Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Skilagjald á innfluttar drykkjarvörur
  • Leiðrétting í kjölfar dóms

Úrskurður nr. 160/2024

Lög nr. 90/2003, 101. gr. 3. mgr.   Lög nr. 52/1989, 1. gr. 2. mgr., 9. gr. 1. mgr.  

Kæra í máli þessu, sem laut að endurgreiðslu umsýsluþóknunar vegna innflutnings kæranda á drykkjarvörum á árunum 2016 og 2017, var send ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu þar sem embættið hefði ekki tekið neina afstöðu til erindisins sem beiðni um leiðréttingu á álögðum gjöldum í kjölfar þess að skattframkvæmd væri hnekkt með dómi.

Ár 2024, miðvikudaginn 18. desember, er tekið fyrir mál nr. 107/2024; kæra A ehf., dags. 14. maí 2024, vegna ákvörðunar umsýslugjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 14. maí 2024, sem framsend var yfirskattanefnd með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. júní 2024, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra 15. febrúar 2024 um að synja um endurgreiðslu umsýslugjalds samkvæmt lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með áorðnum breytingum, vegna tímabilsins 15. janúar 2016 til 15. maí 2017. Í ákvörðun þessari kom fram að beiðni kæranda um endurgreiðslu gjaldsins væri til komin vegna dóms Landsréttar 4. nóvember 2022 í máli nr. 432/2021 (Vínnes ehf. gegn íslenska ríkinu) þar sem íslenska ríkið hefði verið dæmt til að endurgreiða Vínnesi ehf. umsýslugjald, sem væri hluti skilagjalds vegna einnota drykkjarvöruumbúða, vegna fyrrgreinds tímabils. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 1. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, og tók fram að miða bæri endurgreiðslukröfu vegna gjaldsins við uppkvaðningu héraðsdóms þann 4. júní 2021. Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019 kæmi fram að krafa um endurgreiðslu fyrntist þegar fjögur ár væru liðin frá því greiðsla ætti sér stað. Við uppkvaðningu héraðsdóms hefðu kröfur kæranda vegna gjalddaga 15. janúar 2016 til og með gjalddaga 15. maí 2017 verið fyrndar. Með vísan til þessa yrði að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu umsýslugjalds.

Í hinni framsendu kæru kæranda er gerð grein fyrir ágreiningi um umsýslugjald sem til meðferðar var í dómi Landsréttar 4. nóvember 2022, sbr. dóm héraðsdóms í málinu frá 4. júní 2021. Er tekið fram að samkvæmt dómunum hafi álagning umsýslugjalds á tilteknar umbúðategundir á tímabilinu 15. janúar 2016 til og með 15. maí 2017 verið ólögmæt að því leyti sem álagðar fjárhæðir samkvæmt gildandi reglugerð hafi verið hærri en stoð var fyrir í lögum nr. 52/1989, eins og þau hljóðuðu á tímabilinu. Þá eru rakin tölvupóstsamskipti við ríkisskattstjóra vegna málsins. Rétt sé að miða upphafstíma fjögurra ára fyrningarfrests samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019 við uppkvaðningu héraðsdóms 4. júní 2021. Að öðrum kosti sé ljóst að íslenska ríkið hafi vanrækt beina lagaskyldu til að hafa frumkvæði að endurgreiðslu hins ofgreidda umsýslugjalds. Hljóti ríkið að bera skaðabótaábyrgð á þeirri vanrækslu, sbr. 9. gr. laga nr. 150/2019. Augljóst sé að kærandi verði ekki talinn hafa búið yfir upplýsingum um tjón félagsins fyrr en í fyrsta lagi við uppkvaðningu héraðsdóms í máli Vínnes ehf. gegn íslenska ríkinu eða við birtingu þess dóms. Þá hafi kæranda verið gefin fyrirheit um endurgreiðslu gjaldsins í tölvupóstum ríkisskattstjóra til félagsins dagana 2. mars og 15. desember 2023 þar sem tekið sé fram að íslenska ríkið muni endurgreiða gjaldið án nokkurra fyrirvara.

Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2024, kemur fram að ætla verði að ákvörðun ríkisskattstjóra í máli kæranda sé byggð á ákvæði 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. til hliðsjónar 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verði að telja að umrætt ákvæði tekjuskattslaga gildi almennt um störf ríkisskattstjóra. Með vísan til þess hafi ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að valdsvið ráðherra næði ekki til hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra í máli félagsins og hafi því vísað kæru kæranda frá, sbr. bréf til félagsins, dags. 27. júní 2024. Í bréfinu hafi kærandi verið upplýstur um framsendingu kærunnar til yfirskattanefndar. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kæran því framsend yfirskattanefnd ásamt fylgigögnum til þóknanlegrar meðferðar.

II.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að ályktun fjármála- og efnahagsráðuneytisins í bréfi ráðuneytisins til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2024, um gildissvið laga nr. 90/2003 sé full víðtæk. Ekki hafi verið settar samræmdar málsmeðferðarreglur sem gildi um alla málsmeðferð embættis ríkisskattstjóra heldur gildi sérstakar málsmeðferðarreglur eftir viðfangsefnum. Beiting ákvæða í lögum, þar sem vísað sé til málsmeðferðarreglna í öðrum lögum, sé alls ekki án takmarkana þrátt fyrir almenna tilvísun, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 131/1999 og 372/2010. Í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sé ekki að finna hliðstæða tilvísun til laga nr. 90/2003 og sé nú að finna í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 29. gr. A þeirra laga. Í 9. gr. laga nr. 52/1989 sé hins vegar vísað til ákvæða tollalaga nr. 88/2005 varðandi innfluttar vörur og laga nr. 50/1988 varðandi innlendar framleiðsluvörur. Ákvörðun um synjun á endurgreiðslukröfu kæranda hafi verið byggð á því að krafan væri fyrnd samkvæmt 8. gr. laga nr. 150/2019. Í lögunum sé ekki að finna neina kæruheimild til yfirskattanefndar og verði því ekki talið að kæran verði borin undir yfirskattanefnd á þeim grundvelli, en hin kærða ákvörðun sé ekki byggð á 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt framansögðu hafi ekki verið tekin efnisákvörðun í málinu. Sé það niðurstaða yfirskattanefndar að ákvörðun þessi sé reist á röngum lagagrunni með tilliti til almennrar leiðréttingarskyldu stjórnvalda sé þess farið á leit að málið verði sent ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 12. september 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru áður fram komin rök og sjónarmið ítrekuð og tekið fram að ekki sé gerður ágreiningur um framsendingu málsins til ríkisskattstjóra verði niðurstaðan sú að afgreiðsla embættisins hafi verið byggð á röngum lagagrundvelli. Í niðurlagi bréfsins er þess jafnframt krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

III.

Krafa kæranda í máli þessu lýtur að endurgreiðslu umsýsluþóknunar sem félaginu var gert að greiða á grundvelli laga nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með áorðnum breytingum, vegna innflutnings á drykkjarvörum á tímabilinu 15. janúar 2016 til 15. maí 2017, sbr. kæru félagsins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 14. maí 2024, sem ráðuneytið hefur framsent yfirskattanefnd sem kæru til nefndarinnar með bréfi, dags. 27. júní 2024. Tilefni þessarar kröfu kæranda er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. júní 2021 í málinu nr. E-466/2020 (Vínnes ehf. gegn íslenska ríkinu) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að tilgreindur mismunur á fjárhæð umsýsluþóknunar samkvæmt lögum annars vegar og fyrirmælum í reglugerð nr. 1053/2015 hins vegar ætti sér ekki nægjanlega lagastoð þar sem grundvöllur þess mismunar byggðist á of víðtæku framsali skattlagningarvalds til stjórnvalda. Með dómi þessum var íslenska ríkinu gert að endurgreiða stefnanda málsins tilgreindar fjárhæðir af þessum sökum. Var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest með dómi Landsréttar 4. nóvember 2022 í málinu nr. 432/2021.

Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2027, kemur fram að ráðuneytið líti svo á að krafa kæranda um endurgreiðslu hins oftekna gjalds geti byggst á ákvæði 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Undir þetta er tekið í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. september 2024, þar sem fram kemur að með dómum héraðsdóms og Landsréttar í máli Vínness ehf. hafi „skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á“ verið hnekkt í skilningi 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er á hinn bóginn bent á að hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um endurgreiðslu oftekinnar umsýsluþóknunar hafi eingöngu byggst á því að sú krafa væri fyrnd samkvæmt 8. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Hafi því „ekki [verið] tekin efnisákvörðun í máli þessu“, eins og þar segir, og farið fram á að málið verði sent ríkisskattstjóra til nýrrar meðferðar verði það niðurstaða yfirskattanefndar að ákvörðunin hafi verið reist á röngum lagagrundvelli með tilliti til almennrar leiðréttingarskyldu stjórnvalda.

Samkvæmt framansögðu hefur ríkisskattstjóri ekki tekið neina afstöðu til erindis kæranda á þeim grundvelli sem að framan greinir, þ.e. sem beiðni um leiðréttingu á álögðum gjöldum í kjölfar þess að skattframkvæmd sé hnekkt með dómi. Í umsögn ríkisskattstjóra eru raunar viðraðar efasemdir um að leiðréttingarheimild embættisins samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 geti átt við í tilviki kæranda þar sem málið taki til aðflutningsgjalda af innfluttum vörum sem falli undir gildissvið tollalaga nr. 88/2005, sbr. 9. gr. laga nr. 52/1989 sem vísað er til. Um rétt kæranda til leiðréttingar er þó nokkuð slegið úr og í í umsögninni þar sem m.a. er bent á að skattaðilar geti átt rétt til endurupptöku máls á ólögfestum grundvelli. Eins og getið er kom réttur skattaðila til að fá leiðréttingu á áður álögðum opinberum gjöldum í tilefni dóms til athugunar í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2370/1998. Varð það auk annars niðurstaða umboðsmanns að í skattalöggjöfinni nyti ekki skráðra reglna um það hvernig fara bæri með mál skattaðila þegar síðar kæmi í ljós í öðru sambærilegu máli, sem lagt væri fyrir æðra stjórnvald eða dómstól, að skattákvörðun hefði ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli. Á hinn bóginn taldi umboðsmaður að í tilvikum af þessu tagi hefðu skattaðilar lögvarinn rétt til endurupptöku mála sinna og vísaði um það til þeirrar grundvallarreglu að álagning skatta skyldi byggð á lögum og vera í samræmi við lög, sbr. m.a. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, enda lægi fyrir fordæmisgefandi úrlausn. Meðal annars í tilefni af áliti þessu var með 17. gr. laga nr. 149/2000 tekið upp í lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, fyrrnefnt ákvæði í 3. mgr. 101. gr. tekjuskattslaga um leiðréttingu álagningar á skattaðila ef yfirskattanefnd eða dómstólar hafa í hliðstæðu máli hnekkt skattframkvæmd sem skattskil eða ákvörðun skattstjóra eða ríkisskattstjóra var byggð á. Í ákvæði þessu kemur fram að breyting af nefndu tilefni geti tekið til skattstofns eða skatts frá og með því tekjuári sem um var fjallað í máli því sem hliðstætt var talið, þó lengst tiltekinn árafjölda aftur í tímann frá og með því tekjuári þegar úrskurður eða dómur var kveðinn upp. Í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 er sérstaklega kveðið á um heimild til kæru til yfirskattanefndar vegna synjunar ríkisskattstjóra um breytingu á skattákvörðun samkvæmt ákvæðinu. Um beitingu heimildarákvæðisins í skatt- og úrskurðaframkvæmd þykir mega vísa til úrskurða yfirskattanefndar nr. 188/2019 og 24/2020.

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu og þar sem ríkisskattstjóri hefur ekki tekið neina rökstudda afstöðu til beiðni kæranda á þeim grundvelli sem um ræðir þykir rétt, með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að senda ríkisskattstjóra kæruna til nýrrar meðferðar og afgreiðslu, sbr. ennfremur sjónarmið í H 1992:1377. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins umfram það sem leiðir af framangreindri umfjöllun.

Af hálfu kæranda er höfð uppi krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Er kröfu þess efnis því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæra kæranda ásamt meðfylgjandi gögnum er send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja