðuð endurákvörðun með bréfi, dags. 21. júní 2023, afturkölluð en kæranda að nýju boðuð endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2018 og 2019 að viðbættu álagi samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003. Hefði skattrannsóknarstjóri í hyggju að hækka stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars um 15.012.632 kr. gjaldárið 2018 og um 12.729.665 kr. gjaldárið 2019 að viðbættu 25% álagi.
Fyrirhugaðri endurákvörðun opinberra gjalda kæranda var mótmælt með bréfi hans, dags. 20. desember 2023. Í bréfinu var bent á að tilvísun skattrannsóknarstjóra til reglna er giltu um frádráttarbærni gjalda í rekstri ætti við um réttmæti skattskila X ehf., en ágreiningur málsins sneri að kæranda persónulega. Hefði almennt verið litið svo á að það stæði upp á skattyfirvöld að sanna eða færa gild rök fyrir því að skattskyldar tekjur væru vantaldar í skattskilum aðila. Skattaðilum bæri hins vegar að sýna fram á réttmæti tilfærðra frádráttarliða í skattskilum, þ. á m. rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Giltu um þetta ólíkar sönnunarreglur. Af hálfu kæranda hefði verið lögð áhersla á að hann hefði lagt út fjármuni í þágu X ehf. sem hann hefði fengið endurgreidda. Hefði kærandi átt talsvert af tækjum sem hann hefði lagt félaginu til við upphaf rekstrar. Hefði kærandi reynt að finna gögn til að sýna fram á tilvist tækjanna. Bókhaldsþjónusta sú sem hann hefði átt viðskipti við hefði ekki veitt þjónustu sem hann gæti treyst á. Væri flókið að afla gagna langt aftur í tímann, en unnið væri að því. Ljóst væri að kærandi hefði ekki eingöngu notað þau tæki sem voru eignfærð í skattskilum félagsins. Hefðu greiðslur til hans ekki eingöngu verið tekjur í hans hendi. Fordæmi væru fyrir því að skattyfirvöld hefðu tekið tillit til útlagðs kostnaðar manna í þágu félags við ákvörðun vanframtalinna tekna, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 146/2021 og 13/2020. Í viðauka skattrannsóknarstjóra við skýrslu í málinu hefði ekki verið talið tilefni til að vefengja skýringar fyrirsvarsmanns F ehf., en hann hefði greint frá því að kærandi hefði ekki greitt fyrir þá þjónustu sem tilgreind væri í reikningum félagsins. Kærandi hefði nýtt eigin tæki í þágu X ehf. án þess að greitt hefði verið sérstaklega fyrir það. Kærandi hefði lagt fram reikninga vegna viðgerða á tækjum fyrir samtals 9.724.453 kr. og væru engar millifærslur af reikningum félagsins til F ehf. Kærandi hefði greitt reikningana sjálfur með reiðufé eins og óskað hefði verið eftir. Kærandi ætti enn í viðskiptum við F ehf. svo sem meðfylgjandi samskipti bæru með sér og teldi kærandi blasa við að ef svo væri ekki hefði kærandi ekki greitt reikningana. Kærandi hefði sannarlega lagt út fyrir viðgerðum á tækjum sem notuð hefðu verið til að afla X ehf. tekna og bæri að taka tillit til útlagðs kostnaðar í þágu félagsins. Þá hefði ekki verið tekið tillit til þess að kærandi hefði ekki fengið endurgjald fyrir afnot félagsins af tækjum í hans eigu. Loks var tekið fram að kæranda grunaði að skuld félagsins við kæranda í lok árs 2015 væri verulega vantalin, en hann kæmist ekki í bókhald félagsins til að grafast fyrir um það.
Með úrskurði, dags. 28. desember 2023, hratt skattrannsóknarstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtölum kæranda árin 2018 og 2019 í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda til samræmis. Taldi skattrannsóknarstjóri andmæli kæranda ekki eiga að leiða til þess að fallið yrði frá boðuðum breytingum.
Í úrskurði skattrannsóknarstjóra kom fram að breytingarnar á opinberum gjöldum kæranda byggðu á niðurstöðum rannsóknar á tekjum og skattskilum kæranda árin 2017 og 2018, sbr. skýrslu, dags. 15. mars 2020, og viðauka við skýrsluna. Eins og fram kæmi í niðurstöðum rannsóknar teldi skattrannsóknarstjóri að nettógreiðslur inn á bankareikning kæranda frá X ehf. umfram framtaldar launatekjur hans tekjuárin 2017 og 2018 væru tekjur hans sem skattleggja bæri samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 9/2003. Vísaði skattrannsóknarstjóri til framkominna andmæla kæranda í bréfi, dags. 20. desember 2023, sem skattrannsóknarstjóri hefði tekið afstöðu til. Þá lægi fyrir samkvæmt upplýsingum úr bókhaldi X ehf. að kærandi hefði skuldað félaginu 20.070.209 kr. í árslok 2018. Kæranda hefði, sem fyrirsvarsmanni og eiganda félagsins á rannsóknartímabilinu, verið í lófa lagið og borið skylda til að sjá til þess að meint framlög hans á tækjum til félagsins og meintur útlagður kostnaður þeim tengdum kæmi fram í bókum félagsins, sem þau gerðu ekki. Ætla yrði að aðili sem móttekið hefði greiðslur gæti leitt sannanir að því að viðtaka fjármuna hefði ekki falið í sér skattskyldar tekjur í hans hendi ef svo væri í raun. Það ætti einnig við þegar skýringar væru þess efnis að greiðslur fælu í sér endurgjald vegna kostnaðar sem viðtakandi hefði lagt út fyrir greiðanda. Skattyfirvöldum væri á hinn bóginn almennt ekki mögulegt að færa sönnur að því að móttekin greiðsla félli ekki utan hins víðtæka tekjuhugtaks 7. gr. laga nr. 90/2003. Markaðist sönnunarstaða af þessu. Þá yrðu staðhæfingar með takmörkuðum rökstuðningi um að á móti viðteknum greiðslum stæði útlagður kostnaður ekki taldar haldbærar í þessu samhengi. Í ljósi þeirra upplýsinga sem hefðu komið fram af hálfu fyrirsvarsmanns F ehf. við rannsókn málsins væri það mat skattrannsóknarstjóra að frásagnir um áframhaldandi viðskipti skattaðila við þann aðila yrðu ekki taldar veita frásögnum kæranda um útlagðan kostnað í þágu X ehf. nægan stuðning til að á þeim yrði byggt. Ekki yrði fallist á að skattrannsóknarstjóri hefði gert óeðlilega strangar sönnunarkröfur til kæranda í þessu efni og hefði rannsókn skattrannsóknarstjóra ekki leitt neitt í ljós sem stutt gæti fullyrðingar kæranda um meint fjárútlát hans í þágu félagsins. Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess sem áður væri komið fram í bréfum skattrannsóknarstjóra, dags. 21. júní og 27. nóvember 2023, þættu fram komin andmæli ekki gefa tilefni til að hverfa frá endurákvörðun opinberra gjalda kæranda.
III.
Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. mars 2024.
Í kærunni er rakið að ágreiningur málsins snúist um meintar vanframtaldar tekjur kæranda að fjárhæð 15.012.632 kr. á árinu 2017 og 12.729.665 kr. á árinu 2018 vegna greiðslna frá X ehf. Ekki hafi verið tekið tillit til skýringa kæranda um að hann hafi lagt út fyrir kostnaði í þágu félagsins, en skýringar kæranda eigi sér stoð í gögnum málsins. Endurákvörðun opinberra gjalda kæranda á þeim grundvelli að allar millifærslur til hans hafi verið greiðslur til hans persónulega sé ósanngjörn, sérstaklega vegna viðhaldskostnaðar sem kærandi hafi greitt vegna tækja sem félagið hafi nýtt í rekstri sínum. Er vísað til reikninga frá F ehf. í þessu samhengi. Kærandi hafi greitt samtals 9.724.453 kr. vegna viðgerða á tækjum sem notuð hafi verið í rekstri X ehf., þ.e. 5.523.911 kr. á árinu 2017 og 4.200.542 kr. á árinu 2018. Kærandi geri kröfu um að tekið verði tillit til þeirra útgjalda við endurákvörðun opinberra gjalda og skattstofnar lækkaðir til samræmis. Í andmælum hafi ítrekað verið bent á að kærandi hafi lagt tæki og tól til reksturs X ehf. Um sé að ræða málningar- og sparslsprautur. Í gögnum sem skattrannsóknarstjóri hafi aflað komi fram að félagið hafi keypt sparsl- og málningarsprautu á árinu 2017 fyrir 1.707.062 kr. án virðisaukaskatts. Hafi engin önnur málningartæki verið eignfærð hjá félaginu. Þá hafi ekki verið greidd leiga fyrir afnot tækja. Kærandi hafi ítrekað bent á að hann hafi persónulega keypt vélar áður. Liggi ljóst fyrir að félagið hafi notað tæki fyrir mars 2017 og að um hafi verið að ræða fleiri tæki en þau tvö tæki sem eignfærð hafi verið í skattframtali félagsins árið 2018.
