Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 146/2024

Virðisaukaskattur 2023

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr., 28. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.  

Kröfu A ehf., sem var umboðsmaður erlends félags vegna virðisaukaskattsskyldra viðskipta þess hér á landi, um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti var hafnað, enda var talið að A ehf. bæri eitt ábyrgð á þeim drætti sem ekki yrði að neinu leyti kenndur utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum.

Ár 2024, miðvikudaginn 13. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 114/2024; kæra A ehf., dags. 12. júlí 2024, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 12. júlí 2024, er ákvörðun ríkisskattstjóra um beitingu álags að fjárhæð 1.233.078 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag og dráttarvextir verði fellt niður.

II.

Helstu málavextir eru þeir að félagið N, sem skráð er erlendis, veitti kæranda umboð hinn 9. janúar 2024 til að vera í fyrirsvari fyrir félagið vegna virðisaukaskattsskyldra viðskipta þess hér á landi, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með umsókn 11. janúar 2024 óskaði kærandi eftir skráningu í virðisaukaskattsskrá frá og með 1. desember 2023 vegna þjónustu N hér á landi. Með tölvupósti 17. janúar 2024 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að kærandi hefði verið skráður í virðisaukaskattsskrá frá og með 1. desember 2023 sem umboðsmaður N.

Með bréfi til ríkisskattstjóra 5. apríl 2024 fór kærandi fram á að álag að fjárhæð 1.233.078 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 yrði fellt niður. Kom fram að þess væri óskað að greiðsla sem borist hefði frá N þann 12. febrúar 2024 yrði færð miðað við 5. febrúar 2024, en þann dag hefði félagið sent greiðsluna frá sér að utan. Svo virtist sem millifærslur að utan gætu tekið nokkra daga.

Með kæruúrskurði, dags. 12. apríl 2024, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, teldist greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla því aðeins innt af hendi á gjalddaga að greiðslufyrirmælin bærust banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setti fyrir því að greiðsla teldist hafa farið fram á þeim degi. Vísaði ríkisskattstjóri til 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 um beitingu álags og 6. mgr. sömu laga greinar um að fella mætti niður álag ef aðili færði fram gildar ástæður og gætu skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skyldi gildar ástæður í þessu sambandi. Í framkvæmd hefði verið litið svo á að ríkar ástæður þurfi til að niðurfellingarheimildinni yrði beitt og hefðu skattyfirvöld jafnan beitt álagi á vangreiddan virðisaukaskatt nema vangreiðsla stafaði af óviðráðanlegum ytri atvikum. Væru síðbúin skil á virðisaukaskatti tilkomin einungis vegna ástæðna sem skattaðili bæri einn ábyrgð á og ekki að neinu leyti hægt að kenna um utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum, eins og t.d. mistökum starfsmanna, hefði ekki verið talið heimilt að fella niður álag, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2004 og 217/2006. Í tilviki kæranda hefði virðisaukaskattsskýrslu verið skilað þann 5. febrúar 2024 og hefði greiðsla á virðisaukaskatti 17.160.817 kr. fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 með gjalddaga 5. febrúar 2024 borist innheimtumanni ríkissjóðs 12. febrúar 2024. Eins og atvikum væri háttað teldi ríkisskattstjóri ekki tilefni til að falla frá beitingu álags eða lækka álag vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2023. Þá væri beiðni kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta hafnað, en í 3. mgr. (sic) laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, kæmi fram að ekki væri heimilt að fella niður eða lækka dráttarvexti nema lög mæltu fyrir á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988 kæmi fram að greiða skyldi ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið væri. Þá kæmi fram í 3. málsl. 1. mgr. 28. gr. að fella megi niður dráttarvexti hafi utanaðkomandi og óviðráðanleg ytri atvik, sem aðili beri ekki ábyrgð á, hamlað greiðslu á réttum tíma. Í lögskýringargögnum kæmi fram að ákvæði þetta væri undantekningarákvæði og ætti helst við í tilvikum þar sem aðstæður féllu undir „force majeure“ aðstæður. Yrði ekki séð að óviðráðanleg ytri atvik sem félagið bæri ekki ábyrgð á hefðu hamlað greiðslu á réttum tíma.   

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. júlí 2024, er um aðdraganda málsins vísað til meðfylgjandi bréfs N þar sem gerð sé grein fyrir starfsemi hins erlenda aðila. Í bréfinu sé því lýst að starfsemi erlenda félagsins hafi haft mikil og jákvæð áhrif á efnahag Íslands. Til að standa skil á virðisaukaskatti, sem félaginu hafi borið að greiða hér á landi, hafi verið sótt um virðisaukaskattsnúmer og hafi félagið fengið númerið í janúar 2024. Hafi félaginu þá verið gert ljóst að skila þyrfti skýrslu fyrir lok janúar og standa skil á greiðslu skattsins fyrir 5. febrúar 2024. Hafi félagið þá þurft að gefa út ríflega 400 sölureikninga, útbúa virðisaukaskattsskýrslu, fá samþykki frá skattaráðgjöfum og greiða skattinn á þessum tíma, sem hafi verið of skammur. Sé álagsbeiting því mjög harkaleg og komi sér mjög illa fyrir félagið.

Til viðbótar við framangreint er í kærunni rakið að hið erlenda félag hafi ekki haft fulla stjórn á atburðarás málsins, enda hafi það þurft að að útvega sér umboðsmann hér á landi sem tekið hafi tíma. Þá hafi félaginu ekki verið kunnugt um að álagi kynni að verða beitt.

IV.

Með bréfi, dags. 30. júlí 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra. Er vísað til þess að ríkisskattstjóra hafi borist beiðni um skráningu í virðisaukaskattsskrá með tölvupósti 11. janúar 2024. Hafi komið fram á umsóknareyðublaði (RSK 5.02) að óskað væri eftir skráningu á virðisaukaskattsskrá frá og með 1. desember 2023. Þann 17. janúar 2024 hafi ríkisskattstjóri tilkynnt kæranda að félagið hafi verið skráð á virðisaukaskattsskrá frá 1. desember 2023 sem umboðsmaður N.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 sé kveðið á um að hver sá, sem skattskyldur sé samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr., laganna skuli ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Því sé ekki fallist á með kæranda að óviðráðanlegar aðstæður séu fyrir hendi í málinu, enda hafi kærandi sótt um skráningu 11. janúar 2024 og verið skráður í virðisaukaskattsskrá 17. sama mánaðar. Ríkisskattstjóri hafi móttekið virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 hinn 5. febrúar 2024 og hafi virðisaukaskattsskyld velta þar verið tilgreind 0 kr. og innskattur 0 kr. Þá hafi ríkisskattstjóri fengið tölvupóst frá kæranda 26. mars 2024 þar sem greint hafi verið frá því að misskilningur hafi átt sér stað. Nánar hafi verið sagt í bréfinu:

„Það virðist sem það hafi verið millifært beint á skattinn kr. 17.479.022, þann 5. febrúar en þið fenguð upphæðina þann 12. febrúar, ég fékk upplýsingarnar seinna og var búin að senda núll skýrslu þann 5. febrúar. Ég veit að greiðslan er komin til ykkar, er ekki best að ég geri leiðréttingaskýrslu? Greiðandi er N en varðandi kostnað, telur þú möguleika á að skatturinn taki tillit til að greiðslan er nokkra daga að berast frá útlöndum?“

Í kjölfarið hafi ríkisskattstjóri sent kæranda tölvupóst 4. apríl 2024 og ráðlagt félaginu að senda inn leiðrétta virðisaukaskattsskýrslu þar sem fyrst hafi ranglega verið send núllskýrsla. Hafi verið tekið fram að greiðslan yrði færð inn á uppgjörstímabilið miðað við móttökudagsetningu. Ríkisskattstjóri hafi fengið tölvupóst frá kæranda 5. apríl 2024 þar sem fram hafi komið að greiðslan sem borist hafi Skattinum 12. febrúar 2024 hafi ekki verið rétt út af gengismun. Sama dag hafi ríkisskattstjóra borist leiðrétt virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 og hafi álagning samkvæmt skýrslunni numið 17.479.022 kr. Ríkisskattstjóri hafi samkvæmt framangreindu móttekið greiðslu á hluta álagningar umrædds uppgjörstímabils sjö dögum eftir gjalddaga þess eða 12. febrúar 2024. Hafi mismunur álagningar og greiðslu numið 318.205 kr. Reiknaðist álag því 1% á dag af vangreiddri fjárhæð eða 17.479.022 kr. í sjö daga og nam því 1.223.532 kr. og í þrjá daga af 318.205 kr. eða 9.546 kr. Heildarfjárhæð álags hafi því numið 1.223.078 kr., sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, og hafi ríkisskattstjóri hafnað niðurfellingu þess með hinum kærða úrskurði.

Er tekið fram að aðeins hluti greiðslu álagningar hafi borist 12. febrúar 2024 og hafi því reiknast dráttarvextir á skuld kæranda. Ákvörðun um dráttarvexti sé hins vegar ekki kæranleg til yfirskattanefndar.

Loks er tekið fram í umsögninni að kærandi hafi sótt um skráningu utan þeirra tímamarka sem kveðið sé á um í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Rangri skýrslu hafi verið skilað á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2023. Rétt skýrsla hafi ekki borist fyrr en 5. apríl 2024 eða tveimur mánuðum eftir gjalddaga uppgjörstímabilsins. Greiðsla hafi ekki verið innt af hendi á gjalddaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., sbr. og 1. og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Því hafi borið að reikna álag á vangreiddan virðisaukaskatt, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að mati ríkisskattstjóra sé ekki hægt að taka undir málsástæður kæranda þess efnis að óviðráðanlegar aðstæður hafi valdið því að greiðsla barst ekki tímanlega. Né verði tekið undir málsástæðu kæranda um vankunnáttu umbjóðanda hans á íslensku skattumhverfi, enda sé umboðsmaðurinn ábyrgur fyrir innheimtu og skilum á virðisaukaskatti hins erlenda aðila, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.  

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. ágúst 2024, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið nóvember-desember 2023 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu kæranda er komið fram að greiðsla virðisaukaskattsins hafi dregist fram yfir gjalddaga þessa uppgjörstímabils, sem var 5. febrúar 2024, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, þar sem félagið hafi fyrst verið skráð í virðisaukaskattsskrá 17. janúar 2024 og hafi þá gefist skammur tími fyrir hið erlenda félag N til að annast um undirbúning á skilum virðisaukaskattsskýrslu og skatts, svo sem nánar greinir.

Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Getur ekki skipt máli í því sambandi þótt dregist hafi af hálfu hins erlenda félags að hlutast til um skráningu í virðisaukaskattsskrá vegna starfsemi sinnar hér á landi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt framansögðu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst félagið undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er því hafnað.

Að því er snertir mótmæli kæranda við dráttarvöxtum skal tekið fram að í 28. gr. laga nr. 50/1988 eru ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs. Ekki er sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna þessara atriða í lögunum. Fjallað er um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé, í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er hafnað. Kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja