Úrskurður yfirskattanefndar
- Erfðafjárskattur
- Skattfrelsismörk
- Óskipt bú
Úrskurður nr. 142/2024
Lög nr. 14/2004, 2. gr. 2. mgr. (brl. nr. 133/2020, 36. gr.), 14. gr. 3. mgr.
T andaðist á árinu 2011. Á árinu 2024 fengu erfingjar T leyfi til einkaskipta á dánarbúi hans og lauk skiptunum á sama ári. Fallist var á kröfu erfingja um að fjárhæð skattfrelsismarka vegna arfs úr dánarbúi T miðaðist við árið 2024.
Ár 2024, miðvikudaginn 13. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 100/2024; kæra A, dags. 18. júní 2024, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 18. júní 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi T, sem lést … 2011, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 17. apríl 2024. Er greint frá því að kærandi hafi sem eftirlifandi maki T fengið leyfi til setu í óskiptu búi 14. júní 2011. Þann 1. mars 2024 hafi erfingjar T fengið leyfi til einkaskipta. Hafi börn hans hafnað arfi 13. febrúar 2024. Þann 24. apríl 2024 hafi sýslumaður yfirfarið og samþykkt erfðafjárskýrslu, sem undirrituð var af umboðsmanni erfingjanna 17. apríl 2024, og sent erfingjum tilkynningu um álagningu erfðafjárskatts. Sýslumaður hafi hins vegar gert breytingar á skýrslunni. Umboðsmaður kæranda hafi mótmælt breytingum sýslumanns með tölvupósti 24. apríl 2024 og krafist skýringa. Hafi sýslumaður vísað til 2. gr. og 14. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Við ákvörðun erfðafjárskattsins hafi sýslumaður miðað við að skattfrelsismörk arfs samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/2004 væru 1.500.000 kr., en það sé sú fjárhæð sem gilti á dánardegi hins látna. Í erfðafjárskýrslu vegna dánarbúsins hafi hins vegar verið tilfærð fjárhæðin 6.203.409 kr.
Í kæru til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir breytingu sem gerð var á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/2004 með 36. og 40. gr. laga nr. 133/2020, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Með 36. gr. laganna hafi skattfrelsismörk verið hækkuð úr 1.500.000 kr. í 5.000.000 kr. Er rakið í kærunni að samkvæmt 40. gr. laga nr. 133/2020 taki 36. gr. laganna til skipta á dánarbúum þeirra sem andast 1. janúar 2021 eða síðar og búskipta þeirra sem hafi heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna. Um lagabreytingu þessa segi m.a. í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 133/2020 að miða skuli við dánardag eftirlifandi maka þegar óskipt bú sé tekið til skipta „en við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu ef um er að ræða óskipt bú sem skipt er fyrir andlát eftirlifandi maka.“ Sýslumaður hafi áritað erfðafjárskýrslu í máli þessu 24. apríl 2024 og eigi því að taka mið af skattleysismörkum fyrir árið 2024 en ekki fyrir árið 2011. Er þess krafist að skattleysismörk verði leiðrétt til samræmis við framangreint og að kæranda verði endurgreiddar 315.128 kr. Þá er þess krafist í kæru að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.
II.
Með bréfi, dags. 13. ágúst 2023, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í bréfinu er rakið að í kjölfar kæru til yfirskattanefndar hafi embættið farið yfir málið og komist að þeirri niðurstöðu að um mistök af hálfu embættisins hafi verið að ræða. Við afgreiðslu erfðafjárskýrslu hafi verið miðað við skattfrelsismörk á dánardegi í samræmi við meginreglu og lög um erfðafjárskatt, en embættinu hafi yfirsést texti í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021 þar sem fjallað sé um skattfrelsismörk. Tekur sýslumaður fram í bréfinu að embættið muni leiðrétta erfðafjárskýrslu með tilliti til þessa og endurgreiða ofgreiddan erfðafjárskatt, svo sem kæranda hafi verið tilkynnt um með tölvupósti 8. júlí 2024.
III.
Með vísan til þess sem fram kemur í umsögn sýslumanns í málinu er krafa kæranda tekin til greina.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi nemur kostnaður kæranda vegna meðferðar málsins 163.382 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og er þar um að ræða fjögurra klukkustunda vinnu lögmanns vegna kæru til yfirskatanefndar. Með hliðsjón af því og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 130.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda er tekin til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 130.000 kr.