Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 713/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Lög nr. 79/1989 — 1. gr.  

Kærufrestur — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Greinargerð um vaxtagjöld — Langtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Skammtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Endurbætur — Endurbætur íbúðarhúsnæðis — Kaupár — Kaupár íbúðarhúsnæðis — Kaupsamningur — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra

Kærendur skiluðu skattframtali 1990 til skattstjóra í lögmæltum fresti. Með skattframtalinu fylgdi greinargerð, RSK 3.09, um vaxtagjöld af lánum, sem tekin höfðu verið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, útfyllt í samræmi við form hennar. Samkvæmt greinargerðinni var stofn til vaxtabóta 342.076 kr. Var sama fjárhæð færð í reit 87 á skattframtali.

Með bréfi, dags. 8. maí 1990, krafði skattstjóri kærendur upplýsinga um hvenær og á hvaða byggingarstigi fasteign þeirra hefði verið keypt. Óskaði skattstjóri ennfremur eftir afriti af kaupsamningi, ef um kaup hefði verið að ræða, en afritum af kvittunum fyrir greiðslu stofngjalda, ef um byggingu væri að ræða.

Af hálfu umboðsmanns kærenda, var kröfu skattstjóra svarað í bréfi, dags. 20. maí 1990. Voru skýringar umboðsmannsins svohljóðandi:

„Fasteignin var keypt 19.01.1982. Gerð voru makaskipti á íbúðum í húsinu. Bjuggum við á neðri hæð hússins og keyptum efri hæðina eins og fyrr segir. Húsið var fullfrágengið en lóð og innkeyrsla ekki fullfrágengin.

Árið 1989 var lagt í endurbætur á húsnæðinu samtals kr. 879.097. Sem skiptist í eftirfarandi þætti.

Þak 156.675

Gluggar og hurðir 198.372

Innkeyrslan og lóð 511.450

Vatnslögn 12.600

879.097

Meðfylgjandi er ljósrit af umsókn [til] Húsnæðisstofnunar Ríkisins, „upplýsingar um endurbætur“, sem notuð var til grundvallar á uppgefinni upphæð (kr. 879.097) á framtalinu. Þar kemur fram nánari skipting kostnaðarþátta. Meðfylgjandi er ljósrit af kaupsamningi og umsókn til Húsnæðisstofnunar Ríkisins.“

Með bréfi, dags. 26. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að vaxtagjöld af skuldum sem stofnað var til á árinu 1986 og síðar hefðu verið færð úr reit 87 í reit 88 þar sem tímatakmörk til að fá vaxtabætur vegna þeirra skulda væru liðin. Vísaði skattstjóri í því sambandi til 2. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Að gerðum breytingum skattstjóra voru vaxtagjöld í reit 87 113.804 kr.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1990, en mótteknu hjá skattstjóra hinn 30. ágúst 1990, samkvæmt móttökustimpli hans á bréfið, kærði umboðsmaður kærenda breytingar skattstjóra á svohljóðandi forsendum:

„Í bréfi yðar takið þér eigi til greina vaxtagjöld af lánum sem tekin voru á árunum 1986 til 1989 þar sem tímatakmörk til að fá vaxtabætur vegna þessara skulda eru liðin. Lánin frá Landsbanka Íslands nr. 2282 kr. 200.000, nr. 2984 kr. 250.000 og nr. 3114 kr. 300.000 eru vegna endurbóta á húsnæðinu. Jafnframt er lán nr. 405358 kr. 300.000 hjá Sparisjóðnum í Keflavík vegna endurbótanna.

Endurbæturnar hófust árið 1988 þá skiptum við um eldhúsinnréttingu. Hins vegar árið 1989 þá var skipt um þak, glugga og stétt steypt eins og fram kom í greinargerð um eignabreytingu á framtalinu 1990. Heildarkostnaður vegna framkvæmdanna árið 1989 nam kr. 879.097, en breytingarnar á eldhúsinu námu kr. 480.000 árið 1988. Endurbæturnar á húsnæðinu hafa verið miklar og dýrar og eru yfir 7% af fasteignamati húsnæðisins og því eiga þeir vaxtagjöldin af ofangreindum lánum að mynda stofn til útreiknings vaxtabóta.“

Af hálfu skattstjóra sætti kæra kærenda frávísun með kæruúrskurði, dags. 8. október 1990, á þeim forsendum að kæran hefði borist skattstjóra einum degi eftir að kærufresti hefði lokið.

Kærandi, A, fyrir hönd kærenda, hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. október 1990. Upplýsingar kæranda í bréfinu um lán og framkvæmdir vegna endurbóta húsnæðis þeirra, eru í öllum atriðum þær sömu og um getur í fyrrgreindu kærubréfi til skattstjóra. Ennfremur það álit kæranda, að umrædd vaxtagjöld myndi stofn til útreiknings vaxtagjalda.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þegar það er virt, sem fram kemur af hálfu kærenda í kæru til ríkisskattanefndar um tilefni þeirra lántaka, sem í málinu greinir, verður ekki talið, að vaxtagjöld af lánum þessum uppfylli þau skilyrði, sem sett eru í C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja