Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna frístundahúsnæðis
Úrskurður nr. 148/2024
Lög nr. 50/1988, 42. gr. 2. mgr., bráðabirgðaákvæði XXXIII og XLV. Reglugerð nr. 376/2022, 1. gr.
Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við byggingu sumarhúss á árinu 2023 var hafnað þar sem endurgreiðsluheimild vegna slíkrar vinnu hefði runnið sitt skeið á enda 30. júní 2022. Yfirskattanefnd tók fram að hliðstæð heimild hefði ekki verið tekin upp í lög um virðisaukaskatt vegna síðari tímabila og að almenn heimild laganna til endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda tæki einvörðungu til vinnu manna við íbúðarhúsnæði.
Ár 2024, miðvikudaginn 13. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 106/2024; kæra A, dags. 27. júní 2024, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 27. júní 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra 22. maí 2024 um að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 779.855 kr. af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kom fram að beiðni kæranda varðaði aðkeypta vinnu verktaka við nýbyggingu húsnæðis á árinu 2023. Samkvæmt athugun í fasteignaskrá væri kærandi eigandi sumarhúss á Snæfellsnesi sem merkt væri „M“ og hefði kærandi sótt um og fengið endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna hússins á árunum 2021 og 2022. Samkvæmt reglugerðum nr. 690/2020 og 376/2022, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts, væri heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu manna við frístundahúsnæði á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 30. júní 2022. Einungis væri því heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu við frístundahúsnæði samkvæmt reikningum útgefnum á því tímabili. Þar sem beiðni kæranda varðaði vinnu við frístundahús á árinu 2023 eftir að framangreindar reglugerðir féllu niður væri ekki heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna nýbyggingar sumarbústaðarins að M, sbr. reglugerð nr. 449/1990. Yrði því að hafna beiðni kæranda.
Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts verði ómerkt og að kæranda verði ákvörðuð endurgreiðsla vegna vinnu á byggingarstað eins og um smíði á íbúðarhúsnæði væri að ræða. Er tekið fram í kærunni að kærandi hafi sótt um og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna sumarbústaðar á Snæfellsnesi árin 2021 og 2022 eins og um íbúðarhúsnæði væri að ræða. Eigi kærandi því erfitt með að skilja hvers vegna áþekkri kröfu sé hafnað nú. Verði ekki fallist á þetta sé þess krafist að endurgreiðsla verði ákveðin samkvæmt reglugerðum nr. 690/2020 og 376/2022, en samkvæmt þeim sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu manna við frístundahúsnæði á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 30. júní 2022, að teknu tilliti til sex ára reglu virðisaukaskattslaga. Réttinum til að beiðast endurgreiðslu ljúki því ekki 30. júní 2023 heldur 30. júní 2027.
II.
Með bréfi, dags. 20. ágúst 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er áréttað að ekki sé heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt vegna byggingar á frístundahúsnæði þar sem endurgreiðsluheimildin í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, einskorðist við vinnu við byggingu, endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis og taki ekki til orlofshúsa eða sumarbústaða, sbr. 1. mgr. 2. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Hinar tímabundnu endurgreiðsluheimildir í bráðabirgðaákvæðum XXXIII og XLV í lögum nr. 50/1988, sbr. reglugerðir nr. 690/2020 og 376/2022, hafi verið fallnar úr gildi á þeim tíma sem beiðni kæranda taki til. Það sé því álit ríkisskattstjóra að hin kærða ákvörðun skuli vera staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með tölvupósti 28. ágúst 2024 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra og ítrekað gerðar kröfur.
III.
Ágreiningsefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 779.855 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem mun hafa borist ríkisskattstjóra 15. apríl 2024. Verður að leggja til grundvallar í samræmi við gögn málsins að beiðnin hafi lotið að endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við byggingu frístundahúsnæðis að M á Snæfellsnesi á árinu 2023, sbr. umfjöllun í kæru til yfirskattanefndar.
Í XIII. kafla laga nr. 50/1988 er fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í 2. mgr. 42. gr. laga þessara segir að endurgreiða skuli byggjendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 35% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Í lagaákvæðinu eru nokkur nánari fyrirmæli um skilyrði og framkvæmd endurgreiðslu. Þá kemur fram að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum.
Í bráðabirgðaákvæði XXXIII í lögum nr. 50/1988, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram í 1. mgr. að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða byggjendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað. Er tekið fram að ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna skuli að öðru leyti gilda á umræddu tímabili. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að á fyrrgreindu tímabili skuli endurgreiða byggjendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu sem veitt er innan þess tímabils vegna hönnunar og eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Greindar heimildir til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við byggingu frístundahúsnæðis voru framlengdar með bráðabirgðaákvæði XLV í lögum nr. 50/1988, sbr. 60. gr. laga nr. 131/2021, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022, en samkvæmt 2. og 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins skal á tímabilinu frá 1. janúar 2022 til og með 30. júní 2022 endurgreiða byggjendum frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils á byggingarstað og þjónustu sem veitt er innan sama tímabils vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæða XXXIII og XLV er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðunum. Hefur það verið gert með reglugerð nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, og reglugerð nr. 376/2022, um sama efni, sem leysti hina fyrrnefndu reglugerð af hólmi. Í 1. gr. reglugerða þessara kemur m.a. fram að endurgreiða skuli á framangreindu tímabili 100% þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020 og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 376/2022 skal vinnan innt af hendi innan þess tímabils sem að framan greinir, þ.e. frá 1. mars 2020 til og með 30. júní 2022.
Ekki virðist deilt um það í málinu að umkrafinn virðisaukaskattur vegna byggingar frístundahúsnæðisins að M á Snæfellsnesi sé til kominn vegna vinnu við bygginguna á árinu 2023, sbr. m.a. fyrirliggjandi sölureikninga X ehf. og Y ehf. sem fylgja kæru til yfirskattanefndar í ljósriti. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kemur fram að kærandi hafi fengið virðisaukaskatt af vinnu við byggingu hússins á árunum 2021 og 2022 endurgreiddan og verður að ætla að sú endurgreiðsla hafi byggst á bráðabirgðaákvæðum XXXIII og XLV í lögum nr. 50/1988, sbr. hér að framan. Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við byggingu frístundahúsnæðis rann sitt skeið á enda 30. júní 2022, sbr. ákvæði til bráðabirgða XLV og 2. og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 376/2022, enda hafa hliðstæð ákvæði ekki verið tekin upp í lög nr. 50/1988 vegna síðari tímabila og hin almenna heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til húsbyggjenda í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 tekur einvörðungu til vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Samkvæmt framansögðu standa lög ekki til endurgreiðslu hins umkrafða virðisaukaskatts. Þá geta reglur laga nr. 50/1988 um fresti skattyfirvalda til endurákvörðunar virðisaukaskatts, sbr. 6. mgr. 26. gr. laganna, engu breytt í þessu efni.
Með vísan til framanritaðs er kröfum kæranda í máli þessu hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.