Kærandi hafi stundað sjálfstæða starfsemi áður en kom að stofnun X ehf. Hann hafi síðan stofnað einkahlutafélag um reksturinn og fengið ráðgjöf frá bókhaldsþjónustu. Gögn málsins beri með sér að tæki sem kærandi hafi notað í rekstrinum hafi ekki verið eignfærð hjá félaginu og hafi hann ekki fengið greitt fyrir afnot félagsins af tækjunum. Kærandi hafi bent á að hann hafi látið gera við tæki hjá viðgerðaþjónustunni F ehf. og afhent reikninga vegna þeirra viðgerða. Skattrannsóknarstjóri hafi hafnað þeim gögnum með vísan til tölvupósts frá fyrirsvarsmanni þess félags frá 7. desember 2021. Kærandi hafi hafnað þessu, enda hafi hann greitt viðgerðina með reiðufé. Hafi greiðslur stundum borist seint en hann hafi ávallt staðið í skilum. Af hálfu kæranda hafi verið lagt fyrir skattrannsóknarstjóra að rannsaka betur hvort skýringar forsvarsmanns F ehf. stæðust, en við mat á skýringunum yrði að taka tillit til þess að hann hefði aðra hagsmuni en kærandi, sbr. t.d. sjónarmið að baki 115. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 7. mgr. 122. gr. sömu laga. Svar fyrirsvarsmannsins hefði verið tekið gott og gilt. Skattrannsóknarstjóra beri að rannsaka mál og beri það ekki undir kæranda að sanna sakleysi sitt og þá með því að benda á sök annars manns. Kærandi hafi greitt fyrir þjónustuna og sé enn í viðskiptum við F ehf. Hafi hann lagt fram gögn til staðfestingar á því með skjáskoti af nýlegum samskiptum við formann félagsins. X ehf. hafi keypt tvö ný tæki á árinu 2017 sem ekki hafi verið viðhaldsfrek. Tæki sem hafi verið í persónulegri eigu kæranda hafi verið nýtt í þágu félagsins án þess að félagið hafi greitt sérstaklega fyrir það. Kærandi hafi lagt fram reikninga frá F ehf. vegna viðgerða á tækjum sínum fyrir 5.523.911 kr. á árinu 2017 og 4.200.542 kr. á árinu 2018. Engar millifærslur hafi verið af reikningum félagsins vegna viðgerðarþjónustu. Kærandi hafi sjálfur greitt fyrir viðgerðir með reiðufé eins og óskað hafi verið eftir. Standist afstaða skattrannsóknarstjóra til skýringa kæranda því ekki.
Í ársreikningi X ehf. fyrir árið 2015 komi fram að félagið hafi skuldað kæranda 1.225.783 kr. Telji kærandi að framlag hans til rekstrarins hafi verið verulega vantalið. Bókhald sé hjá bókhaldsþjónustu þeirri sem sá um bókhald félagsins og hafi kærandi ekki fengið það afhent. Í rökstuðningi skattrannsóknarstjóra sé m.a. vísað til reglna varðandi frádráttarbærni gjalda í rekstri, en að mati kæranda snúi sá rökstuðningur að réttmæti skattskila félagsins. Ágreiningur málsins snúi hins vegar að kæranda og hvort um ólögmæta úttekt hans úr félaginu hafi verið að ræða sem skattleggja beri í hans hendi. Hafi almennt verið litið svo á að það standi upp á skattyfirvöld að sanna eða færa gild rök fyrir því að tekjur hafi verið vantaldar í skattskilum aðila en að skattaðilar þurfi hins vegar að sýna fram á réttmæti tilfærðra frádráttarliða í skattskilum, þar á meðal rekstrarkostnað. Kærandi hafi ítrekað lagt áherslu á að hann hafi lagt út fjármuni í þágu félagsins og fengið þá endurgreidda. Kærandi hafi lagt félaginu til talsvert af tækjum í upphafi rekstrar en honum hafi ekki tekist að finna gögn til að sýna fram á tilvist þeirra. Þá hafi bókhaldsþjónusta sú sem félagið átti viðskipti við ekki veitt þá þjónustu sem hann hafi treyst á. Megi telja ljóst að hann hafi ekki eingöngu nýtt þau tæki sem eignfærð voru hjá félaginu og hafi greiðslur til hans því ekki eingöngu verið tekjur í hans hendi. Fordæmi séu fyrir því að skattyfirvöld hafi tekið tillit til útlagðs kostnaðar manna í þágu félags og lækkað greiðslur til þeirra sem því nemur við útleiðslu vantalinna tekna, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 146/2021. Með vísan til framangreinds er farið fram á að tekið verði tillit til útgjalda í þágu X ehf. við endurákvörðun opinberra gjalda og skattstofnar lækkaðir til samræmis.
Í kærunni er einnig gerð krafa um niðurfellingu álags og á því byggt að tregða fyrri bókara við að afhenda bókhaldsgögn hafi hamlað réttu uppgjöri eftir að kærandi hafi fært viðskipti sín til annars bókara. Kærandi hafi ávallt ætlast til að rétt væri staðið að gerð skattframtala og beri ágreiningur við bókara með sér að kæranda hafi ekki staðið á sama um hvernig staðið væri að bókhaldi. Ákvörðun um að skipta um bókara hafi verið tekin áður en skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skattskilum kæranda. Loks er tekið fram í kærunni að málið hafi tafist hjá skattyfirvöldum og geti það haft þýðingu við ákvörðun viðurlaga, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 404/2000.
IV.
Með bréfi, dags. 27. maí 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattrannsóknarstjóra. Í umsögninni er tekið fram vegna kröfu kæranda um lækkun tekjufærðra fjárhæða að ekki verði séð að kærandi hafi aflað frekari gagna því til stuðnings. Eins og fram komi í niðurstöðum rannsóknar á skattskilum kæranda telji skattrannsóknarstjóri að nettógreiðslur inn á bankareikning kæranda frá X ehf. umfram framtaldar launatekjur hans árin 2017 og 2018 séu tekjur hans sem skattleggja beri samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Efnisleg rök kæranda í kæru til yfirskattanefndar hafi áður komið fram og liggi afstaða skattrannsóknarstjóra til þeirra fyrir. Sem fyrirsvarsmanni og eiganda X ehf. á rannsóknartímabilinu hafi kæranda verið í lófa lagið og borið skylda til þess að sjá til þess, sbr. 6. gr. og 5. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að meint framlög hans á tækjum til félagsins og meintur útlagður kostnaður hans þeim tengdum kæmi fram í bókhaldi félagsins, sem þau geri ekki. Skýringar kæranda um útlagðan kostnað í þágu félagsins í formi reiðufjár séu þess eðlis að ekki sé unnt að byggja á þeim. Verði að ætla að aðili sem hafi móttekið greiðslur geti leitt sannanir að því að viðtaka fjármuna hafi ekki falið í sér skattskyldar tekjur í hans hendi sé svo í raun. Eigi það einnig við þegar skýringar séu þess efnis að greiðslur feli í sér endurgjald vegna kostnaðar sem viðtakandi hafi lagt út fyrir greiðanda. Vegna kröfu um niðurfellingu álags er þess getið að kæranda hafi gefist tækifæri undir rannsókn málsins til að leggja fram gögn er skýrðu tilfærslu fjármuna frá X ehf. til hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hann hafi ekki lagt slík gögn fram. Almennt geti ábyrgur fyrirsvarsmaður félags ekki losnað undan ábyrgð sinni á annmörkum á skattskilum félags með því að fela öðrum skil og gerð skattframtals og jafnframt geti ekki haft áhrif að skattaðili hafi ætlast til að réttilega væri staðið að gerð skattframtala hafi það ekki verið gert.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 21. júní 2024, hefur umboðsmaður kæranda ítrekað áður fram komnar kröfur og rökstuðning kæranda. Fylgja bréfinu gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, þ.e. reikningur lögmanns vegna sjö klukkustunda vinnu við ritun kæru o.fl.
V.
Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattrannsóknarstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 28. desember 2023, að færa kæranda til skattskyldra tekna 15.012.632 kr. í skattframtali árið 2018 og 12.729.665 kr. í skattframtali árið 2019 auk 25% álags vegna meintra óheimilla úthlutana fjármuna úr X ehf. til kæranda á árunum 2017 og 2018, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Endurákvörðun skattrannsóknarstjóra á opinberum gjöldum kæranda fór fram í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda tekjuárin 2017 og 2018, sbr. skýrslu um rannsókn á tekjum og skattskilum kæranda, dags. 15. mars 2020. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að kærandi hefði vantalið í skattframtölum umrædd ár greiðslur frá X ehf. Kærandi hefði verið eigandi alls hlutafjár í X ehf. og framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins og hefði hann fengið greiðslur inn á bankareikning sinn sem væru umfram framtalin laun hans frá félaginu. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra að um vanframtaldar tekjur kæranda væri að ræða sem virða bæri sem tekjur af hlutareign kæranda í X ehf. (duldar arðgreiðslur), sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og skattleggja eftir þeim reglum sem fram kæmu í 2. mgr. sömu lagagreinar hjá kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að tekjufærslur skattrannsóknarstjóra verði lækkaðar þar sem ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til skýringa kæranda um að hann hafi sjálfur lagt út fyrir kostnaði í þágu X ehf., einkum viðhaldskostnaði tækja og búnaðar. Til vara er gerð krafa um niðurfellingu 25% álags sem skattrannsóknarstjóri bætti við hækkun skattstofna kæranda gjaldárin 2018 og 2019 sem leiddi af breytingunum, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu, „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna sé óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða einkahlutafélög skuli skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. Ef slík úthlutun eigi sér stað til samlagsfélags eða sameignarfélags, þar sem einn sameigenda sé hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins sem úthlutar verðmætum, skuli úthlutunin teljast til tekna hjá honum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. Þá er þess að geta að í 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 er mælt svo fyrir að lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög teljist til tekna sem laun. Ennfremur er í 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 tekið fram að til skattskyldra gjafa teljist lán til hluthafa og stjórnarmanna sem óheimil séu samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.
Samkvæmt 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að úthluta af fjármunum einkahlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita. Í lögunum eru sérstakar reglur um þessi efni, sbr. VII., XII. og XIII. kafla þeirra, sbr. sambærilega kafla í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 er slíku félagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila sem fyrr greinir eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri. Undanskilin eru þó venjuleg viðskiptalán. Hliðstæðar reglur gilda varðandi hlutafélög, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Í athugasemdum við 82. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 137/1994, um breytingu á lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, en lög þessi voru endurútgefin sem lög nr. 2/1995, var tekið fram að greint ákvæði um bann við lánveitingum tæki til láns á peningum eða ígildi þeirra, t.d. í formi ávísana, víxla, skuldabréfa og hlutabréfa. Takmörkunin næði ekki til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða til lána til fyrirtækja sem væru hluthafar ef þau væru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum (Alþt. 1994, A-deild, bls. 810). Tekið er fram í 4. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ef hlutafélag eða einkahlutafélag innir af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir, sem andstæðar eru fyrrgreindum ákvæðum, skuli endurgreiða þær með dráttarvöxtum.
Kærandi var eigandi alls hlutafjár í X ehf. ásamt því að vera framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins á þeim árum sem hér um ræðir. Gat því komið til þess að upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 tæki til greiðslna félagsins í þágu kæranda þannig að telja yrði þær sem tekjur af hlutareign kæranda í félaginu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 13. febrúar 1997 í málinu nr. 88/1996 (H 1997:602). Þá er ljóst að áðurgreind ákvæði laga nr. 138/1994 um bann við lánveitingum einkahlutafélaga til eigenda og fyrirsvarsmanna slíkra félaga taka til kæranda.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum kæranda tekjuárin 2017 og 2018 laut að innborgunum á bankareikning kæranda umrædd ár frá X ehf. Við skýrslutöku af kæranda 14. apríl 2021 kom fram að innborganir frá félaginu að frádregnum útborgunum frá félaginu hefðu verið 16.204.632 kr. hærri en uppgefnar tekjur í skattframtali hans árið 2018. Þá hefðu innborganir frá félaginu að frádregnum útborgunum verið 12.729.665 kr. hærri en uppgefnar tekjur í skattframtali árið 2019. Var kærandi inntur eftir skýringum á þessum mismun og gaf hann m.a. þær skýringar að bókari hans hefði mælt með því að hann millifærði á eigin reikning til endurgreiðslu á því sem hann hefði lagt út fyrir félagið vegna kaupa á vélum og efni. Hefði kærandi stundum keypt vélar af einstaklingum og þá ekki fengið kvittanir fyrir. Kærandi hefði jafnframt þurft að fá pening til að greiða eigin skuldir og til að kaupa varahluti. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra, dags. 30. júní 2021, lét kærandi í té skýringar á greiðslum ásamt gögnum, svo sem rakið er í ítarskjali með skýrslu skattrannsóknarstjóra. Var þar m.a. um að ræða ljósmyndir af tækjum, reikningar frá F ehf., gögn um bifreiðaviðskipti og viðskipti kæranda við T hf. Þá fylgdu reikningsyfirlit bankareikninga kæranda er sýndu millifærslur til X ehf. að fjárhæð 1.192.000 kr. á árinu 2017. Vegna athugasemda kæranda um að félagið hefði í raun skuldað honum peninga óskaði skattrannsóknarstjóri eftir bókhaldi félagsins frá bókhaldsþjónustu þeirri sem annast hafði um bókhald félagsins. Við skoðun skattrannsóknarstjóra á bókhaldinu kom í ljós að kærandi skuldaði félaginu 20.070.209 kr. í árslok 2017 og 2018, sbr. fyrrgreint ítarskjal með skýrslu skattrannsóknarstjóra. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að rannsóknin hafi leitt í ljós að vanframtaldar tekjur kæranda næmu 15.012.632 kr. tekjuárið 2017 og 12.729.665 kr. tekjuárið 2018 og væri þá tekið tillit til greiðslna kæranda til félagsins að fjárhæð 1.192.000 kr. á árinu 2017. Taldi skattrannsóknarstjóri umræddar greiðslur X ehf. bera með sér að vera óheimilar úttektir kæranda úr félaginu.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir í málinu að kærandi móttók greiðslur frá X ehf. á árunum 2017 og 2018 sem voru umfram framtaldar launatekjur frá einkahlutafélaginu í skattframtölum kæranda árin 2018 og 2019. Af hálfu kæranda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við lagagrundvöll ákvörðunar skattrannsóknarstjóra né tölulegar forsendur að öðru leyti. Af hálfu kæranda er því hins vegar borið við að hann hafi sjálfur staðið straum af kostnaði vegna viðgerða á tækjum og búnaði sem hafi verið í sinni eigu en nýtt í rekstri X ehf. án þess að sérstakt endurgjald kæmi fyrir. Er einkum vísað til þess að lagðir hafi verið fram reikningar undir rekstri málsins frá F ehf. máli kæranda til stuðnings, en skattrannsóknarstjóri hafi þó ekki fallist á lækkun tekjufærslu vegna þeirra. Kemur fram að kærandi hafi greitt reikningsfjárhæðir með reiðufé og því hafi engar greiðslur runnið frá X ehf. vegna þeirra. Hafi greiðslur kæranda numið samtals 5.523.911 kr. á árinu 2017 og 4.200.542 kr. á árinu 2018. Vegna upplýsinga um þetta frá fyrirsvarsmanni F ehf., sem raktar eru í hinum kærða úrskurði, er tekið fram í kæru að kærandi hafi greitt reikningana seint, en reikningarnir hafi verið greiddir með reiðufé. Sé kærandi enn í viðskiptum við félagið, sem styðji framburð hans.
Þeir sölureikningar F ehf., sem kærandi vísar til og lét skattrannsóknarstjóra í té, eru níu talsins, stílaðir á kæranda og útgefnir á árinu 2017, og þrír reikningar útgefnir á árinu 2018. Eru reikningarnir vegna kaupa á tækjum vegna málningarþjónustu, svo sem sparsldælu, gíraffa, ryksugu og málningardælu en einnig vegna kaupa á ýmsum varahlutum og vegna viðgerðarþjónustu. Er um að ræða reikninga sem eiga uppruna í rafrænu bókhaldskerfi samkvæmt reglugerð nr. 505/2013 og kemur fram í þeim að krafa birtist í netbanka. Fram kemur í viðauka með skýrslu skattrannsóknarstjóra að skattrannsóknarstjóri hafi sent fyrirsvarsmanni F ehf. bréf og óskað eftir upplýsingum um hvernig greiðslum umræddra reikninga hefði verið háttað. Hafi fyrirsvarsmaðurinn greint frá því að reikningarnir hafi allir verið bakfærðir þar sem þeir hafi ekki fengist greiddir. Hafi kæranda verið seld ýmis uppgerð verkfæri, tvær sparslvélar, málningardæla o.fl. Félagið hafi náð verkfærunum til baka með erfiðismunum en eftir hafi staðið nokkrir ógreiddir reikningar sem hafi verið bakfærðir.
Umræddir sölureikningar bera með sér að kærandi hafi sjálfur átt í viðskiptum við F ehf. Kærandi hefur borið því við að reikningarnir hafi verið greiddir of seint og þá með reiðufé. Engin gögn hafa þó verið lögð fram því til stuðnings. Þá liggur fyrir að tæki þau sem tilgreind eru í reikningum félagsins voru ekki eignfærð í bókum X ehf., en eins og fyrr segir kom fram hjá fyrirsvarsmanni F ehf. að hin seldu tæki hefðu verið tekin til baka vegna vanefnda og viðskipti með þau því í raun ekki gengið eftir. Eins og fyrr segir eru skýringar kæranda þess eðlis að gera verður þá kröfu að þær séu studdar viðhlítandi gögnum. Þrátt fyrir að greindir reikningar F ehf. bendi til þess að um kaup á tækjum og þjónustu tengdri málningarvinnu hafi verið að ræða verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að um sé að ræða kostnað sem tengist X ehf. og að kærandi hafi sjálfur staðið straum af honum. Verður það ekki heldur ráðið af ársreikningum eða skattskilum félagsins, en eins og fram kemur í viðauka með skýrslu skattrannsóknarstjóra bar kæranda sem fyrirsvarsmanni X ehf. að sjá til þess að bókhald félagsins samræmdist ákvæðum laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Verður því að hafna kröfu kæranda um lækkun tekjufærðra fjárhæða.
Eftir stendur þá umfjöllun um álagsbeitingu ríkisskattstjóra, en eins og að framan greinir bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárin 2018 og 2019 sem af breytingum hans leiddi. Í kæru er gerð sú krafa að álag verði fellt niður með vísan til 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.
Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 má ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Bæti skattaðili úr annmörkum eða leiðrétti einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram, má ríkisskattstjóri þó eigi beita hærra álagi en 15%. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 skal fella niður álag samkvæmt lagagrein þessari ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða vanskil þess, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.
Af hálfu kæranda hafa þau rök verið færð fyrir kröfu um niðurfellingu álags að kærandi hafi ætlast til þess að réttilega væri staðið að gerð skattframtala. Kærandi hafi hins vegar átt í deilum við bókara sinn og gengið illa að fá bókhaldsgögn afhent þegar hann vildi færa verkefnið til annars bókara. Þá er vísað til þess að málið hafi tafist hjá skattyfirvöldum og beri að taka tillit til þess. Vegna framangreinds er rétt að taka fram að kærandi bar ábyrgð á skattskilum sínum, sbr. 90. gr. laga nr. 90/2003, og getur kærandi ekki firrt sig ábyrgð á þeim með því að fela öðrum gerð og skil skattframtala. Þá verður ekki talið að tafir á meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra hafi verið slíkar að þær eigi að leiða til þess að fella beri niður álag, enda áttu tafirnar að nokkru leyti rót sína að rekja til athugasemda af hálfu kæranda sem brugðist var við með frekari rannsókn. Þegar litið er til þeirra annmarka sem voru á skattskilum kæranda umrædd ár, þar sem tekjur voru vantaldar, þykja ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda, enda þykir hvorki hafa verið sýnt fram á af hálfu kæranda að atvikum sé svo farið að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 eigi við þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá álagsbeitingu að öðru leyti. Er kröfu um niðurfellingu álags því hafnað.
Kærandi hefur gert kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.